Friday, April 17, 2015

Vörutalning að vori: Vesturdeild


Og þá að deildinni sem skiptir máli - Vesturdeildinni. Það er stutt síðan við vorum að væla yfir því að allt væri ómögulegt af því allir væru meiddir og það er að vissu leyti satt, en við sögðum ykkur líka að þetta yrði samt góð úrslitakeppni, af því hún er það alltaf. Alltaf.

Jæja, Golden State Warriors... Pressa?

Golden State (1) - New Orleans (8)

Við skulum byrja á einu áður en lengra er haldið. Golden State vann sextíuogsjö leiki í deildinni í vetur. Það er bara helvíti vel gert og það skiptir alveg máli líka, þó það hjálpi liðinu takmarkað í úrslitakeppninni. Það eina sem það gerir er að tryggja Golden State heimavallarréttinn alla leið ef til þess kemur og það skiptir máli fyrir lið sem tapaði einum heimaleik fyrir Vesturdeildarliði í vetur og það var fyrir meira en fimm mánuðum síðan! Dubs eru með fjandi góðan heimavöll og það er hið besta mál.

Það kom í hlut Brúnars og félaga frá New Orleans að verða fallbyssufóður fyrir Warriors í fyrstu umferðinni. Það er líka hið besta mál, því Oklahoma hefur enn minna í Warriors að gera en New Orleans. Oklahoma hefði getað tapað fimm - núll fyrir Golden State ef það hefði haft betur í innbyrðisviðureignum sínum við New Orleans í vetur.

Leikurinn sem réði úrslitum um hvort liðið náði áttunda sætinu (þau enduðu jöfn í töflunni 45-37)?

Við gefum Brúnari orðið:



Svona er var þetta og er í Vesturdeildinni. Innbyrðisviðureignir skipta máli og einn daginn ertu í öðru sæti og hinn daginn ertu í sjötta sæti - spurðu bara meistarana. Slæmt fyrir þau, gaman fyrir okkur. Hatursmenn og nöldurseggir segja að deildarkeppnin sé allt of löng og að leikirnir skipti engu máli.

Einmitt.

En nú byrjar nýtt mót. Það stóra. Og nú fáum við endanlega að sjá úr hverju Golden State er gert. Strákarnir hans Steve Kerr eru búnir að eiga eitt besta ár sögunnar í deildinni og því er engin ástæða til að ætla að þeir fylgi því ekki eftir í úrslitakeppninni - þeir voru jú með (lang)bestu vörnina í deildinni (98,2 stig per 100 sóknir) og næstbestu sóknina (109,7 stig per 100 sóknir - 0,1 stigi á eftir bestu sókn deildarinnar hjá Clippers).

En við vitum öll að úrslitakeppnin er ekki það sama og deildarkeppnin og við þurfum ekki að leita lengra en til hins hræðilega árs 2007 til að finna dæmi um einmitt 67 sigra lið sem skeit á sig í fyrstu umferð (Dallas).

Svoleiðis lagað er þó undantekning en ekki regla og það er nákvæmlega ekkert sem bendir til þess að Golden State verði í vandræðum með New Orleans í fyrstu umferðinni.

Fyrst og fremst verður gaman að sjá hvort skytturnar hjá Golden State halda áfram að hitta jafn óguðlega vel og þær gerðu í deildinni. Stephen Curry verður örugglega kjörinn leikmaður ársins og hann veit að maður verður að fylgja því almennilega eftir í úrslitakeppninni.

Einvígi þessara liða stendur ekkert og fellur með Curry en það mun koma að því í þessari úrslitakeppni að hann þarf að stíga á stokk fyrir liðið sitt.

Það er rosa krúttlegt að raða niður þristum í deildarkeppninni, en halda þeir áfram að detta þegar þú ert með Tony Allen og Kawhi Leonard á kafi í analnum á þér í 40 mínútur á kvöldi?

Það er jákvætt að fá að sjá Brúnar stíga sín fyrstu (löngu) skref í úrslitakeppninni og kannski nær hann að gera Warriors lífið leitt í einum eða tveimur leikjum - við myndum ekki gráta það og þið ekki heldur. Við höldum öll með brúnari - meira að segja stuðningsmenn Warriors.

Við skulum samt ekki fá neinar ranghugmyndir og halda að þetta verði einvígi. New Orleans er ekki með nógu gott lið til að veita Golden State keppni og þetta er eina serían í vestrinu sem er bókstaflega ójöfn fyrirfram.

