Sunday, April 19, 2015

Dagur eitt


Já, úrslitakeppnin í NBA byrjaði svo sannarlega í gærkvöldi. Fjórir leikir voru á dagskrá hver á eftir öðrum, svo þeir hörðustu gátu horft á hálfan sólarhring af úrvalsefni.

Kannski er það dálítið rausnarlegt að kalla Toronto-Washington úrvalsefni, við nenntum amk ekki að horfa á það. Þetta er ein af þessum rimmum sem fara í taugarnar á mörgum af því það er skandall að annað þessara liða fari í aðra umferð úrslitakeppninnar á meðan Clippers eða Spurs fara snemma í sumarfrí. Það er glóraulaust.

Kaldhæðnislegt að það skuli hafa verið Paul Pierce öðrum fremur sem kláraði þennan leik fyrir Wiz, því eins og þið munið, gerði hann Kanadaliðinu erfitt fyrir í fyrstu umferðinni í fyrra líka (sem leikmaður Nets). Það er annars ekki langt á milli í þessu, því framlengja þurfti leikinn til að ná fram úrslitum. Boltinn hefði svo auðveldlega geta skoppað fyrir Toronto í þessu, en því var ekki fyrir að fara að þessu sinni og því þarf Toronto að sætta sig við þungt tap á heimavelli og er með alla pressuna á sér núna.

Golden State kláraði það sem það þurfti að gera í fyrsta leik gegn New Orleans, þó gestirnir hafi sýnt ljómandi fína baráttu með því að koma sér aftur inn í leikinn í fjórða leikhluta eftir að hafa verið um 25 stigum undir á kafla. Brúnar var lengi í gang en skoraði 20 stig í lokaleikhlutanum og sýndi okkur enn og aftur hvað hann getur gert hvað honum sýnist.

Það er ekki gott að segja hvor tölfræðin er fáránlegri - að Stephen Curry hafi aðeins hitt úr fjórum af þrettán 3ja stiga skotum sínum eða þegar hann hitti aðeins úr fjórum af sjö vítaskotum í leiknum. Kannski bara smá skjálfti í fyrsta leik í úrslitakeppni þar sem þessir piltar eru nú að upplifa það í fyrsta skipti á ferlinum að fara þangað með miklar væntingar.

Curry skoraði kannski 34 stig í leiknum en menn leiksins hjá Dubs voru Andrew Bogut og Draymond Green. Þvílíkir meistarar, varnarmenn og spilarar. Þeir voru með 13/13/6/2/2 meðaltal í leiknum. Það verður ekkert betra. Golden State er búið að ná úr sér hrollinum núna og ætti að bruna í geng um þessa seríu. Meiðsli Tyreke Evans hjá New Orleans hjálpa ekki mikið, en varnarleikur liðsins var mjög oft glæpsamlega lélegur. Þeir eiga eftir að laga það eitthvað, en það var hálf neyðarlegt að sjá þá leyfa Dubs að fá sniðskotaæfingu á körfuna hjá sér hvað eftir annað.

Golden State ræður því algjörlega sjálft hvað þessi rimma endist lengi, en vonandi fáum við að sjá fleiri túrbó-tilþrif frá Brúnari áður en hún klárast.


Chicago lokaði Milwaukee eins búist var við en það sem vakti mesta athygli við þann leik var hvað Derrick Rose spilaði vel. Það eru fallegar fréttir bæði fyrir Bulls og stuðningsmennina. Við höfum gríðarlega mikið að segja um þetta einvígi eins og þið sjáið. Kidd heldur áfram að krúttast með þessa krakka sína og það er fínt fyrir þá að fá að tapa aðeins í úrslitakeppninni áður en þeir verða fullorðnir. Það gerði þjálfarinn þeirra á sínum ferli og það reyndist honum ljómandi vel

Houston varði líka heimavöllinn sinn með nokkuð öruggum sigri á grönnum sínum í Dallas. Fegurðin við þann leik frá bæjardyrum Houston var að liðið skuli hafa unnið sigur þrátt fyrir að Josh Smith hafi tekið fleiri skot en James Harden í leiknum og Corey Brewer tók reyndar jafnmörg skot og Skeggið. Harden lét sér nægja að spila félaga sína uppi það fer honum ljómandi vel.

Ef menn eins og Jason Terry, Josh Smith og Corey Brewer ætla að fara hitta körfuboltum ofan í körfur að staðaldri í þessu einvígi, á Dallas ekki möguleika. Við skulum þó ekki dæma Dallas úr leik strax, það er með allt of reynda leikmenn og klóka þjálfara til að láta pakka sér saman.

Fegurðardísin Chandler Parsons hjá Dallas virðist ekki ætla að geta beitt sér í þessari seríu vegna hnémeiðslanna sem hafa verið að angra hann og það er frekar vont mál fyrir Dallas sem veitir ekki af skotmönnum í þessu.

Eftir fyrsta keppnisdaginn í úrslitakepppninni stendur það líklega upp úr að hafi ekki meiðst nema tveir leikmenn allan daginn. Við óskum Parsons og Evans að sjálfssögðu skjótasta og besta bata sem völ er á. Þeir eru báðir sterkir og mikilvægir liðum sínum.

Þá er bara að sjá hverjir meiðast í næstu kippu af leikjum. Það er svo spennandi að fylgjast með því. Svona eins og að fara yfir lottómiðann sinn á meðan dregið er út í sjónvarpinu.