Sunday, April 26, 2015

Vörutalning 25/4


Látum okkur sjá...

Í haust reiknuðum við með því að úrslitakeppnin yrði svo jöfn að hún ætti eftir að koma okkur í gröfina. Annað hefur að sjálfssögðu komið á daginn og það er mjög langt síðan fyrsta umferðin hefur verið eins "ójöfn" og raun ber vitni. Það er mjög sérstakt að sex af átta rimmum þar hafi byrjað 3-0, raunar munum við ekki eftir svona löguðu. Það gerðist síðast fyrir tólf árum að fimm einvígi byrjuðu 3-0.

Liðin þrjú í austrinu sem komust í 3-0 gerðu það af því mótherjinn getur ekki neitt. Golden State lokaði New Orleans 4-0,  ekki af því að Brúnar og þeir væru lélegir, heldur af því Golden State er svo sterkt lið.

Svo eru Memphis og Houston komin í 3-0 af margvíslegum ástæðum, einna helst meiðslum.

Það er augljóst að fyrsta umferðin í ár er áberandi slappari en hún hefur verið á síðustu árum. Það er rauntal. En það er samt ósanngjarnt að bera hana saman við fyrstu umferðina í fyrra, sem var ein sú besta sem við höfum séð - ef ekki sú besta.

Það er svo fáránlegt hvað er stutt síðan við spáðum því að úrslitakeppnin í vestrinu í vor yrði ein sú besta (sterkasta) í sögunni, en eins og þið hafið séð fer lítið fyrir því. Það er ekki nema ein dúndur sería í gangi og það er sorglegt.

En nú skulum við hætta þessum helvítis barlómi og henda niður á blað því helsta sem er að frétta úr stríðinu:

Eins og við sögðum ykkur fyrir skömmu, er viðureign LA Clippers og San Antonio að bjarga þessari úrslitakeppni. Fyrstu tveir leikirnir í LA voru rafmagnaðir en San Antonio tók sig reyndar til og slátraði Clippers í þriðja leiknum.

Það er því enginn vafi á því að allur meðbyr í einvíginu er í seglum San Antonio þessa stundina, en slæmu fréttirnar fyrir LA Clippers í því sambandi eru að Texasliðið á helling inni í sóknarleiknum.

Munar þar mestu um Tony Parker, sem vegna margvíslegra meiðsla hefur ekki gert annað en skemma fyrir liðinu með framlagi eins og 25% skotnýtingu.

Lélegur leikur Parker og takmarkað leikform Tiago Splitter hefur hinsvegar ekki komið að sök enn sem komið er í einvíginu og það er nýjustu stórstjörnu NBA deildarinnar að þakka. Kawhi Leonard er gjörsamlega búinn að fara hamförum hjá Spurs og tekur á sig stærra hlutverk með hverjum leiknum sem líður. Hann er í alvöru að verða skerí-góður eins og það er kallað. Aumingja Clippers að þurfa að díla við þetta apparat.

Clippers syngur sama lag og áður. Byrjunarliðið hjá þeim er frábært og hangir oftast í Spurs, en um leið og þeir þurfa að hvíla, fer allt til andskotans í hvelli. Þeim þjálfara-Doc Rivers og framkvæmdastjóra-Doc kemur alveg örugglega illa saman.












Clippers byrjaði þetta einvígi ljómandi vel en er nú komið utan í kaðlana og er á leiðinni út í horn meðan það verst höggum Spurs-manna.Tap í næsta leik þýðir bara kapútt fyrir Clippers og enn eitt vonbrigðavorið. Það gæti líka þýtt að Chris Paul færi að hata lífið svo mikið að hann færi að drekka sellulósaþynnir í óhófi. Og svo byrjum við öll að spyrja okkur hvort það sé honum að kenna að hann nái aldrei neinum árangri í úrslitakeppninni blessaður karlinn.

Golden State stóðst fyrstu áskorun sína með miklum sóma og sópaði Dílaskörfunum frá New Orleans 4-0. New Orleans er lakara lið en hin sjö í úrslitakeppni vestursins en leikmennirnir reyndu sitt besta með Brúnar í fararbroddi. Hafi Davis ekki verið "mættur" sem útltramegastjarna í vetur, tryggir frammistaða hans í úrslitakeppninni það endanlega.

Aumingja Portland er lent 3-0 undir á móti Memphis og það er ekki hægt annað en vorkenna Blazers í öllu þessu meiðsaveseni sem er alltaf á þessu liði.

Portland er kannski ekki að spila á fullum styrk en Memphis er engu að síður að spila mjög vel og það þrátt fyri að vera líka með sína eigin hrúgu af meiðslum.

Við segjum þetta örugglega á hverju ári, en það langar engan að mæta Memphis í næstu umferð. Liðið var ekki búið að spila neitt sérstaklega í seinnihlutanum í deildinni, en nú er það að fá óskabyrjun í úrslitakeppninni og er komið í 3-0 í seríu í fyrsta skipti í sögu félagsins.

