Thursday, April 30, 2015

Tuesday, April 28, 2015

Brotið eða slitið?



Þúsund orða mynd af Milwaukee


Ef þetta er ekki þúsund orða mynd, þá eru þær ekki til. Rákumst á þessa fyrir skömmu, þetta er aldamótalið Milwaukee Bucks með þjálfarateymi, hásetum og kokki.

Ef vel er að gáð má sjá nokkur áhugaverð andlit þarna, bæði í röðum leikmanna og þjálfara. Auðvitað er hægt að sjá kunnugleg andlit á öllum svona liðsmyndum, en okkur fannst þessi bara alveg spes.

Eldri lesendur þekkja megnið af þessum mönnum og þurfa því ekkert að lesa áfram, bara skoða myndina og fara svo að horfa á Útsvar. Þeir yngri gætu lært eitthvað ef þeir passa sig ekki, eins og Bill Cosby sagði alltaf í upphafi þáttanna um Albert Íturvaxna*

Við byrjum í öftustu röð, en annar maður frá vinstri þar heitir Don Newman og var aðstoðarþjálfari Bucks þarna, en hann var síðar í þjálfarateymi Spurs í átta ár, m.a. þegar það vann titlana 2005 og 2007. Í dag er Newman í þjálfarateymi Randy Whittman hjá Washington Wizards.

Maðurinn hægra megin við Newman, sem sagt gaurinn sem er þriðji frá vinstri í öftustu röðinni, er enginn annar en Ron Adams.

Adams þessi var aðstoðarþjálfari hjá Bucks um aldamótin en er í dag sérstakur varnarþjálfari hjá Golden State Warriors.

Það er mál manna að hann eigi mjög stóran hlut í ógurlegri velgengni liðsins í vetur alveg eins og Alvin Gentry, fyrrum aðalþjálfari Phoenix Suns, en hans sérsvið er sóknarleikurinn.

Þeir Adams og Gentry eru nánustu samstarfsmenn Steve Kerr á bekknum hjá Golden State og þið getið rétt ímyndað ykkur hvort hann hefur ekki notið góðs af reynslu þessara manna í vetur, verandi reynslulaus í þjálfun sjálfur.

Hávaxni maðurinn fyrir miðju í öftustu röðinni gegndi stöðu aðstoðarþjálfara Bucks þegar myndin var tekin, eins og glöggir sjá er hann orðinn aðalþjálfari Portland Trailblazers í dag. Þetta er Terry Stotts, sem hefur verið að gera ljómandi fína hluti með Blazers síðustu ár, þó eitthvað hafi dregið fyrir sólu nú á vormánuðum.

Þá segjum við skilið við öftustu röðina og byrjum lengst til vinstri í miðröðinni.

Þar er fyrstur á blaði jakkafataklæddur maður með mottu sem einhver ykkar ættu að þekkja. Þetta er Ernie Grunfeld, framkvæmdastjóri Washington Wizards í dag.

Grunfeld er fyrrum leikmaður og hann var á skrifstofunni hjá Knicks síðast þegar liðið gat eitthvað. Þar var hann í átta ár, þá fjögur ár hjá Bucks þar sem hann var nýtekinn við þegar myndin er tekin og hefur verið hjá Wizards síðan.

Grunfeld ber ábyrgð á afrekum eins og samningum við Gilbert Arenas og að hafa tekið menn á borð við Kwame Brown og JaVale McGee í nýliðavalinu. Nýjasta afrek hans er líklega þegar hann tók Jan Vesely í staðinn fyrir t.d. Klay Thompson eða Kawhi Leonard í nýliðavalinu árið 2011.

Hægra megin við Grunfeld er götuboltagoðsögnin Rafer "skrepptu á klósettið" Alston. Honum tókst einhvern veginn að eiga tíu ára feril í NBA deildinni þrátt fyrir að vera hálfgert ólíkindatól. Eftir að hafa skoppað á milli nokkurra liða, náði Alston loks að komast alla leið í lokaúrslitin með Orlando Magic árið 2009, þar sem liðið tapaði fyrir Lakers. Hann er samt skólabókadæmi um að blandsnældur og götubolti koma NBA deildinni lítið við.

Ætli þið þekkið ekki manninn hægra megin við Alston. Þar er á ferðinni sjálfur Ray Allen, sem þarna var að hefja sitt fjórða ár í deildinni, sem segja má að hafi verið árið sem hann stimplaði sig inn sem stjörnu í NBA. Allen skoraði 22 stig í leik og skaut 42% úr þristum þennan vetur.

Hægra megin við Allen er svo sjálfur Stóri-Hundurinn Glenn Robinson. Robinson var þarna á sínu sjötta ári með Bucks, en hann var fyrst og síðast skorari og nákvæmlega ekkert annað.

Hann skoraði yfir 21 stig að meðaltali á 8 árum með Bucks en var svo fjandi heppinn að næla sér í meistaratitil á síðasta árinu sínu í NBA deildinni þegar hann var vindill hjá San Antonio Spurs árið 2005.

Sonur Robinson - Robinsin þriðji - er því miður á samningi hjá Philadelphia í dag. Það var Minnesota sem tók Robinson litla í nýliðavalinu árið 2014, nákvæmlega tuttugu árum eftir að Milwaukee tók pabba hans með fyrsta valrétti.

Sunday, April 26, 2015

Vörutalning 25/4


Látum okkur sjá...

