Thursday, February 28, 2013

Tuddi dagsins


Reyndu að horfa framhjá því að sætu krakkarnir í þessu myndbandi hafi keypt sér 600 pakka af Dobbúl-Bobbúl tyggjói og límt á sig öll tattúin.

Þetta er Tuddi sem við fengum sérstaklega sendan frá Smára Tarfi.
Kannski er ekki öll von úti enn í metalnum.
Bara kannski.


Ónýtar reglur


Stundum er eins og flottustu körfurnar fái aldrei að standa. Hvernig væri að bæta í reglurnar viðauka að varnarmenn sem taka slátur í miðri andlitsmeðferð geti ekki - undir neinum kringumstæðum - fengið dæmdan ruðning á sóknarmann?



Reglur**k eins og það sem dæmir þessa körfu ógilda á að fjarlægja með öllu. Ef til eru íþróttamenn sem geta hoppað svo hátt að þeir geta tepokað varnarmenn sem reyna að taka á þá ruðning - á að leyfa þeim að gera það. Það er bara þannig.

Sunday, February 24, 2013

Til hamingju, Chuck


Varla hélduð þið að við ætluðum að gleyma fimmtugsafmæli Charles Barkley þann 20. febrúar.




Rodney Rogers gefst ekki upp


Framherjinn Rodney Rogers var skemmtilegur leikmaður á að horfa þegar hann spilaði í NBA deildinni.

Rogers lék m.a. með Denver, LA Clippers, Phoenix, New Jersey og Philadelphia. Hann var með um 11 stig og 4,5 fráköst á ferlinum. Var sterkur og góður íþróttamaður en leið reyndar best fyrir utan línu í sókninni eins og svo mörgum.

Ef þú horfðir á sjónvarpsþáttinn NBA Action á tíunda áratugnum, komstu ekki hjá því að sjá nokkur tilþrif með Rogers. Við munum vel eftir nokkrum andlitsmeðferðum sem hann gaf á þessum tíma.

Fyrir nokkrum árum lenti hann í því að detta af torfæruhljóli og hljóta mænuskaða. Hann hefur meðal annars dáið þrisvar, en alltaf kemur hann til baka.

Hér fyrir neðan er nýlegt viðtal sem Chris Webber tók við vin sinn og fyrrum liðsfélaga. Ekki hægt að segja annað en að Rogers sé baráttumaður með andann í lagi. Hann er líka greinilega með magnaða konu sér við hlið. Það eru forréttindi. Það vita þeir sem eru svo heppnir.


Friday, February 22, 2013

Enn hristum við höfuðið yfir San Antonio


San Antonio gjörsamlega valtaði yfir L.A. Clippers í Los Angeles í nótt og styrkti þar með stöðu sína á toppi deildarinnar. Spurs er því með fjögurra leikja forystu á Oklahoma og Miami, sem er ágætis púði á lokasprettinum.

Sigur Spurs á Clippers í nótt var sjöundi leikurinn af níu af hinu árlega Ródeóferðalagi liðsins og eins og þeir sem fylgjast vel með NBA vita, hefur liðið oftar en ekki notað þennan part af tímabilinu til að trekkja sig almennilega í gang ef svo má segja.

Á þessu ætlar ekki að verða nein untantekning í vetur. Spurs byrjar 6-1 á ferðalaginu og hefur aðeins tapað fyrir Detroit, sem reyndar er dálítið klaufalegt, en lýsandi dæmi um hvað allt getur gerst í álaginu í NBA deildinni.

Fá okkar reiknuðu með því að San Antonio myndi verða í efsta sæti NBA deildarinnar um Stjörnuhelgina, en þarna eru þeir gömlu refirnir enn eina ferðina.

Það er einmitt á svona tímum þar sem liðið stendur undir gamla viðurnefninu sínu;

Black Death.

Við höfum sagt ykkur frá því hvernig San Antonio breyttist úr því að vera ógnarsterkt varnarlið yfir í að vera besta sóknarlið deildarinnar, en nú vill svo skemmtilega til að liðið er aftur komið nálægt toppnum í vörninni líka. Það eru slæm tíðindi fyrir andstæðinga liðsins.

Það er ómögulegt að segja hvað verður með Spurs í vor. Fyrirfram myndu fáir tippa á að liðið næði að leggja Oklahoma eftir rassskellinn sem það fékk í úrslitakeppninni í fyrra. En hvað vitum við svo sem...

Það eina sem við vitum, er að San Antonio hefur unnið 16 af síðustu 17 leikjum sínum í deildinni þrátt fyrir talsverð meiðslavandræði á lykilmönnum liðsins.

Liðið er 64-25 á Ródeókeppnisferðalaginu síðan árið 2003. Það er um 72% vinningshlutfall - allt útileikir. Ertu að fatta það?

San Antonio er 155-49 (76%) síðan í upphafi leiktíðarinnar 2010-11, það er þrettán leikjum betri árangur en næsta lið sem er Oklahoma City. Næst kemur LA Lakers - þrjátíu leikjum á eftir Spurs.

