Saturday, April 4, 2015

Veturinn hjá Warriors er þegar orðinn


Margir vilja meina að Atlanta hafi flogið undir radarinn hjá mönnum í vetur þrátt fyrir ljómandi gott gengi. Það er ekki allskostar rétt, því Atlanta hefur fengið hellings umfjöllun í vetur. Málið er bara að það tekur enginn Atlanta alvarlega af því það er Atlanta, eins og fram kom í síðasta pistli.

En þegar við fórum að hugsa málið í dag, komumst við að raun um að það er annað lið í NBA deildinni sem hefur í rauninni farið mjög hljóðlega þrátt fyrir að vera talsvert í fréttunum. Þið haldið kannski að við séum búin að missa það þegar við segjum ykkur að Golden State sé búið að "fara framhjá mönnum" en það er nú samt staðreynd.

Við vitum öll að Golden State hefur verið mikið í fjölmiðlum í vetur, einna helst af því það er búið að vera í efsta sæti deildarinnar nær óslitið síðan í haust. En hvernig getur það þá verið að fljúga undir radarinn, spyrðu þá eðlilega?

Jú, eins og við komum inn á í einhverjum pistlinum hérna um daginn, er nefnilega svo komið að Golden State þarf að fara að passa sig ef það ætlar ekki að komast í sögubækurnar.

Við erum kannski öll búin að vanmeta góðan árangur Atlanta í vetur, en hugsið ykkur bara hvað gerist nú ef Golden State vinnur meistaratitilinn í júní.

Þá vakna ansi mörg okkar (nema þau hafi lesið þennan pistil, auðvitað) upp við það að við höfum orðið vitni að einu magnaðasta tímabili sem lið hefur átt í sögu NBA deildarinnar án þess að fatta það!

Og við þurfum meira að segja ekkert að fara fram úr okkur og velta okkur upp úr því hvað gerist í úrslitakeppninni til að verða vitni að einhverju sögulegu.

Sennilega er alveg nóg fyrir okkur að fylgjast bara með því hvað gerist í síðustu deildarleikjunum hjá Warriors.

Þegar hér er komið við sögu, er Golden State nefnilega búið að vinna 62 leiki í vetur, en á samt heila sjö leiki eftir og getur því með smá heppni komið sér á blað sem eitt besta lið deildarkeppninnar frá upphafi.

Nú má vel vera að það skipti fjandakornið engu máli hvort lið vinnur 62 eða 65 leiki í deildarkeppninni ef það bara nær heimavallarréttinum í úrslitakeppninni, en Golden State heldur samt áfram að vinna og vinna þó það hafi í sjálfu sér að engu að keppa af því það er nánast búið að tryggja sér heimavallarréttinn út alla úrslitakeppnina sama hvað raular eða tautar.

Warriors-menn eiga reyndar drullu erfitt prógramm eftir, en það er gaman að skoða hvað liðið á möguleika á að komast hátt á listann yfir flesta sigra í sögunni - ekki síst af því megnið af liðunum sem hafa unnið um og yfir 65 deildarleiki hafa endað tímabilið á því að vinna meistaratitilinn.

Það er ekki óalgengt að lið sem vinna svona marga leiki séu framarlega á mörgum sviðum tölfræðinnar, en Golden State er í nokkrum sérflokki hvað þetta varðar, því liðið er við eða á toppnum í deildinni í nánast allri tölfræði í bæði vörn og sókn.

Þetta er sannarlega ekki algengt og því er ekki nema von að margir hallist að því að Golden State eigi eftir að vinna meistaratitilinn í sumar - Golden State er einfaldlega langbesta lið NBA deildarinnar og er búið að vera í allan vetur.

Við eigum að sjálfssögðu eftir að sjá hvernig liðinu á eftir að vegna í úrslitakeppninni og reynslan hefur sýnt okkur að þegar allt er talið, skiptir engu máli hvort þú vinnur 40 leiki eða 60 leiki í deildarkeppninni - þú getur alveg látið henda þér út úr úrslitakeppninni ef sá gállinn er á þér.