Í haust reiknuðum við með því að úrslitakeppnin yrði svo jöfn að hún ætti eftir að koma okkur í gröfina. Annað hefur að sjálfssögðu komið á daginn og það er mjög langt síðan fyrsta umferðin hefur verið eins "ójöfn" og raun ber vitni. Það er mjög sérstakt að sex af átta rimmum þar hafi byrjað 3-0, raunar munum við ekki eftir svona löguðu. Það gerðist síðast fyrir tólf árum að fimm einvígi byrjuðu 3-0.

Liðin þrjú í austrinu sem komust í 3-0 gerðu það af því mótherjinn getur ekki neitt. Golden State lokaði New Orleans 4-0,  ekki af því að Brúnar og þeir væru lélegir, heldur af því Golden State er svo sterkt lið.

Svo eru Memphis og Houston komin í 3-0 af margvíslegum ástæðum, einna helst meiðslum.

Það er augljóst að fyrsta umferðin í ár er áberandi slappari en hún hefur verið á síðustu árum. Það er rauntal. En það er samt ósanngjarnt að bera hana saman við fyrstu umferðina í fyrra, sem var ein sú besta sem við höfum séð - ef ekki sú besta.

Það er svo fáránlegt hvað er stutt síðan við spáðum því að úrslitakeppnin í vestrinu í vor yrði ein sú besta (sterkasta) í sögunni, en eins og þið hafið séð fer lítið fyrir því. Það er ekki nema ein dúndur sería í gangi og það er sorglegt.

En nú skulum við hætta þessum helvítis barlómi og henda niður á blað því helsta sem er að frétta úr stríðinu:

Eins og við sögðum ykkur fyrir skömmu, er viðureign LA Clippers og San Antonio að bjarga þessari úrslitakeppni. Fyrstu tveir leikirnir í LA voru rafmagnaðir en San Antonio tók sig reyndar til og slátraði Clippers í þriðja leiknum.

Það er því enginn vafi á því að allur meðbyr í einvíginu er í seglum San Antonio þessa stundina, en slæmu fréttirnar fyrir LA Clippers í því sambandi eru að Texasliðið á helling inni í sóknarleiknum.

Munar þar mestu um Tony Parker, sem vegna margvíslegra meiðsla hefur ekki gert annað en skemma fyrir liðinu með framlagi eins og 25% skotnýtingu.

Lélegur leikur Parker og takmarkað leikform Tiago Splitter hefur hinsvegar ekki komið að sök enn sem komið er í einvíginu og það er nýjustu stórstjörnu NBA deildarinnar að þakka. Kawhi Leonard er gjörsamlega búinn að fara hamförum hjá Spurs og tekur á sig stærra hlutverk með hverjum leiknum sem líður. Hann er í alvöru að verða skerí-góður eins og það er kallað. Aumingja Clippers að þurfa að díla við þetta apparat.

Clippers syngur sama lag og áður. Byrjunarliðið hjá þeim er frábært og hangir oftast í Spurs, en um leið og þeir þurfa að hvíla, fer allt til andskotans í hvelli. Þeim þjálfara-Doc Rivers og framkvæmdastjóra-Doc kemur alveg örugglega illa saman.












Friday, April 24, 2015

Nýtt hlaðvarp


39. þáttur hlaðvarpsins er kominn í loftið á þar til gerðri síðu. Gesturinn að þessu sinni er enginn annar en Njarðvíkingurinn Teitur Örlygsson og umræðuefnið er fyrstu leikirnir í úrslitakeppninni í NBA og úrslitaeinvígi KR og Tindastóls. Smelltu hér til að fara á hlaðvarpssíðuna.

Thursday, April 23, 2015

Kawhi Leonard er ekki varnarmaður ársins


Við óskum Kawhi Leonard til hamingju með að hafa verið kjörinn Varnarmaður ársins í NBA deildinni í dag. Það hefur ekki borið rosalega mikið á Kawhi í vetur, nema kannski aðeins síðustu vikurnar. Kannski var það þess vegna sem hann náði kjöri - hann var kjósendum í fersku minni þegar gengið var í kjörklefana.

Ekki misskilja, við erum óhemju hrifin af Leonard og öllu hans framlagi hjá San Antonio. Hann er hinsvegar ekki varnarmaður ársins í okkar bókum. Það böggar okkur dálítið að hann skuli fá þessa nafnbót þrátt fyrir að hafa misst úr 20 leiki í vetur.

Draymond Green hjá Golden State er ekki jafn öflugur varnarmaður og Leonard - og kannski er enginn í heiminum betri en hann úti á velli - en Green missti aðeins úr þrjá leiki með Warriors í vetur og dekkaði allt frá bakvörðum til miðherja.

Andrew Bogut er akkerið í vörn Golden State (sem nota bene var besta vörnin í NBA deildinni í vetur), en Green er langfjölhæfasti varnarmaður liðsins og er einmitt að sýna það þessa dagana, þar sem hann er að standa sig eins vel eins og mannlegur máttur leyfir í að dekka Anthony Davis hjá New Orleans.

Nei, það er Draymond sem er varnarmaður ársins hjá NBA Ísland, með fullri virðingu fyrir Kawhi Leonard. Kawhi var auðvitað góður í vetur og það var DeAndre Jordan líka, þó hann sé ekki eins góður og þjálfarinn hans vill meina.

Það var gaman að sjá Rudy Gobert koma inn á listann og hann hefði líklega endaði í verðlaunasæti ef hann hefði fengið byrjunarliðssæti sitt fyrr en á miðri leiktíð. Hann verður á topp fimm í þessu kjöri næstu tíu árin ef heilsa leyfir.

