Friday, February 22, 2013

Enn hristum við höfuðið yfir San Antonio


San Antonio gjörsamlega valtaði yfir L.A. Clippers í Los Angeles í nótt og styrkti þar með stöðu sína á toppi deildarinnar. Spurs er því með fjögurra leikja forystu á Oklahoma og Miami, sem er ágætis púði á lokasprettinum.

Sigur Spurs á Clippers í nótt var sjöundi leikurinn af níu af hinu árlega Ródeóferðalagi liðsins og eins og þeir sem fylgjast vel með NBA vita, hefur liðið oftar en ekki notað þennan part af tímabilinu til að trekkja sig almennilega í gang ef svo má segja.

Á þessu ætlar ekki að verða nein untantekning í vetur. Spurs byrjar 6-1 á ferðalaginu og hefur aðeins tapað fyrir Detroit, sem reyndar er dálítið klaufalegt, en lýsandi dæmi um hvað allt getur gerst í álaginu í NBA deildinni.

Fá okkar reiknuðu með því að San Antonio myndi verða í efsta sæti NBA deildarinnar um Stjörnuhelgina, en þarna eru þeir gömlu refirnir enn eina ferðina.

Það er einmitt á svona tímum þar sem liðið stendur undir gamla viðurnefninu sínu;

Black Death.

Við höfum sagt ykkur frá því hvernig San Antonio breyttist úr því að vera ógnarsterkt varnarlið yfir í að vera besta sóknarlið deildarinnar, en nú vill svo skemmtilega til að liðið er aftur komið nálægt toppnum í vörninni líka. Það eru slæm tíðindi fyrir andstæðinga liðsins.

Það er ómögulegt að segja hvað verður með Spurs í vor. Fyrirfram myndu fáir tippa á að liðið næði að leggja Oklahoma eftir rassskellinn sem það fékk í úrslitakeppninni í fyrra. En hvað vitum við svo sem...

Það eina sem við vitum, er að San Antonio hefur unnið 16 af síðustu 17 leikjum sínum í deildinni þrátt fyrir talsverð meiðslavandræði á lykilmönnum liðsins.

Liðið er 64-25 á Ródeókeppnisferðalaginu síðan árið 2003. Það er um 72% vinningshlutfall - allt útileikir. Ertu að fatta það?

San Antonio er 155-49 (76%) síðan í upphafi leiktíðarinnar 2010-11, það er þrettán leikjum betri árangur en næsta lið sem er Oklahoma City. Næst kemur LA Lakers - þrjátíu leikjum á eftir Spurs.

Sautján af síðustu 24 leikjum San Antonio í deildinni í vetur eru á heimavelli. Eigum við ekki að segja að Spurs eigi ágætis möguleika á að halda toppsætinu og heimavallarrétti út alla úrslitakeppni.

P.s. => Tony Parker er búinn að vera besti maður Spurs í vetur og er að skila 21 stigi, 7,7 stoðsendingum og tæplega 54% skotnýtingu. Hann er slá eigin met í nokkrum tölfræðiflokkum og hefur bókstaflega aldrei verið betri.

Það er skondið að sjá hvað Parker er nákvæmlega ekkert inni í umræðunni þegar kemur að valinu á verðmætasta leikmanni ársins. Strangt til tekið - ef farið væri eftir sömu stöðlum og verið hefur undanfarin ár - ætti Parker að verða fyrir valinu einfaldlega af því hann er besti maðurinn i besta liðinu í vetur.

Auðvitað er Tony Parker ekki betri leikmaður en LeBron James og Kevin Durant, en það verður erfiðara fyrir fjölmiðlamenn að horfa framhjá Parker með hverjum leiknum sem San Antonio vinnur.

Við getum hinsvegar sagt ykkur það hér og nú að það verður LeBron James sem verður fyrir valinu í ár og verður þar með aðeins fjórði leikmaðurinn í sögu NBA til að vera kjörinn Verðmætasti leikmaður deildarinnar fjórum sinnum á ferlinum.

Og hann er aðeins 28 ára gamall.

Wilt fékk styttuna fjórum sinnum. Jordan og Russell fimm sinnum hvor.

Hér gæti eitthvað þurft að láta undan á komandi árum.