Eins og getið var um í síðustu færslu, fór Tim gamli Duncan mikinn í sigri San Antonio á LA Clippers í nótt sem leið. Duncan hefur í sjálfu sér aldrei verið mikill skorari þannig séð, en vélræn staðfesta hans og samkvæmni tryggja að hann er nú kominn í hóp góðra manna í sögubókum.
Þetta stutta myndbrot hérna fyrir neðan sýnir okkur glöggt hvað er enn mikill töggur í Duncan, sem verður 39 ára eftir nokkrar vikur. Þarna sjáið þið hann etja kappi við tvo af sprækari risum yngri kynslóðarinnar, þá Blake Griffin og DeAndre Jordan hjá LA Clippers.
Þrítugsaldurinn er tími ríkidæmis og stórra samninga, fertugsaldurinn er tími hæfileikanna. Eitthvað slíkt var haft eftir Duncan eftir frábæra frammistöðu hans í nótt. Við þreytumst ekki á því að horfa á þennan snilling gera það sem hann gerir betur en nokkur körfuboltamaður í sögunni.
Þeir Duncan og Blake Griffin eru gjörólíkir leikmenn, en Griffin ber óblandaða virðingu fyrir gamla manninum og er eflaust byrjaður að stela hreyfingum frá honum. Enda væri galið að gera það ekki.