Friday, December 12, 2014

Vörutalning - Vesturdeild


Nú eru flest liðin í NBA deildinni búin að spila tuttugu leiki og þá fer að verða hægt að rýna vitrænt í það hvað er að gerast í deildinni. Stutta útgáfan er að Vesturdeildin er svo sterk að annað eins hefur varla sést, en það þýðir vitanlega að Austurdeildin er mögulega að verða lélegri en áður, sem er afrek svo ekki sé meira sagt. En eins og allir sem lesið hafa NBA Ísland í fimm ár vita, er ekkert til á þessu vefsvæði sem heitir stutta útgáfan. Þannig að...

VESTURDEILD:

Auðvitað er alveg eðlilegt að sjö lið skuli vera með yfir 70% vinningshlutfall í Vesturdeildinni...

Þett´er svo mikið rugl. Þú tapar einum leik og hrapar bara fimm sæti eða eitthvað. Gríðarlega eðlilegt allt saman. Við munum ekki eftir að hafa séð svona áður, án þess að hafa rannsakað það vísindalega.

Já, það er Golden State sem hefur þann heiður að vera í efsta sæti deildarinnar eftir að hafa unnið nítján af tuttugu og einum. Þetta er besta byrjun þjálfara í sögu NBA deildarinnar hjá Steve Kerr og þetta Warriors-lið er einfaldlega hrikalegt.

Eins og okkur einum er lagið, náum við samt að búa til eitthvað neikvætt úr því að Golden State sé með 90% vinningshlutfall eftir rúma tuttugu leiki.

Þessi neikvæðni snýst um fjarveru Andrew Bogut. Hann er meiddur á hné eins og þið vitið. Ekkert svo alvarlegt, en nóg til að Kerr sparar hann og lætur hann hvíla meðan hann er að jafna sig í símeiddum skrokknum.


Við höfum alltaf gert okkur grein fyrir því að Bogut væri mikilvægur þessu liði, en aldrei eins og nú. Við erum búin að fylgjast vel með Warriors í vetur og það var glettilegt hvað leikur liðsins breyttist alveg um leið og Bogut fór á bekkinn. Sóknarleikur liðsins breyttist frá því að virka eins og vel smurð vél yfir í að vera hálf vandræðalegur einn á einn sóknarleikur eins og hjá Knicks eða einhverju álíka dísasteri. Og þá eru ótalin vandamálin sem skapast í varnarleiknum þegar hans nýtur ekki við.

Vitið þið, Andrew Bogut er einn vanmetnasti körfuboltamaður í heimi. Engum blöðum um það að fletta og því er það algjörlega paramánt að hans njóti við í úrslitakeppninni í vor. Það er ekki lítið að fara fram á að ætlast til þess að brotthætt eintak eins og Bogut nái að hanga saman, en eins þannig er þetta nú samt.

Allt þetta meiðslavesen hefur eflaust vegið þyngst þegar forráðamenn Milwaukee ákváðu að beita sér ekki fyrir því að halda honum áfram, en það er eitthvað svo óhugsandi að einhver skuli ekki vilja hafa mann eins og Bogut í sínum röðum.

Eins og við sögðum ykkur fyrr í vetur, verður þetta Golden State lið að teljast til alls líklegt í vetur og það er með ólíkindum að hugsa til þess að það getur bara orðið betra. Leikmenn liðsins eru bara rétt byrjaðir að kynna sér hugmyndafræði Steve Kerr í sóknarleiknum og svo er David Lee enn á meiðslalistanum.

Fyrir utan þessa venjulegu þætti eins og ofurmannlegan leik Steph Curry, eru helstu breyturnar hjá liðinu í vetur að Marrese Speights er búinn að spila eins og engill af bekknum, Draymond Green er farinn að gera tilkall til 10+ milljón dollara á ári á næsta samningi og Klay Thompson hefur verið að bæta sig í stökkum. Það má vel vera að öll þessi bjartsýni breytist í martröð í úrslitakeppninni í vor, en Warriors er tvímælalaust lið vetrarins til þessa.

Tvennt er það sem hefur komið okkur mest á óvart í Vesturdeildinni til þessa, en það eru Portland (17-5) og Houston.

