Sunday, April 5, 2015

NBA Ísland útnefnir leikmann ársins


Nú viljið þið náttúrulega vita hver verður valinn verðmætasti leikmaður deildarkeppninnar í NBA, það er skiljanlegt. Allt fjaðrafokið í kring um MVP kapphlaupið í vetur hefur líklega gert það að verkum að þið vitið ekki hvort þið eruð að koma eða fara í þessu sambandi.

En sem betur fer hafið þið alltaf NBA Ísland til að leiða ykkur í sannleikann ef hlutirnir eru orðnir of flóknir og við skulum leiða ykkur í sannleikann um þetta allt saman. Þegar Mest Verðmæti Pilturinn hefur verið valinn undanfarin ár, hefur verið farið eftir ákveðinni kríteríu eins og við höfum áður sagt ykkur. Oftast er hægt að sjá fyrir hver hreppir hnossið og við teljum okkur gera það núna líka, þó kapphlaupið í ár hafi verið eitt það áhugaverðasta í mörg ár.

Við höfum eitthvað komið inn á þessa umræðu í pistlum í vetur og þá - rétt eins og nú - var MVP kapphlaupið svo hart að við ákváðum að stofna okkar eigin undirflokka til að hægt væri að skipta nafnbótinni á milli þeirra sem gerðu tilkall til hennar. Rosalega árangursrík leið til að koma sér hjá því að taka erfiða ákvörðun, þið verðið að gefa okkur það. Nú eða ekki.

En nú er ekkert elsku amma lengur. Nú skulum við veita ykkur hugarró með því að segja ykkur hver verður kjörinn MVP, hver ætti raunverulega að vera kjörinn MVP og af hverju nokkrir frábærir leikmenn verða ekki kjörnir MVP. Kandídatarnir í ár skiptast í þrjá flokka of það vill svo skemmtilega til að það eru tveir menn í hverjum flokki. Við skulum hefja leik í þriðja flokknum.

3. flokkur

Þar eru menn sem hafa vakið verðskuldaða athygli fyrir góðan leik í vetur. Þetta eru oftar en ekki menn sem hafa tekið t.d. nokkurra vikna rispu þar sem þeir voru framúrskarandi, en urðu svo mannlegir á ný.

Ástæðan fyrir því að menn ná ekki ofar en í þriðja flokk getur verið sú að þeir hafi misst umtalsvert marga leiki úr vegna meiðsla eða að liðið þeirra hafi ekki unnið nógu marga leiki - jafnvel misst af úrslitakeppninni. Þú verður að komast í úrslitakeppnina ef þú ætlar að verða MVP og þumalputtareglan segir okkur að ef þú ert ekki nógu góður til að draga liðið þitt í úrslitakeppnina - þá segir sig sjálft að þú ert ekkert MVP.

Og í þennan flokk fara tveir herramenn í ár. Sá fyrri á vafalítið eftir að verða fastagestur á þessum lista næsta áratuginn eða svo, en það er hann Brúnar vinur okkar - Anthony Davis hjá New Orleans.

Tölfræðin sem drengurinn er búinn að vera að bjóða upp á í vetur er eitthvað sem hefur ekki sést oft í sögu deildarinnar og síðast þegar við gáðum var hann að hóta því að setja met í PER-vísitölunni.

Davis er að bjóða upp á 25 stig, 10 fráköst og 3 varin skot að meðaltali í leik í vetur og er alltaf að verða fjölhæfari og hættulegri á báðum endum vallarins á milli þess sem hann málar tölfræðiskýrslur.

Það sem vinnur gegn Davis og hindrar hann frá því að fara hærra á listanum er staða New Orleans í töflunni og leikirnir sem hann er búinn að missa úr vegna meiðsla í vetur. Ef Brúnar klárar þessa sex leiki sem liðið á eftir, kemur hann til með að spila 67 leiki í deildarkeppninni eins og í fyrra.

Það er fjandi hart að segja að liðið hans vanti sigra svo hann komist hærra á MVP-listanum, því Skarfarnir hafa jú unnið 41 leik og tryggt sér 50% vinningshlutfall. Gallinn er að það er tæplega nóg til að skila liðinu í úrslitakeppnina og aumingja Brúnar fær að gjalda fyrir það.

Seinni herramaðurinn í þriðja flokknum kemur mörgum ykkar eflaust á óvart, en það er stórvinur ritstjórnarinnar Russell Westbrook.

Með því að setja Russ í þennan flokk erum við nefnilega að setja einn af uppáhaldsleikmönnunum okkar neðar á listann okkar heldur en hann á eftir að verða hjá mörgum fjölmiðlamanninum í vor. Við verðum að segja að það kemur okkur vægast sagt á óvart hve margir pennar hafa hoppað um borð í Russvagninn í vetur, en þó við séum fólkið sem stofnaði aðdáendaklúbb Westbrook, erum við ekki blind á spilamennskuna hans.

Það er rétt að Russ er búinn að drattast um með Oklahoma í fjarveru Kevin Durant í vetur og maðurinn er búinn að bjóða upp á tölfræði sem hefur ekki sést í deildinni í áratugi.