Við sjáum að Tim Duncan er líka að fá smá ást í kjörinu, en samt ekki nógu mikla. Það gleymist oft hvað helvítis karlinn er magnaður varnarmaður. Það er kaldhæðnislegt að San Antonio hafi átt þrjá varnarmenn ársins á síðustu c.a. 30 árum en enginn þeirra heiti Tim Duncan.


Hvað þýðir uppsögn Scott Brooks fyrir Oklahoma?


Það kemur ekki til af góðu, frekar en búast mátti við, en nú fáum við loksins að sjá hvað gerist ef þeir Kevin Durant, Russell Westbrook og félagar hjá Oklahoma fengju nýjan þjálfara. Þetta kemur til vegna þess að Oklahoma er búið að láta Scott Brooks fara eftir sjö ára ljómandi fín störf.

Það er aldrei sanngjarnt þegar þjálfarar eru látnir fara undir kringumstæðum sem þessum. Þetta minnir okkur á það þegar Rick Carlisle var látinn fara frá Detroit eða þegar Vinnie Del Negro var látinn fara frá Clippers.

Það var ekki eins og mennirnir hefðu ekki verið að ná þokkalegum árangri, stjórn félaganna kaus bara að róa á ný mið, eins og það er oft kallað.

En uppsögn Scott Brooks er enn súrari en hinar og ein sú súrasta sem við höfum orðið vitni að.

Jú, við vitum alveg að það hefur verið rosalega vinsælt að sparka í Scott Brooks í nokkur ár - við erum t.d. ekki saklaus af því - en ef þú pælir í því, er það drullu hart að reka Brooks núna.

Uppsögn Brooks er nefnilega ekki honum að kenna. Brooks er blóraböggull eins og þjálfarar í öllum boltagreinum eru gjarnan þegar liðið á skrifstofunni er búið að skíta á sig. Og sú er raunin hjá Oklahoma.

Það eru tvær ástæður fyrir því að hann er orðinn atvinnulaus.

Fyrri ástæðan er að Oklahoma getur ekki með nokkru andskotans móti hangið heilt og laust við meiðsli eins og reyndar flest lið í NBA deildinni og seinni ástæðan, sem skrifast 100% á framkvæmdastjórann Sam Presti, er verstu félagaskipti síðari tíma - Harden skiptin.

Nú fara í hönd nýir tímar hjá Oklahoma City Thunder. Undanfarin ár hefur þetta skemmtilega lið farið frá því að vera krútt, upp í að vera efnilegt upp í að vera gott upp í að vera meistarakandídat niður í að vera óheppnasta lið deildarinnar.

Leikmannakjarni Oklahoma var settur saman með blöndu af klókindum og mikilli heppni og liðið flaut á þessu í nokkur ár. Fékk að vera krútt, efnilegt, gott og svo frábært, en nú er brúðkaupsferðin búin og alvaran farin að banka á dyrnar.

Forráðamenn Oklahoma ætluðu að vera rosalega klókir þegar þeir ákváðu að láta James Harden fara frá félaginu á sínum tíma, en það er ekki hægt að líta á þau viðskipti nema á einn veg í dag - þau voru hræðileg.

Jú, jú, Harden vildi fara frá Oklahoma, ekki bara af því hann vildi fá borgað, heldur af því hann vildi fá að vera maðurinn. Og það gerði hann og gerir enn í Houston.

En Oklahoma var náttúrulega svo gott lið að það skipti engu máli þó Harden færi - það gat samt unnið meistaratitil, var það ekki? Jú, með smá heppni. En slíkt var ekki uppi á teningnum. Ekki séns. Bara óheppni. Meiðsli og óheppni.

Og nú erum við komin hingað. Kevin Durant á eitt ár eftir af samningnum sínum við félagið og nú er kominn panikktæm.

Panikktæm lýsir sér í viðskiptum eins og Dion Waiters og Enes Kanter. Geta þessir menn hjálpað liði að vinna meistaratitil? Það á eftir að koma í ljós, en eitthvað segir okkur að svo sé ekki. Það kemur svo sem í ljós.

Aðalatriðið núna er að það er kominn leki í bátinn sem var kúltúr Oklahoma City. Klúbburinn er ekki lengur krúttlegur. Verkefni númer eitt hjá skrifstofunni er ekki lengur að ala upp framtíðarleikmenn, heldur reyna í óðagoti að sanka að sér mannskap sem getur komið liðinu aftur í lokaúrslitin og haldið því þar - því annars er Kevin Durant farinn eitthvað annað.

Og ef Kevin Durant (og þá Russell Westbrook væntanlega á eftir) fer eitthvað annað, er lítið sem ekkert eftir í Oklahoma neme vel sópaðar en auðar göturnar. Nokkrar beljur jórtrandi í eyðimörkinni. Ekkert.

Lifi Tim Duncan


Eins og getið var um í síðustu færslu, fór Tim gamli Duncan mikinn í sigri San Antonio á LA Clippers í nótt sem leið. Duncan hefur í sjálfu sér aldrei verið mikill skorari þannig séð, en vélræn staðfesta hans og samkvæmni tryggja að hann er nú kominn í hóp góðra manna í sögubókum.


















Þetta stutta myndbrot hérna fyrir neðan sýnir okkur glöggt hvað er enn mikill töggur í Duncan, sem verður 39 ára eftir nokkrar vikur. Þarna sjáið þið hann etja kappi við tvo af sprækari risum yngri kynslóðarinnar, þá Blake Griffin og DeAndre Jordan hjá LA Clippers.

Þrítugsaldurinn er tími ríkidæmis og stórra samninga, fertugsaldurinn er tími hæfileikanna. Eitthvað slíkt var haft eftir Duncan eftir frábæra frammistöðu hans í nótt. Við þreytumst ekki á því að horfa á þennan snilling gera það sem hann gerir betur en nokkur körfuboltamaður í sögunni.

