Sunday, February 17, 2013

Ekki gekk nógu vel að troða körfuboltum


Í fyrsta skipti í mörg ár vorum við dálítið spennt fyrir troðkeppninni í NBA, af því í hana voru skráðir menn sem ögrað hafa þyngdarlögmálinu um árabil.

Skemmst er frá því að segja að mennirnir sem flestir tippuðu á að myndu berjast um sigurinn í keppninni - þeir James White og Gerald Green - kúkuðu eiginlega í rúmið.

Báðir eru sannarlega meðal mestu troðara allra tíma (kíktu á þá á youtube) en ætluðu sér hreinlega um of í þetta sinn.

Það var að lokum Terrence Ross frá Toronto Raptors sem fór með sigur af hólmi eftir úrslitaeinvígi við troðkóng síðasta árs, Jeremy Evans frá Utah Jazz.

Troðslurnar hans Ross voru í rauninni ekkert meira en solid, engin þeirra fékk okkur til að hoppa upp úr sófanum. Æ, þetta var samt flott hjá honum og við skulum bara segja að hann hafi ekki gert lítið úr Vince Carter með því að klæðast gömlu treyjunni hans í einni troðslunni (sjá mynd að ofan).

Einhver þolinmóður einstaklingur taldi að á móti þeim 15 troðslum sem lukkuðust í keppninni, hefðu 36 stykki farið forgörðum - og það er auðvitað nóg til að reyna á þolinmæði hvers sem er.

Spurning um að reyna við troðslur sem maður ræður við, ha, strákar?

Þetta kennir okkur að vera ekki að byggja upp væntingar fyrir troðkeppninni. Við höfum látið blekkjast í síðasta sinn. Það er á hreinu.