Nú eru flest liðin í NBA deildinni búin að spila tuttugu leiki og þá fer að verða hægt að rýna vitrænt í það hvað er að gerast í deildinni. Stutta útgáfan er að Vesturdeildin er svo sterk að annað eins hefur varla sést, en það þýðir vitanlega að Austurdeildin er mögulega að verða lélegri en áður, sem er afrek svo ekki sé meira sagt. En eins og allir sem lesið hafa NBA Ísland í fimm ár vita, er ekkert til á þessu vefsvæði sem heitir stutta útgáfan. Þannig að...
AUSTURDEILD
Auðvitað er Toronto í efsta sæti Austurdeildarinnar...
Toronto er í alvöru í efsta sæti Austurdeildarinnar þegar þetta er skrifað. Það er ekkert stungið af, en það er samt í efsta sæti. Toronto er veiðihári á undan Atlanta í efsta sætinu, manstu ekki, Atlanta sem byrjaði leiktíðina 1-3...
Ekki misskilja okkur. Toronto (16-6), Atlanta (15-6) og Washington (15-6) eru fín körfuboltalið, en þú veist að deildin þín er ekkert rosalega sterk ef þessi þrjú lið toppa hana.
Þessi lið eru öll með betra en 70% vinningshlutfall og það er fínt, en kommon. Það er ekkert heimsmet að vinna sjö af tíu leikjum í þessari Austurdeild, þar sem þú ert að spila við lið eins og New York, Detroit og Philadelphia kvöld eftir kvöld.
Það hefur hinsvegar margoft komið fram á þessu vefsvæði að það er ekki liðum eins og Toronto, Atlanta og Washington að kenna að hin liðin í deildinni þeirra (Austurdeildinni) séu rusl. Ókei, þá vitum við það.
Við verðum að segja að Chicago er að valda okkur vonbrigðum. Svo miklum að við gleymdum næstum að fjalla um Bulls hérna. Pau Gasol og Jimmy Butler eru að spila af sér anusinn, en þetta er ekki liðið sem við reiknuðum með að myndi strauja Austurdeildina. Derrick Rose er ekki Derrick Rose enn sem komið er og verður líklega aldrei, en framtíðarhorfur þessa liðs fara mikið eftir því hvað hann getur orðið líkur sjálfum sér á ný.
Við gætum þurft að endurskoða viðhorf okkar eitthvað ef David Blatt tekst raunverulega að láta þetta lið spila vörn. Það er samt langt í land í þeim efnum og hugsið ykkur bara hvað gerist
Það er jafnan þannig að þegar liðin í Austurdeildinni koma fólki á óvart, er það venjulega með því að vera lélegri en fyrirfram var áætlað. Þetta tímabil er dæmigert hvað það varðar, nema hvað Milwaukee og Orlando snertir. Milwaukee fær sérstaklega kúdós frá ritstjórn NBA Ísland og megnið af því verður að renna í vasa Jason Kidd, því þetta lið sem hann er að láta spila 50% bolta er ekki mikið betur mannað en ruslið frá þeim sem reyndi að slá metið yfir lélegasta tímabil sögunnar í fyrra.
Orlando (9-15) er líka að gera ágætis hluti svona miðað við, en það segir sína sögu um Austurdeildina að lið með þann árangur skuli vera einum leik frá sæti í úrslitakeppni eins og staðan er í dag.
Miami, Brooklyn, Charlotte og Detroit eru hvert á sinn hátt að valda miklum vonbrigðum. Miami á að geta miklu betur en að vera undir 50% vinningshlutfalli alveg eins og Brooklyn.
Svo virðist Lance Stephenson vera kominn á fremsta hlunn með að eyðileggja atvinnukörfubolta í Charlotte og Detroit.... kræst... Detroit er á sinn hátt lélegra lið en Philadelphia - og Philadelphia er ekki einu sinni NBA lið. Þannig að... þið getið bara rétt ímyndað ykkur. Það á að sekta svona lið. Þau eru móðgun við körfubolta.
Talandi um móðgun við körfubolta...
New York er líka móðgun við körfubolta. New York er með lélegri árangur en Philadelphia á útivöllum (reyndar Charlotte og Detroit líka) og er ekki mikið skárra á heimavelli.
Við vissum öll að Derek Fisher þyrfti tíma til að reyna að kenna þessum vitleysingum sínum þríhyrningssóknina og að við gætum eftir að sjá eitthvað ljótt á meðan svo væri, en þetta rugl sem þeir eru búnir að vera að bjóða upp á nær ekki nokkurri átt.
En af hverju erum við þá ekki með New York í vonbrigðaflokknum eins og hitt ruslið sem við töldum upp áðan? Af því það kemur okkur ekkert á óvart að New York sé svona lélegt. Þetta lið nær aldrei árangri með þessum mannskap. Aldrei, aldrei, aldrei.
Okkur langar því að nota þetta tækifæri og lýsa opinberlega yfir samúð okkar með stuðningsmönnum New York Knicks.
Sum ykkar - flest ykkar líklega - voruð svo óheppin að hoppa á New York vagninn þegar Ewing og Oakley stóðu í framlínu liðsins og allt var gólden. Við sýnum því fullan skilning.
Við hefðum alveg getað dottið ofan í þann pytt ef við hefðum ekki verið löngu búin að detta ofan í annan engu skárri drullupoll.
En þessi þrautarganga stuðningsmanna New York frá aldamótum er búin að vera ómannúðleg og það á enginn skilið að þurfa að þola svona rugl. Við munum í fljótu bragði ekki eftir stórum boltaklúbb í heiminum sem er búinn að vera annað eins rusl og Knicks hefur verið á síðustu 15 árum eða svo.
Þetta hlýtur að vera kvöl og pína, því það er ekki hægt að hætta bara að halda með liðinu sínu. Ef þú getur bara skipt um lið eftir að hafa stutt það í 10-20 ár eða meira, ertu einfaldlega ekki stuðningsmaður, heldur bandvagnsbolur. Og þá geturðu bara farið eitthvað annað.
Næst: Vesturdeildin