Friday, April 3, 2015

Eru meiðsli búin að eyðileggja leiktíðina í NBA?


Þessi pistill er búinn að vera nokkuð lengi á leiðinni, en nú kominn tími á hann, jafnvel þó innihaldið sé niðurdrepandi. Það er ekki nema við hæfi á föstudaginn langa að skrifa óguðlega langan og neikvæðan pistil. Við þurfum nefnilega að horfast í augu við ákveðnar staðreyndir varðandi NBA deildina okkar núna og úr því við forðumst hræsni eins og við getum, er ekki annað en að hjóla í þetta.

Það er eins með NBA deildina og aðra hluti í lífinu - þú ræður því hvort þú tekur á þeim með glasið hálffullt eða hálftómt. Þið sem lesið NBA Ísland að staðaldri vitið að það er stundum helvíti lítið í glasinu hjá okkur, en í það er afsakanlegt í þessu tilviki. Stundum verður fólk bara að fá að hafa allt á hornum sér í smá tíma og það erum við að gera núna. Og ef glasið er hálftómt eins og við þessar aðstæður, er ekki hægt að orða þetta öðru vísi en svona:

Leiktíðin í NBA er faktískt séð dálítið ónýt.

Fólkið með hálffullu glösin hlær að svona bölsýni, en neitar um leið að horfast í augu við raunveruleikann. O.k. tímabilið er auðvitað ekki algjörlega ónýtt, en atburðarás síðustu vikna tryggir að það verður ekki nærri eins gott og vonir stóðu til um. Við vorum búin að tala um það í allan vetur hvað Vesturdeildin væri rosaleg og hvað úrslitakeppnin þeim megin ætti eftir að verða sögulega góð með sögulega góðum liðum, en eins og staðan er núna, verður hún það hreint ekki.

Ekki misskilja, úrslitakeppnin verður góð - úrslitakeppni NBA er ALLTAF góð (pizza er pizza), hún bara verður ekki eins epísk og við vorum öll að vona.

Og ástæðan er meiðsli og aftur meiðsli.

Við höfum nokkrum sinnum lýst yfir áhyggjum okkar yfir því að alvarleg meiðsli séu að verða æ algengari í NBA deildinni. Það sem byrjaði sem kenning lögð fram í gríni, er nær því að vera staðreynd í dag og þið sem fylgist á annað borð með NBA deildinni hafið sannarlega ekki misst af því. 

Þetta er gjörsamlega óþolandi þróun.

Meiðsli eru og hafa alltaf verið þáttur af leiknum og þó þau séu kannski hvorki algeng né alvarleg á tilteknu tímabili, geta þau engu að síður haft mikil áhrif á gang mála í úrslitakeppninni. Hafið hugfast að NBA lið vinna einfaldlega ekki titilinn ef þau eru ekki heil, það er bara þannig. Þú ert ekkert að fara að ná þér í hring ef einn af bestu mönnunum þínum er í jakkafötunum í júní. Þú þarft því alltaf að hafa smá heppni í farteskinu ef þú ætlar að vinna titla, því oftast er það öðru fremur heppni sem ræður því hvort lið komast sæmilega heil í gegn um verkefni vetrarins eða ekki.

Þessi heppni hefur hreint ekki verið á bandi með sterkari liðunum í NBA deildinni undanfarin ár og ef þú ætlar að finna lið sem hafa sloppið sæmilega við meiðsli, skoðar þú einfaldlega hvaða lið léku til úrslita ár frá ári. Liðin sem komast í úrslit og vinna titla gera það ekki bara út á hæfileikana - þau eru undantekningarlaust með sína bestu menn heila.

Dæmi um lið sem hefur haft heppnina með sér með ofangreindum hætti er Miami Heat, sem fyrir vikið fór í úrslit fjögur ár í röð og vann tvo titla (2012-13). 

