Tuesday, April 28, 2015

Þúsund orða mynd af Milwaukee


Ef þetta er ekki þúsund orða mynd, þá eru þær ekki til. Rákumst á þessa fyrir skömmu, þetta er aldamótalið Milwaukee Bucks með þjálfarateymi, hásetum og kokki.

Ef vel er að gáð má sjá nokkur áhugaverð andlit þarna, bæði í röðum leikmanna og þjálfara. Auðvitað er hægt að sjá kunnugleg andlit á öllum svona liðsmyndum, en okkur fannst þessi bara alveg spes.

Eldri lesendur þekkja megnið af þessum mönnum og þurfa því ekkert að lesa áfram, bara skoða myndina og fara svo að horfa á Útsvar. Þeir yngri gætu lært eitthvað ef þeir passa sig ekki, eins og Bill Cosby sagði alltaf í upphafi þáttanna um Albert Íturvaxna*

Við byrjum í öftustu röð, en annar maður frá vinstri þar heitir Don Newman og var aðstoðarþjálfari Bucks þarna, en hann var síðar í þjálfarateymi Spurs í átta ár, m.a. þegar það vann titlana 2005 og 2007. Í dag er Newman í þjálfarateymi Randy Whittman hjá Washington Wizards.

Maðurinn hægra megin við Newman, sem sagt gaurinn sem er þriðji frá vinstri í öftustu röðinni, er enginn annar en Ron Adams.

Adams þessi var aðstoðarþjálfari hjá Bucks um aldamótin en er í dag sérstakur varnarþjálfari hjá Golden State Warriors.

Það er mál manna að hann eigi mjög stóran hlut í ógurlegri velgengni liðsins í vetur alveg eins og Alvin Gentry, fyrrum aðalþjálfari Phoenix Suns, en hans sérsvið er sóknarleikurinn.

Þeir Adams og Gentry eru nánustu samstarfsmenn Steve Kerr á bekknum hjá Golden State og þið getið rétt ímyndað ykkur hvort hann hefur ekki notið góðs af reynslu þessara manna í vetur, verandi reynslulaus í þjálfun sjálfur.

Hávaxni maðurinn fyrir miðju í öftustu röðinni gegndi stöðu aðstoðarþjálfara Bucks þegar myndin var tekin, eins og glöggir sjá er hann orðinn aðalþjálfari Portland Trailblazers í dag. Þetta er Terry Stotts, sem hefur verið að gera ljómandi fína hluti með Blazers síðustu ár, þó eitthvað hafi dregið fyrir sólu nú á vormánuðum.

Þá segjum við skilið við öftustu röðina og byrjum lengst til vinstri í miðröðinni.

Þar er fyrstur á blaði jakkafataklæddur maður með mottu sem einhver ykkar ættu að þekkja. Þetta er Ernie Grunfeld, framkvæmdastjóri Washington Wizards í dag.

Grunfeld er fyrrum leikmaður og hann var á skrifstofunni hjá Knicks síðast þegar liðið gat eitthvað. Þar var hann í átta ár, þá fjögur ár hjá Bucks þar sem hann var nýtekinn við þegar myndin er tekin og hefur verið hjá Wizards síðan.

Grunfeld ber ábyrgð á afrekum eins og samningum við Gilbert Arenas og að hafa tekið menn á borð við Kwame Brown og JaVale McGee í nýliðavalinu. Nýjasta afrek hans er líklega þegar hann tók Jan Vesely í staðinn fyrir t.d. Klay Thompson eða Kawhi Leonard í nýliðavalinu árið 2011.

Hægra megin við Grunfeld er götuboltagoðsögnin Rafer "skrepptu á klósettið" Alston. Honum tókst einhvern veginn að eiga tíu ára feril í NBA deildinni þrátt fyrir að vera hálfgert ólíkindatól. Eftir að hafa skoppað á milli nokkurra liða, náði Alston loks að komast alla leið í lokaúrslitin með Orlando Magic árið 2009, þar sem liðið tapaði fyrir Lakers. Hann er samt skólabókadæmi um að blandsnældur og götubolti koma NBA deildinni lítið við.