Portland bíður bara eftir því að fara í sumarfrí og það getur vel verið að þetta sumar verði eintómt þunglyndi. Það er alvanalegt að slúðrið fari af stað ef liði er sópað út úr fyrstu umferð og við erum farin að sjá alls konar áhugaverðar kenningar um meinta brottför LaMarcus Aldridge frá félaginu. Það er svo stutt á milli þess að vera ungur og efnilegur yfir í að vera lúser sem ákveðið er að stokka upp. Grimmur raunveruleikinn í NBA.

Houston er í svipaðri stöðu og Memphis, þar sem það er komið í 3-0 gegn liði sem er án lykilmanna. Það vantar reyndar líka menn í Rockets-liðið en það fallega við þetta er að mannahallæri hefur ekki verið neitt vandamál hjá þeim - þeir halda bara áfram að vinna körfuboltaleiki.

Það hjálpar þegar Dwight Howard hreyfir sig eins og unglingur og Skeggið býður upp á 40.

Það er mjög fljótlegt að gera langa sögu að stuttri varðandi stöðuna á Dallas. Liðið tók séns í vetur (Rondo-díllinn) en datt á rassgatið og er bara einfaldlega ekki með þetta núna. Cuban og félagar eru á leiðinni að teikniborðinu mjög fljótlega.

Atlanta aulaðist til að láta Brooklyn minnka muninn í 2-1 á móti sér í kvöld með því að spila gjörsamlega eins og fífl.

Manstu þegar við vorum að tala um að Atlanta væri jú alltaf Atlanta? Það var svona rugl sem við vorum að tala um þegar við vöruðum fólk við að hringja til Vegas og setja milljón á Hawks.

Við þreytumst aldrei á því að velta okkur upp úr drullusvaðinu sem er ógæfa Brooklyn Nets. Bakvarðaparið Deron Williams og Joe Johnson eru fánaberar hinna moldríku en metnaðarlausu. Að horfa upp á þessa menn þykjast vera að reyna að vinna er álíka niðurdrepandi og að fara á tónleika með The Smiths, The Cure og Joy Divison á sama kvöldinu.

Sérstaklega finnst okkur það svo sorglegt hvað hefur orðið um leikstjórnandann Deron Williams, sem er alltaf meiddur og er löngu hættur að spila eins og einn besti bakvörður deildarinnar og er bara bókstaflega lélegur í dag. Þessir sveppir geta alltaf huggað sig við það að þeir eru milljarðamæringar, en það er ekkert rosalega gaman í vinnunni hjá þeim.

Það hefur verið afar forvitnilegt að fylgjast með seríu Toronto og Washington. Ekki vegna þess að hún sé svo æðisleg, heldur af því það er komið í ljós að það eru engin takmör fyrir því hvað þetta Toronto-lið er mikið drasl.

Þið munið kannski eftir því að fyrir á að giska tveimur árum eða svo, ætluðu forráðamenn Toronto að stokka rækilega upp í spilabunkanum og efa upp á nýtt, en þá fundu þeir það út fyrir algjöra tilviljun að liðið gat unnið nokkra leiki - ekki síst eftir að búið var að reka Rudy Gay úr landi. Nú er hætt við því að umrædd stokkun fari fram í alvöru.

Washington er ágætis körfuboltalið og ekkert meira en það og því verður að telja "árangur" Toronto áhugaverðan í fyrstu umferðinni, þar sem það er að falla úr leik með skottið uppi í anusnum á sér annað árið í röð ef ekki vill betur til.

Vankað dæmi.

Boston er ekki búið að veita Cleveland mikla samkeppni þannig séð, enda var ekki búist við því.

Þvílíkur munaður að fá svona létta rimmu til að hita upp fyrir alvöru einvígin sem á eftir koma. Með fullri virðingu fyrir leikmönnum Celtics og sérstaklega þjálfaranum, eru þeir bara númeri of lélegir tl að eiga erindi í Cavs. Það eina sem er spennandi að fylgjast með í þessari rimmu er hvort J.R. Smith verður yfir 17 prósentunum í þriggja stiga nýtingunni.

Þá er ótalið einvígi Chicago og Milwaukee, þar sem þeir grænklæddu náðu að klóra í bakkann í nótt. Eins og með flest einvígin í Austurdeildinni, skiptir þetta ekki nokkru sköpuðu máli og flestum er sama. Það eina sem við veittum athygli var að Derrick Rose virtist vera að ná sér ágætlega á strik hjá Bulls ef við teljum varnarskituna hans á lokasekúndunum í nótt ekki með.

Nú eru línur teknar að skýrast varðandi aðra umferðina. Warriors-vélin kemur til með að mæta Memphis í vestrinu og Houston fær þá sigurvegarann í Spurs-Clippers.  Í austrinu förum við kannski að fá þolanlegar seríur þar sem stefnir í að Atlanta mæti Washington og Cleveland fái Chicago.

Að lokum eru hér nokkrar myndir úr leikjunum undanfarna daga.