Án þess að taka neitt af liði Miami, sem var auðvitað frábært, þá munið þið kannski hvað heilladísirnar sveimuðu yfir því í tíð LeBron James. Það var svo áberandi að við skrifuðum um það á sínum tíma.

Miami var svo heppið hvað eftir annað að við vorum hætt að trúa því. Við ætlum ekki að fara að rifja það upp núna, en lítið dæmi um þetta var þegar Derrick Rose meiddist og kippti þannig aðalkeppinauti Miami í Austurdeildinni úr leik. 

Reyndar er engu líkara en að þessi heppni hafi fylgt LeBron James til Cleveland vegna þess að helstu keppinautar Cleveland um titilinn eru farnir að sjá á eftir lykilmönnum sínum í meiðsli. Derrick Rose er þannig ennþá meiddur hjá Bulls (eins og reyndar allt Chicago-liðið, ekkert nýtt þar) og aumingja Paul George hjá Indiana mölvaði á sér löppina eins og frægt varð.

Samsæriskenningar hafa verið smíðaðar af talsvert minna tilefni en þessu. Það er engu líkara en verið sé að ryðja brautina fyrir James og Cleveland. Þú getur bætt veikindum Chris Bosh hjá Miami á þann reikning, alveg eins og þegar Al Horford hjá Atlanta og Nene hjá Washington meiðast fljótlega og missa af úrslitakeppninni.

En það er í Vesturdeildinni sem mesta eyðileggingin er í gangi núna. Þar á bæ eru meiðsli að setja stór strik í alla reikninga og hafa jafnvel breytt valdajafnvæginu í deildinni. 

Athugið að þó við séum bölsýn, hefur deildarkeppnin í vetur verið frábær og auðvitað á úrslitakeppnin eftir að verða mögnuð þrátt fyrir smá mótlæti. Úrslitakeppnin er alltaf góð.

Það breytir því hinsvegar ekki að nú er þegar ljóst að úrslitakeppnin í vor verður ekki eins góð og vonir stóðu til um út af öllum þessum óþolandi meiðslum sem eru að dúkka upp hjá flestum liðunum í deildinni. Það er alveg grínlaust kominn tími til að rannsaka hvað er að í þessari deild, því þessi fáránlega háa tíðni alvarlegra meiðsla er bara komin út í hött.

Við vitum alveg að álagið á mannskapnum i NBA deildinni er allt, allt of mikið, en það er barnalegt að kenna því um þetta allt saman. Það hefur verið ómannlegt álag í NBA deildinni alveg frá því hún var stofnuð án þess að heilu og hálfu Stjörnuliðin séu á sjúkralistanum og það er orðið talsvert sjaldgæfara en áður tíðkaðist að menn séu að moka í sig kókaíni og fá sér smók í hálfleik. Bættu við það betra mataræði, betri meiðslaforvörnum, betri æfingum og í alla staði meiri lúxus í allri umgjörð eins og flugferðum og það er engin ástæða til að ætla að meiðslalistar séu alltaf fullir.

En nú skulum við skoða þetta mál aðeins betur með því að kanna stöðuna á liðunum í Vesturdeildinni meta í hvernig standi þau eru nú þegar aðeins um hálfur mánuður er eftir af deildarkeppninni (og hvernig meiðsli eru búin að fokka upp plönum flestra þeirra). Við byrjum á efsta liðinu Golden State og höldum niður töfluna í vestrinu eins og hún lítur út þegar þetta er skrifað.

GOLDEN STATE WARRIORS (62-13)

Golden State er búið að vera langbesta lið NBA deildarinnar í allan vetur og hluta af velgengni þess má eflaust rekja til góðrar heilsu lykilmanna.

Það er ekki langt síðan Golden State var ekki bara lélegt, heldur einnig alltaf með sína bestu menn í meiðslum.

Sumir eru eflaust búnir að gleyma því af hverju Stephen Curry er með hlutfallslega lág laun á miðað við að vera einn besti leikmaður deildarinnar, en þar er einfaldlega um að ræða afslátt sem Golden State fékk af samningnum hans af því ökklarnir á honum voru sífellt til vandræða. 

