Sunday, December 28, 2014

33. þáttur hlaðvarpsins


Það var ekki hægt annað en að henda í ykkur einu hlaðvarpi, svona af því það eru jól. Gestur hlaðvarpsins að þessu sinni er jólabarnið Kjartan Atli Kjartansson. Hann segir hlustendum meðal annars hver er besti leikstjórnandi NBA deildarinnar að hans mati og hvaða lið hann telur líklegust til að hrifsa titilinn af San Antonio í vor.

Þið ættuð að vera farin að rata inn á hlaðvarpssíðuna okkar núna, en þau ykkar sem gera það ekki enn, geta þá smellt hérna til að komast þangað. Hafið það gott yfir jólin elskurnar.

Friday, December 26, 2014

Rándýrt hjá State Farm
































Ætli John Stockton sé ekki orðinn blankur út af öllum fjárhættuspilunum, áfengisneyslunni, vímuefnasukkinu og vændiskonunum. Nei, við erum nú bara að grínast, en þetta er samt það eina sem okkur dettur í hug til að útskýra af hverju Stockton poppar allt í einu upp í sjónvarpsauglýsingu. Það er álíka líklegt og að Lemmy hætti að drekka.

Annars er gaman að sjá Stockton, Lillard, Curry og Sue Bird ganga til liðs við Chris Paul (og Cliff Paul tvíburabróður hans) í auglýsingunum fyrir State Farm. Hvernig í fjandanum hafa þeir farið að því að lokka Stockton í þetta...

Thursday, December 25, 2014

Þetta er í kvöld



Josh Smith var rekinn fyrir að vera Josh Smith


Einhver dæmi eru um það í NBA sögunni að félög hafi þurft að rifta samningum við leikmenn og/eða reka þá til dæmis vegna vímuefna- eða agavandamála. Við munum hinsvegar ekki eftir eins hrottalega grófu atriði og því þegar Detroit Pistons tók þá ákvörðun að segja framherjanum Josh Smith að hætta að mæta í vinnuna.

Við höfum oft grínast með það hvað Josh Smith er gjarn á að gera þjálfara sína geðveika og gráhærða með skelfilegu skotvali og slæmri hittni og við - eins og fjölmargir aðrir - spáðum því að grunnt yrði á því góða milli Stan Van Gundy þjálfara og Smith í vetur.

En að maður sem á þrjá komma þrjá milljarða eftir af samningnum sínum sé bara rekinn heim... það eru ekki mörg dæmi um svona lagað, sama hvort um er að ræða körfubolta eða eitthvað annað sport. Þetta er með algjörum ólíkindum og það er eiginlega rannsóknarefni að komast að því hvernig Smith bregst við þessu. Þetta er niðurlæging með stóru enni (af hverju er það þá ekki skrifað með stóru enni?)

Smith átti tvö ár eftir af samningi sínum við Pistons og verður á launaskrá þar næstu árin óháð því hvað hann fær í laun hjá næsta félagi sem hann ræður sig hjá, en hann er reyndar búinn að gefa það út formlega að hann muni ganga í raðir Houston Rockets.

Detroit hefur reyndar nýtt sér ákvæði í reglunum sem kveður á um að félagið megi taka sér lengri tíma í að borga samninginn upp.

Smith fær hann engu að síður borgaðan út upp á krónu með jöfnum greiðslum allt til ársins 2020 og kostar Pistons fimm milljónir dollara af launaþakinu á hverju ári þangað til - þó hann verði löngu farinn frá félaginu og stuðningsmennirnir reyni að gleyma honum.

En hvernig í ósköpunum stendur á því að Detroit tekur til svona róttækra aðgerða?

Leiðindaspá NBA Ísland gekk eftir


Eins og það er gaman að hafa rétt fyrir sér, vakti það enga gleði hjá okkur þegar spá okkar um afdrif miðherjans Anderson Varejao hjá Cleveland gekk eftir.

Í dag var tilkynnt að Brasilíumaðurinn hárprúði væri með slitna hásin og því úr leik með liðinu í vetur.

Nú þarf auðvitað engan Nostradamus til að spá því að Varejao eigi eftir að meiðast og það er að vissu leyti smáborgaralegt að vera að hreykja sér af því að hafa séð svona lagað fyrir. Það er ekki merkilegra fólk en þetta á ritstjórn NBA Ísland. 