Sautján af síðustu 24 leikjum San Antonio í deildinni í vetur eru á heimavelli. Eigum við ekki að segja að Spurs eigi ágætis möguleika á að halda toppsætinu og heimavallarrétti út alla úrslitakeppni.

P.s. => Tony Parker er búinn að vera besti maður Spurs í vetur og er að skila 21 stigi, 7,7 stoðsendingum og tæplega 54% skotnýtingu. Hann er slá eigin met í nokkrum tölfræðiflokkum og hefur bókstaflega aldrei verið betri.

Það er skondið að sjá hvað Parker er nákvæmlega ekkert inni í umræðunni þegar kemur að valinu á verðmætasta leikmanni ársins. Strangt til tekið - ef farið væri eftir sömu stöðlum og verið hefur undanfarin ár - ætti Parker að verða fyrir valinu einfaldlega af því hann er besti maðurinn i besta liðinu í vetur.

Auðvitað er Tony Parker ekki betri leikmaður en LeBron James og Kevin Durant, en það verður erfiðara fyrir fjölmiðlamenn að horfa framhjá Parker með hverjum leiknum sem San Antonio vinnur.

Við getum hinsvegar sagt ykkur það hér og nú að það verður LeBron James sem verður fyrir valinu í ár og verður þar með aðeins fjórði leikmaðurinn í sögu NBA til að vera kjörinn Verðmætasti leikmaður deildarinnar fjórum sinnum á ferlinum.

Og hann er aðeins 28 ára gamall.

Wilt fékk styttuna fjórum sinnum. Jordan og Russell fimm sinnum hvor.

Hér gæti eitthvað þurft að láta undan á komandi árum.


Nokkrar skrítlur frá Pop



Bolur vinnur bíl



Atlanta... einmitt!


Leiðrétting



Einmitt



Thursday, February 21, 2013

Þetta var allt og sumt


Félagaskiptaglugginn í NBA lokaðist í kvöld og eins og svo oft vill verða, sitja fjölmiðla- og stuðningsmenn uppi með lítið sem ekkert. Allt þetta skrum til einskis.

Þetta er raunveruleiki sem við verðum að sætta okkur við. Nýju kjarasamningarnir í NBA þýða að félögin eru í enn meiri spennitreyju en áður í launamálum og enginn þorir að taka áhættu - hvorki fjárhagslega né á körfuboltasviðinu.

Hér eru öll ósköpin sem gerðust fyrir lok gluggans í kvöld. Ekkert af þessu kemur til með að hafa stórkostleg áhrif á gang himintugla NBA deildarinnar í bráð.


Giljagaur yfir Monroe



Monday, February 18, 2013

Er það, strákar?




Hvíl í friði Jerry Buss



Ó, bróðir, hvar eruð þér?
























Sjáðu fyrrum félagana Russell Westbrook og James Harden í Stjörnuleiknum í nótt.
Risavaxið "Hvað ef...?" er í fæðingu eftir brottför James Harden til Houston.

Hvað ef Harden hefði haldið áfram hjá Oklahoma veturinn 2012-13?

Tja, við skulum bara segja að hlutirnir hefðu líklega þróast allt öðruvísi. Erfitt að sjá James Harden fyrir sér skorandi 26 stig komandi af bekknum hjá Oklahoma. Þá hefur brottför hans án nokkurs vafa orðið til þess að flýta þroska þeirra Kevin Durant, Russell Westbrook og Serge Ibaka. Að minnsta kosti eitthvað.

Það verður gríðarlega áhugavert að sjá hvernig þessi umdeildu félagaskipti Harden eiga eftir að koma út þegar allt er talið. Eftir svona tíu ár jafnvel.

Vinni, vinni, vinni


Það var mikið að gera hjá Chris Paul um helgina. Fyrirliði Vesturdeildarliðsins hirti sjálfur titilinn Mest Verðmæti Pilturinn með frammistöðu upp á 20 stig (7-10 í skotum), 15 stoðsendingar og 4 stolna bolta. Eyddi sem sagt megninu af helginni í að taka við verðlaunum.


Töff


Þetta er svo einfalt og flott. Frábær hugmynd, flott í framkvæmd. Ekkert meira um það að segja.




Sunday, February 17, 2013

Kyrie Irving var sama og ekkert heitur í gær


Við nennum ekki að telja þetta, en sagt er að Irving hafi hitt úr 17 af fyrsu 18 skotunum sínum.


Þessi piltur er fimmtugur í dag








































Hér má segja að þetta hafi byrjað. Fyrsta stóra skotið hans Michael Jordan með Chicago Bulls í úrslitakeppninni gegn Cleveland Cavaliers. Þetta hefur alltaf verið eitt frægasta skotið hans.

Hér fyrir neðan er skemmtileg upptaka sem var að poppa upp sem sýnir lokasekúndurnar í þessum fræga leik og svo er hljóðnemanum troðið í andlitið á Jordan nánast áður en hann sleppir boltanum.


Það var fyrir tuttugu árum síðan


Við erum á þeim aldri að við fáum alltaf magahögg þegar við áttum okkur á því hvað aldurinn hefur færst snögglega yfir okkur.