Vandamálið var það alvarlegt að margir spáðu því að hann yrði aldrei góður af þessum meiðslum. Curry hefur hinsvegar verið glettilega heill á því síðustu tvö ár og er alltaf að verða betri og betri leikmaður (fyrir vikið?).
 
Golden State mátti samt þola að fá blauta og skítuga tusku í andlitið í fyrravor þegar Andrew Bogut féll úr leik á elleftu stundu og gat því ekki verið með liðinu þegar það féll naumlega úr leik. 

Hann er gríðarlega mikilvægur leikmaður í öllum aðgerðum Warriors og fyrir vikið varð eitthvað minna úr stórum plönum liðsins í úrslitakeppninni.

Í dag erum við að tala um allt annað mál. Liðið er búið að fara hamförum í deildinni í vetur (það er stutt í annan pistil um það) og nú er svo komið að bæði stuðningsmenn og sérfræðingar eru orðnir mjög bjartsýnir á að það gæti jafnvel unnið meistaratitilinn. Þetta eru vel skiljanlegar pælingar en við erum dauðhrædd við þetta af því hlutirnir eru svo glettilega fljótir að fara til andskotans ef svo ber undir.

Munið þið þegar við reyndum að útskýra af hverju við hefðum enga trú á Atlanta Hawks um daginn? Fyrir utan nokkra röklega og konkret punkta, þar sem við settum m.a. spurningamerki við hæðina og breiddina hjá Haukunum, var helsta ástæðan fyrir trúleysi okkar alveg huglæg.

Við höfum ekki trú á Atlanta einfaldlega vegna þess að það er Atlanta.

Liðið getur krúttast eins og það vill og unnið helling af leikjum í fram á vorið, en það er alveg sama hvernig litið er á þetta, Atlanta er og verður alltaf Atlanta þó við reynum að klæða það í flottari föt.

Það er nákvæmlega út af svona pælingu sem við erum hrædd um að Golden State drulli á sig í vor. Þið megið ekki gleyma því að Golden State er jú Golden State - og það hefur ekki verið ávísun á almennilegan árangur í fjörutíu ár. Og það fyrsta sem gerist þegar Golden State verður Golden State en að einhver sterkur leikmaður meiðist og komi ekki við sögu í úrslitakeppninni. Þetta er nær því að vera regla en kenning.

Athugið að við fáum enga ánægju út úr því að uppljóstra þessu (fyrir þau ykkar sem voru ekki búin að átta sig á þessari bölvun) en við erum hrædd um að ekkert okkar geti spornað við þessu. 

Nú falla öll vötn til Dýrafjarðar hjá Warriors og þetta þýðir því miður að annað hvort Stephen Curry eða Andrew Bogut muni meiðast áður en úrslitakeppnin byrjar og missa af henni. Það yrði næstum því eðlilegt ef tekið er mið af meiðslaþróun síðustu missera í NBA.

Þetta eru sannarlega niðurdrepandi tíðindi fyrir aumingja Warriors eftir svona frábæran vetur, en svona er þetta bara. Golden State er Golden State og það gefur líka augaleið að meiðsladraugurinn er rétt ókominn til Oakland. Hann er búinn að sparka upp hurðina hjá öllum hinum liðunum og því hlýtur aðeins að vera tímaspursmál hvenær hann eyðileggur leiktíðina fyrir efsta liðinu.

Afsakið þennnan barlóm og bölsýni, en svona eru þessi meiðsli. Þetta er skrímsli sem stækkar og stækkar. Við megum samt ekki loka augunum fyrir því að Dubs eru búnir að eiga flottan vetur. Þeir eru þegar búnir að vinna yfir 60 leiki og eiga nokkra eftir, svo þeir eru í bullandi séns að slútta með einn besta árangur allra tíma. Ekki slæmt fyrir klúbb sem var að vakna úr 20 ára dái í körfuboltaflórnum.

