Thursday, April 23, 2015

Hvað þýðir uppsögn Scott Brooks fyrir Oklahoma?


Það kemur ekki til af góðu, frekar en búast mátti við, en nú fáum við loksins að sjá hvað gerist ef þeir Kevin Durant, Russell Westbrook og félagar hjá Oklahoma fengju nýjan þjálfara. Þetta kemur til vegna þess að Oklahoma er búið að láta Scott Brooks fara eftir sjö ára ljómandi fín störf.

Það er aldrei sanngjarnt þegar þjálfarar eru látnir fara undir kringumstæðum sem þessum. Þetta minnir okkur á það þegar Rick Carlisle var látinn fara frá Detroit eða þegar Vinnie Del Negro var látinn fara frá Clippers.

Það var ekki eins og mennirnir hefðu ekki verið að ná þokkalegum árangri, stjórn félaganna kaus bara að róa á ný mið, eins og það er oft kallað.

En uppsögn Scott Brooks er enn súrari en hinar og ein sú súrasta sem við höfum orðið vitni að.

Jú, við vitum alveg að það hefur verið rosalega vinsælt að sparka í Scott Brooks í nokkur ár - við erum t.d. ekki saklaus af því - en ef þú pælir í því, er það drullu hart að reka Brooks núna.

Uppsögn Brooks er nefnilega ekki honum að kenna. Brooks er blóraböggull eins og þjálfarar í öllum boltagreinum eru gjarnan þegar liðið á skrifstofunni er búið að skíta á sig. Og sú er raunin hjá Oklahoma.

Það eru tvær ástæður fyrir því að hann er orðinn atvinnulaus.

Fyrri ástæðan er að Oklahoma getur ekki með nokkru andskotans móti hangið heilt og laust við meiðsli eins og reyndar flest lið í NBA deildinni og seinni ástæðan, sem skrifast 100% á framkvæmdastjórann Sam Presti, er verstu félagaskipti síðari tíma - Harden skiptin.

Nú fara í hönd nýir tímar hjá Oklahoma City Thunder. Undanfarin ár hefur þetta skemmtilega lið farið frá því að vera krútt, upp í að vera efnilegt upp í að vera gott upp í að vera meistarakandídat niður í að vera óheppnasta lið deildarinnar.

Leikmannakjarni Oklahoma var settur saman með blöndu af klókindum og mikilli heppni og liðið flaut á þessu í nokkur ár. Fékk að vera krútt, efnilegt, gott og svo frábært, en nú er brúðkaupsferðin búin og alvaran farin að banka á dyrnar.

Forráðamenn Oklahoma ætluðu að vera rosalega klókir þegar þeir ákváðu að láta James Harden fara frá félaginu á sínum tíma, en það er ekki hægt að líta á þau viðskipti nema á einn veg í dag - þau voru hræðileg.

Jú, jú, Harden vildi fara frá Oklahoma, ekki bara af því hann vildi fá borgað, heldur af því hann vildi fá að vera maðurinn. Og það gerði hann og gerir enn í Houston.

En Oklahoma var náttúrulega svo gott lið að það skipti engu máli þó Harden færi - það gat samt unnið meistaratitil, var það ekki? Jú, með smá heppni. En slíkt var ekki uppi á teningnum. Ekki séns. Bara óheppni. Meiðsli og óheppni.

Og nú erum við komin hingað. Kevin Durant á eitt ár eftir af samningnum sínum við félagið og nú er kominn panikktæm.

Panikktæm lýsir sér í viðskiptum eins og Dion Waiters og Enes Kanter. Geta þessir menn hjálpað liði að vinna meistaratitil? Það á eftir að koma í ljós, en eitthvað segir okkur að svo sé ekki. Það kemur svo sem í ljós.

Aðalatriðið núna er að það er kominn leki í bátinn sem var kúltúr Oklahoma City. Klúbburinn er ekki lengur krúttlegur. Verkefni númer eitt hjá skrifstofunni er ekki lengur að ala upp framtíðarleikmenn, heldur reyna í óðagoti að sanka að sér mannskap sem getur komið liðinu aftur í lokaúrslitin og haldið því þar - því annars er Kevin Durant farinn eitthvað annað.

Og ef Kevin Durant (og þá Russell Westbrook væntanlega á eftir) fer eitthvað annað, er lítið sem ekkert eftir í Oklahoma neme vel sópaðar en auðar göturnar. Nokkrar beljur jórtrandi í eyðimörkinni. Ekkert.