Ef við segjum nú að Golden State næði að leggja Dílaskarfana að velli og fara í aðra umferð, þá bíður þeirra sigurvegarinn í rimmunni sem oftast er jöfnust - baráttan milli liðanna í fjórða og fimmta sæti.

Memphis (4) - Portland (5)

Annað árið í röð er Portland í 4-5 einvíginu og annað árið í röð er liðið án heimavallarréttarins. Í fyrra var mótherjinn Houston og það einvígi náði Portland að vinna. Nú er mótherjinn Mempis - talsvert sterkara lið, sem getur að hluta til þakkað meiðslum það að vera í þessu sæti en ekki öðru sæti. Portland kannski líka.

Þetta er nefnilega tvö meiddustu liðin í úrslitakeppninni og kannski við hæfi að þau lemji hvort á öðru strax í byrjun. Portland er eins og þið vitið án lykilmanna eins og Wesley Matthews og LaMarcus Aldridge gengur ekki heill til skógar. Sama er uppi á teningnum með t.d. Mike Conley og Tony Allen hjá Memphis. Ferlegt að þessi lið geti ekki mætt heil til leiks í úrslitakeppninni, en svona er þetta stundum grábölvað helvíti.

Fyrstu viðbrögð okkar við þessu einvígi voru að segja að Memphis tæki það auðveldlega, en þá höfðum við í huga að Memphis er í bullandi meiðslum alveg eins og Portland og þá staðreynd að Memphis burstar lið ekki. Memphis vinnur bara á því að grænda og þess vegna vinnur Memphis þessa seríu með 88-86 sigri í oddaleik á heimavelli.

Má kalla það munað fyrir Golden State að fá annað hvort þessara löskuðu liða í næstu umferð? Já og nei. Vissulega er það Warriors í hag ef andstæðingurinn er ekki með sitt sterkasta lið. En vandamálið er að það eru öll einvígi í vestrinu drullu erfið, alveg sama hvað vantar marga leikmenn.








Houston (2) - Dallas (7)

Ef það var ekki síðasta rósin í loðið hnappagat James Harden í MVP-kapphlaupinu að Houston-liðið hans skuli hafa náð að stela öðru sætinu í Vesturdeildinni, þá er ekkert til sem heitir rósir.

Það er rétt sem eigandi Golden State sagði, Harden er búinn að spila svo frábærlega í vetur að af átta af hverjum tíu árum hefði það dugað honum til að verða útnefndur Mest Verðmæti Pilturinn í deildinni. Árið í ár er bara ekki eitt af þessum átta og því verður það Curry sem vinnur þetta.

Hvað sem því líður, er það óhemju sterkt hjá Kevin McHale og Skegginu að stela þessu dýrmæta sæti og næla sér í heimavöllinn, þó það hafi reyndar ekki dugað í fyrra.

Fáa (o.k. - enga) hefði grunað að Houston ætti eftir að ná svona hátt í töflunni, sérstaklega í ljósi allra meiðslanna sem hafa verið að sparka í punginn á Rockets í alla vetur.

Núna eru hinsvegar ekki nema tveir lykilmenn meiddir og Dwight Howard að losna við tímatakmarkanir sem hann hafði á sér eftir meiðsli sem kostuðu hann hálfan veturinn, svo liðinu ætti ekki að vera neitt að vanbúnaði með að valta yfir granna sína í Dallas, eða hvað?

Jú, Houston er miklu sigurstranglegra, er með betri leikmenn og er búið að spila miklu betur í allan vetur. Við erum búin að fara yfir Rondo-fíaskóið hjá Dallas hundrað sinnum, svo við skulum sleppa því að gera það enn einu sinni. Dallas er bara ekki sannfærandi núna, á meðan Houston finnur einhverjar fáránlegar leiðir til að vinna alla leiki - sérstaklega með hjálp James Harden.

Skeggur hefur reyndar mikið að sanna í úrslitakeppninni í vor af því ef við eigum að vera alveg hreinskilin, er hann eiginlega búinn að drulla á sig í síðustu seríunum sem hann hefur tekið þátt í allar götur síðan hann var með Oklahoma. Hann er búinn að skjóta undir 40% í síðustu þremur seríum sem hann hefur spilað og hefur náttúrulega ekki unnið seríu síðan hann lék með Oklahoma árið 2012.

Harden átti mjög erfitt uppdráttar í úrslitakeppninni gegn Portland í fyrra, en þar var eins og dómararnir settu nýja línu fyrir hann og fyrir vikið náði hann aldrei takti, hitti ekki rassgat og kom sér ekki á línuna eins og hann var vanur.