Á síðustu leiktíð var Portland öskubuskulið sem vann leiki á sóknarleik og fólk ímyndaði sér að þetta væri lið með ákveðið þak (t.d. fyrsta umferð og búið). Nú má vel vera að fyrsta umferð úrslitakeppninnar sé þakið hjá Portland, en það getur líka vel verið að það sé það líka hjá San Antonio vegna þess hve sterk Vesturdeildin er.

Núna er Portland hinsvegar allt í einu orðið eitt besta varnarlið deildarinnar líka og því er það alltaf að vinna fleiri og fleiri sérfræðinga á sitt band sem alvöru lið. Sú staðreynd að frammistaða Chris Kaman á bekknum hjá Blazers sé eitt af því sem veldur þessum breytingum er ekkert minna an ótrúleg.

Houston hefur líka komið okkur mikið á óvart. Við vissum öll að Houston væri fínasta lið alveg eins og Portland, en ef nánar er að gáð, er það í rauninni í óskiljanlegt hvernig þetta lið hefur farið að því að vinna alla þessa leiki miðað við þau miklu meiðsli sem herjað hafa á það.

Dwight Howard hefur þannig misst úr meira en helming leikja liðsins og bæði byrjunarliðsmenn og lykilmenn af bekknum hafa misst úr hvern leikinn á fætur öðrum.

Einhvern veginn í ósköpunum tekst þeim Kevin McHale og James Harden (22/6/7/2) að búa til hörkulið úr þessu samansafni af mönnum sem enginn hefur heyrt minnst á. Og rétt eins og hjá Portland, er það skyndilega bullandi varnarleikur sem er að leggja grunninn að velgengni Rockets. Lið án Dwight Howard. Og lið með James Harden. Stórfurðulegt.

Memphis (17-4) hefur kannski ekki spilað erfiðustu töfluna í deildinni, en Húnarnir hafa samt verið að spila ljómandi vel og eiga menn eins og Vince Carter gjörsamlega inni.

Talandi um skrítna hluti, er það líka furðulegt að Memphis skuli enn vera eitt besta lið deildarinnar.

Það er eins og séu mörg ár síðan við vorum að skammast yfir því að stjórn liðsins væri ekki tilbúin til að bæta því litlu sem upp á vantaði í liðið svo það gæti gert almennilega atlögu að titlinum

Þetta er svipað og með Oklahoma, þó Memphis vanti líklega aðeins meira upp á. Það hjálpar vissulega að vera með mann eins og Marc Gasol í miðjunni. Mann, sem eins og Andrew Bogut, er alfa og ómega allra aðgerða liðsins bæði í vörn og sókn.

Þið munið hvað við vorum einhverra hluta vegna að skjalla Los Angeles Clippers í haust, en því ástarsambandi er eiginlega að verða lokið. Við höfum það á tilfinningunni að Clippers sé eitt lélegasta 16-5 lið sem sögur fara af.

Það er bara eitthvað við Clippers sem við erum ekki alveg að fatta - eitthvað sem gerir það að verkum að við höfum enga trú á því lengur.

Það þýðir ekki að við séum eitthvað á móti Clippers, þvert á móti. Við sitjum sem fastast í farþegasætinu á Blake-vagninum.

Það er bara eitthvað við þetta lið sem er ekki að gera sig. Líklega hvað varamannabekkurinn er að spila undir getu og hvað við höfum ekki trú á því að lið sem þarf að treysta á Jamal Crawford geti nokkru sinni náð langt í úrslitakeppni. Eitthvað er það.

San Antonio (16-6) hefur verið óskaplega upp og niður. Það er bæði vegna meiðsla lykilmanna og vegna ákvarðana þjálfarans að eiga það til að hvíla 17-18 leikmenn hingað og þangað.

Sjáið bara tap San Antonio fyrir Utah á dögunum. Þetta Utah-lið var ekki bara búið að tapa níu leikjum í röð þegar það lagði Spurs, heldur hafði það lent að minnsta kosti 17 stigum undir í tíu leikjum í röð, sem segir sína sögu um styrkinn þar á bæ. Og San Antonio tekur upp á því að tapa fyrir svona liðum.

Dallas (17-7) hefur spilað nokkurn veginn á pari við það sem við vorum að sjá fyrir okkur. Þetta er hörkulið, en við sjáum það einhvern veginn ekki fyrir okkur hafa varnarlega burði til að fara langt í vor.

Við erum samt fullkomlega til í að éta það ofan í okkur og erum staðráðin í að reyna að njóta þess að fylgjast með síðustu dönsum Dirk Nowitzki.