Það geta lið eins og 67-sigra Dallas-liðið frá árinu 2007 staðfest, enda lét það henda sér út í fyrstu umferð eins og frægt varð - og það af Golden State af öllum liðum.

Golden State er búið að vera á rosalegu skriði undanfarnar vikur og er búið að vinna 17 af 18 síðustu leikjum sínum.

Ef við stillum væntingum í hóf og gefum okkur að liðið vinni bara fjóra af þeim sjö leikjum sem það á eftir (Steve Kerr mun væntanlega nota tækifærið og hvíla eitthvað af lykilmönnum sínum í síðustu leikjunum), er samt ljóst að árangur þess verður samt það góður að hann geti talist sögulegur.

Ef Warriors klárar 4-3, þýðir það að liðið lýkur keppni í vetur með 66 sigra og það er nokkuð sem aðeins þrettán liðum í sögunni hefur tekist að afreka - og Golden State er sannarlega ekki eitt þeirra.

Af þessum þrettán liðum sem hafa unnið 66 leiki eða meira, hafa hvorki meira né minna en tíu þeirra klárað tímabilið með því að vinna meistaratitilinn, sem hlýtur að lofa góðu fyrir Warriors. Auðvitað vinnur ekkert lið titla á sögunni einni saman, en þið áttið ykkur á því hvað við erum að fara.

Liðin þrjú sem náðu ekki að klára titilinn eftir að hafa unnið 66 leiki eða fleiri eru áðurnefnt Dallas-lið frá 2007 (67 sigrar),  Cleveland frá árinu 2009 (66 sigrar) og Boston frá árinu 1973 (68 sigrar). Aðeins Boston-liðið gat notað meiðsli sem afsökun (John Havlicek meiddist í einvígi Celtics og Knicks um Austurdeildina) en hin tvo gerðu einfaldlega í brækurnar.

Þegar allt þetta er haft í huga, er ljóst að það eru góðar líkur á því að lið Golden State Warriors árið 2015 eigi eftir að koma sér í sögubækurnar með meiri eða minni hætti, jafnvel óháð því hvað gerist í úrslitakeppninni.

Ekki slæmt fyrir klúbb sem hefur tvisvar komist upp úr fyrstu umferð úrslitakeppninnar á síðasta aldarfjórðungi - og strangt til tekið ekki getað rassgat í fjörutíu ár.

NBA deildin er að ganga í gegn um miklar breytingar síðustu ár. Reglubreytingar og tískubylgjur gera það að verkum að leikstíll flestra liðanna í deildinni er orðinn mjög frábrugðinn því sem áður var. Leikstíllinn í dag er ólíkur því sem tíðkaðist fyrir tíu árum síðan og ef við spólum aldarfjórðung aftur í tímann, er stundum eins og sé hreinlega um annað sport að ræða.

Liðin í NBA deildinni eru mjög mislangt á veg kominn með að bregðast við öllum þessum breytingum, en fá - ef einhver - hafa vígbúist eins vel og Golden State, sem er á margan hátt skólabókadæmi um nýaldarkörfuboltann í NBA deildinni.

Þá er bara að sjá hvort Warriors tekst að stimpla þessi stílbrögð inn í sögubækur með því að vinna meistaratitil með þeim.

San Antonio vann titilinn með svipaðri heimsspeki í fyrra, en þó leikaðferðir og styrkur þessara tveggja liða sér kannski áþekkur, er Golden State að bjóða upp á eitthvað alveg nýtt.

Aldrei áður í sögu NBA hefur verið sett saman lið með öðrum eins skyttum í bakvarðarstöðunum. Þetta er leiftrandi leikstíll sem ætti að geta orðið árangurslíkur um leið þar sem hann er bakkaður upp með breidd, góðri boltahreyfingu, óeigingirni og massífum og fjölhæfum varnarleik.

Við skulum bara orða það þannig að ekki myndum við gráta þó Golden State næði að vinna meistaratitilinn, enda er stakur sómi af þessu liði frá toppi til táar.