Monday, December 8, 2014

Þúsund orða mynd


Við stöldrum alltaf við í smá stund og drögum inn fortíðarþrá þegar við rekumst á þessa mynd, hvort sem við rekumst á hana á netinu fyrir tilviljun eða rennum augunum yfir hana í myndasafninu okkar. Þessi mynd öskrar ekkert á þig, en hún segir samt svo margt.

Ástæðan fyrir því að við fórum að grafa myndina upp er sú að við rákumst á aðra mynd sem tekin var við sama tilefni, bara frá öðru sjónarhorni. Því datt okkur í hug að kanna hvort fleiri myndir ættu eftir að poppa upp ef gerð yrði létt leit. Og það kom á daginn að svo var.

Fyrir þau ykkar sem botnið ekkert í þessu öllu saman, erum við að tala um þriggja stiga skotkeppnina um Stjörnuhelgina árið 1992. Fyrir utan þá augljósu staðreynd að þarna var tvímælalaust á ferðinni einhver öflugasti mannskapur sem tekið hefur þátt í keppninni, eru þarna tvö andlit sem okkur þykir alltaf vænt um að sjá.

Litla krúttsprengju-rassgata-dúllu-mússí-mússið hann Steph Curry þegar hann var lítill og Drazen heitinn Petrovic, sem lést í umferðarslysi árið eftir.

(Risa)stórskyttan Stephen Curry á ekki langt að sækja skothæfileikana, eða öllu heldur náðargáfuna að handa körfuboltum ofan í gjörð með áföstu neti á allt að tíu metra færi.

Þroskaðir NBA-áhugamenn muna eftir pabba hans Dell Curry sem lék með Larry Johnson, Alonzo Mourning og Muggsy Bogues hjá Carlotte Hornets á tíunda áratugnum.

Eldri útgáfan af Curry skaut boltanum 3098 sinnum fyrir utan línu og fjögur af hverjum tíu þeirra rötuðu rétta leið. Það er vel ásættanlegt fyrir skyttu, en sonur hans er að bæta um betur bæði hvað varðar magn og gæði.

Og raunar hvern sem er, nema ef til vill son hans Stefán. Dell gamli spilaði á allt öðrum tímum í NBA. Hann var jú með græna ljósið, en ekki algjört drápsleyfi eins og sonurinn er með hjá Warriors nú þegar deildin er skotglaðari af færi en nokkru sinni fyrr.

Okkur er til efs að einhver hinna fullorðnu hafi hugsað með sér "fokk, þessi snáði á eftir að tortíma öllum þriggja stiga metum í bókinni eftir nokkur ár" þegar þeir sáu litla krúttið sitja á lærinu á pabba sínum þarna í febrúar 1992.

Þeir voru líka uppteknir við að skjóta, sérstaklega Craig Hodges, sem þarna vann keppnina þriðja árið í röð. Hann var svakaleg skytta, enda vann hann við það að taka þriggja stiga skot og ekkert annað. Og þá meinum við ekkert annað.


Aftari röð frá vinstri: Stockton, Petrovic, Richmond, Curry eldri, Ehlo. Fremri röð frá vinstri: Jim Les, Craig Hodges (sigurvegarinn) og Jeff Hornacek.

Þeir John Stockton og Craig Ehlo hafa kannski ekki fengið neinn til að skjálfa á beinunum, en restin af þátttakendunum eru allt goðsagnir á sjö metrunum. Jim Les, var sérfræðingur eins og Hodges og gerði ekkert annað en að taka þriggja stiga skot. Svo voru þeir þarna Jeff Hornacek og Mitch Richmond - og Drazen heitinn auðvitað. Sá gat skotið.

Það er ómögulegt að segja til um hver af þessum köppum er besta skyttan. Þessir menn voru að skjóta undir mismiklu álagi. Sumir unnu til verðlauna í skotkeppnum en tóku kannski fá eða engin skot í leikjum sem skiptu einhverju máli. Þannig vann Craig Hodges keppnina þrisvar, en er hann þá betri en skyttur eins og Steve Kerr, sem settu niður stóra þrista þegar mikið var undir?

Hvað um það. Hérna eru bestu skyttur allra tíma í NBA eftir okkar huglægu bókum. Í engri sérstakri röð: Craig Hodges, Dale Ellis, Drazen Petrovic, Peja Stojakovic, Jeff Hornacek, Ray Allen, Jason Kapono, Mark Price, Larry Bird, Kyle Korver, Steve Nash, Steph Curry og næstum því Anthony Morrow.

Og nei, við gleymdum ekki Reggie Miller. Hann reyndi fimm sinnum að sanna hvað hann væri mikill spaði í þriggja stiga keppninni en vann ekki einu sinni. Já, já, hann skoraði einn og einn stóran þrist, en hann er einn ofmetnasti körfuboltamaður í sögu NBA deildarinnar og menn eins og Drazen heitinn hefðu ekki einu sinni þurft fram úr rúminu til að skjóta hann í kaf. Og hafðu það!