Ætli þið þekkið ekki manninn hægra megin við Alston. Þar er á ferðinni sjálfur Ray Allen, sem þarna var að hefja sitt fjórða ár í deildinni, sem segja má að hafi verið árið sem hann stimplaði sig inn sem stjörnu í NBA. Allen skoraði 22 stig í leik og skaut 42% úr þristum þennan vetur.

Hægra megin við Allen er svo sjálfur Stóri-Hundurinn Glenn Robinson. Robinson var þarna á sínu sjötta ári með Bucks, en hann var fyrst og síðast skorari og nákvæmlega ekkert annað.

Hann skoraði yfir 21 stig að meðaltali á 8 árum með Bucks en var svo fjandi heppinn að næla sér í meistaratitil á síðasta árinu sínu í NBA deildinni þegar hann var vindill hjá San Antonio Spurs árið 2005.

Sonur Robinson - Robinsin þriðji - er því miður á samningi hjá Philadelphia í dag. Það var Minnesota sem tók Robinson litla í nýliðavalinu árið 2014, nákvæmlega tuttugu árum eftir að Milwaukee tók pabba hans með fyrsta valrétti.

Ekki minnka þær goðsagnirnar í miðröðinni, því næstur á blað er stórsnillingurinn Sam Cassell. Milwaukee hefur ekki riðið feitum hesti í NBA deildinni síðustu áratugi, en það er engin tilviljun að einu árin sem það gat eitthvað, var það Sam Cassell sem sá um boltameðferð.

Maðurinn hóf ferilinn hjá Houston og varð meistari en hann átti síðar eftir að taka lið eins og Milwaukee, Minnesota og meira að segja LA Clippers og gera þau relevant. Cassell er í þjálfarateymi Doc Rivers hjá LA Clippers í dag og við skulum ekki láta það koma okkur mikið á óvart ef hann fær séns sem aðalþjálfari einn daginn.

Og enn erum við hjá Clippers, því maðurinn hægra megin við Cassell á myndinni er svo Vinny Del Negro - maðurinn sem þjálfaði Clippers áður en Rivers og Cassell tóku við liðinu. Del Negro spilaði í mörg ár í NBA deildinni (oftast með sítt að aftan) og margir muna eftir því þegar hann þjálfaði Chicago Bulls fyrir ekki mjög löngu síðan.

Maðurinn lengst til hægri er pólitíkusinn Herb Kohl, fyrrum eigandi félagsins. Kohl keypti Bucks fyrir 18 milljónir dollara um miðjan níunda áratuginn til að tryggja að það færi ekki úr fylkinu, en var reyndar nálægt því að selja Michael Jordan það upp úr aldamótum. Það var svo í fyrra sem Kohl losaði sig loks við Bucks og þá fyrir litlar 550 milljónir dollara.

Þá er það fremsta röðin. Þar má sjá nokkra skemmtilega rulluspilara frá þessum tíma. Annar frá vinstri er meiðslakálfurinn Danny Manning, þá J.R. Reid, svo Scott Williams sem var partur af fyrri titlaþrennu Michael Jordan hjá Chicago Bulls árin 1991-93.

Scott hefur unnið fyrir sér bæði sem aðstoðarþjálfari og sjónvarpsmaður undanfarin ár, en hann var einmitt aðstoðarþjálfari hjá Milwaukee Bucks á síðustu leiktíð.

Virðulegi maðurinn í jakkafötunum í miðri fremstu röðinni er þáverandi aðalþjálfari Milwaukee, George Karl. Hann náði ljómandi fínum árangri með Bucks í kring um aldamótin, en margir muna eftir honum sem þjálfara Seattle, þar sem hann komst t.d. í úrslit árið 1996 en tapaði fyrir Chicago eins og allir aðrir.