Það eina sem kemur á óvart við þetta er að hann hafi spilað 26 leiki í vetur en ekki 25 eins og hefð hefur verið fyrir hjá honum undanfarin ár. 

Það er með hreinum ólíkindum hvað þessi drengur er búinn að vera endalaust óheppinn með meiðsli á ferlinum, ekki síst nú á síðari árum Hérna fyrir neðan sjáið þið að við höfðum aldrei neinar vonir um að Varejao ætti eftir að spila allt tímabilið með Cleveland. Hér er brot úr vörutalningu okkar þann 12. desember síðastliðinn.

Wednesday, December 24, 2014

Jólin elskurnar


NBA Ísland óskar lesendum nær og fjær gleðilegra jóla.




Tuesday, December 23, 2014

Tölfræðin dregur upp dökka mynd af Kobe Bryant


Þið vitið að við elskum Kobe Bryant, þó við séum stundum að pota í hann með leiðindum. Við erum eitthvað búin að skrifa um hann í vetur, eitthvað á þá leið hvað það sé aðdáunarvert hvað hann heldur dampi í stigaskorun með Lakers þó sigrarnir séu eitthvað sjaldgæfir.

Tölfræðin er ekki allt, en tölurnar sem við vorum að heyra varðandi Kobe Bryant eru ekki fallegar. Þið vitið að Lakers er ekki búið að vinna nema átta leiki í vetur (og tapa nítján) og að Kobe er að skjóta aðeins 37% utan af velli og enn ljótari 27% fyrir utan þriggja stiga línu. Kobe hefur aldrei verið mjög ökonómískur fyrir utan línu, en það er spurning hvort menn fara að róa sig í þriggja stiga skotum ef þeir hitta ekki nema úr fjórða hverju.

En þar er ljótleikinn því miður ekki talinn upp. Þið vitið hvað bæði við og margir fleiri körfuboltaspekúlantar erum orðin hrifin af tölfræði fyrir lengra komna. Svona eins og að spá í það hvar og hvernig er hagkvæmast að skjóta á körfuna og hvernig liðum vegnar þegar þessi eða hinn leikmaður er innan- eða utan vallar.

Jæja, vissirðu að Kobe Bryant er búinn að taka fleiri löng tveggja stiga skot með mann í andlitinu en tólf af þrjátíu liðunum í NBA deildinni?

Löng tveggja stiga skot eru nó-nó í tölfræði fyrir lengra komna. Bættu svo við þeirri staðreynd að þau eru tekin með mann í andlitinu (contested) og þér verður stungið í tölfræðifangelsi.

Vissirðu að Lakers er sextán stigum á hverjar 100 sóknir betra í varnarleiknum þegar Kobe Bryant er utan vallar? Það kemur ef til vill ekki á óvart, en vissirðu að Lakers er átta stigum á hverjar 100 sóknir betra í sóknarleiknum þegar Kobe er utan vallar? Við ætlum að tippa á að a.m.k. seinni staðreyndin komi einhverjum á óvart.

Lakers er búið að tapa þremur leikjum í röð núna. Tapaði síðast fyrir Sacramento, sem hafði tapað fimm leikjum í röð. Kobe Bryant tók þrjátíu skot í leiknum og hitti aðeins úr átta þeirra. Og missti boltann níu sinnum. Tölfræðilega, er þessi frammistaða líklega með þeim ljótustu í sögu deildarinnar.

Okkur langaði bara að vekja athygli á þessu. Ætlunin var ekki að vera með skítkast út í Kobe Bryant, aðeins að benda á staðreyndir. Þetta er dálítið óþægilegt, verðum við að segja.

Forráðamönnum Lakers er líklega sama. Þeir selja miða með hjálp Kobe Bryant og bæði þeir og stuðningsmenn Lakers vita það vel að í vetur er ekkert í boði nema að horfa á Kobe skjóta. Og skjóta og skjóta. Það verður engin úrslitakeppni - og það sem meira er - gæti farið svo að verði enginn nýliði heldur. Ef svo fer sem horfir hjá Lakers, verður félagið að gefa Phoenix valréttinn sinn næsta sumar.

Úff.