HOUSTON ROCKETS (52-24)

Þetta tímabil sem Houston er að koma með í land eftir erfiðan vetur er með hreinum ólíkindum. 

Það er ekki hægt að orða það öðruvísi. Margir hafa reynt en engum hefur tekist að útskýra hvernig í ósköpunum James Harden hefur farið að því að setja þennan miðlungsmannskap sem Houston hefur yfir að ráða á loðið bakið á sér og bera þá hátt í 60 sigra í vetur.

Þetta afrek Harden er það sem allir benda fyrst á þegar þeir færa rök fyrir því af hverju hann sé búinn að vera besti leikmaður NBA deildarinnar í vetur og það er líka ofureðlilegt. 

Dwight Howard á að vera hin "stjarnan" í þessu liði, en hans hefur ekki notið við nema hálfan veturinn og ef einhver hefði sagt okkur það í vetur að Jason Terry, Josh Smith og Corey Brewer ættu eftir að verða rosa spaðar í vetur, hefðum við keyrt hann niður í Holtagarða.

Svona grínlaust er Houston með allt í lagi mannskap. Fyrir utan Harden og Howard (og reyndar vaxandi Donatas Motiejunas), væru öll lið í heiminum til í að vera með menn eins og Patrick Beverley og Trevor Ariza í sínum röðum, enda eru þeir tvær helstu ástæðurnar fyrir því að Houston breyttist allt í einu í gott varnarlið. 

Þeir útskýra þó ekki af hverju Houston er nú þegar búið að vinna 52 leiki - það skrifast mest á Harden (engum dettur í hug að segja að Kevin McHale sé allt í einu orðinn einhver ógurlegur þjálfari, þó hann hljóti vissulega að eiga einhvern þátt í þessum Öskubuskuskap þeirra í vetur).

En af því helsta tilefni þessa pistils er neikvæðni og meiðslavæl, er ekki hægt annað en að velta sér aðeins upp úr því að Houston þurfi að vera án byrjunarleikstjórnanda síns og besta varnarbakvarðar í úrslitakeppninni. Þarna erum við að tala um Patrick Beverley, sem getur gert hvaða bakvörð geðveikan með því að pressa hann allan völlinn. 

Á meðan við syrgjum meiðsli lykilmanna vesturliðanna eins og Wesley Matthews (sjá, umfjöllun um Portland síðar), verðum við bara að opinbera vanþroska okkar og illt innræti með því að segja að við vorkennum Beverley nákvæmlega ekkert að missa af úrslitakeppninni. Við erum ekki búin að gleyma því þegar Beverley tók Russell Westbrook úr leik í úrslitakeppninni með hálfvitagangi og því er kjörið að lýsa þessu þannig að hann sé bara að uppskera eins og hann sáði í karmabankann blessaður.

MEMPHIS GRIZZLIES (51-24)

Öfugt við svo mörg önnur lið í vor, er Memphis (ennþá) í nokkuð góðum málum varðandi heilsu lykilmanna og ansi margir hafa tippað á Memphis sem liðið sem gæti átt eftir að koma eins og skrattinn úr sauðaleggnum inn í úrslitakeppnina og gera "betri" liðum erfitt fyrir.

Þessar raddir hafa þó að mestu þagnað síðustu vikur, einfaldlega af því leikmenn Memphis eru mestmegnis búnir að spila eins og hálfvitar. Þetta þýðir ekki endilega að möguleikar Memphis séu úr sögunni - liðið er amk sæmilega heilt - en það er ennþá eitthvað við Memphis sem segir okkur (og öðrum) að þó það geti verið algjör viðbjóður að eiga við þetta lið, sé það enn ekki nógu sterkt til að fara alla leið.