Þeir Duncan og Blake Griffin eru gjörólíkir leikmenn, en Griffin ber óblandaða virðingu fyrir gamla manninum og er eflaust byrjaður að stela hreyfingum frá honum. Enda væri galið að gera það ekki.

Faðir tími og Elli kelling þungt haldin á sjúkrahúsi


Þið lesið NBA Ísland af því þið getið gengið að því nokkuð vísu að þar fáið þið súmmeringar og sannleikann. Hérna er súmmering á fyrstu leikina í úrslitakeppninni í NBA 2015 - þeir eru drasl. Það er bara þannig.

Nær öll einvígi eru að fara eftir bókinni - af ástæðum sem við komum að síðar - og lítið hefur verið um dramatík til þessa. Það þýðir ekki að sé einhver ástæða til að örvænta, alls ekki, en svona er þetta bara.

Nú eru tveir leikir búnir á öllum vígstöðvum og heimaliðin hafa klárað tvo fyrstu leikina nokkuð örugglega í þeim flestum. Toronto er að drulla á sig alveg eins og í fyrra og er komið undir 0-2 á móti liði sem er ekkert rosalega sterkt, sem eru tíðindi út af fyrir sig, en samt ekki.

Aðeins eitt einvígi er að bjóða upp á 100% gæði og spennu og það er raunar svo magnað að allt hitt skiptir ekki nokkru einasta máli.

Þetta er auðvitað einvígi Clippers og Spurs, sem allir vissu að yrði rosalegt. Og það hefur staðið undir þeim væntingum. Og meira til.

Staðan hjá Clippers og Spurs er 1-1 eftir tvo leiki, þann síðari í nótt þar sem San Antonio náði að jafna metin með dramatískum og lífsnauðsynlegum sigri í framlengingu.

Við vitum ekki hvort þið áttið ykkur á því, en hér eru líklega á ferðinni tvö af 5 bestu körfuboltaliðum heims og við sögðum það áður en flautað var til leiks í þessari rimmu að það væri hneyksli að svona sterk lið skuli þurfa að mætast í fyrstu umferð.

Af hverju? 

Af því liðið sem tapar og fer í sumarfrí eftir þessa rimmu, hefði á góðum degi haft alla burði til að fara alla leið í lokaúrslit með smá heppni. Og ÞAÐ er hneyksli. Það þýðir ekkert að væla yfir því, en við vælum auðvitað samt yfir því og gerum langt fram á sumar.
Hvað um það. 

Fyrstu tveir leikir Clippers og Spurs eru rjóminn í þessu fram að þessu og því ber að fagna. Spilamennska Clippers í fyrsta leiknum var með því besta sem sést hefur frá liðinu í vetur og var raunar ekki mikið síðri í öðrum leiknum í nótt. 

Raunar var spilamennska liðsins í nótt ekkert síðri, en þetta datt bara ekki með þeim í það skiptið.

Ástæðan fyrir því að þetta datt ekki með Clippers var tvíþætt: Tim Duncan og Patty Mills.

Tim Duncan tók Faðir tíma og Elli kellingu og gaf þeim svo fast á kjaftinn í nótt að þeim er ekki hugað líf. Þessi maður er að endurhanna goðsagnarhugtakið.

San Antonio hefur ekki náð neinu sem gæti talist nálægt 100% leik til þessa í einvíginu, því tveir af mikilvægustu mönnum liðsins eru langt frá sínu besta heilsufarslega. 

Tiago Splitter, algjör lykilmaður í vörn Spurs, er ekki kominn í leikform eftir meiðsli og lykilmaður liðsins í sóknarleiknum - Tony Parker - er meiddur á um það bil öllum útlimum og bætti við amk einum meiðslum í nótt.

San Antonio ætti að vera í ljómandi góðri stöðu fyrir næstu tvo leiki í San Antonio, en þið vitið jafnvel og við hvað það þýðir ef Tony Parker er nú kominn meið meidda hásin ofan á meidda ökklann og meidda lærið sem hann var að drattast með þar á undan.

Við sögðum ykkur hvað það þýddi ef San Antonio yrði ekki með alla lykilmenn heila í úrslitakeppninni. 

Þá verður það ekki meistari. Það hefur margoft lent í því á síðustu fimmtán árum að fara inn í úrslitakeppni með einhvern lykilmanna sinna í meiðslum og það eru nákvæmlega árin sem San Antonio verður ekki meistari.

Við erum búin að væla um það með reglulegu millibili í allt að þrjú ár að meiðsli séu að breyta valdajafnvægi NBA deildarinnar mikið á vormánuðum, en nú er þetta bara komið út í hött.

Indiana, Miami og Oklahoma eru lið sem ætluðu sér stóra hluti í vetur, en komust ekki einu sinni í úrslitakeppnina út af meiðslum. Meiðsli skemmtu ekki fyrir þessum liðum - þau eyðilögðu tímabilin fyrir þeim og nú síðast í gær fékk þjálfari að taka pokann sinn vegna þeirra (Scott Brooks hjá Oklahoma).

Dallas og Portland ætluðu sér stóra hluti í úrslitakeppninni í vetur eins og venjulega, en eru þess í stað fallbyssufóður út af meiðslum (og Rajon Rondo).

Atlanta, Memphis, Houston og nú San Antonio eru búinn að missa mann eða menn í meiðsli. Sumir þeirra eru úr leik út leiktíðina og aðrir á felgunni og/eða tæpir.