Spurningin er kannski hvort Kobe er sama. Hann getur ekki verið yfir sig ánægður með stöðu mála. Hann er enginn vitleysingur. Hann veit að hann er ekki að spila vel, en hann veit að það skiptir engu máli - hann verður samt í byrjunarliðinu í Stjörnuleiknum í febrúar. Það væri gaman að vita hvað Kobe Bryant er að hugsa núna. Hann hlýtur að vera þungt hugsi.

Það er aðeins eitt í stöðunni hjá Knicks


Öll eigum við það til að leika sófaforseta knattspyrnu- og körfuboltafélaga. Sófaforseti er gjarnan stuðningsmaður sem hefur mjög ákveðnar skoðanir á því hvað félaginu sem hann heldur með er fyrir bestu. Stundum eru þessar skoðanir harðlínulegar og trúar bókstafnum.

Það er alveg rosalega auðvelt að sitja heima í sófa og rífa kjaft og besservissa yfir því hvaða leikmenn þetta og hitt lið eigi að láta fara, hvaða leikmenn það ætti að semja við, hvaða leikaðferð það ætti að spila og hvort þjálfarinn hentar eða ekki. Þið kannist við þessar pælingar og við að sjálfssögðu líka, þetta vefsvæði gengur auðvitað mikið til út á svona fabúleringar.

Sófaforsetinn er ekki mjög þolinmóður einstaklingur og því þarf oft ekki mikinn mótbyr til að hann fari að ókyrrast og heimta hausa, en eins og þið vitið er það nú ekki algengt að félögin í NBA geri mjög stórar og róttækar breytingar þó þau skipti stundum ört um þjálfara.

Þú getur heldur ekki rekið allt liðið þitt þó þú tapir nokkrum leikjum í röð. Þig langar kannski til þess, en ef þú setur þig raunverulega í spor forráðamanna félagsins, sérðu augljóslega að það væru ekki fagmannleg vinnubrögð.

Stundum þarf hinsvegar að gera undantekningar og stóra undantekningin frá þessu er ruslahaugurinn New York Knicks.

Það er búið að reyna og reyna og reyna, en allt kemur fyrir ekki. Því meiri "metnað" sem forráðamenn Knicks setja í rekstur félagsins, því dýpra grafa þeir sig ofan í rotþró getuleysis, viðvaningsháttar og vanhæfni.

Saturday, December 20, 2014

Paul gefur tölfræðingum langt nef


Það er ekki bara dottið úr tísku að taka skot af millifærinu svokallaða í NBA deildinni, heldur er það nánast bannað hjá sumum liðum (t.d. hjá Houston Rockets). Einhverjar undantekningar eru á þessu eins og öllu öðru og Chris Paul er dæmi um mann sem blæs á þessi vísindi tölfræðinörda að langa tveggja stiga skotið sé versta skotið í körfubolta.

Það er aðallega vegna þess að hann er fáránlega hittinn af þessu færi og líklega eitraðasti leikmaður deildarinnar í dag á þessu svæði. Sjáið bara skotkortið hans. Ætli meðalhittni í NBA deildinni sé ekki eitthvað í kring um 40% í langa tvistinum, en Paul er nær því að skjóta 60% úr honum en 40%.


Thursday, December 18, 2014

Fáir útvaldir



Hvaða þýðingu hefur nýjasti áfangi Kobe Bryant?


Þegar við vorum búin að byrja sautján sinnum upp á nýtt og henda um það bil 2000 orðum af einhverju rugli sem átti að heita pistill, rann það upp fyrir okkur að það skiptir nákvæmlega engu máli að Kobe Bryant sé búinn að skora fleiri stig en Michael Jordan í NBA deildinni.

Við héldum að þetta skipti máli og gerðum okkar besta til að skrifa þetta, en reyndir pennar finna það strax ef efniviðurinn er drasl. Þá er hann til dæmis enn meira drasl en það sem þó ratar inn á þessa síðu. Og það er sannarlega drasl.

Auðvitað skiptir það samt pínu máli að aðeins tveir menn hafi nú skorað fleiri stig í NBA deildinni en Kobe Bryant. 

Það ber fyrst og fremst vott um fjóra hluti: heppni með meiðsli (lengst af), járnvilja, samviskuleysi og óhemju hæfileika.

