Saturday, February 9, 2013

Stöðutékk fyrir Stjörnuhelgi


Þá er komið að því sem allir hafa beðið svo lengi eftir - fyrstu Vörutalningunni á NBA Ísland á árinu 2013. Eins og ætla mátti hafa orðið nokkur sætaskipti í baráttunni í austri og vestri og röð atburða hefur orðið til þess að valdajafnvægið er nokkuð breytt frá því sem var á Aðfangadag þegar við tókum stöðuna síðast.

AUSTURDEILD

Meistarar Miami Heat voru nýbúnir að hrifsa til sín toppsætið í Austurdeildinni um jólin og við sögðum ykkur að þangað væri liðið komið til að vera. Nú hefur Miami reyndar ekki stungið neitt af - liðið er ekki nema einum og hálfum leik á undan Knicks þegar þetta er skrifað - en við lofum ykkur að á þessu verður engin breyting.

Meistararnir eru á þokkalegasta róli og hafa unnið 9 af 11 síðustu leikjum sínum, þó töpin tvö hafi reyndar komið gegn Boston og Indiana - og enginn af sigrunum sérstaklega eftirminnilegur ef undan er skilinn auðveldur sigur liðsins á LA Clippers skömmu áður en þetta er skrifað.

Það er óþarfi að eyða allt of mörgum slögum í Miami en nokkra punkta verðum við þó að nefna. Fuglamaðurinn Chris Anderson hefur komið eins og stromsveipur inn í liðið og gefur því vídd sem það hafði ekki og Dwyane Wade er að sýna hluti sem lofa mjög góðu um heilsu hans og því framhaldið.

Þá verðum við að nefna LeBron James, sem er líklega að spila sinn besta bolta á ferlinum um þessar mundir. Hann er að gera grín að andstæðingum sínum og ef hann heldur svona áfram, verður hann leiður á að spila körfubolta fljótlega - svo góður er hann.

Þið getið bókað að við eigum eftir að skrifa eitthvað meira um James á næstunni, en ef svo fer sem horfir, verður það bókstaflega kjánalegt ef hann verður ekki valinn verðmætasti leikmaður ársins. Meira um það þegar nær dregur vori.


New York er enn í öðru sæti Austurdeildar og virðist ekki líklegt til að gefa það sæti frá sér. Knicks hefur komið okkur öllum á óvart í vetur og nú er svo komið að það er engin tilviljun að liðið skuli vera þetta ofarlega í töflunni. Þá er bara að sjá hvernig liðinu vegnar í úrslitakeppninni, þar sem stóra spurningin verður hvernig þristarninr detta þegar þrengist um.

Baráttan um heimavallarsætin tvö sem eftir eru í úrslitakeppnikapphlaupinu í austrinu er óhemju hörð. Um þessar mundir munar aðeins einum og hálfum leik á Indiana, Chicago og Brooklyn í sætum 3-5 og svo er reyndar ekki langt í Atlanta heldur.

Þó liðin í 3.-5. sæti séu nánast jöfn í stöðutöflunni, eru þau á ólíkum stað í spilamennskunni. Indiana hefur verið á þokkalegum spretti að undanförnu og myndu líklega flestir veðja á Pacers í 3. sætið ef þeir þyrftu að velja í dag. Sigrar á Chicago, Miami og Atlanta í sömu vikunni vekja slíkar vonir.

Öflugur varnarleikur er lykillinn á bak við alla velgengni Indiana, en það er erfitt að sjá þetta lið ná langt vegna veikleika þess í sóknarleiknum. Þetta lið á framtíðina sannarlega fyrir sér og á að hafa svigrúm til að koma sér í hóp þeirra bestu á næstu tveimur árum. Þetta lið veitti Miami harða keppni í úrslitakeppninni á síðustu leiktíð en við erum hrædd um að þetta lið hafi enn ekki burði til að gera meira en einmitt það.

Chicago hefur á undraverðan hátt náð að halda bæði höfði og bringu upp úr vatninu þrátt fyrir þrálát meiðsli á mannskapnum, sem að okkar mati er skýr vitnisburður um styrk Tom Thibodeau þjálfara.

Þú veist að þú ert með heimsklassa þjálfara þegar liðið þitt heldur sjó þrátt fyrir að vera með Nate Robinson á byrjunarliðsmínútum.