Þetta hefur væntanlega farið í reynslubankann hjá Harden og á meðan hann var með menn eins og Nic Batum og Wesley Matthews límda á sig í fyrra, ætti hann að eiga mun auðveldari daga í vændum gegn Dallas - nema að einu leyti.

Við vitum öll hvað Rick Carlisle er mikill refur. Eins og frægt varð, veitti Dallas-liðið hans San Antonio mesta samkeppni í úrslitakeppninni í fyrra og það af vanefnum, Sumir vilja reyndar meina að San Antonio hafi bara verið að hita upp í því einvígi og það er mikið til í því - San Antonio sem vann Dallas í oddaleik var ekki að fara að komast áfram upp úr annari umferð. Enda mætti allt annað San Antonio til leiks í umferðinni á eftir gegn Portland eins og þið munið. Það var Nú ætlum við að taka liðið þitt, hakka það í sundur með gamalli stunguskóflu og henda því í trjákurlara-San Antonio.

Og það fór alla leið eins og þið munið.

Það er aðeins vegna virðingar okkar fyrir Carlisle sem við teljum að þetta einvígi verði að einhverjum hluta spennandi - og reyndar af því þetta Houston lið hefur ekki sannað að það geti gert neitt í úrslitakeppni. En nú er lag fyrir Skeggið og félaga.
















L.A. Clippers (3) - San Antonio (6)

Restina rekur svo einvígið sem hefur alla burði til að verða það besta í allri fyrstu umferðinni (meira að segja betra en Atlanta-Brooklyn), en það er Los Angeles Clippers - San Antonio Spurs.

Hérna er gríðarlega mikið í húfi og það er í þessu einvígi umfram öðrum sem gallarnir í fyrirkomulaginu á úrslitakeppninni koma í ljós. Auðvitað er það rakið kjaftæði að annað hvort Clippers eða Spurs detti út í fyrstu umferð í úrslitakeppninni á meðan tryggt er að rusl eins og Washington eða Toronto fari í aðra umferð eða lengra.

Það þýðir samt ekkert að grenja þetta. Sá dagur á eftir að renna upp sem Austurdeildin verður aftur sterkari en Vesturdeildin (immit) á ný og þá fara allir að væla yfir því að fleiri lið að austan eigi að komast í úrslitakeppnina í stað lakari liða í vestrinu (immit). Let´s feis it, það hlýtur að enda með því að eitthvað af þessu rusli í Austurdeildinni fái nógu andskoti marga nýliða til að detta í lukkupottinn með eitthvað af þeim.

Þá erum við auðvitað ekki að tala um félög rekin af hálfvitum eins og New York, heldur ef til vill klúbbar eins og Milwaukee (immit) eða Boston (immit) sem eiga einhvers konar framtíð fyrir sér á næstu árum.

Úff, þetta var of langur útúrdúr um Austurdeildina. Svo langur að við vorum rétt búin að æla á lyklaborðið. Þá dugar ekkert annað en að ímynda sér Kawhi Leonard að spila pressuvörn á Chris Paul frá körfu til körfu og aaaah - maginn verður eins og nýr.


Já, við vorum að tala um hvað væri mikið í húfi í Clippers og Spurs. Auðvitað er mikið í húfi hjá meisturunum - það er alltaf mikið í húfi hjá öllum meisturum af því þeim tekst frekar sjaldan að verja titlana sína, sérstaklega ekki ef þeir heita San Antonio. Því ætti Spurs allt í einu að taka upp á því að verja titilinn sinn, sextán árum eða svo eftir þann fyrsta?

Það er ómögulegt að segja með þetta San Antonio lið. Eins og venjulega eru eru einhver spurningamerki með heilsu manna - í þetta sinn helst hjá Tiago Splitter, sem einhverra hluta vegna er bráðnauðsynlegur í varnarleik Spurs. Við getum ekki undirstrikað mikilvægi fullrar heilsu á lið San Antonio og því til sönnunar getum við bent á þróun sem hefur átt sér stað á síðasta áratug:

San Antonio vinnur oft meistaratitla þegar það er með alla menn heila, en á enn frekar til að drulla hressilega upp í hárið á sér þegar einhver lykilmanna þess er eitthvað meiddur.

Það verður óhemju áhugavert að fylgjast með Spurs á næstu dögum og vikum, ekki síst vegna þess að þetta HLÝTUR bara að vera síðasti sénsinn þeirra með Duncan og Manu. Við trúum því bara ekki að Duncan geti tekið einn snúning í viðbót í kring um fertugsafmælið sitt.