Við höfum ekki hitt neinn sem heldur að þessi áfangi hjá Bryant þýði að nú geti hann talist betri leikmaður en Jordan. 

Við hvetjum fólk til að fara nú ekki að hugsa þannig, það væru svokallaðar ranghugmyndir. Kobe verður aldrei betri en Jordan, en hann er samt einn allra besti körfuboltamaður sögunnar.

Saturday, December 13, 2014

Feðgaferð í Garðinn


Enn og aftur var okkur að berast bréf frá dyggum lesanda sem skellti sér á NBA-völlinn úti í Bandaríkjunum. Í þetta sinn voru það feðgarnir og norðanmennirnir Ágúst H. Guðmundsson og Júlíus Orri Ágústsson sem skelltu sér í Garðinn í Boston til að sjá sína menn í Celtics, en um var að ræða dýrari týpuna af ferð þar sem þeir fengu líka að hitta nokkrar goðsagnir. Talandi um gæðastund fyrir fjölskylduna - þetta gerist ekki mikið betra.

Það er lúmskt hvað Íslendingar eru duglegir að fara á leiki í NBA deildinni og við hvetjum ykkur sem fyrr til að deila með okkur ferðasögum og sérstaklega myndum frá ferðalögum ykkar ef svo býr undir. Við birtum hérna bréfið sem við fengum frá Ágústi H. Guðmundssyni og þökkum honum í leiðinni kærlega fyrir að deila því með okkur:

Vegna sameiginlegs áhugamáls okkar á leiknum fagra þá sendi ég ykkur til gamans myndir frá leik Boston Celtics vs Washington Wizards.  

Þarna má sjá stór nöfn í sögu NBA deildarinnar en báðir eiga treyjur sínar upphengdar í Boston (TD) Garden. Þetta eru þeir Cedric Maxwell og sjálfur Tommy Heinsohn með ungum Þórsara Júlíusi Orra Ágústssyni, leikmanni 8. flokks.
 
Cedric Maxwell (til hægri) þarf vart að kynna en hann varð tvöfaldur meistari með Celtics 1981 & 1984 og var NBA Finals MVP 1981 á tíma ekki ómerkari manna en þeirra Bird, McHale og Parish.  Maxwell fékk treyju sína #31 hengda upp hjá Celtics.
 
Svo er það goðsögnin Tommy Heinsohn (neðsta myndin) sem bæði var þjálfari og leikmaður Celtics, sigursælasta liðs NBA sögunnar.  

Tommy starfar í dag við sjónvarpsútsendingar og á 8 meistarahringa sem leikmaður, valinn nýliði ársins, 6x All Star, 2 hringa sem þjálfari og valinn þjálfari ársins 1973.
 
Það var því mikil upplifun fyrir ungan norðanmann, sem hefur mikla aðdáun á Celtics liðinu og sögu þess, að hitta þessar goðsagnir en Maxwell gekk með okkur feðgum um völlinn og húsakynni Celtics ásamt því að kynna okkur fyrir  stjórum (Danny Ainge), þjálfarateymi auk þess að fá eiginhandaráritanir  leikmanna Celtics. Heinsohn fékk treyju sína #15 hengda upp hjá Celtics.
 
Ég undirritaður átti þarna gott spjall við þá Tommy og Cedric en þeim þótti mikið til koma að við feðgar kæmum alla leið frá Íslandi til að horfa á leiki Celtics ár hvert en þrátt fyrir misgott gengi Celtics frá 2010 þegar við sáum þá vinna Lakers í 5. leik úrslitanna þá höfum við ekki séð þá tapa leik í ferðum okkar til Boston.  

Okkur feðgum voru færðar góðar gjafir frá Celtics og við tökum með okkur góðar minningar frá þessu „draumaliði okkar“.
 
Svo að lokum til þess að hnykkja á gæfu þeirri er við færum Celtics liðinu þá unnu þeir að sjálfsögðu báða leikina sem við sáum um helgina gegn Lakers & Wizards. J
 
Kveðja
Ágúst H. Guðmundsson
Þjálfari 8. & 9. Flokks Þórs Ak.