Nú styttist óðum í endurkomu Derrick Rose og eins og allir vita mun hann bara styrkja liðið þó hann verði kannski örlítið ryðgaður í byrjun.

Það er hinsvegar útilokað að hann nái 100% styrk á þessari leiktíð, sama hversu langt Chicago kemst í úrslitakeppninni, svo stuðningsmönnum Chicago væri eflaust hollast að stilla væntingar sínar í hóf í vor. Þeir geta þó verið óhemju stoltir af liðinu sínu - það hefur gert frábæra hluti í vetur.

Brooklyn er búið að tapa 5 af síðustu 8 leikjum sínum og fá lið hafa verið jafn brokkgeng og Nets í vetur. Við eigum erfitt með að útskýra af hverju, en við höfum bara enga trú á þessu liði. Töp þess að undanförnu hafa bara verið þannig.

Þetta er sæmilega mannað lið, en framlína þess er veik í vörn og fráköstum og þá vantar liðið átakanlega skotmenn.

Við skulum með mestu ánægju taka við háðsglósum ef þetta lið slær í gegn í vor, en við eigum ekki von á að svo verði.

Rétt eins og Brooklyn, er Atlanta með nokkra ljósa punkta í sínum röðum og á það til að stríða bæði sérfræðingum og sérstaklega stuðningsmönnum sínum með góðum sigrum.

En rétt eins og Brooklyn er Atlanta ekki lið sem hefur burði til að gera neitt meira en stríða fólki að svo búnu.  Kannski verður Atlanta ekki almennilegt lið fyrr en það losar sig við Josh Smith. Kannski verður Atlanta bara alltaf Atlanta - lið sem enginn tekur alvarlega - því miður.

Stærsta ráðgátan í allri deildinni er Boston Celtics. Enginn veit hvar við höfum þetta lið. Það er alveg dásamlega dæmigert að Boston hafi ekki tapað leik síðan það missti Rajon Rondo í meiðsli.

Líklega  hafa menn þar á bæ þjappað sér saman og fíla sig í tætlur að vera nú orðið enn meiri undirhundur en áður. Liðið hefur unnið sex leiki í röð síðan Rondo meiddist, fimm þeirra á heimavelli.

Það á eftir að koma betur í ljós hvað fjarvera Rajon Rondo þýðir fyrir Boston, en ef það heldur áfram að vinna svona, fer það að líta frekar illa út fyrir hann.

Staðan á Boston er auðvitað orðin betri en hún var vegna allra þessara sigra og útlit fyrir að sætið í úrslitakeppninni sé tryggt. Það er hinsvegar erfitt að sjá fyrir að Boston komist langt nema það verði heppið með mótherja (lesist: ekki Miami).

Milwaukee situr sem stendur í áttunda sæti Austurdeildarinnar rétt á eftir Boston og þar með er búið að mála þá mynd.

Philadelphia er fjórum leikjum á eftir Milwaukee og þar á bæ er meiðsladraugurinn búinn að koma sér fyrir varanlega (Jason Richardson úr leik í vetur). Það er útilokað að önnur lið blandi sér í baráttuna því þau eru drasl. Þetta er svo einfalt og skemmtilegt í Austurdeildinni.

VESTURDEILD

Stórkostlegar breytingar hafa ekki orðið á toppnum í Vesturdeildinni þó efstu liðin þrjú hafi verið að skiptast á sætum af og til.

Auðvitað er San Antonio í efsta sæti í NBA deildinni þegar þetta er skrifað. Hver bjóst við öðru?

Þetta er meira undrið sem hann Gregg Popovich er með í höndunum. Spursliðið var við toppinn í allan fyrravetur líka, en munurinn á því liði og þessu er að það rankar miklu ofar í varnarleik í vetur en í fyrra.

Það eru jákvæð tíðindi fyrir þessa snillinga, eins og æskubrunnurinn sem Tim Duncan drakk úr í haust.

Það er ómögulegt að segja hvað við fáum frá þessu liði í úrslitakeppninni annað en það að engan langar að mæta því frekar en venjulega. Sennilega ekki einu sinni Oklahoma, sem er aðeins hálfum leik á eftir Spurs í töflunni.

