Þegar við vorum búin að byrja sautján sinnum upp á nýtt og henda um það bil 2000 orðum af einhverju rugli sem átti að heita pistill, rann það upp fyrir okkur að það skiptir nákvæmlega engu máli að Kobe Bryant sé búinn að skora fleiri stig en Michael Jordan í NBA deildinni.
Við héldum að þetta skipti máli og gerðum okkar besta til að skrifa þetta, en reyndir pennar finna það strax ef efniviðurinn er drasl. Þá er hann til dæmis enn meira drasl en það sem þó ratar inn á þessa síðu. Og það er sannarlega drasl.
Auðvitað skiptir það samt pínu máli að aðeins tveir menn hafi nú skorað fleiri stig í NBA deildinni en Kobe Bryant.
Það ber fyrst og fremst vott um fjóra hluti: heppni með meiðsli (lengst af), járnvilja, samviskuleysi og óhemju hæfileika.
Við höfum ekki hitt neinn sem heldur að þessi áfangi hjá Bryant þýði að nú geti hann talist betri leikmaður en Jordan.
Við hvetjum fólk til að fara nú ekki að hugsa þannig, það væru svokallaðar ranghugmyndir. Kobe verður aldrei betri en Jordan, en hann er samt einn allra besti körfuboltamaður sögunnar.
Ástæðan fyrir því að fjölmiðlar gerðu svona mikið úr því að Kobe væri að taka fram úr Jordan var sú að þeir tveir er gjarnan nefndir í sömu andrá og bornir saman. Kobe er illa við að vera í sífellu borinn saman við Jordan af því hann veit að hann er ekki jafn góður leikmaður og af því hann vill vera metinn á eigin verðleikum í stað þess að vera borinn saman við einhvern annan (betri).
Það þýðir samt ekkert fyrir Kobe að væla yfir þessum endalausa samanburði, af því hann er að svo miklu leyti honum sjálfum að kenna. Ef þú vilt ekki vera borinn saman við Jordan, væri til dæmis gráupplagt að sleppa því að herma eftir öllum hans hreyfingum í sóknarleiknum og reka tunguna út úr kjaftinum á sér í leiðinni.
Kannski er svona erfitt að skrifa um Kobe núna af því það er ekkert að frétta hjá honum og liðinu hans í dag, en samt of snemmt að fara að skrifa um hann minningargreinar úr því hann er enn í fullu stiga-fjöri. Líklega er það málið.
Við höfum stundum átt það til að pota í Kobe og vera með leiðindi út í hann eins og þið munið kannski. Hann hefur dálítið boðið upp á það í gegn um tíðina. Nú síðast af því hann er hættur að spila vörn, af því hann er með svo há laun og síðast en ekki síst af því það virðist enginn nenna að spila með honum. Svona hefur Kobe einstakt lag á því að laða fram neikvæðni í okkur.
En það væri ekki mjög þroskuð afstaða að nota tækifæri eins og þetta til að vera bara með leiðindi út í þennan besta skotbakvörð sinnar kynslóðar í heiminum. Við berum alveg virðingu fyrir Kobe þó við séum stundum að stríða honum. Hann heldur virðingu okkar fyrst og fremst af því hann er með þráhyggju fyrir leiknum eins og við.
Við elskum Kobe af því hann er fyrstur á æfingar og síðastur heim, af því hann veit ekki hvenær hann á að hætta, af því hann er einstakur talent, af því hann er geðsjúkur keppnismaður með samviskulaust drápseðli og af því hann er með þráhyggju fyrir körfubolta eins og við, þó birtingarmyndir hennar séu ólíkar.
Við nenntum kannski ekki að skrifa um Kobe vs Jordan, en það er fullt af fólki þarna úti með of mikinn frítíma sem hefur tekið saman tölfræði og búið til huggulegar töflur og gröf til samanburðar. Við stálum nokkrum þeirra og hentum inn hérna fyrir neðan fyrir þau ykkar sem hafið áhuga á slíku.
Til hamingju með áfangann, Kobe. Við skrifum meira um þig næst.