En eins og við erum hrifin af klámfengnum tölfræðiskýrslum, duga þær ekki einar og sér til að koma mönnum á toppinn.

Westbrook er nefnilega að glíma við mjög svipað vandamál og hann Brúnar. Hann er búinn að vera hrikalegur lengst af í vetur og sóðalegur í tölfræðinni, en hann er bæði búinn að missa úr slatta af leikjum vegna meiðsla og svo er ekki einu sinni víst hvort Oklahoma kemst í úrslitakeppnina.

Annað sem skemmir dálítið fyrir Westbrook er hvað hann hefur verið í miklum vandræðum í undanförnum leikjum, en hann er hvað eftir annað að falla í sömu gömlu gryfjuna að ætla sér að gera allt sjálfur. Hann er að skjóta allt of mikið, missa of marga bolta og taka allt of mikla sénsa í varnarleiknum.

Það má vel vera að Russ eigi aldrei eftir að laga þessa hluti og vonandi þarf hann ekki að gera það - vonandi á Kevin Durant eftir að spila með honum á næstu tímabilum svo hann þurfi ekki að taka svona æðisköst. En hvort sem hann lagar leikstíl sinn eða ekki, verður hann alltaf ofarlega á vinsældalistanum okkar. Og kannski ættum við bara að grjóthalda kjafti og leyfa Russ að vera Russ. Hann er skemmtilegastur þannig.

2. flokkur

Í miðflokknum eru tveir leikmenn sem margir hafa sett á toppinn á sínum listum, enda er alveg óþarfi að allir séu sammála um þetta kjör. Þessir tveir sitja í silfursætinu af því að þó þeir séu búnir að spila eins og englar lengst af í vetur, vantar eitthvað örlítið upp á svo þeir komi 100% til greina sem MVP.

Það er engin tilviljun að LeBron James sé að lenda í þessu hólfi, því tímabilið hjá honum er búið að vera eins og það hafi verið smíðað eftir kríteríunni sem setur menn í 2. flokkinn. James er vanastur því að vera á toppnum í þessu vali, en það eru þrjú atriði sem verða þess valdandi að það hafðist ekki að þessu sinni.

Fyrsta atriðið er hálfsmánaðar sólarlandaferðin hans niður til Miami, sem hann notaði til að hugleiða og glíma við meiðsli sem voru að angra hann. Eftir þessa hressingu byrjaði James aftur að spila eins og James og hefur verið á MVP-leveli síðan.

Annað atriðið sem vinnur gegn honum er hann sjálfur. Maður eins og LeBron James sem hefur verið útnefndur MVP margoft og er búinn að vera með kolbrjálaða tölfræði allan sinn feril, missir sjálfkrafa nokkur atkvæði ef hann slakar aðeins á í tölfræðinni - jafnvel þó umrædd tölfræði sé á fárra færi.

Þriðja atriðið er svo öll þessi töp hjá Cleveland, en liðið er ekki með nema áttunda besta árangurinn í deildinni og kemur ekki til með að gera mikið meira en að skríða yfir 50 sigrana. Það er alls ekki ósanngjörn krafa að ætla Cleveland fleiri sigra í vetur (til að LeBron geti komið til greina sem MVP) af því það er að spila í Austurdeildinni, þar sem það mætir reglulega liðum sem eru álíka sterk í körfubolta og unglingalandslið Grænlendinga í bridge.

Félagsskapur LeBron James í 2. flokknum er ekki beint þekktur fyrir hressleika, en þar er á ferðinni sjálfur Chris Paul, leikstjórnandi Los Angeles Clippers.

Það er ekkert nýtt að Chris Paul sé í hópi þeirra sem eru að spila best í NBA deildinni og það er svo sem ekkert nýtt að öskra á okkur í tölfræðinni hans.

Það sem vakti helst athygli okkar varðandi Paul í vetur var hvað honum tókst listavel til þegar hann stoppaði upp í gatið sem Blake Griffin skildi eftir sig þegar hann fór í olnbogauppskurðinn um daginn. Clippersliðið blikkaði ekki auga á meðan og hélt bara áfram að vinna, með Paul og Jordan í fararbroddi.

Chris Paul er hreint út sagt hrikalegur leikmaður þegar hann spilar á fullu gasi og vonandi fyrir hann næt hann að þjösna sér eitthvað lengra í úrslitakeppninni en áður.

Það er sem sagt hægt að tékka í flest box þegar CP3 er annars vegar. Hann er að skila í kring um 20/10 og er meira að segja glettilega nálægt því að ná 50/40/90 tímabili í ofanálag. Tölfræðin fyrir lengra komna er líka afar hrifin af Chris Paul og hann fer fyrir liði sem er með fimmta besta árangurinn í deildinni.