Þá eru bara eftir Golden State, LA Clippers og Cleveland (o.k. kannski Chicago), en við bíðum öll spennt eftir að heyra hverjir það verða sem fara frá þeim á meiðslalistann á næstu dögum - þess verður varla langt að bíða úr þessu.

Við vildum að við værum að grínast...

Sunday, April 19, 2015

Dagur eitt


Já, úrslitakeppnin í NBA byrjaði svo sannarlega í gærkvöldi. Fjórir leikir voru á dagskrá hver á eftir öðrum, svo þeir hörðustu gátu horft á hálfan sólarhring af úrvalsefni.

Kannski er það dálítið rausnarlegt að kalla Toronto-Washington úrvalsefni, við nenntum amk ekki að horfa á það. Þetta er ein af þessum rimmum sem fara í taugarnar á mörgum af því það er skandall að annað þessara liða fari í aðra umferð úrslitakeppninnar á meðan Clippers eða Spurs fara snemma í sumarfrí. Það er glóraulaust.

Kaldhæðnislegt að það skuli hafa verið Paul Pierce öðrum fremur sem kláraði þennan leik fyrir Wiz, því eins og þið munið, gerði hann Kanadaliðinu erfitt fyrir í fyrstu umferðinni í fyrra líka (sem leikmaður Nets). Það er annars ekki langt á milli í þessu, því framlengja þurfti leikinn til að ná fram úrslitum. Boltinn hefði svo auðveldlega geta skoppað fyrir Toronto í þessu, en því var ekki fyrir að fara að þessu sinni og því þarf Toronto að sætta sig við þungt tap á heimavelli og er með alla pressuna á sér núna.

Golden State kláraði það sem það þurfti að gera í fyrsta leik gegn New Orleans, þó gestirnir hafi sýnt ljómandi fína baráttu með því að koma sér aftur inn í leikinn í fjórða leikhluta eftir að hafa verið um 25 stigum undir á kafla. Brúnar var lengi í gang en skoraði 20 stig í lokaleikhlutanum og sýndi okkur enn og aftur hvað hann getur gert hvað honum sýnist.

Það er ekki gott að segja hvor tölfræðin er fáránlegri - að Stephen Curry hafi aðeins hitt úr fjórum af þrettán 3ja stiga skotum sínum eða þegar hann hitti aðeins úr fjórum af sjö vítaskotum í leiknum. Kannski bara smá skjálfti í fyrsta leik í úrslitakeppni þar sem þessir piltar eru nú að upplifa það í fyrsta skipti á ferlinum að fara þangað með miklar væntingar.

Curry skoraði kannski 34 stig í leiknum en menn leiksins hjá Dubs voru Andrew Bogut og Draymond Green. Þvílíkir meistarar, varnarmenn og spilarar. Þeir voru með 13/13/6/2/2 meðaltal í leiknum. Það verður ekkert betra. Golden State er búið að ná úr sér hrollinum núna og ætti að bruna í geng um þessa seríu. Meiðsli Tyreke Evans hjá New Orleans hjálpa ekki mikið, en varnarleikur liðsins var mjög oft glæpsamlega lélegur. Þeir eiga eftir að laga það eitthvað, en það var hálf neyðarlegt að sjá þá leyfa Dubs að fá sniðskotaæfingu á körfuna hjá sér hvað eftir annað.

Golden State ræður því algjörlega sjálft hvað þessi rimma endist lengi, en vonandi fáum við að sjá fleiri túrbó-tilþrif frá Brúnari áður en hún klárast.


Chicago lokaði Milwaukee eins búist var við en það sem vakti mesta athygli við þann leik var hvað Derrick Rose spilaði vel. Það eru fallegar fréttir bæði fyrir Bulls og stuðningsmennina. Við höfum gríðarlega mikið að segja um þetta einvígi eins og þið sjáið. Kidd heldur áfram að krúttast með þessa krakka sína og það er fínt fyrir þá að fá að tapa aðeins í úrslitakeppninni áður en þeir verða fullorðnir. Það gerði þjálfarinn þeirra á sínum ferli og það reyndist honum ljómandi vel

Houston varði líka heimavöllinn sinn með nokkuð öruggum sigri á grönnum sínum í Dallas. Fegurðin við þann leik frá bæjardyrum Houston var að liðið skuli hafa unnið sigur þrátt fyrir að Josh Smith hafi tekið fleiri skot en James Harden í leiknum og Corey Brewer tók reyndar jafnmörg skot og Skeggið. Harden lét sér nægja að spila félaga sína uppi það fer honum ljómandi vel.

Ef menn eins og Jason Terry, Josh Smith og Corey Brewer ætla að fara hitta körfuboltum ofan í körfur að staðaldri í þessu einvígi, á Dallas ekki möguleika. Við skulum þó ekki dæma Dallas úr leik strax, það er með allt of reynda leikmenn og klóka þjálfara til að láta pakka sér saman.

Fegurðardísin Chandler Parsons hjá Dallas virðist ekki ætla að geta beitt sér í þessari seríu vegna hnémeiðslanna sem hafa verið að angra hann og það er frekar vont mál fyrir Dallas sem veitir ekki af skotmönnum í þessu.

Eftir fyrsta keppnisdaginn í úrslitakepppninni stendur það líklega upp úr að hafi ekki meiðst nema tveir leikmenn allan daginn. Við óskum Parsons og Evans að sjálfssögðu skjótasta og besta bata sem völ er á. Þeir eru báðir sterkir og mikilvægir liðum sínum.

Þá er bara að sjá hverjir meiðast í næstu kippu af leikjum. Það er svo spennandi að fylgjast með því. Svona eins og að fara yfir lottómiðann sinn á meðan dregið er út í sjónvarpinu.