Undanfarið erum við alltaf að sjá að það eru 20 og 25 ár síðan þetta og hitt gerðist, sem í minningunni gerðist fyrir nokkrum mánuðum síðan.

Við tókum þá ákvörðun að reyna að taka jákvætt á móti þessum nöturlegu staðreyndum í stað þess að ýta þeim frá okkur - fanga þetta og reyna að gera gott úr því.

Einn af þessum áföngum sem fær okkur til að svitna og skjálfa af elli, er sú staðreynd að núna eru 20 ár síðan Karl Malone og John Stockton voru valdir verðmætustu leikmenn Stjörnuleiksins þegar hann var haldinn í Utah árið 1993.

Sumpart virðist þetta hafa verið í gær, en það er líka hrikalega langt síðan, ef við pælum í því.

Þessi Stjörnuleikur var haldinn um það bil hálfu ári eftir að Draumalið Bandaríkjanna tók enga fanga á leið sinni að gullinu í Barcelona. Leikurinn fór í framlengingu og þar hafði vestrið betur 135-132, með heimamanninn John Stockton í fararbroddi.

Karl Malone skoraði 28 stig og hirti 10 fráköst í leiknum, Stockton skoraði 9 stig og gaf 15 stoðsendingar. Auðvitað voru þeir báðir kjörnir verðmætustu leikmenn leiksins, það var ekki hægt að gera upp á milli Stockton og Malone.

Þarna fór í hönd besti tími í sögu Utah Jazz, sem fór í úrslit Vesturdeildar árin 1994-98 og tvisvar í lokaúrslit þar sem það lá fyrir Michael Jordan og Chicago Bulls. Jazz vann að meðaltali 59 leiki í deildakeppninni á þessum árum.

Til að gera þér grein fyrir tímasetningunni á þessum Stjörnuleik, vildi svo skemmtilega til að þetta var tólfti og síðasti Stjörnuleikur Isiah Thomas á glæstum ferli en sá fyrsti af  fimmtán hjá Shaquille O´Neal.

Sjö leikmenn úr Draumaliði Bandaríkjanna tóku þátt í leiknum, þar á meðal Patrick Ewing frá New York Knicks, sem eftir leikinn sagði að hann hefði aldrei vitað harðari varnarleik í Stjörnuleik en einmitt þennan dag - þann 21. febrúar árið 1993.

Kyrie Irving ákvað að vinna skotkeppnina


Það er mesta synd að annars árs maðurinn Kyrie Irving hjá Cleveland Cavaliers hafi ekki verið skráður í troðkeppnina í ár, því hann hefði örugglega unnið hana.

Irving kom sá og sigraði í NBA á nýliðaárinu sínu í fyrra og hann hélt áfram að setja mark sitt á deildina í nótt þegar hann varð mjög óvænt hlutskarpastur í þriggja stiga skotkeppninni.

Margar af bestu þriggja stiga skyttum NBA deildarinnar voru á meðal keppenda, en menn eins og Stephen Curry, Steve Novak og Ryan Anderson ollu okkur miklum vonbrigðum í nótt.

Það voru þeir Irving og Rauða Mamban Matt Bonner sem skutu til úrslita og þrátt fyrir að Bonner hafi sýnt jafna og góða tilburði í báðum umferðum, átti hann bara ekki séns í Irving sem óð eldinn í lokaumferðinni.

Irving skoraði heil 23 stig í úrslitunum, sem er aðeins tveimur stigum frá metinu í keppninni sem er í eigu Craig Hodges (´86) og Jason Kapono (´08) og er 25 stig.

Irving er annar Cleveland-leikmaðurinn sem nær að vinna sigur í skotkeppninni, en eins og eldri menn muna sigraði goðsögnin Mark Price í þessari keppni tvö ár í röð 1993 og 1994.

Það var því sannarlega vel við hæfi að Irving næði að vinna keppnina á 20 ára afmæli fyrri titils stórskyttunnar Mark Price.

Það er eitthvað við Kyrie Irving. Þessi drengur gæti átt eftir að ná langt og er að sýna að hann hefur alla burði til þess.

Við erum alltaf í góðu sambandi við gárungana eins og þið vitið, og í gær voru gárungarnir á einu máli um að Kyrie Irving væri mjög sérstakur leikmaður.

Því til sönnunar bentu þeir á að hann væri elskaður nánast einróma þrátt fyrir að hafa spilað með Duke-háskólanum.

Það er ekki hægt að undirstrika hvað þetta er sterkur punktur.

Irving spilaði kannski ekki mjög marga leiki fyrir Duke, en það er ekkert leyndarmál að hann er einn elskaðasti ungi leikmaðurinn í NBA deildinni og gjörsamlega skilið hvert gramm af þeirri ást.

Ekki gekk nógu vel að troða körfuboltum


Í fyrsta skipti í mörg ár vorum við dálítið spennt fyrir troðkeppninni í NBA, af því í hana voru skráðir menn sem ögrað hafa þyngdarlögmálinu um árabil.