Oklahoma hefur verið á fínum spretti undanfarið alveg eins og Spurs og litlu við það að bæta sem við höfum þegar skrifað um þetta lið. Kevin Durant (sérstaklega), Russell Westbrook og Serge Ibaka halda bara áfram að bæta sig og Kevin Martin heldur áfram að leika rakaðan James Harden af bekknum.

Hvað þýða þessar framfarir hjá Oklahoma fyrir framhaldið?

Það kemur í ljós í vor, en það eina sem við erum 90% viss um að gerist hjá þessu liði í sumar er að Scott Brooks eigi eftir að missa vinnuna ef það verður ekki meistari.

Við myndum ekki missa hárið ef Oklahoma færi alla leið, en það kæmi okkur samt dálítið á óvart. Okkur finnst vanta aðeins upp á breiddina hjá þeim og við erum einhverra hluta vegna að missa trú á að Scott Brooks sé vandanum vaxinn í þjálfarastólnum.

En skítt með allar þær pælingar. Þið haldið bara áfram að hafa gaman af þessu stórskemmtilega liði þangað til dregur til tíðinda í vor og sumar. Ekki grátum við það ef því gengur vel.

Það hefur gengið illa hjá Los Angeles Clippers að undanförnu og fyrir vikið er liðið búið að missa OKC og Spurs aðeins fram úr sér. Það er í sjálfu sér ekkert hættulegt, mikilvægara er að Clippers er nú að fá allar sínar helstu kannónur til baka úr meiðslum.

Clippers hefur auðvitað verið sannkallað augnakonfekt í allan vetur, en fá lið hafa jafnmikið að sanna í vor. Eins og þið munið, náði Clippers að vinna seríu í úrslitakeppni síðasta vor en sú gleði dugði ekki lengi, því San Antonio pakkaði því saman og sturtaði því ofan í klósettið.

Clippers er talsvert sterkara lið núna en í fyrra, en dugar það þegar á hólminn er komið og lið eins og San Antonio og Oklahoma sem kunna þetta allt saman bíða?

Svarið því verður eitt það áhugaverðasta í allri úrslitakeppninni - ekkert minna en það.

Liðið sem var búið að hóta því að blanda sér í baráttuna með þremur efstu í vetur var Memphis. Skemmst er frá því að segja að svo er ekki lengur. Það hefur verið nær eintómur blús á fóninum í Memphis síðan Rudy Gay var skipt upp til Toronto.

Þetta er hið sorglegasta mál og svo virðist sem Lionel Hollins þjálfari sé farinn í rokna fýlu við stjórn félagsins. Ummælin sem hann hefur látið hafa eftir sér í viðtölum eftir tapleikina undanfarið eru þannig að ætla mætti að maðurinn væri að reyna að láta reka sig.

Það er hægt að horfa á ákvörðun Memphis að láta Rudy Gay fara á tvo vegu, en niðurstaðan er alltaf sú sama. Hans nýtur ekki við lengur og þó liðið hafi náð sínum besta árangri í úrslitakeppninni án hans á sínum tíma, er Memphis einfaldlega miklu lakara lið án hans eins og staðan er í dag (hvað svo sem verður þegar fram í sækir).

Hlutirnir eru fljótir að breytast í NBA, en eins og staðan er í dag, er sjóðandi heitt lið Denver að taka fram úr Memphis sem fjórða besta liðið í Vesturdeildinni.

Þó Denver taki fram úr Memphis í töflunni, þýðir það ekki að Denver sé þar með orðið lið sem á möguleika á að vinna Vesturdeildina eins og Memphis var á sínum tíma.

Fjögur lið áttu möguleika á að vinna Vesturdeildina, en Memphis er nánast fallið út úr þeirri mynd.

Denver kemur ekki í staðinn. Það þýðir ekki að Denver sé ekki sterkt lið, það hefur bara ekki það sem til þarf ennþá til að verða "alvöru."

Ef okkur misminnir ekki, vöruðum við við því í síðustu vörutalningu að Denver hefði byrjað leiktíðina á gríðarlega erfiðu prógrammi og ætti því inni. Þetta hefur komið á daginn og heimavæn taflan hjá Denver hefur gert það að verkum að það hefur hlaupið hratt upp töfluna.