Cuban tekur Dallas



Saturday, April 18, 2015

Friday, April 17, 2015

Vörutalning að vori: Vesturdeild


Og þá að deildinni sem skiptir máli - Vesturdeildinni. Það er stutt síðan við vorum að væla yfir því að allt væri ómögulegt af því allir væru meiddir og það er að vissu leyti satt, en við sögðum ykkur líka að þetta yrði samt góð úrslitakeppni, af því hún er það alltaf. Alltaf.

Jæja, Golden State Warriors... Pressa?

Golden State (1) - New Orleans (8)

Við skulum byrja á einu áður en lengra er haldið. Golden State vann sextíuogsjö leiki í deildinni í vetur. Það er bara helvíti vel gert og það skiptir alveg máli líka, þó það hjálpi liðinu takmarkað í úrslitakeppninni. Það eina sem það gerir er að tryggja Golden State heimavallarréttinn alla leið ef til þess kemur og það skiptir máli fyrir lið sem tapaði einum heimaleik fyrir Vesturdeildarliði í vetur og það var fyrir meira en fimm mánuðum síðan! Dubs eru með fjandi góðan heimavöll og það er hið besta mál.

Það kom í hlut Brúnars og félaga frá New Orleans að verða fallbyssufóður fyrir Warriors í fyrstu umferðinni. Það er líka hið besta mál, því Oklahoma hefur enn minna í Warriors að gera en New Orleans. Oklahoma hefði getað tapað fimm - núll fyrir Golden State ef það hefði haft betur í innbyrðisviðureignum sínum við New Orleans í vetur.

Leikurinn sem réði úrslitum um hvort liðið náði áttunda sætinu (þau enduðu jöfn í töflunni 45-37)?

Við gefum Brúnari orðið:



Svona er var þetta og er í Vesturdeildinni. Innbyrðisviðureignir skipta máli og einn daginn ertu í öðru sæti og hinn daginn ertu í sjötta sæti - spurðu bara meistarana. Slæmt fyrir þau, gaman fyrir okkur. Hatursmenn og nöldurseggir segja að deildarkeppnin sé allt of löng og að leikirnir skipti engu máli.

Einmitt.

Vörutalning að vori: Austurdeild


Nú er deildakeppninni í NBA lokið og þá verðum við að gera vörutalningu - rita niður hugleiðingu um niðurstöðuna og kíkja kannski aðeins fram á veginn í úrslitakeppninni. Að venju byrjum við í Austurdeildinni af því hún er ekki nema léleg upphitun fyrir deildina sem skiptir máli í vestri.

Eins og við sögðum í haust, verður eitthvað lið að vinna þessa Austurdeild og einhver af þessum liðum verða jú að vinna leiki - en það er líka nær eingöngu af því þau eru að spila við hvort annað. Ef þú stillir rusli upp á móti rusli - er jú ljóst að ruslið tapar.

Við skulum ekki taka það af Atlanta, það vann 60 leiki og það geta ekki öll lið. 

Við gefum Haukunum þetta bein af því þeir unnu fullt af liðum úr Vcsturdeildinni og spiluðu ljómandi vel lengst af í vetur. Við erum samt engu nær því að hafa trú á þessu liði til að gera stóra hluti í úrslitakeppninni og tökum bara á því þegar að því kemur. 

Andstæðingar Atlanta í fyrstu umferð úrslitakeppninnar eru Brooklyn Nets - sorglegasta lið sem við höfum séð komast í úrslitakeppni síðan við byrjuðum að fylgjast með NBA deildinni fyrir nokkrum áratugum. 

Paul Pierce lýsti þessu best í viðtali á dögunum, þar sem hann hraunaði yfir leikmenn liðsins með beinum og óbeinum hætti.  Þetta eru ræflar og gungur á allt of háum launum og vonandi fá þeir að fara í sumarfrí eftir fjóra leiki, því þeir hafa engan áhuga á því að gera eitthvað í úrslitakeppni og hefðu aldrei komist þangað nema af því Austurdeildin er svo mikið drasl að liðið sem var á yfirlýstan hátt að REYNA að tapa í allan vetur, endaði ekki einu sinni í neðsta sæti (vel gert, New York, sem náði að vera sorglegra en Nets og Sixers til samans).

Cleveland endaði í öðru sæti Austurdeildarinnar og vann 53 leiki, sem kannski er þokkalegt á miðað við hvað þetta lið var með brækurnar á hælunum fram að áramótum. Andstæðingar LeBron og félaga er hið unga, áhugasama og vitlausa lið Boston Celtics. 

Þetta Boston-lið á auðvitað ekkert erindi í úrslitakeppnina og ef þú spyrð stjórnina, hefði hún eflaust miklu frekar viljað enda neðar og eiga möguleika á að fá að velja fyrr í nýliðavalinu í sumar. 

Vandamálið við þetta "plan" var hinsvegar að þjálfarinn var allt of góður (alveg eins og í Utah) og því varð árangurinn allt of góður.

En svona að öllu gríni slepptu, er þetta gaman fyrir krakkana í Boston að fá aðeins að finnan lyktina af úrslitakeppninni, þó ekki væri nema til að enda sem fjölskylda af tómatvörum utan í veggjunum í húsi Cleveland. Boston er sannarlega komið með "keeper" í þjálfarastólinn og það er góð byrjun á öllum plönum sem horfa til framtíðar.