Friday, December 12, 2014

Vörutalning - Vesturdeild


Nú eru flest liðin í NBA deildinni búin að spila tuttugu leiki og þá fer að verða hægt að rýna vitrænt í það hvað er að gerast í deildinni. Stutta útgáfan er að Vesturdeildin er svo sterk að annað eins hefur varla sést, en það þýðir vitanlega að Austurdeildin er mögulega að verða lélegri en áður, sem er afrek svo ekki sé meira sagt. En eins og allir sem lesið hafa NBA Ísland í fimm ár vita, er ekkert til á þessu vefsvæði sem heitir stutta útgáfan. Þannig að...

VESTURDEILD:

Auðvitað er alveg eðlilegt að sjö lið skuli vera með yfir 70% vinningshlutfall í Vesturdeildinni...

Þett´er svo mikið rugl. Þú tapar einum leik og hrapar bara fimm sæti eða eitthvað. Gríðarlega eðlilegt allt saman. Við munum ekki eftir að hafa séð svona áður, án þess að hafa rannsakað það vísindalega.

Já, það er Golden State sem hefur þann heiður að vera í efsta sæti deildarinnar eftir að hafa unnið nítján af tuttugu og einum. Þetta er besta byrjun þjálfara í sögu NBA deildarinnar hjá Steve Kerr og þetta Warriors-lið er einfaldlega hrikalegt.

Eins og okkur einum er lagið, náum við samt að búa til eitthvað neikvætt úr því að Golden State sé með 90% vinningshlutfall eftir rúma tuttugu leiki.

Þessi neikvæðni snýst um fjarveru Andrew Bogut. Hann er meiddur á hné eins og þið vitið. Ekkert svo alvarlegt, en nóg til að Kerr sparar hann og lætur hann hvíla meðan hann er að jafna sig í símeiddum skrokknum.

Vörutalning - Austurdeild


Nú eru flest liðin í NBA deildinni búin að spila tuttugu leiki og þá fer að verða hægt að rýna vitrænt í það hvað er að gerast í deildinni. Stutta útgáfan er að Vesturdeildin er svo sterk að annað eins hefur varla sést, en það þýðir vitanlega að Austurdeildin er mögulega að verða lélegri en áður, sem er afrek svo ekki sé meira sagt. En eins og allir sem lesið hafa NBA Ísland í fimm ár vita, er ekkert til á þessu vefsvæði sem heitir stutta útgáfan. Þannig að...

AUSTURDEILD

Auðvitað er Toronto í efsta sæti Austurdeildarinnar...

Toronto er í alvöru í efsta sæti Austurdeildarinnar þegar þetta er skrifað. Það er ekkert stungið af, en það er samt í efsta sæti. Toronto er veiðihári á undan Atlanta í efsta sætinu, manstu ekki, Atlanta sem byrjaði leiktíðina 1-3...

Ekki misskilja okkur. Toronto (16-6), Atlanta (15-6) og Washington (15-6) eru fín körfuboltalið, en þú veist að deildin þín er ekkert rosalega sterk ef þessi þrjú lið toppa hana.

Þessi lið eru öll með betra en 70% vinningshlutfall og það er fínt, en kommon. Það er ekkert heimsmet að vinna sjö af tíu leikjum í þessari Austurdeild, þar sem þú ert að spila við lið eins og New York, Detroit og Philadelphia kvöld eftir kvöld.

Það hefur hinsvegar margoft komið fram á þessu vefsvæði að það er ekki liðum eins og Toronto, Atlanta og Washington að kenna að hin liðin í deildinni þeirra (Austurdeildinni) séu rusl. Ókei, þá vitum við það.

Monday, December 8, 2014

Þúsund orða mynd






















Við stöldrum alltaf við í smá stund og drögum inn fortíðarþrá þegar við rekumst á þessa mynd, hvort sem við rekumst á hana á netinu fyrir tilviljun eða rennum augunum yfir hana í myndasafninu okkar. Þessi mynd öskrar ekkert á þig, en hún segir samt svo margt.

Ástæðan fyrir því að við fórum að grafa myndina upp er sú að við rákumst á aðra mynd sem tekin var við sama tilefni, bara frá öðru sjónarhorni. Því datt okkur í hug að kanna hvort fleiri myndir ættu eftir að poppa upp ef gerð yrði létt leit. Og það kom á daginn að svo var.