Memphis er eitt af mjög fáum liðum í NBA sem geta brugðið sér í allra kvikinda líki - spilað ofur-stórt eða þá sett upp í minnibolta (small ball) og er alltaf eitt besta varnarlið deildarinnar. Húnarnir stranda samt alltaf á þessum sama stað, þeir eiga ákaflega erfitt með að framleiða stig á ögurstundu. Jeff Green og Vince Carter hafa það hlutverk að hjálpa til með þetta en það á eftir að koma í ljós hvort þeir hafa það sem til þarf í þetta mikilvæga hlutverk.

LOS ANGELES CLIPPERS (50-26)
 
ESPN-penninn og hlaðvarpsdólgurinn Bill Simmons hefur gert mikið af því í vetur að pota í Clippers og þá sérstaklega Doc Rivers, þar sem hann vill meina að framkvæmdastjórinn Doc Rivers sé ekki að standa sig alveg eins vel og þjálfarinn Doc Rivers. 

Því miður verður að viðurkennast að þetta er eiginlega alveg rétt hjá Simmons. 

Clippers er búið að standa á þröskuldi (alvöru) velgengni síðan Rivers tók við stjórnartaumunum, en í staðinn fyrir að bæta við þessum 1-2 litlu bitum sem upp á vantaði til að gera Clippers að meistarakandídat, er staðan allt í einu orðin þannig að varamannabekkur liðsins er orðinn svo skelfilegur að það hefur enginn trú á þessu liði lengur.

Það er kannski dálítið fast kveðið, en heldurðu í alvörunni að lið sem þarf að treysta á að menn eins og Big Baby Davis, Austin Rivers, Hedo Turkoglu og Spencer Hawes gefi því umtalsverða hluti sé að fara langt í úrslitakeppni? Ekki við heldur.
 
Chris Paul er búinn að spila í takt við skapið á sér lengst af í vetur (eins og andskotinn sjálfur) og vel hvíldur Blake Griffin verður bara betri og betri. 

DeAndre Jordan er góður til síns brúks þó takmarkaður sé og JJ Redick er ljómandi fínn skot- og liðsmaður. 

Þarna er það góða að verða komið hjá Clippers. Matt Barnes hefur tekið sig á eftir hræðilegt haust en þá er ótalinn þáttur Jamal Crawford.

Við höfum lýst því yfir áður á þessu vefsvæði og erum alveg tilbúin að gera það aftur. Við sjáum ekki að lið sem treystir á að fá 20-30% af sóknarleik sínum frá Crawford geti gert sér vonir um að vera eitt af fjórum bestu körfuboltaliðum í heimi. Bættu svo við það þeirri staðreynd að Crawford á við þrálát meiðsli að stríða og Clippers er í afar vondum málum.

Þið megið ekki misskilja okkur og halda að við séum með þessum aftansöng að segja að Clippers sé lélegt körfuboltalið. Bara að það virðist ekki hafa það sem til þarf til að taka næsta skref. Ef Clippers væri t.d. í Austurdeildinni, gætum við nánast bókað að það færi alla leið í úrslit þeirrar ágætu deildar í úrslitakeppninni. Því miður er það hinsvegar í vestrinu - og þar getur lið eins og Clippers þakkað fyrir að ná að komast upp úr fyrstu umferð.

SAN ANTONIO SPURS (49-26)

Þegar þetta er skrifað er San Antonio merkilegt nokk að verða búið að endurheimta flesta sína menn úr margvíslegum meiðslum og því má segja að hið árlega langtímaplan Gregg Popovich sé aftur að ganga upp. 

Deildarkeppnin er ekkert annað en upphitun fyrir úrslitakeppnina hjá liði eins og Spurs og það er eiginlega með ólíkindum að lið sem er búið að vera svona krambúlerað eins og Spurs hefur verið alveg frá því síðasta sumar skuli vera að skríða saman á réttum tíma.

Ekki nóg með þetta, heldur er liðið nú loksins farið að spila eins og það á að sér, enda er farið að fara um andstæðinga meistaranna nú rétt fyrir úrslitakeppni. 

