Sunday, March 29, 2015

Hot Rod Hundley lýkur keppni


"Stockton to Malone, hammer dunk! You gotta love it, baby!"

Þetta er einn af fjölmörgum frösunum hans Rod "Hot Rod" Hundley sem féll frá um helgina, áttræður að aldri. Ef þú fylgdist eitthvað með NBA deildinni hér á árum áður, hefurðu heyrt röddina hans Hot Rod lýsa einhverjum tilþrifum. Ef ekki, ertu líklega döff og þá hefur lítið upp á sig að vera að pæla í því.

Í myndbrotinu hér fyrir neðan má heyra Hundley lýsa því þegar John Stockton sló stoðsendingamet Magic Johnson á sínum tíma (og undirstrikar í leiðinni hvað NBA deildin hefur frjálslegar hugmyndir um það hvað er stoðsending og hvað ekki).



Hundley gerði gott mót með Vestur Virginíuháskóla eins og Jerry West á sínum tíma og spilaði sex ár í NBA deildinni með Minneapolis- og síðar Los Angeles Lakers. Eftir að leikmannsferlinum lauk, flutti Hundley sig yfir á hljóðnemann, þar sem hann lærði mikið af goðsögninni Chick Hearn hjá Lakers. Hot Rod var stundum sakaður um að stela frösum frá Hearn, en svaraði því jafnan svo:

"Ég stal ekki nokkrum frösum frá Chick Hearn, ég stal öllum mínum frösum frá Chick Hearn!"

Frá Lakers lá leið hans til New Orleans þegar Jazz var stofnað árið 1974 og flutti með því til Utah árið 1979. Hann var aðalþulur Jazz í útvarpi og sjónvarpi í 35 ár og enginn hafði starfað lengur hjá félaginu þegar hann lagði míkrafóninn á hilluna árið 2009.

















Svo djúp spor liggja eftir þennan skemmtilega mann hjá félaginu að það nefndi fjölmiðlamiðstöð sína í höfuðið á honum og sumir gátu hreinlega ekki hugsað sér að fylgjast með Jazz án þess að hafa rödd Hundley með í för. John Stockton sagði að hann ætti erfitt með að ímynda sér hvernig einhver annar en Hot Rod ætti að geta lýst leikjum Jazz, sem var kannski ekki furða eftir að sá gamli hafði lýst meira en 3000 leikjum með liðinu.

Ef þú ert ennþá að lesa þegar hér er komið við sögu, gæti verið að þér leiðist og þú hafir ekkert annað að gera. Það má vel vera og við sýnum því skilning.

En kannski ertu enn að lesa af því þér er ekki skítsama um allt og alla. Kannski gerir þú eins og við gerðum þegar Anthony Mason og Jerome Kersey létust um daginn. Kannski tekurðu þér smá stund, staldrar við og hugsar um hvernig þessir menn lögðu sín lóð á vogarskálarnar til að gera Leikinn að því sem hann er. Öll erum við jú á sama ferðalaginu og við ráðum sjálf hvort við tökum þátt í því eða ekki.

You gotta love it, baby!