Skemmst er frá því að segja að mennirnir sem flestir tippuðu á að myndu berjast um sigurinn í keppninni - þeir James White og Gerald Green - kúkuðu eiginlega í rúmið.

Báðir eru sannarlega meðal mestu troðara allra tíma (kíktu á þá á youtube) en ætluðu sér hreinlega um of í þetta sinn.

Það var að lokum Terrence Ross frá Toronto Raptors sem fór með sigur af hólmi eftir úrslitaeinvígi við troðkóng síðasta árs, Jeremy Evans frá Utah Jazz.

Troðslurnar hans Ross voru í rauninni ekkert meira en solid, engin þeirra fékk okkur til að hoppa upp úr sófanum. Æ, þetta var samt flott hjá honum og við skulum bara segja að hann hafi ekki gert lítið úr Vince Carter með því að klæðast gömlu treyjunni hans í einni troðslunni (sjá mynd að ofan).

Einhver þolinmóður einstaklingur taldi að á móti þeim 15 troðslum sem lukkuðust í keppninni, hefðu 36 stykki farið forgörðum - og það er auðvitað nóg til að reyna á þolinmæði hvers sem er.

Spurning um að reyna við troðslur sem maður ræður við, ha, strákar?

Þetta kennir okkur að vera ekki að byggja upp væntingar fyrir troðkeppninni. Við höfum látið blekkjast í síðasta sinn. Það er á hreinu.

Saturday, February 16, 2013

Friday, February 15, 2013

Jim Tom er með þetta



Tjútthelgi í Texas


Stjörnuleikurinn árlegi í NBA er á dagskrá á sunnudagskvöldið klukkan eitt eftir miðnætti (aðfaranótt mánudags, tæknilega) og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport eins og alltaf.

Þá verður hægt að sjá eitthvað af þáttum í kring um þessa veislu á NBATV, þar sem einnig verða keyrðir upphitunarþættir, viðtöl, æfingar, gamlir Stjörnuleikir og troðkeppnir. Fyrir þá sem hafa áhuga, bendum við á dagskrá helgarinnar á NBATV hérna fyrir neðan.

Margir eru meira fyrir Stjörnuhelgarfjörið en við hérna á NBA Ísland, en það verður ekki af skipuleggjendum tekið að í ár eru ágætis líkur á að fá betri skemmtun en í meðalári.

Það er ekki síst út af mannskapnum sem skráður er til leiks í troðkeppninni, en þar eigum við nokkuð örugglega eftir að sjá tilþrif sem verða með því besta sem sést hefur. Svo eru nú engir pappakassar að taka þátt í skotkeppninni heldur.


Thursday, February 14, 2013

Viðstöðulaus handboltatroðsla frá JaVale


Sagt er að gamli dísellyftarinn Andre Miller hjá Denver sé besti sirkussendingamaður í NBA deildinni og engin ástæða til að mótmæla þeirri kenningu af miklum krafti, hann er klárlega með þeim bestu. Sjáðu bara þetta rugl:



Ekki aðeins er sendingin frábær yfir næstum allan völlinn, heldur er móttakan hjá geimvísindamanninum JaVale McGee af dýrari gerðinni. Við höfum amk aldrei áður séð mann taka viðstöðulausa handboltatroðslu. Þetta er á fárra færi, krakkar, ykkur er óhætt að trúa því. Mögnuð tilþrif.

Talandi um handbolta. Hvaða þvættingur væri það nú að sjá hinn 213 sentimetra háa McGee spila skyttu í handbolta? Spurning um að fá gaurinn í HK þegar hægist á hjá honum í NBA. Ætti að geta skotið yfir íslenska hávörn þegar haft er í huga að hann er með rúmlega 80 sentimetra í stökkkraft og skanka sem ná yfir Fossvoginn.

Wednesday, February 13, 2013

Steph Curry hittir körfuboltum oft í körfur


Mozgov hatar ekki að láta Mozgov-a sig



LeBron James fékk þessa ekki góða...


... en þetta er allt í lagi hjá honum.



Hafðu ekki áhyggjur, hann bauð upp á fleiri svona í þessum leik - sem töldu.

Drengurinn heldur áfram að spila eins og guðleg vera. Í nótt varð hann fyrsti leikmaðurinn í sögunni til að skora 30+ stig með 60%+ skotnýtingu í sex leikjum í röð.

Þetta er ósanngjarnt...

Sunday, February 10, 2013

Durant leynilögreglumaður


Skóauglýsingar eru almennt ekki efni sem höfðar til okkar, en hér er á ferðinni undantekning.
Stundum eru hlutir bara of töff til að hægt sé að horfa fram hjá þeim.
Smelltu á myndina til að sjá hana almennilega.



Af Red Hot Chili Peppers og LA Lakers


Allir þekkja bandarísku rokkhljómsveitina Red Hot Chili Peppers og öll þekkið þið auðvitað Magic Johnson og Los Angeles Lakers, annars væruð þið tæplega að lesa þetta.

Samt kannast ekki endilega allir við lagið Magic Johnson sem kom fyrir á fjórðu breiðskífu Chili Peppers Mothers Milk árið 1989.

