Thursday, April 23, 2015

Faðir tími og Elli kelling þungt haldin á sjúkrahúsi


Þið lesið NBA Ísland af því þið getið gengið að því nokkuð vísu að þar fáið þið súmmeringar og sannleikann. Hérna er súmmering á fyrstu leikina í úrslitakeppninni í NBA 2015 - þeir eru drasl. Það er bara þannig.

Nær öll einvígi eru að fara eftir bókinni - af ástæðum sem við komum að síðar - og lítið hefur verið um dramatík til þessa. Það þýðir ekki að sé einhver ástæða til að örvænta, alls ekki, en svona er þetta bara.

Nú eru tveir leikir búnir á öllum vígstöðvum og heimaliðin hafa klárað tvo fyrstu leikina nokkuð örugglega í þeim flestum. Toronto er að drulla á sig alveg eins og í fyrra og er komið undir 0-2 á móti liði sem er ekkert rosalega sterkt, sem eru tíðindi út af fyrir sig, en samt ekki.

Aðeins eitt einvígi er að bjóða upp á 100% gæði og spennu og það er raunar svo magnað að allt hitt skiptir ekki nokkru einasta máli.

Þetta er auðvitað einvígi Clippers og Spurs, sem allir vissu að yrði rosalegt. Og það hefur staðið undir þeim væntingum. Og meira til.

Staðan hjá Clippers og Spurs er 1-1 eftir tvo leiki, þann síðari í nótt þar sem San Antonio náði að jafna metin með dramatískum og lífsnauðsynlegum sigri í framlengingu.

Við vitum ekki hvort þið áttið ykkur á því, en hér eru líklega á ferðinni tvö af 5 bestu körfuboltaliðum heims og við sögðum það áður en flautað var til leiks í þessari rimmu að það væri hneyksli að svona sterk lið skuli þurfa að mætast í fyrstu umferð.

Af hverju? 

Af því liðið sem tapar og fer í sumarfrí eftir þessa rimmu, hefði á góðum degi haft alla burði til að fara alla leið í lokaúrslit með smá heppni. Og ÞAÐ er hneyksli. Það þýðir ekkert að væla yfir því, en við vælum auðvitað samt yfir því og gerum langt fram á sumar.
Hvað um það. 

Fyrstu tveir leikir Clippers og Spurs eru rjóminn í þessu fram að þessu og því ber að fagna. Spilamennska Clippers í fyrsta leiknum var með því besta sem sést hefur frá liðinu í vetur og var raunar ekki mikið síðri í öðrum leiknum í nótt. 

Raunar var spilamennska liðsins í nótt ekkert síðri, en þetta datt bara ekki með þeim í það skiptið.

Ástæðan fyrir því að þetta datt ekki með Clippers var tvíþætt: Tim Duncan og Patty Mills.

Tim Duncan tók Faðir tíma og Elli kellingu og gaf þeim svo fast á kjaftinn í nótt að þeim er ekki hugað líf. Þessi maður er að endurhanna goðsagnarhugtakið.

San Antonio hefur ekki náð neinu sem gæti talist nálægt 100% leik til þessa í einvíginu, því tveir af mikilvægustu mönnum liðsins eru langt frá sínu besta heilsufarslega. 

Tiago Splitter, algjör lykilmaður í vörn Spurs, er ekki kominn í leikform eftir meiðsli og lykilmaður liðsins í sóknarleiknum - Tony Parker - er meiddur á um það bil öllum útlimum og bætti við amk einum meiðslum í nótt.

San Antonio ætti að vera í ljómandi góðri stöðu fyrir næstu tvo leiki í San Antonio, en þið vitið jafnvel og við hvað það þýðir ef Tony Parker er nú kominn meið meidda hásin ofan á meidda ökklann og meidda lærið sem hann var að drattast með þar á undan.

Við sögðum ykkur hvað það þýddi ef San Antonio yrði ekki með alla lykilmenn heila í úrslitakeppninni. 

Þá verður það ekki meistari. Það hefur margoft lent í því á síðustu fimmtán árum að fara inn í úrslitakeppni með einhvern lykilmanna sinna í meiðslum og það eru nákvæmlega árin sem San Antonio verður ekki meistari.

Við erum búin að væla um það með reglulegu millibili í allt að þrjú ár að meiðsli séu að breyta valdajafnvægi NBA deildarinnar mikið á vormánuðum, en nú er þetta bara komið út í hött.

Indiana, Miami og Oklahoma eru lið sem ætluðu sér stóra hluti í vetur, en komust ekki einu sinni í úrslitakeppnina út af meiðslum. Meiðsli skemmtu ekki fyrir þessum liðum - þau eyðilögðu tímabilin fyrir þeim og nú síðast í gær fékk þjálfari að taka pokann sinn vegna þeirra (Scott Brooks hjá Oklahoma).

Dallas og Portland ætluðu sér stóra hluti í úrslitakeppninni í vetur eins og venjulega, en eru þess í stað fallbyssufóður út af meiðslum (og Rajon Rondo).

Atlanta, Memphis, Houston og nú San Antonio eru búinn að missa mann eða menn í meiðsli. Sumir þeirra eru úr leik út leiktíðina og aðrir á felgunni og/eða tæpir.

Þá eru bara eftir Golden State, LA Clippers og Cleveland (o.k. kannski Chicago), en við bíðum öll spennt eftir að heyra hverjir það verða sem fara frá þeim á meiðslalistann á næstu dögum - þess verður varla langt að bíða úr þessu.

Við vildum að við værum að grínast...