Tuesday, April 14, 2015

Gleym mér ei


Enn eru allir á kafi í að finna út hver er leikmaður ársins í NBA deildinni, þó við séum löngu búin að segja ykkur það. Það verður gaman fyrir Warriors-manninn Stephen Curry að hljóta þessa viðurkenningu og vonandi nær hann að fylgja henni eftir í úrslitakeppninni. Alltaf smá pressa að gera það - lenda ekki í því að Dirk-a (dörka)*

Keppnin um þennan eftirsótta titil hefur ekki verið harðari í nokkuð langan tíma, en 90% fjölmiðlamanna og Twitter-notenda er réttilega á því að keppnin standi á milli þeirra Curry og James Harden hjá Houston. En svo eru alltaf þessi tíu prósent. Hvað er að frétta af þeim?

Jú, einn ljómandi hress fjölmiðlamaður er þegar búinn að lýsa því yfir að hann ætli sér að kjósa LeBron James Verðmætasta leikmann ársins í NBA deildinni, ekki einhverjar bakvarðadruslur úr Vesturdeildinni! 

Nú vitum við ekki hvort þessi ágæti maður er kolgeðveikur eða bara svona lífshættulega athyglissjúkur, en honum hefur í það minnsta tekist að hræra vel og rækilega upp í NBA-samfélaginu með þessum stutta pistli sínum. Eitthvað verður smellt á hann næstu daga.

Foreldrar okkar kenndu okkur öllum að við ættum að virða skoðanir annara, jafnvel þó þeir væru hálfvitar. 

En þó við séum engan vegin sammála því að LeBron James sé leikmaður ársins, bendir greinarhöfundur á nokkuð skemmtilegar staðreyndir sem við eigum öll til að gleyma.

Við megum ekki gleyma því að að LeBron James er ennþá besti körfuboltamaður í heimi, þó hann sé feti á eftir mönnum eins og Curry og Harden í vetur.

Og þá fórum við aðeins að hugsa. Svona fyrir utan allt þetta MVP-mjálm núna, hafið þið leitt hugann að því nýlega hvað LeBron James er búinn að vera öflugur leikmaður undanfarinn áratug?

Án þess að hafa um það allt of mörg orð, límdum við saman tvær töflur sem sýna árangur Cleveland Cavaliers og Miami Heat fyrir, á meðan og eftir að James spilaði með þeim. Við gerum okkur grein fyrir því að það komu fleiri menn að uppsveiflu bæði Cleveland og Miami en LeBron James, en það gefur augaleið að hann er langstærsta breytan í báðum dæmum.

Hvernig Cleveland fer frá því að vera brandari yfir í að komast í úrslitakeppnina og á endanum í lokaúrslit, hvernig Miami varð strax 1-2 besta lið deildarinnar þegar hann fór þangað og hvernig endurkoma hans til Cleveland hefur skotið liðinu aftur á toppinn eftir að það var lélegasta lið NBA deildarinnar árin sem hann var hjá Miami.

Aðeins sögulega góðir leikmenn hafa önnur eins áhrif á valdajafnvægið í deildinni. Kíktu bara á samsettu myndina hérna fyrir neðan. Rauði tússinn þýðir að LeBron James hafi spilað með liðinu það árið. Munurinn á milli ára er lygilegur og það er enn að koma í ljós hvað drengurinn er öflugur leikmaður.

Nei, James er kannski ekki leikmaður ársins að þessu sinni, en það er alveg rétt sem áðurnefndur fjölmiðlamaður sagði: Það er ekki á allra færi að rífa heila borg upp á rassgatinu með því að spila körfubolta, en það hefur LeBron James náð að gera í Cleveland. Aftur.














* - Það er ljótt að gera svona, en eitthvað verðum við að kalla dílemmuna sem fylgir því að taka við MVP-styttunni þegar þú ert búinn að láta liðið í 8. sæti henda þér út úr úrslitakeppninni í fyrstu umferð. Hér er vísað í hina óþægilegu reynslu Dirk Nowitzki árið 2007, þegar 67 sigra Dallas-liðið hans féll úr keppni fyrir Golden State í 1. umferð úrslitakeppninnar.