Hér fyrir neðan er myndband við lagið sem einhver áhugamaðurinn hefur sett nokkuð skemmtilega saman.

Þarna fara auðvitað saman tveir af dýrmætustu hlutunum í lífinu, rokktónlist og körfubolti.



Forsprakkar Red Hot Chili Peppers, þeir Anthony Kiedis (söngur, leiklist, einstaka heróínflipp) og stórsnillinginn Flea (bassi, leiklist) eru reglulegir gestir á heimaleikjum Lakers síðustu 30 árin og eru til að mynda með baksviðsaðgang að liðinu í úrslitakeppninni.

Peppers-menn hafa aldrei farið leynt með ást sína á Lakers-liðinu sínu. Þetta kemur gjarnan fram í textunum hjá þeim eins og sjá má í textabrotinu hér að neðan.

Það er úr laginu Mellowship Slinky in B Major af meistaraverkinu Blood Sugar Sex Magik sem kom út árið 1991 og kom sveitinni endanlega á toppinn.

Rockin' to the beat of the fabulous Forum
My Lakers I adore 'em


Þarna er vísað í stemninguna sem ríkti jafnan í gömlu Forum-höllinni sem var heimavöllur Los Angeles á árunum 1967 og fram til aldamóta, þegar Staples Center tók við.
Já, það er gaman þegar listamenn af þessari stærðargráðu rugla svona saman reitum.

Hérna er textinn við Magic Johnson, svo þú getir sungið með Kiedis og félögum. Þú tekur eftir því að strax í þriðju línu tala þeir um að það sé "staðreynd að hörkutólin Lakers hafi unnið tvö ár í röð." Þetta er tilvísun í meistaratitlana sem liðið vann árin 1987 og 1988.

MAGIC JOHNSON - (Mothers Milk, 1989)

L.A. Lakers, fast break makers
Kings of the court shake and bake all takers
Back to back is a bad ass fact a claim that remains in tact

M-A-G-I-C see you on the court
Buck has come to play his way and his way is to thwart
M-A-G-I-C magic of the buck
Other teams pray for dreams but he don't give a fuck
Penetrating the lane like a bullet train
Comes the magic blood a telepathic brain
Knucklehead suckers better duck
When the buck comes through like a truck
Scott stops, pops and drops it in
On his way back gets a little skin
From the hand of a man named A.C. Green
Slam so hard break your TV screen
Worthy's hot with his tomahawk
Take it to the hole make your mamma talk
I hate to burst your bubble but triple double trouble
Is coming to your town and he's going to make rubble

L.A. Lakers, fast break makers
Kings of the court, shake and bake all takers
Back to back is a bad ass fact a claim that remains in tact

Lakers are the team that I watch on the telly
'Cause they got more moves that a bowl full of jelly
The buck stops here, pops then cheers
A roar through the Forum that deafens my ears
The one and only know if his kind sits in a throne
Not for the records that he holds but for being bald and bold
Kareem Abdul Jabbar all time great super super star
I hate to burst your bubble but triple double trouble
Is coming to your town and he's going to make rubble
Does anybody want some Magic Johnson?

L.A. Lakers, fast break makers
Kings of the court shake and bake all takers
Back to back is a bad ass fact a claim that remains in tact


Látum þar með tónlistarhorninu lokið í dag.

Góðar stundir.

Smá Guðlast



Saturday, February 9, 2013

Stöðutékk fyrir Stjörnuhelgi


Þá er komið að því sem allir hafa beðið svo lengi eftir - fyrstu Vörutalningunni á NBA Ísland á árinu 2013. Eins og ætla mátti hafa orðið nokkur sætaskipti í baráttunni í austri og vestri og röð atburða hefur orðið til þess að valdajafnvægið er nokkuð breytt frá því sem var á Aðfangadag þegar við tókum stöðuna síðast.

AUSTURDEILD

Meistarar Miami Heat voru nýbúnir að hrifsa til sín toppsætið í Austurdeildinni um jólin og við sögðum ykkur að þangað væri liðið komið til að vera. Nú hefur Miami reyndar ekki stungið neitt af - liðið er ekki nema einum og hálfum leik á undan Knicks þegar þetta er skrifað - en við lofum ykkur að á þessu verður engin breyting.

Meistararnir eru á þokkalegasta róli og hafa unnið 9 af 11 síðustu leikjum sínum, þó töpin tvö hafi reyndar komið gegn Boston og Indiana - og enginn af sigrunum sérstaklega eftirminnilegur ef undan er skilinn auðveldur sigur liðsins á LA Clippers skömmu áður en þetta er skrifað.

Það er óþarfi að eyða allt of mörgum slögum í Miami en nokkra punkta verðum við þó að nefna. Fuglamaðurinn Chris Anderson hefur komið eins og stromsveipur inn í liðið og gefur því vídd sem það hafði ekki og Dwyane Wade er að sýna hluti sem lofa mjög góðu um heilsu hans og því framhaldið.