Ef þið hefðuð spurt okkur fyrir mánuði síðan, hefðum við líklega ekki verið brjálæðislega bjartsýn á möguleika Spurs á að verja titilinn. 

Akkúrat um þessar mundir er hinsvegar allt annað að sjá til Duncan og félaga, sem vinna hvern leikinn á fætur öðrum bara svona til gamans. Leikur Spurs og Warriors á sunnudaginn verður miklu meira en áhugaverður, við segjum ekki annað.

PORTLAND T-BLAZERS (48-26)

Aumingja Portland. Aumingja Wesley Matthews. Matthews hefur alltaf verið í talsverðu uppáhaldi hjá okkur eins og gjarnan er um menn sem fara fjallabaksleiðina inn í NBA deildina. Matthews gerði það svo sannarlega. 

Hann var ekki einu sinni draftaður á sínum tíma, en bókstaflega barðist, klóraði og krafsaði þangað til hann fékk samning. Eftir að hafa fengið sénsinn, fékk hann svo þokkalegan samning hjá Portland og það eina sem hann hefur gert síðan er að bæta sig. 

Hann átti svo von á feitum útborgunardegi í sumar þegar meiðsladjöfullinn læsti klónum í hann og sleit á honum aðra hásinina. Hefði ekki getað komið fyrir gaur sem átti það minna skilið.

Og það er ekki bara andskotans ólukka fyrir Matthews vin okkar, heldur eru möguleikar Portland á að fara langt í úrslitakeppninni foknir út í veður og vind um leið. 

Aftur erum við að taka djúpt í árina, við vitum það alveg. Einn leikmaður á ekki að vera nóg til að kála möguleikum liðs, en það er nú samt svo. A.m.k. ef það er maður eins og Matthews, sem fyrir utan að vera magnaður sóknarmaður, er frábær varnarmaður sem hjálpar til við að fela vankanta Damian Lillard í varnarleiknum.

Portland hafði heppnina með sér þegar það landaði Arron Afflalo frá Denver sem ætlað verður að fylla skarð Matthews, en hann gerir það aldrei þó hann sé ljómandi leikmaður. Bættu svo við þetta þeirri staðreynd að LaMarcus Aldridge er eiginlega í hakki (þó hann fái feitt kúdós fyrir að bíta á jaxlinn og halda áfram) og vonir Blazers um djúpa úrslitakeppni minnka verulega.

Portland er búið að vera að gefa spámönnum og efasemdamönnum eins og okkur langt nef í tvö ár og hefur í raun farið fram úr væntingum allan tímann. Þessi meiðsli hjá liðinu núna gera það hinsvegar að verkum að Portland er eitt þeirra liða sem eiga eftir að hugsa ef og hefði á andvökunóttum í sumar.

DALLAS MAVERICKS (46-30)

Langa sögu stutta? Dallas er búið að drulla á sig. Það er freistandi að kenna aumingja Rajon Rondo um það að þetta sterka Dallas-lið sé allt í einu farið að spila eins og fífl, en það væri líklega of mikil einföldun. S

taðan þó því miður sú að liðið sem var með bestu sóknina í NBA deildinni þegar það verslaði sér Rondo, er bara í bullandi vandræðum núna. Varnarleikur liðsins skánaði með tilkomu Rondo, en sóknarleikurinn er svipur hjá sjón og andinn í herbúðum Mavs hefur ekki verið til fyrirmyndar. 

Rondo gætti þess að vera ekkert að drolla við það að lenda í útistöðum við þjálfara sinn þegar hann kom til Texas og síðan hefur þetta verið óskaplega erfitt hjá þeim.
Ef Rick Carlisle væri ekki þjálfari Dallas, værum við með öllum búin að afskrifa þetta lið.

OKLAHOMA CITY THUNDER (42-33)

Eigum við að tala um meiðsli? Þriðja árið í röð er keppnistímabilið að fokkast upp hjá Oklahoma út af meiðslum og í þetta sinn eru meiðslin meira að segja alvarlegt.