Karl er að þjálfa brotajárnshauginn Sacramento Kings í dag og það verður raunar afar áhugavert að sjá hvort fínum þjálfara eins og Karl tekst að moka þetta guðsvolaða lið upp úr skurðinum - eða hvort hann verður lagður inn á hæli snemma næsta haust.

Pilturinn hægra megin við Karl þjálfara heitir því óheppilega nafni Ervin Johnson og var skemmtilegt öskubuskuævintýri á sínum tíma, en hann var kerrudrengur í Bónus í New Orleans þegar hann var "uppgötvaður" ef svo má segja.

Hann fór ekki inn í NBA deildina fyrr en 26 ára og byrjaði ferilinn með Karl hjá Seattle og var aftur með honum hjá Bucks. Johnson var ljómandi fínn varnarmiðherji og þá er sagan öll, en það eru heldur ekki margir Bónusstarfsmenn sem hafa átt tólf ára feril í NBA deildinni.

Hægra megin við Johnson er enn eitt ólíkindatólið. Sá heitir Tim Thomas og náði að gera ein sjö lið gjörsamlega geðveik með leik sínum og viðhorfum.

Thomas var með skrokk - og í sjálfu sér hæfileika - til að verða topp tíu leikmaður í deildinni en sýndi aldrei nema glefsur af þeim, þjálfurum sínum til mikils ama. Það er sorglega mikið af leikmönnum í sögu NBA sem hafa verið með öll tólin en verið of latir til að nota þau. Tim Thomas var einn þeirra.

Einhver hefði nú haldið að maðurinn hægra megin við Tim Thomas gæti ekki verið sorglegri en hann eftir þessa upptalningu, en hann er það nú samt. Aumingja Robert "Tractor" Traylor var gangandi harmleikur. Vandamálin hjá honum byrjuðu strax í háskóla þegar hann var viðriðinn peningahneykslið í kring um Chris Webber og fleiri góða drengi.

Traylor var alla tíð allt of þungur og það átti eftir að koma honum í koll, sem var bölvað, því drengurinn var hæfileikaríkur. Það var Dallas sem tók hann númer sex í nýliðavalinu árið 1998, en skipti honum til Milwaukee fyrir Pat Garrity og einhvern Dirk Nowitzki - gaur.

 Traylor fór í hjartaaðgerð árið 2005 en það var hjartaáfall sem dró hann til dauða vorið 2011 þegar hann var aðeins 34 ára gamall. Hann var þá að spila sem atvinnumaður í Portóríku.

Það er svo Darvin Ham sem er helmassaður á hægrikantinum. Skinkan spilaði átta ár í NBA deildinni sem rulluspilari dauðans sem lítið fór fyrir.

Ætli frægðarkall hans sé ekki þátttaka hans í troðkeppninni árið 1997, en hann vill víst meina að hann hafi átt að vinna þá keppni en ekki Kobe Bryant. Ham er aðstoðarþjálfari Mike Budenholzer hjá Atlanta Hawks í dag.

Það var hressandi að spóla svona aðeins til baka og skoða hvað menn hafa tekið sér fyrir hendur síðan þeir héldu upp á aldamótin í Wisconsin forðum. Við höfðum a.m.k. gaman af því og þið vonandi líka. Það er auðvitað fullkomlega eðlilegt að skrifa 1500 orða hugleiðingu um fimmtán ára gamla mynd, en svo elskum við deildina okkar og ekki gleyma því að þú ert enn að lesa þetta. Okkur tókst a.m.k. að sanna að þetta væri þúsund orða mynd.

--------------------------------------------------------------------------------------------------

* - Hér þýðum við teiknuðu sjónvarpsþáttaröðina Fat Albert frá Bandaríkjunum með þykkum hönskum pólitísks rétttrúnaðar eins og tíðkast í dag, bæði þar úti og hér. Það getur augljóslega sært tilfinningar fólks að kalla það feitt og enginn á að þurfa að sitja undir því að vera kallaður feitur, hvort sem hann er180 eða 220 kíló á þyngd.