Þá verðum við að nefna LeBron James, sem er líklega að spila sinn besta bolta á ferlinum um þessar mundir. Hann er að gera grín að andstæðingum sínum og ef hann heldur svona áfram, verður hann leiður á að spila körfubolta fljótlega - svo góður er hann.

Þið getið bókað að við eigum eftir að skrifa eitthvað meira um James á næstunni, en ef svo fer sem horfir, verður það bókstaflega kjánalegt ef hann verður ekki valinn verðmætasti leikmaður ársins. Meira um það þegar nær dregur vori.


New York er enn í öðru sæti Austurdeildar og virðist ekki líklegt til að gefa það sæti frá sér. Knicks hefur komið okkur öllum á óvart í vetur og nú er svo komið að það er engin tilviljun að liðið skuli vera þetta ofarlega í töflunni. Þá er bara að sjá hvernig liðinu vegnar í úrslitakeppninni, þar sem stóra spurningin verður hvernig þristarninr detta þegar þrengist um.

Baráttan um heimavallarsætin tvö sem eftir eru í úrslitakeppnikapphlaupinu í austrinu er óhemju hörð. Um þessar mundir munar aðeins einum og hálfum leik á Indiana, Chicago og Brooklyn í sætum 3-5 og svo er reyndar ekki langt í Atlanta heldur.

Þó liðin í 3.-5. sæti séu nánast jöfn í stöðutöflunni, eru þau á ólíkum stað í spilamennskunni. Indiana hefur verið á þokkalegum spretti að undanförnu og myndu líklega flestir veðja á Pacers í 3. sætið ef þeir þyrftu að velja í dag. Sigrar á Chicago, Miami og Atlanta í sömu vikunni vekja slíkar vonir.

Öflugur varnarleikur er lykillinn á bak við alla velgengni Indiana, en það er erfitt að sjá þetta lið ná langt vegna veikleika þess í sóknarleiknum. Þetta lið á framtíðina sannarlega fyrir sér og á að hafa svigrúm til að koma sér í hóp þeirra bestu á næstu tveimur árum. Þetta lið veitti Miami harða keppni í úrslitakeppninni á síðustu leiktíð en við erum hrædd um að þetta lið hafi enn ekki burði til að gera meira en einmitt það.

Chicago hefur á undraverðan hátt náð að halda bæði höfði og bringu upp úr vatninu þrátt fyrir þrálát meiðsli á mannskapnum, sem að okkar mati er skýr vitnisburður um styrk Tom Thibodeau þjálfara.

Þú veist að þú ert með heimsklassa þjálfara þegar liðið þitt heldur sjó þrátt fyrir að vera með Nate Robinson á byrjunarliðsmínútum.

Nú styttist óðum í endurkomu Derrick Rose og eins og allir vita mun hann bara styrkja liðið þó hann verði kannski örlítið ryðgaður í byrjun.

Það er hinsvegar útilokað að hann nái 100% styrk á þessari leiktíð, sama hversu langt Chicago kemst í úrslitakeppninni, svo stuðningsmönnum Chicago væri eflaust hollast að stilla væntingar sínar í hóf í vor. Þeir geta þó verið óhemju stoltir af liðinu sínu - það hefur gert frábæra hluti í vetur.

Brooklyn er búið að tapa 5 af síðustu 8 leikjum sínum og fá lið hafa verið jafn brokkgeng og Nets í vetur. Við eigum erfitt með að útskýra af hverju, en við höfum bara enga trú á þessu liði. Töp þess að undanförnu hafa bara verið þannig.

Þetta er sæmilega mannað lið, en framlína þess er veik í vörn og fráköstum og þá vantar liðið átakanlega skotmenn.

Við skulum með mestu ánægju taka við háðsglósum ef þetta lið slær í gegn í vor, en við eigum ekki von á að svo verði.

Rétt eins og Brooklyn, er Atlanta með nokkra ljósa punkta í sínum röðum og á það til að stríða bæði sérfræðingum og sérstaklega stuðningsmönnum sínum með góðum sigrum.

En rétt eins og Brooklyn er Atlanta ekki lið sem hefur burði til að gera neitt meira en stríða fólki að svo búnu.  Kannski verður Atlanta ekki almennilegt lið fyrr en það losar sig við Josh Smith. Kannski verður Atlanta bara alltaf Atlanta - lið sem enginn tekur alvarlega - því miður.

Stærsta ráðgátan í allri deildinni er Boston Celtics. Enginn veit hvar við höfum þetta lið. Það er alveg dásamlega dæmigert að Boston hafi ekki tapað leik síðan það missti Rajon Rondo í meiðsli.

Líklega  hafa menn þar á bæ þjappað sér saman og fíla sig í tætlur að vera nú orðið enn meiri undirhundur en áður. Liðið hefur unnið sex leiki í röð síðan Rondo meiddist, fimm þeirra á heimavelli.

Það á eftir að koma betur í ljós hvað fjarvera Rajon Rondo þýðir fyrir Boston, en ef það heldur áfram að vinna svona, fer það að líta frekar illa út fyrir hann.