Cleveland er einhverra hluta vegna liðið sem Vegas tippar á að vinni titilinn og það þýðir sjálfsagt ekkert að fokka við það. Þeir verða erfiðir þessir kallar, þó körfuboltinn sem þeir spila sé dálítið spes. Hvað sem öðru líður verður áhugavert að sjá hvert föruneyti Kóngsins kemst í fyrstu atrennu. 

Við höfum ekki leyft okkur að hugsa um það, en við þurfum öll að taka sögubækurnar fram og skrifa nýja kafla í þær ef LeBron James tekst ætlunarverkið í sumar. Það... yrði rosalegt.

Toronto og Washingon fá þann vafasama heiður að berjast um hvort þeirra tapar fyrir Atlanta í annari umferð úrslitakeppninnar - og ef þú hefur í huga að við höfum ekkert rosalega mikla trú á Atlanta - veistu að hér eru engin svimandi gæði á ferðinni. 

Það er voðalega gaman fyrir Toronto eða Washington að komast í aðra umferð, en hvorugt þessara liða á skilið að fara þangað. 

Bæði lið eru ofmetin og hefðu líklega ekki komist í úrslitakeppnina ef þau spiluðu í Vesturdeildinni. Það er alveg sama hvernig þú horfir á þetta einvígi - það er öllum skítsama hvernig það fer.

Loks er það Chicago sem mætir Milwaukee. Það er ekkert útilokað að við fáum tvo eða þrjá leiki í þessari seríu sem fara 56-48. Þetta verður svartidauði út í gegn en Chicago vinnur þetta örugglega, þó við höfum enga trú á Bulls. Við erum búin að gefa það lið upp á bátinn fyrir löngu, það er ekki að fara að gera neitt, stjarna þess er búin að vera og þjálfarinn er að fara frá félaginu í sumar. Vei.

Þarna hafið þið það. Fyrsta umferðin í austrinu verður sem sagt hömlulaus skemmtun, svona dálítið eins og kvikmyndin Eldfjall.


Smári í Smáralind 2



Nýtt hlaðvarp


Í 38. þætti Hlaðvarps NBA Ísland ræða Baldur Beck og Kjartan Atli Kjartansson stöðu mála í úrslitakeppni Domino´s deildar karla og spá svo í spilin fyrir úrslitakeppnina í NBA deildinni sem hefst á laugardagskvöldið.

Þáttinn geturðu nálgast á Hlaðvarpssíðunni.

Tuesday, April 14, 2015

Spuran Spuran


Gríðarleg eftirvænting hefur ríkt í herbúðum San Antonio Spurs að undanförnu og ekki bara af því úrslitakeppnin byrjar um helgina. Nei, nú er búið að frumsýna Spuran Spuran gjörninginn sem Matt Bonner og félagar settu saman í flippi. Það væri kjánaskapur að ætla eitthvað að fara að útskýra þetta myndband. Horfðu bara á það. Segið svo að San Antonio sé leiðinlegt lið.

Innri element undanúrslitanna



Tvífarar vikunnar



Gleym mér ei


Enn eru allir á kafi í að finna út hver er leikmaður ársins í NBA deildinni, þó við séum löngu búin að segja ykkur það. Það verður gaman fyrir Warriors-manninn Stephen Curry að hljóta þessa viðurkenningu og vonandi nær hann að fylgja henni eftir í úrslitakeppninni. Alltaf smá pressa að gera það - lenda ekki í því að Dirk-a (dörka)*

Keppnin um þennan eftirsótta titil hefur ekki verið harðari í nokkuð langan tíma, en 90% fjölmiðlamanna og Twitter-notenda er réttilega á því að keppnin standi á milli þeirra Curry og James Harden hjá Houston. En svo eru alltaf þessi tíu prósent. Hvað er að frétta af þeim?

Jú, einn ljómandi hress fjölmiðlamaður er þegar búinn að lýsa því yfir að hann ætli sér að kjósa LeBron James Verðmætasta leikmann ársins í NBA deildinni, ekki einhverjar bakvarðadruslur úr Vesturdeildinni! 

Nú vitum við ekki hvort þessi ágæti maður er kolgeðveikur eða bara svona lífshættulega athyglissjúkur, en honum hefur í það minnsta tekist að hræra vel og rækilega upp í NBA-samfélaginu með þessum stutta pistli sínum. Eitthvað verður smellt á hann næstu daga.

Foreldrar okkar kenndu okkur öllum að við ættum að virða skoðanir annara, jafnvel þó þeir væru hálfvitar. 

En þó við séum engan vegin sammála því að LeBron James sé leikmaður ársins, bendir greinarhöfundur á nokkuð skemmtilegar staðreyndir sem við eigum öll til að gleyma.

Við megum ekki gleyma því að að LeBron James er ennþá besti körfuboltamaður í heimi, þó hann sé feti á eftir mönnum eins og Curry og Harden í vetur.

Og þá fórum við aðeins að hugsa. Svona fyrir utan allt þetta MVP-mjálm núna, hafið þið leitt hugann að því nýlega hvað LeBron James er búinn að vera öflugur leikmaður undanfarinn áratug?

Án þess að hafa um það allt of mörg orð, límdum við saman tvær töflur sem sýna árangur Cleveland Cavaliers og Miami Heat fyrir, á meðan og eftir að James spilaði með þeim. Við gerum okkur grein fyrir því að það komu fleiri menn að uppsveiflu bæði Cleveland og Miami en LeBron James, en það gefur augaleið að hann er langstærsta breytan í báðum dæmum.

Hvernig Cleveland fer frá því að vera brandari yfir í að komast í úrslitakeppnina og á endanum í lokaúrslit, hvernig Miami varð strax 1-2 besta lið deildarinnar þegar hann fór þangað og hvernig endurkoma hans til Cleveland hefur skotið liðinu aftur á toppinn eftir að það var lélegasta lið NBA deildarinnar árin sem hann var hjá Miami.

