Saturday, December 13, 2014

Feðgaferð í Garðinn


Enn og aftur var okkur að berast bréf frá dyggum lesanda sem skellti sér á NBA-völlinn úti í Bandaríkjunum. Í þetta sinn voru það feðgarnir og norðanmennirnir Ágúst H. Guðmundsson og Júlíus Orri Ágústsson sem skelltu sér í Garðinn í Boston til að sjá sína menn í Celtics, en um var að ræða dýrari týpuna af ferð þar sem þeir fengu líka að hitta nokkrar goðsagnir. Talandi um gæðastund fyrir fjölskylduna - þetta gerist ekki mikið betra.

Það er lúmskt hvað Íslendingar eru duglegir að fara á leiki í NBA deildinni og við hvetjum ykkur sem fyrr til að deila með okkur ferðasögum og sérstaklega myndum frá ferðalögum ykkar ef svo býr undir. Við birtum hérna bréfið sem við fengum frá Ágústi H. Guðmundssyni og þökkum honum í leiðinni kærlega fyrir að deila því með okkur:

Vegna sameiginlegs áhugamáls okkar á leiknum fagra þá sendi ég ykkur til gamans myndir frá leik Boston Celtics vs Washington Wizards.  

Þarna má sjá stór nöfn í sögu NBA deildarinnar en báðir eiga treyjur sínar upphengdar í Boston (TD) Garden. Þetta eru þeir Cedric Maxwell og sjálfur Tommy Heinsohn með ungum Þórsara Júlíusi Orra Ágústssyni, leikmanni 8. flokks.
 
Cedric Maxwell (til hægri) þarf vart að kynna en hann varð tvöfaldur meistari með Celtics 1981 & 1984 og var NBA Finals MVP 1981 á tíma ekki ómerkari manna en þeirra Bird, McHale og Parish.  Maxwell fékk treyju sína #31 hengda upp hjá Celtics.
 
Svo er það goðsögnin Tommy Heinsohn (neðsta myndin) sem bæði var þjálfari og leikmaður Celtics, sigursælasta liðs NBA sögunnar.  

Tommy starfar í dag við sjónvarpsútsendingar og á 8 meistarahringa sem leikmaður, valinn nýliði ársins, 6x All Star, 2 hringa sem þjálfari og valinn þjálfari ársins 1973.
 
Það var því mikil upplifun fyrir ungan norðanmann, sem hefur mikla aðdáun á Celtics liðinu og sögu þess, að hitta þessar goðsagnir en Maxwell gekk með okkur feðgum um völlinn og húsakynni Celtics ásamt því að kynna okkur fyrir  stjórum (Danny Ainge), þjálfarateymi auk þess að fá eiginhandaráritanir  leikmanna Celtics. Heinsohn fékk treyju sína #15 hengda upp hjá Celtics.
 
Ég undirritaður átti þarna gott spjall við þá Tommy og Cedric en þeim þótti mikið til koma að við feðgar kæmum alla leið frá Íslandi til að horfa á leiki Celtics ár hvert en þrátt fyrir misgott gengi Celtics frá 2010 þegar við sáum þá vinna Lakers í 5. leik úrslitanna þá höfum við ekki séð þá tapa leik í ferðum okkar til Boston.  

Okkur feðgum voru færðar góðar gjafir frá Celtics og við tökum með okkur góðar minningar frá þessu „draumaliði okkar“.
 
Svo að lokum til þess að hnykkja á gæfu þeirri er við færum Celtics liðinu þá unnu þeir að sjálfsögðu báða leikina sem við sáum um helgina gegn Lakers & Wizards. J
 
Kveðja
Ágúst H. Guðmundsson
Þjálfari 8. & 9. Flokks Þórs Ak.