Staðan á Boston er auðvitað orðin betri en hún var vegna allra þessara sigra og útlit fyrir að sætið í úrslitakeppninni sé tryggt. Það er hinsvegar erfitt að sjá fyrir að Boston komist langt nema það verði heppið með mótherja (lesist: ekki Miami).

Milwaukee situr sem stendur í áttunda sæti Austurdeildarinnar rétt á eftir Boston og þar með er búið að mála þá mynd.

Philadelphia er fjórum leikjum á eftir Milwaukee og þar á bæ er meiðsladraugurinn búinn að koma sér fyrir varanlega (Jason Richardson úr leik í vetur). Það er útilokað að önnur lið blandi sér í baráttuna því þau eru drasl. Þetta er svo einfalt og skemmtilegt í Austurdeildinni.

VESTURDEILD

Stórkostlegar breytingar hafa ekki orðið á toppnum í Vesturdeildinni þó efstu liðin þrjú hafi verið að skiptast á sætum af og til.

Auðvitað er San Antonio í efsta sæti í NBA deildinni þegar þetta er skrifað. Hver bjóst við öðru?

Þetta er meira undrið sem hann Gregg Popovich er með í höndunum. Spursliðið var við toppinn í allan fyrravetur líka, en munurinn á því liði og þessu er að það rankar miklu ofar í varnarleik í vetur en í fyrra.

Það eru jákvæð tíðindi fyrir þessa snillinga, eins og æskubrunnurinn sem Tim Duncan drakk úr í haust.

Það er ómögulegt að segja hvað við fáum frá þessu liði í úrslitakeppninni annað en það að engan langar að mæta því frekar en venjulega. Sennilega ekki einu sinni Oklahoma, sem er aðeins hálfum leik á eftir Spurs í töflunni.

Oklahoma hefur verið á fínum spretti undanfarið alveg eins og Spurs og litlu við það að bæta sem við höfum þegar skrifað um þetta lið. Kevin Durant (sérstaklega), Russell Westbrook og Serge Ibaka halda bara áfram að bæta sig og Kevin Martin heldur áfram að leika rakaðan James Harden af bekknum.

Hvað þýða þessar framfarir hjá Oklahoma fyrir framhaldið?

Það kemur í ljós í vor, en það eina sem við erum 90% viss um að gerist hjá þessu liði í sumar er að Scott Brooks eigi eftir að missa vinnuna ef það verður ekki meistari.

Við myndum ekki missa hárið ef Oklahoma færi alla leið, en það kæmi okkur samt dálítið á óvart. Okkur finnst vanta aðeins upp á breiddina hjá þeim og við erum einhverra hluta vegna að missa trú á að Scott Brooks sé vandanum vaxinn í þjálfarastólnum.

En skítt með allar þær pælingar. Þið haldið bara áfram að hafa gaman af þessu stórskemmtilega liði þangað til dregur til tíðinda í vor og sumar. Ekki grátum við það ef því gengur vel.

Það hefur gengið illa hjá Los Angeles Clippers að undanförnu og fyrir vikið er liðið búið að missa OKC og Spurs aðeins fram úr sér. Það er í sjálfu sér ekkert hættulegt, mikilvægara er að Clippers er nú að fá allar sínar helstu kannónur til baka úr meiðslum.

Clippers hefur auðvitað verið sannkallað augnakonfekt í allan vetur, en fá lið hafa jafnmikið að sanna í vor. Eins og þið munið, náði Clippers að vinna seríu í úrslitakeppni síðasta vor en sú gleði dugði ekki lengi, því San Antonio pakkaði því saman og sturtaði því ofan í klósettið.

Clippers er talsvert sterkara lið núna en í fyrra, en dugar það þegar á hólminn er komið og lið eins og San Antonio og Oklahoma sem kunna þetta allt saman bíða?

Svarið því verður eitt það áhugaverðasta í allri úrslitakeppninni - ekkert minna en það.

Liðið sem var búið að hóta því að blanda sér í baráttuna með þremur efstu í vetur var Memphis. Skemmst er frá því að segja að svo er ekki lengur. Það hefur verið nær eintómur blús á fóninum í Memphis síðan Rudy Gay var skipt upp til Toronto.

Þetta er hið sorglegasta mál og svo virðist sem Lionel Hollins þjálfari sé farinn í rokna fýlu við stjórn félagsins. Ummælin sem hann hefur látið hafa eftir sér í viðtölum eftir tapleikina undanfarið eru þannig að ætla mætti að maðurinn væri að reyna að láta reka sig.

Það er hægt að horfa á ákvörðun Memphis að láta Rudy Gay fara á tvo vegu, en niðurstaðan er alltaf sú sama. Hans nýtur ekki við lengur og þó liðið hafi náð sínum besta árangri í úrslitakeppninni án hans á sínum tíma, er Memphis einfaldlega miklu lakara lið án hans eins og staðan er í dag (hvað svo sem verður þegar fram í sækir).

Hlutirnir eru fljótir að breytast í NBA, en eins og staðan er í dag, er sjóðandi heitt lið Denver að taka fram úr Memphis sem fjórða besta liðið í Vesturdeildinni.