Stuðningsmenn Oklahoma svitna þegar minnst er á brotinn fótinn á Kevin Durant og það er ekkert skrítið. Allir sem fylgst hafa með körfubolta í einhvern tímann vita að fótbrot og stórir menn fara saman eins og sálmar og jarðsprengjur.

Veturinn 2014-15 er búin að vera ein tragedía hjá Oklahoma og fauk endanlega út í veður og vind þegar tilkynnt var um meiðsli Durant á dögunum. Í ofanálag er svo Serge Ibaka aftur að missa úr leiki vegna meiðsla og verður líklega ekki með liðinu fyrr en í úrslitakeppninni, en þegar þar er komið við sögu, er hreint ekkert víst að liðið verði í neinni helvítis úrslitakeppni! 

Oklahoma mátti við því að vera án Kevin Durant á lokasprettinum í deildinni, en það má engan veginn við því að vera án hans OG Ibaka (og fleiri leikmanna reyndar) eins og sést svo augljóslega þegar liðið er að fá á sig 130 stig og tapa.

Fáir hefðu trúað því fyrir mánuði, en nú er sú staða komin upp að Oklahoma má hreinlega þakka fyrir ef það kemst í úrslitakeppnina - hvað þá að það fari eitthvað að stríða liðum eins og Golden State. Í stað þess að hoppa upp fyrir Dallas, berst það fyrir lífi sínu í áttunda sætinu.

Russell Westbrook er búinn að spila eins og hann sé andsetinn síðan Kevin Durant datt út en gallinn er að hann er ekki búinn að læra að hemja þennan ofuranda sem keyrir hann áfram og reynir því stundum of mikið. 

Þið vitið að við erum stærstu aðdáendur Russ á jörðinni, en við erum engir vitleysingar, við sjáum alveg að þó Russ sé stundum stórkostlegur, þá á hann það líka til að skemma fyrir liðinu þó hann ætli sér ekki að gera það (sjá: Kobe Bryant). 

Westbrook er ekki með það lélega meðspilara lengur að hann þurfi að vera að taka 30+ skot í leik, enda sérst það bersýnilega á tölfræðinni að Oklahoma gengur ekkert vel þegar hann er að taka allt of mörg skot. Ekki halda að við séum blind þó við elskum Russell Westbrook.
 
Nú er svo komið að Oklahoma er að koma að krossgötum. Við tippuðum á að það yrði Oklahoma sem tæki titilinn í ár, en í staðinn eru meiðsli enn og aftur að fokka því upp. Fyrir fjórum árum fór liðið í lokaúrslit og ekki var ástæða til að ætla annað en að það yrði í úrslitum á hverju ári næstu átta árin.

Annað hefur hinsvegar komið á daginn. Fyrir tveimur árum meiddist Westbrook (takk, Beverley, vonandi smakkast karmað vel), í fyrra meiddist Ibaka í seríunni við San Antonio (sem Oklahoma hefði vel getað unnið ef hans hefði notið við allan tímann) og í ár er það Durant sem dettur út. 

Þetta er ekki bara andskotans óheppni - heldur líka lexía - bæði til forráðamanna Oklahoma og allra skrifstofumanna í NBA deildinni.

Ef þú ert svo heppinn að ná að setja saman lið eins og Oklahoma (2 ungar stjörnur, ungur varnarjaxl + rulluspilarar), fokkastu þá til að eyða því sem til þarf til að láta það vinna NÚNA! Það er ekkert sem heitir á morgun í NBA deildinni - sérstaklega á þessum síðustu og verstu tímum þar sem sjúkralistar eru lengri en loforðalistar Framsóknarflokksins.

Oklahoma á einn séns eftir - næsta ár - til að vinna meistaratitil áður en Kevin Durant verður eftirsóttasti samningslausi körfuboltamaður heims síðan LeBron James. Það eru ágætar líkur á að Oklahoma geti unnið titilinn á næsta ári ef það nær einhvern tímann að hanga heilt, en það er bara alls ekki gefinn hlutur lengur.

