Sunday, February 17, 2013
Kyrie Irving ákvað að vinna skotkeppnina
Það er mesta synd að annars árs maðurinn Kyrie Irving hjá Cleveland Cavaliers hafi ekki verið skráður í troðkeppnina í ár, því hann hefði örugglega unnið hana.
Irving kom sá og sigraði í NBA á nýliðaárinu sínu í fyrra og hann hélt áfram að setja mark sitt á deildina í nótt þegar hann varð mjög óvænt hlutskarpastur í þriggja stiga skotkeppninni.
Margar af bestu þriggja stiga skyttum NBA deildarinnar voru á meðal keppenda, en menn eins og Stephen Curry, Steve Novak og Ryan Anderson ollu okkur miklum vonbrigðum í nótt.
Það voru þeir Irving og Rauða Mamban Matt Bonner sem skutu til úrslita og þrátt fyrir að Bonner hafi sýnt jafna og góða tilburði í báðum umferðum, átti hann bara ekki séns í Irving sem óð eldinn í lokaumferðinni.
Irving skoraði heil 23 stig í úrslitunum, sem er aðeins tveimur stigum frá metinu í keppninni sem er í eigu Craig Hodges (´86) og Jason Kapono (´08) og er 25 stig.
Irving er annar Cleveland-leikmaðurinn sem nær að vinna sigur í skotkeppninni, en eins og eldri menn muna sigraði goðsögnin Mark Price í þessari keppni tvö ár í röð 1993 og 1994.
Það var því sannarlega vel við hæfi að Irving næði að vinna keppnina á 20 ára afmæli fyrri titils stórskyttunnar Mark Price.
Það er eitthvað við Kyrie Irving. Þessi drengur gæti átt eftir að ná langt og er að sýna að hann hefur alla burði til þess.
Við erum alltaf í góðu sambandi við gárungana eins og þið vitið, og í gær voru gárungarnir á einu máli um að Kyrie Irving væri mjög sérstakur leikmaður.
Því til sönnunar bentu þeir á að hann væri elskaður nánast einróma þrátt fyrir að hafa spilað með Duke-háskólanum.
Það er ekki hægt að undirstrika hvað þetta er sterkur punktur.
Irving spilaði kannski ekki mjög marga leiki fyrir Duke, en það er ekkert leyndarmál að hann er einn elskaðasti ungi leikmaðurinn í NBA deildinni og gjörsamlega skilið hvert gramm af þeirri ást.
Efnisflokkar:
Áfangar
,
Kyrie Irving
,
Mark Price
,
Skotgleði
,
Skotkeppni
,
Stjörnuleikir