Aðeins sögulega góðir leikmenn hafa önnur eins áhrif á valdajafnvægið í deildinni. Kíktu bara á samsettu myndina hérna fyrir neðan. Rauði tússinn þýðir að LeBron James hafi spilað með liðinu það árið. Munurinn á milli ára er lygilegur og það er enn að koma í ljós hvað drengurinn er öflugur leikmaður.

Nei, James er kannski ekki leikmaður ársins að þessu sinni, en það er alveg rétt sem áðurnefndur fjölmiðlamaður sagði: Það er ekki á allra færi að rífa heila borg upp á rassgatinu með því að spila körfubolta, en það hefur LeBron James náð að gera í Cleveland. Aftur.














* - Það er ljótt að gera svona, en eitthvað verðum við að kalla dílemmuna sem fylgir því að taka við MVP-styttunni þegar þú ert búinn að láta liðið í 8. sæti henda þér út úr úrslitakeppninni í fyrstu umferð. Hér er vísað í hina óþægilegu reynslu Dirk Nowitzki árið 2007, þegar 67 sigra Dallas-liðið hans féll úr keppni fyrir Golden State í 1. umferð úrslitakeppninnar.

Sunday, April 5, 2015

Gleðilega Páska



NBA Ísland útnefnir leikmann ársins


Nú viljið þið náttúrulega vita hver verður valinn verðmætasti leikmaður deildarkeppninnar í NBA, það er skiljanlegt. Allt fjaðrafokið í kring um MVP kapphlaupið í vetur hefur líklega gert það að verkum að þið vitið ekki hvort þið eruð að koma eða fara í þessu sambandi.

En sem betur fer hafið þið alltaf NBA Ísland til að leiða ykkur í sannleikann ef hlutirnir eru orðnir of flóknir og við skulum leiða ykkur í sannleikann um þetta allt saman. Þegar Mest Verðmæti Pilturinn hefur verið valinn undanfarin ár, hefur verið farið eftir ákveðinni kríteríu eins og við höfum áður sagt ykkur. Oftast er hægt að sjá fyrir hver hreppir hnossið og við teljum okkur gera það núna líka, þó kapphlaupið í ár hafi verið eitt það áhugaverðasta í mörg ár.

Við höfum eitthvað komið inn á þessa umræðu í pistlum í vetur og þá - rétt eins og nú - var MVP kapphlaupið svo hart að við ákváðum að stofna okkar eigin undirflokka til að hægt væri að skipta nafnbótinni á milli þeirra sem gerðu tilkall til hennar. Rosalega árangursrík leið til að koma sér hjá því að taka erfiða ákvörðun, þið verðið að gefa okkur það. Nú eða ekki.

En nú er ekkert elsku amma lengur. Nú skulum við veita ykkur hugarró með því að segja ykkur hver verður kjörinn MVP, hver ætti raunverulega að vera kjörinn MVP og af hverju nokkrir frábærir leikmenn verða ekki kjörnir MVP. Kandídatarnir í ár skiptast í þrjá flokka of það vill svo skemmtilega til að það eru tveir menn í hverjum flokki. Við skulum hefja leik í þriðja flokknum.

3. flokkur

Þar eru menn sem hafa vakið verðskuldaða athygli fyrir góðan leik í vetur. Þetta eru oftar en ekki menn sem hafa tekið t.d. nokkurra vikna rispu þar sem þeir voru framúrskarandi, en urðu svo mannlegir á ný.

Ástæðan fyrir því að menn ná ekki ofar en í þriðja flokk getur verið sú að þeir hafi misst umtalsvert marga leiki úr vegna meiðsla eða að liðið þeirra hafi ekki unnið nógu marga leiki - jafnvel misst af úrslitakeppninni. Þú verður að komast í úrslitakeppnina ef þú ætlar að verða MVP og þumalputtareglan segir okkur að ef þú ert ekki nógu góður til að draga liðið þitt í úrslitakeppnina - þá segir sig sjálft að þú ert ekkert MVP.

Og í þennan flokk fara tveir herramenn í ár. Sá fyrri á vafalítið eftir að verða fastagestur á þessum lista næsta áratuginn eða svo, en það er hann Brúnar vinur okkar - Anthony Davis hjá New Orleans.

Tölfræðin sem drengurinn er búinn að vera að bjóða upp á í vetur er eitthvað sem hefur ekki sést oft í sögu deildarinnar og síðast þegar við gáðum var hann að hóta því að setja met í PER-vísitölunni.

Davis er að bjóða upp á 25 stig, 10 fráköst og 3 varin skot að meðaltali í leik í vetur og er alltaf að verða fjölhæfari og hættulegri á báðum endum vallarins á milli þess sem hann málar tölfræðiskýrslur.

Það sem vinnur gegn Davis og hindrar hann frá því að fara hærra á listanum er staða New Orleans í töflunni og leikirnir sem hann er búinn að missa úr vegna meiðsla í vetur. Ef Brúnar klárar þessa sex leiki sem liðið á eftir, kemur hann til með að spila 67 leiki í deildarkeppninni eins og í fyrra.

Það er fjandi hart að segja að liðið hans vanti sigra svo hann komist hærra á MVP-listanum, því Skarfarnir hafa jú unnið 41 leik og tryggt sér 50% vinningshlutfall. Gallinn er að það er tæplega nóg til að skila liðinu í úrslitakeppnina og aumingja Brúnar fær að gjalda fyrir það.