Við erum orðin leiðari á á segja að það megi enginn vanmeta San Antonio en að segja að það megi enginn vanmeta Keflavík. Það vanmetur enginn Keflavík í dag af því Keflavík getur ekki rassgat núna og þó San Antonio falli tæplega í ruslflokk á næstunni, hlýtur það að taka einhverja dýfu þegar það skiptir gömlu mönnunum út, alveg sama hvað Kawhi Leonard verður góður.

En verði San Antonio í sviðsljósinu í þessu einvígi, verður Clippers-liðið bókstaflega í eldhafinu.

Það er mikið undir hjá mörgum í þessari úrslitakeppni. Atlanta þarf að sanna að það sé ekki bara deildarkeppnisdúlla, LeBron þarf að sanna að hann sé bestur í heimi og geti gert sorgarborgina Cleveland að meistara, James Harden þarf að sanna að hann geti gert eitthvað annað en drulla á sig og svo framvegis.

L.A. Clippers hinsvegar...

Þar er bara allt undir. Svipað mikið og hefði verið undir hjá Oklahoma City, ef það hefði ekki stigið á jarðsprengju í haust og kastast á aðra jarðsprengju með þeim afleiðingum að það flaug á enn aðra jarðsprengju og sprakk í tætlur. Rann svo saman við drulluna og varð að lokum að ryki sem hægt var að dusta af sér með lítilli fyrirhöfn.

En Oklahoma hefur nokkuð sem Clippers hefur ekki og það er tími (ef við gefum okkur að Durant stingi ekki af þegar samningur hans rennur út eftir næstu leiktíð).

Og þessi tímapressa kemur til vegna Chris Paul, fyrst og fremst. Paul er leiðtogi þessa liðs frá a til ö, hvor sem það er gott eða slæmt. Þið afsakið grafískar lýsingar, en Chris Paul er dálítið eins og ofvirkur Pit Bull með hundaæði og sinnep í rassgatinu þessa dagana. Hann er í herferð og hann er með plan.

Við höfum líka tekið þessa umræðu um Chris Paul hundrað sinnum, til dæmis hér og hér, en narratífið í kring um hann er bara að verða svo hrikalega áhugavert. Hann er búinn að spila eins og andsetinn í allan vetur og hefur verið einn besti leikmaður deildarinnar eins og alltaf. Skilar 19 stigum, 10 stoðsendingum og 49% - 40% og 90% skottölum, sem er ákveðið rugl. Hann spilaði meira að segja alla 82 leikina í fyrsta sinn á ferlinum, en hann hafði ekki náð 80 leikjum nema tvisvar fram að þessu.

Breiddin hjá Clippers gerir ekki annað en að minnka, en liðið heldur áfram að vinna. Mikið af því er Chris Paul að þakka, þó hann hati lífið rosalega mikið og taki það stundum út á liðsfélögum sínum. Það er reyndar skiljanlegt að Paul langi stundum að berja tennurnar úr þessum gaurum með kúbeini, því það er enginn maður í liðinu með keppnisskap sem kemst nálægt hans, nema kannski þjálfarinn.


Paul er ekki hrifinn af því þegar guttarnir hlæja og gera að gamni sínu. Hann sér lengra en augun nema og veit að klukkan tifar. Strákpjakkar eins og Blake Griffin og DeAndre Jordan vita af klukkunni, en þeir taka hana ekki alvarlega, þeir eru of ungir og þeir vita ekki hvað tækifærið til að vinna meistaratitil gefst hrikalega sjaldan, ef það gefst á annað borð.

Chris Paul veit aftur á móti allt um þessi mál. Flestir eru sammála um ágæti hans sem leikmanns, hann er alltaf þarna uppi og oftast kallaður besti leikstjórnandi heims. En eins og við ræddum í fyrra, verður hann líklega alltaf dæmdur eftir árangrinum sem hann náði í úrslitakeppni en ekki í deildarkeppni. Þegar menn eru orðnir þetta góðir, komnir með þennan status, þá eiga þeir að ná árangri.

Og ef við tölum bara um hlutina eins og þeir eru, hefur Chris Paul strangt til tekið ekki unnið rassgat á fyrsta áratugnum sínum í NBA deildinni og það er hætt við þvi að gagnrýnendur hans taki af sér silkihanskana áður en þeir skrifa um hann í ár ef hann stoppar stutt við í úrslitakeppninni enn eitt árið.