Mörg ykkar spyrja sig eflaust af hverju þetta sé ekki nóg til að koma Paul í fyrsta flokkinn. Við skiljum það mætavel, því það er í rauninni ekki hægt að setja út á neitt hjá honum. Ástæðan fyrir því að hann er í öðrum flokki en ekki fyrsta, er að tvímenningarnir í fyrsta flokknum eru bara búnir að spila á öðru leveli en aðrir leikmenn í allan vetur.

1. flokkur

Þið eruð væntanlega búin að átta ykkur á því að það eru Stephen Curry og James Harden sem sitja á toppnum í 1. flokknum og helsti munurinn á þeim og hinum flokkunum er sá að í leikmennirnir í fyrsta flokki eru ekki bara búnir að vera góðir í allan vetur, heldur framúrskarandi

Þessir tveir leikmenn eru búnir að spila svo rosalega í vetur að sá þeirra sem hafnar í öðru sæti í kjörinu hefði auðveldlega getað hirt efsta sætið á þessum lista á meðalári.

Þeir Curry og Harden eiga það sameiginlegt að vera framúrskarandi sóknarmenn sem þjálfarar andstæðinganna þurfa alltaf að bregðast sérstaklega við ef þeir ætla ekki að fá 40 stig í grillið. En þarna eru nú líkindi þeirra tveggja að mestu upptalin og því er dálítið gaman að velta upp ólíkri aðferðafræði þeirra.

Curry og Harden eru með óhemju fallega tölfræði sem hjálpar þeim í MVP-kapphlaupinu. Harden er á flestum tilvikum með hærri tölfræði en það er mikið til út af því að hann spilar fleiri mínútur en Curry. Stóri munurinn á strákunum liggur í styrk meðspilara þeirra og þar er atriði sem á eftir að ráða úrslitum hjá mörgum þegar kjósa á MVP.

Á meðan Curry er aðeins að spila innan við 33 mínútur í leik og hefur fengið að hvíla aragrúa af fjórðu leikhlutum í vetur þegar Golden State var að jarða mótherja sína, hefur Harden að heita má borið Houston á herðum sér.

Harden er ekki með neinn splass-bróður eða fyrrum stjörnuleikmenn á varamannabekknum, hann hefur sjálfur tekið að sér að sjá um að draga Rockets-vagninn og það er í raun ótrúlegt hvað hann hefur náð að draga hann langt í ljósi allra meiðslanna sem dunið hafa á liðinu.

Eitt þýðingarmesta atriðið í MVP-kjörinu í ár verður sem sagt að meta það hvort vegur þyngra, að draga vagninn, sulla upp tölfræði og ná að klára nokkra æsispennandi leiki þar sem úrslitin ráðast á ögurstundu - eða að gera eins og Curry, spila færri mínútur, vinna miklu fleiri leiki, vera ökónómískari, vinna af sér fjölda 4. leikhluta og vera skrefinu á undan í flestum þáttum tölfræði fyrir lengra komna.

En við lofuðum ykkur víst að segja ykkur hver verður MVP og nú er best að standa við það. Það verður Stephen Curry sem hlýtur þessa eftirsóttu nafnbót í ár. Það er mesta synd að annar þeirra sé ekki að fara að fá þessi verðlaun, því báðir ættu þau sannarlega skilið. En það eru tvö atriði sem tryggja Curry heiðurinn. Annars vegar að hann er besti leikmaður liðsins sem er búið að vinna langflesta leiki í deildinni og hinsvegar vegna þess að það meikar bara ekki nokkurn einasta sens að verði gengið framhjá Curry.

Hvernig ættu fjölmiðlamenn að geta horft framan í sig í spegli aftur ef þeir myndu sleppa því að kjósa besta leikmann efsta liðsins í deildinni - liðsins sem er að leggja lokahönd á tímabil sem fer í sögubækurnar á hinum ýmsu sviðum tölfræðinnar?

Þið sjáið að það gengi ekkert upp.

Við hefðum ekkert á móti því að gefa Harden fullt af atkvæðum en eftir margra vikna vangaveltur erum við að hugsa um að fylgja pennunum vestanhafs eftir og segja að Curry sé líka hinn raunverulegi leikmaður ársins.

Það er til haugur af rökum fyrir því að velja Harden og þau eru öll góð og gild, en það verður ekki Houston sem kemur fyrst upp í hugann þegar fólk fer að rifja leiktíðina 2015 upp eftir nokkur ár. Það man kannski eftir Harden, en það sem stendur upp úr er þessi frábæri árangur sem Golden State náði á fyrsta ári Steve Kerr sem þjálfara.

Svo er bara að sjá hvort sá þeirra sem hreppir hnossið á eftir að láta kjörnefndina líta illa út með því að detta svo út úr úrslitakeppninni í fyrstu umferð eins og aumingja Dirk árið 2007. Það þarf að minnsta kosti eitthvað stórkostlega skrítið að gerast ef Warriors-liðið fer ekki amk í aðra umferð, þó svo að enginn geti spáð fyrir um það hvort Golden State heldur uppteknum hætti í úrslitakeppninni og heldur áfram að valta yfir allt og alla.

Og ef það fer þannig, er ljóst að Stephen Curry verður þar fremstur í flokki.