Denver er þrusulið, skemmtilegt með sterkan heimavöll, en það er veikt í langskotunum þó það eigi það til að detta í stuð í Pepsi Center og er ekki með eiginlegan neyðarkall - stórstjörnu til að loka leikjum. Lið sem eru ekki með stjörnuleikmann fara bara ekki langt í úrslitakeppnum, það er bara þannig.

Það hefur verið smá hikst á Öskubuskunni okkar allra í Oakland, en það sem hefur gerst á þeim bænum frá því í síðustu vörutalningu er að Golden State hefur sannað að það er alvöru lið, ekki bara Öskubuska sem datt í stuð í haust.

Varnarleikur liðsins hefur reyndar verið að falla nokkuð örugglega á undanförnum vikum, sem er mikið áhyggjuefni, en nú þegar Andrew Bogut er mættur í gallann og farinn að spila er ekkert annað en gleði fram undan.

Það er nú alveg öruggt að Golden State fer í úrslitakeppnina og þangað getur liðið farið án þess að vera með svo mikið sem gramm af væntingum á bakinu. Öll lið fá eitt eða tvö ár til að vera krútt án pressu í úrslitakeppni og það fær Golden State í vor.

Ef þetta lið nær sér á strik og gleymir öllum áhyggjum í úrslitakeppninni í vor, gæti það orðið hreinasta martröð að mæta því, svo mikið er víst. Ekki verður pressan að sliga það, svo mikið er víst.

Ekki mikil pressa á liðum sem fara í úrslitakeppni á tuttugu ára fresti eða svo.

Fyrir einhverja óskiljanlega muni er Utah Jazz í sjöunda sæti Vesturdeildarinnar í dag. Ekki slæmt af liði sem er bara með einn heilan leikstjórnanda sem er maður sem datt út úr deildinni í tvö ár og er álíka skotmaður og Andri Freyr Viðarsson.

Spennan við fyrirætlanir Utah í úrslitakeppninni, ef liðið nær þangað, er að vita hvort liðið nær að vinna leik í fyrstu umferðinni. Það er mjög ólíklegt.

Houston er í áttunda sætinu, hálfum leik á eftir Utah, og þar fer lið sem ætti að vera mun betur í stakk búið til að stríða einhverju liði í fyrstu umferð úrslitakeppninnar.

Portland kemur þarna skammt á eftir og hefur staðið sig vel í vetur, keyrandi á fjórum og hálfum manni allt tímabilið. Ef einhver af þessum fjórum og hálfum manni sem dregið hafa vagninn hjá Portland meiðist, er partíið búið hjá Blazers. Þetta er svo tæpt hjá þeim.

Frægasta lélega lið í heimi er svo þarna rétt á eftir Portland. Það er ekki nema rifa eftir á glugganum sem Lakers þarf að skríða inn um til að komast í úrslitakeppnina, en nú er svo komið að Lakers þarf ekki bara að vinna flesta leiki sem það á eftir - heldur þarf það helst að treysta á að einhverjir af nágrönnum þess drulli í buxurnar á lokasprettinum.

Þetta verður ekki auðvelt hjá Lakers, án Pau Gasol og með Dwight Howard grenjandi, en sama hvað hvaða Hatorade-drykkjumaður segir - þarf körfuboltinn á því að halda að Lakers fari í úrslitakeppnina.

Lakersliðið myndi nú að minnsta kosti trekkja upp áhuga fólks í fyrstu umferðinni, hvort sem það næði að stríða toppliðunum eða ekki.

Það er meira en t.d. Utah getur sagt, því miður.

Dallas er allt nema stærðfræðilega úr leik þegar kemur að úrslitakeppninni, en þar á bæ verður samt mjög gaman að fylgjast með metnaði leikmanna við að ná 50% vinningshlutfallinu, en þeir hafa hótað því að raka sig ekki fyrr en það hefst.  Sjá þá margir fyrir sér hvernig Þjóðverjarnir eiga eftir að líta út með ZZ Top skegg næsta haust.

Hér látum við þessari litlu Vörutalningu okkar lokið að sinni. Vonandi hefur hún orðið til að skerpa sýn þína á stöðu mála í deildinni okkar fögru.

Góðar stundir.