Phoenix (12-11) á að geta eitthvað aðeins betur en það, en eins og við sögðum um liðin í Austurdeildinni, þá verður einhver að tapa fyrir öllum þessum fyrnasterku liðum á toppnum í vestrinu og það fellur leiðinlega oft í hlut Suns.

Það er skondið að hugsa til þess að líklega væri Sacramento (11-12) meira að segja fyrir ofan Phoenix ef DeMarcus Cousins hefði ekki tekið upp á því að fá heilahimnubólgu, eins og það sé bara alveg eðlilegt.

Við verðum að taka aðeins ofan fyrir þessu Kings-liði þó það sé ekki svipur hjá sjón án Cousins. Við hefðum aldrei reiknað með þessu liði jafn sterku og raun ber vitni, þó það sé á suman hátt ekkert skrítið. Það er jú fullt af atvinnumönnum í körfubolta í þessu liði þó þeir séu ekki allir rosalega góðir.

Við verðum alltaf nett þunglynd þegar við förum að pæla í New Orleans Hornets (10-11). Þó lykilmenn liðsins séu í yngri kantinum - ekkert að deyja úr elli, a.m.k. - erum við bara ekki að sjá þetta lið gera neitt, alveg sama hvað Brúnar heldur áfram að bjóða upp á mikla geimverutölfræði.

Denver (10-12) er sveiflukenndasta liðið í NBA til þessa, en við vissum samt að þessi risaskita liðsins í haust hefði verið of stór til að vera raunveruleg. Þetta á að vera um það bil 50% lið og ætti að verða það í vetur. Að minnsta kosti þangað til það missir næstu sexhundruðáttatíuogníu leikmenn í langvarandi meiðsli.

Oklahoma (9-13) er búið að vinna sex af síðustu sjö eftir að hafa byrjað 4-12 í fjarveru þeirra Kevin Durant og Russell Westbrook.

Þeir sneru reyndar nokkuð snemma til baka báðir, en það er dálítið fyndið núna að horfa til baka og lesa hvað svartsýnustu menn sögðu um möguleika liðsins á að komast í úrslitakeppnina.

Auðvitað flýgur Oklahoma inn í úrslitakeppnina, það er engin spurning, en stóra spurningin er hinsvegar hvað það kemst ofarlega á töfluna. Það er ekki jafn gefið.

Svo verður óhemju gaman að fylgjast með því hvernig liðin á toppnum í vestrinu eiga eftir að reyna að stilla sig þannig af í vor að þau þurfi ekki að mæta Oklahoma í fyrstu umferðinni í úrslitakeppninni.

Heldurðu til dæmis að San Antonio myndi vilja mæta Oklahoma í fyrstu umferð? Eða nokkurt annað lið í heiminum ef því er að skipta.

Nei, svo mikið er víst.

Hugsið ykkur hvað það verður ömurlegt fyrir andstæðinga OKC, hverjir sem þeir verða, að vera búnir að þjarka þetta í allan vetur til að ná heimavallarréttinum, en uppskera ekki annað en einvígi við eitt besta lið deildarinnar með hvíldar ofurstjörnur og minni pressu en áður.

Ekkert gaman af því.

Við ætlum að gera stuðningsmönnum síðustu liðanna þriggja í Vesturdeildinni þann greiða að vera ekkert að tala um þau.

Þó verður að geta þess að Minnesota væri klárlega að gera betri hluti en 5-16 ef það þyrfti ekki að tefla fram liði fullu af húsvörðum, sjúkraþjálfurum og leikskólakrökkum í öllum þessum meiðslum.

Það er bara asnalegt hvað þetta lið er alltaf í miklum meiðslum. Það er með ljómandi fínt sjúkrateymi, en þú getur auðvitað ekki kennt sjúkrateyminu þínu um það ef leikmennirnir eru alltaf að meiðast í einhverjum fáránlegum uppákomum á vellinum.

Sannið þið til, Minnesota á eftir að verða fyrsta NBA liðið sem verður fyrir eldingu í miðjum leik - og það er ekki einu sinni langt þangað til. Tippum á að það verði nokkrum dögum eftir að Ricky Rubio kemur til baka eftir enn ein meiðslin.

Kobe Bryant skorar stig með því að henda körfuboltum ofan í körfur.