Fyrir þau ykkar sem botnið ekkert í þessu öllu saman, erum við að tala um þriggja stiga skotkeppnina um Stjörnuhelgina árið 1992. Fyrir utan þá augljósu staðreynd að þarna var tvímælalaust á ferðinni einhver öflugasti mannskapur sem tekið hefur þátt í keppninni, eru þarna tvö andlit sem okkur þykir alltaf vænt um að sjá.

Litla krúttsprengju-rassgata-dúllu-mússí-mússið hann Steph Curry þegar hann var lítill og Drazen heitinn Petrovic, sem lést í umferðarslysi árið eftir.

(Risa)stórskyttan Stephen Curry á ekki langt að sækja skothæfileikana, eða öllu heldur náðargáfuna að handa körfuboltum ofan í gjörð með áföstu neti á allt að tíu metra færi.

Þroskaðir NBA-áhugamenn muna eftir pabba hans Dell Curry sem lék með Larry Johnson, Alonzo Mourning og Muggsy Bogues hjá Carlotte Hornets á tíunda áratugnum.

Eldri útgáfan af Curry skaut boltanum 3098 sinnum fyrir utan línu og fjögur af hverjum tíu þeirra rötuðu rétta leið. Það er vel ásættanlegt fyrir skyttu, en sonur hans er að bæta um betur bæði hvað varðar magn og gæði.

Og raunar hvern sem er, nema ef til vill son hans Stefán. Dell gamli spilaði á allt öðrum tímum í NBA. Hann var jú með græna ljósið, en ekki algjört drápsleyfi eins og sonurinn er með hjá Warriors nú þegar deildin er skotglaðari af færi en nokkru sinni fyrr.

Okkur er til efs að einhver hinna fullorðnu hafi hugsað með sér "fokk, þessi snáði á eftir að tortíma öllum þriggja stiga metum í bókinni eftir nokkur ár" þegar þeir sáu litla krúttið sitja á lærinu á pabba sínum þarna í febrúar 1992.

Þeir voru líka uppteknir við að skjóta, sérstaklega Craig Hodges, sem þarna vann keppnina þriðja árið í röð. Hann var svakaleg skytta, enda vann hann við það að taka þriggja stiga skot og ekkert annað. Og þá meinum við ekkert annað.






Aftari röð frá vinstri: Stockton, Petrovic, Richmond, Curry eldri, Ehlo. Fremri röð frá vinstri: Jim Les, Craig Hodges (sigurvegarinn) og Jeff Hornacek.

Þeir John Stockton og Craig Ehlo hafa kannski ekki fengið neinn til að skjálfa á beinunum, en restin af þátttakendunum eru allt goðsagnir á sjö metrunum. Jim Les, var sérfræðingur eins og Hodges og gerði ekkert annað en að taka þriggja stiga skot. Svo voru þeir þarna Jeff Hornacek og Mitch Richmond - og Drazen heitinn auðvitað. Sá gat skotið.

Það er ómögulegt að segja til um hver af þessum köppum er besta skyttan. Þessir menn voru að skjóta undir mismiklu álagi. Sumir unnu til verðlauna í skotkeppnum en tóku kannski fá eða engin skot í leikjum sem skiptu einhverju máli. Þannig vann Craig Hodges keppnina þrisvar, en er hann þá betri en skyttur eins og Steve Kerr, sem settu niður stóra þrista þegar mikið var undir?

Hvað um það. Hérna eru bestu skyttur allra tíma í NBA eftir okkar huglægu bókum. Í engri sérstakri röð: Craig Hodges, Dale Ellis, Drazen Petrovic, Peja Stojakovic, Jeff Hornacek, Ray Allen, Jason Kapono, Mark Price, Larry Bird, Kyle Korver, Steve Nash, Steph Curry og næstum því Anthony Morrow.

Og nei, við gleymdum ekki Reggie Miller. Hann reyndi fimm sinnum að sanna hvað hann væri mikill spaði í þriggja stiga keppninni en vann ekki einu sinni. Já, já, hann skoraði einn og einn stóran þrist, en hann er einn ofmetnasti körfuboltamaður í sögu NBA deildarinnar og menn eins og Drazen heitinn hefðu ekki einu sinni þurft fram úr rúminu til að skjóta hann í kaf. Og hafðu það!