Þó Denver taki fram úr Memphis í töflunni, þýðir það ekki að Denver sé þar með orðið lið sem á möguleika á að vinna Vesturdeildina eins og Memphis var á sínum tíma.

Fjögur lið áttu möguleika á að vinna Vesturdeildina, en Memphis er nánast fallið út úr þeirri mynd.

Denver kemur ekki í staðinn. Það þýðir ekki að Denver sé ekki sterkt lið, það hefur bara ekki það sem til þarf ennþá til að verða "alvöru."

Ef okkur misminnir ekki, vöruðum við við því í síðustu vörutalningu að Denver hefði byrjað leiktíðina á gríðarlega erfiðu prógrammi og ætti því inni. Þetta hefur komið á daginn og heimavæn taflan hjá Denver hefur gert það að verkum að það hefur hlaupið hratt upp töfluna.

Denver er þrusulið, skemmtilegt með sterkan heimavöll, en það er veikt í langskotunum þó það eigi það til að detta í stuð í Pepsi Center og er ekki með eiginlegan neyðarkall - stórstjörnu til að loka leikjum. Lið sem eru ekki með stjörnuleikmann fara bara ekki langt í úrslitakeppnum, það er bara þannig.

Það hefur verið smá hikst á Öskubuskunni okkar allra í Oakland, en það sem hefur gerst á þeim bænum frá því í síðustu vörutalningu er að Golden State hefur sannað að það er alvöru lið, ekki bara Öskubuska sem datt í stuð í haust.

Varnarleikur liðsins hefur reyndar verið að falla nokkuð örugglega á undanförnum vikum, sem er mikið áhyggjuefni, en nú þegar Andrew Bogut er mættur í gallann og farinn að spila er ekkert annað en gleði fram undan.

Það er nú alveg öruggt að Golden State fer í úrslitakeppnina og þangað getur liðið farið án þess að vera með svo mikið sem gramm af væntingum á bakinu. Öll lið fá eitt eða tvö ár til að vera krútt án pressu í úrslitakeppni og það fær Golden State í vor.

Ef þetta lið nær sér á strik og gleymir öllum áhyggjum í úrslitakeppninni í vor, gæti það orðið hreinasta martröð að mæta því, svo mikið er víst. Ekki verður pressan að sliga það, svo mikið er víst.

Ekki mikil pressa á liðum sem fara í úrslitakeppni á tuttugu ára fresti eða svo.

Fyrir einhverja óskiljanlega muni er Utah Jazz í sjöunda sæti Vesturdeildarinnar í dag. Ekki slæmt af liði sem er bara með einn heilan leikstjórnanda sem er maður sem datt út úr deildinni í tvö ár og er álíka skotmaður og Andri Freyr Viðarsson.

Spennan við fyrirætlanir Utah í úrslitakeppninni, ef liðið nær þangað, er að vita hvort liðið nær að vinna leik í fyrstu umferðinni. Það er mjög ólíklegt.

Houston er í áttunda sætinu, hálfum leik á eftir Utah, og þar fer lið sem ætti að vera mun betur í stakk búið til að stríða einhverju liði í fyrstu umferð úrslitakeppninnar.

Portland kemur þarna skammt á eftir og hefur staðið sig vel í vetur, keyrandi á fjórum og hálfum manni allt tímabilið. Ef einhver af þessum fjórum og hálfum manni sem dregið hafa vagninn hjá Portland meiðist, er partíið búið hjá Blazers. Þetta er svo tæpt hjá þeim.

Frægasta lélega lið í heimi er svo þarna rétt á eftir Portland. Það er ekki nema rifa eftir á glugganum sem Lakers þarf að skríða inn um til að komast í úrslitakeppnina, en nú er svo komið að Lakers þarf ekki bara að vinna flesta leiki sem það á eftir - heldur þarf það helst að treysta á að einhverjir af nágrönnum þess drulli í buxurnar á lokasprettinum.

Þetta verður ekki auðvelt hjá Lakers, án Pau Gasol og með Dwight Howard grenjandi, en sama hvað hvaða Hatorade-drykkjumaður segir - þarf körfuboltinn á því að halda að Lakers fari í úrslitakeppnina.

Lakersliðið myndi nú að minnsta kosti trekkja upp áhuga fólks í fyrstu umferðinni, hvort sem það næði að stríða toppliðunum eða ekki.

Það er meira en t.d. Utah getur sagt, því miður.

Dallas er allt nema stærðfræðilega úr leik þegar kemur að úrslitakeppninni, en þar á bæ verður samt mjög gaman að fylgjast með metnaði leikmanna við að ná 50% vinningshlutfallinu, en þeir hafa hótað því að raka sig ekki fyrr en það hefst.  Sjá þá margir fyrir sér hvernig Þjóðverjarnir eiga eftir að líta út með ZZ Top skegg næsta haust.

Hér látum við þessari litlu Vörutalningu okkar lokið að sinni. Vonandi hefur hún orðið til að skerpa sýn þína á stöðu mála í deildinni okkar fögru.

Góðar stundir.