Sunday, February 17, 2013

Það var fyrir tuttugu árum síðan


Við erum á þeim aldri að við fáum alltaf magahögg þegar við áttum okkur á því hvað aldurinn hefur færst snögglega yfir okkur.

Undanfarið erum við alltaf að sjá að það eru 20 og 25 ár síðan þetta og hitt gerðist, sem í minningunni gerðist fyrir nokkrum mánuðum síðan.

Við tókum þá ákvörðun að reyna að taka jákvætt á móti þessum nöturlegu staðreyndum í stað þess að ýta þeim frá okkur - fanga þetta og reyna að gera gott úr því.

Einn af þessum áföngum sem fær okkur til að svitna og skjálfa af elli, er sú staðreynd að núna eru 20 ár síðan Karl Malone og John Stockton voru valdir verðmætustu leikmenn Stjörnuleiksins þegar hann var haldinn í Utah árið 1993.

Sumpart virðist þetta hafa verið í gær, en það er líka hrikalega langt síðan, ef við pælum í því.

Þessi Stjörnuleikur var haldinn um það bil hálfu ári eftir að Draumalið Bandaríkjanna tók enga fanga á leið sinni að gullinu í Barcelona. Leikurinn fór í framlengingu og þar hafði vestrið betur 135-132, með heimamanninn John Stockton í fararbroddi.

Karl Malone skoraði 28 stig og hirti 10 fráköst í leiknum, Stockton skoraði 9 stig og gaf 15 stoðsendingar. Auðvitað voru þeir báðir kjörnir verðmætustu leikmenn leiksins, það var ekki hægt að gera upp á milli Stockton og Malone.

Þarna fór í hönd besti tími í sögu Utah Jazz, sem fór í úrslit Vesturdeildar árin 1994-98 og tvisvar í lokaúrslit þar sem það lá fyrir Michael Jordan og Chicago Bulls. Jazz vann að meðaltali 59 leiki í deildakeppninni á þessum árum.

Til að gera þér grein fyrir tímasetningunni á þessum Stjörnuleik, vildi svo skemmtilega til að þetta var tólfti og síðasti Stjörnuleikur Isiah Thomas á glæstum ferli en sá fyrsti af  fimmtán hjá Shaquille O´Neal.

Sjö leikmenn úr Draumaliði Bandaríkjanna tóku þátt í leiknum, þar á meðal Patrick Ewing frá New York Knicks, sem eftir leikinn sagði að hann hefði aldrei vitað harðari varnarleik í Stjörnuleik en einmitt þennan dag - þann 21. febrúar árið 1993.