Hvað hafa forráðamenn Oklahoma sér til málsbóta ef þeir missa Kevin Durant eftir næsta tímabil og hafa því ekki annað upp úr krafsinu en eina ferð í lokaúrslit eftir að hafa verið með menn eins og Kevin Durant, Russell Westbrook, James Harden og Serge Ibaka í sínum röðum í nokkur ár? Nákvæmlega ekki neitt. Þeir verða teknir af lífi og ekki halda að við látum okkar eftir liggja í því. Það er ekki bara óheppni sem ræður því að Oklahoma hefur ekki komist lengra en raun ber vitni - það er líka níska og bókstaflega rangar ákvarðanir.


NEW ORLEANS PELICANS (40-34)
 
Það yrði nú ekkert leiðinlegt að sjá hann Brúnar (Anthony Davis) vin okkar fá að dýfa tánnni aðeins í úrslitakeppnibrunninn. Það er öllum hollt. 

Verst að New Orleans hefur minna en ekkert erindi í lið eins og Golden State og verður ekki annað en fallbyssufóður í fyrstu umferðinni. Eins og við tókum fram í Oklahoma-erindinu áðan, er ekki loku fyrir það skotið að það verði eftir allt New Orleans sem tekur áttunda sætið í vestrinu en ekki Oklahoma.

Úr því sem komið er, er kannski alveg eins gott fyrir Oklahoma að detta bara út úr myndinni strax, en það breytir því ekki að hvorki Oklahoma án Kevin Durant eða New Orleans með Brúnar í stuði á nokkurt erindi í Golden State. 

Það fyndna við veturinn hjá New Orleans er að ef liðið væri ekki búið að tapa svona átakanlega mörgum "gimmí" leikjum á móti mestu drasl-liðum deildarinnar, væri sætið í úrslitakeppnina líklega tryggt nú þegar. 

En það er líka lýsandi dæmi fyrir lið í þessari stöðu. Lið sem er ekki tilbúið í að verða meira en fallbyssufóður í fyrstu umferð. Vonandi fyrir Brúnar, eiga forráðamenn Dílaskarfanna eftir að hysja upp um sig brækurnar og gera eitthvað af viti fljótlega.

PHOENIX SUNS (38-38)


Við áttum okkur ekki á því hvað Phoenix er að gera. Liðið átti svo sem séns á að ná áttunda sætinu, en var ekki að fara að gera neitt þar frekar en Oklahoma eða New Orleans. Það verður að segjast eins og er að forráðamenn Phoenix drulluðu bara á sig í Dragic-dæminu en við áttum okkur heldur ekki á því hvað það er að hugsa. Sem Stendur er þetta Phoenix lið bara það nákvæmlega sama og það var í fyrra (krútt), nema með nokkur ný andlit í farteskinu.

-------------------------------------------------------------------

Þar hafið þið það elskurnar. Við vonum að þið hafið ekki misst alla trú á mannkynið eftir að hafa lesið þennan stutta pistil, en þið ættuð nú að vera farin að kannast við það hvað er oft lítið í glasinu umrædda á ritstjórn NBA Ísland.

Þó að öll þessi meiðsli og leiðindi séu búin að reyna sitt besta til að skemma úrslitakeppnina - og þó fleiri menn eigi eftir að falla úr leik áður en yfir lýkur - getum við bókað að úrslitakeppnin á eftir að verða vaðandi skemmtileg eins og alltaf, þrátt fyrir nokkur áföll. 

Tímarnir eru að breytast í NBA deildinni um þessar mundir og það að mestu til hins betra að okkar mati. Það verður gaman að sjá hvernig liðum eins og Golden State á eftir að ganga í viðleitni sinni til að hirða kórónuna af San Antonio. Við getum a.m.k. ekki beðið.