Þetta er að hluta til ósanngjarnt, en að hluta til sanngjarnt. Ef þú þykist vera ákveðið góður leikmaður (þó Paul þykist ekki vera eitt eða neitt) og ert með ákveðið góða meðspilara og þjálfara - þá áttu bara að drullast lengra í úrslitakeppni en hann hefur verið að gera.

Við vitum alveg að Paul nær einhvern veginn alltaf að mæta einhverjum San Antonio-um og Oklahom-um í úrslitakeppninni, en töff sjitt, það þurfa allir að gera.

Hann getur kannski huggað sig við það að það að verða þrítugur (sem hann verður í næsta mánuði) er hið nýja 24 ára og 38 ára er hið nýja 32 ára (hjá Duncan er 39 ára hið nýja 35 ára, eða eitthvað... rugl). Klukkan tifar á hann, en hann á samt að eiga nóg af góðum árum eftir til að elta þann stóra - og eina.

Svo við tölum kannski aðeins um einvígið sjálft, er það án nokkurs vafa það áhugaverðasta í 1. umferðinni. Lang-áhugaverðast, ef við eigum að vera nákvæm, jafnvel þó það sé með gamla, þreytta San Antonio. Hugsið ykkur. Gömlu hundarnir.

 Eins og áður sagði, er það algjörlega skítlegt að annað þessara liða þurfi að falla úr leik í fyrstu umferð, því flestir eru líklega sammála um að þetta séu tvö af allra bestu liðum deildarinnar þó þau séu ekki fullkomin.

Það að Clippers sé með heimavöllinn í þessu gerir rimmuna enn áhugaverðari og jafnari, en ef nánar er að gáð, skiptir hann kannski ekki endilega öllu máli.

Flestir stuðningsmenn Clippers eru nefnilega rækjusamlokur og San Antonio gæti ekki verið meira sama hvort það spilar heima eða úti - gott ef það er ekki betra á útivöllum.

Það gæti samt orðið þreytt á endanum og það er ekki algengt að lið án heimavallar fari alla leið.

Houston-lið Hakeem Olajuwon fyrir tuttugu árum vann meistaratitilinn þrátt fyrir að ná aðeins sjötta sæti í deildakeppninni, en það var algjör undantekning. Lauslega reiknað, verður NBA lið neðar en í 3. sæti í deildarkeppninni meistari á rúmlega þrjátíu ára fresti.

Það hefur komið okkur dálítið á óvart að einn og einn spámaður hefur spáð Clippers sigri í þessu einvígi án þess að depla auga. Það myndum við aldrei gera af því við erum of brennd eftir San Antonio í gegn um árin, en við erum handviss um að eitt atriði öðrum fremur eigi eftir að ráða úrslitum í þessu einvígi.

Breiddin.

Þú getur talað eins og þú vilt um breiddina í öllum heimsins körfuboltaliðum - ekkert þeirra kemst nálægt því sem bekkurinn hjá San Antonio gerði í fyrra þegar liðið var á annað borð komið á siglingu.

Frammistaða bekksins hjá þeim var sögulega góð og ef hann skilar þó ekki væri nema helmingnum af því sem hann skilaði á síðari stigum úrslitakeppninnar í fyrra, á Clippers ekki séns í þessu einvígi.

Báðir klúbbar eru með rosalega fín byrjunarlið - ekki síst Clippers - sem eru tölfræðilega með eitt allra besta - ef ekki besta - byrjunarlið deildarinnar. En þegar við komum á bekkinn er eins og við göngum fram af fjallsbrún; það er ekkert þarna.

Eða hvernig sérðu annars fyrir þér að hlutirnir þróist þegar þú stillir Manu Ginobili, Boris Diaw, Patty Mills, Marco Belinelli og Cory Joseph upp á móti (kyngj) mönnum eins og Big Baby Davis, Hedo Turkoglu og Austin Rivers? Einmitt.

Eins og okkur einum er lagið, náum við að snúa þessu einvígi upp í eintóma neikvæðni með því að einblína á að annað þessara liða þurfi að fara í sumarfrí eftir hálfan mánuð.

Það væri samt heimskulegt að horfa aðeins á það neikvæði, því þetta einvígi á án alls vafa eftir að verða vel spilað og í alla staði rosaleg - nema þegar og ef Gregg Popovich byrjar að hakka DeAndre Jordan og senda hann 30 sinnum á vítalínuna til að fokka í sóknarleik Clippers.

Pop á eftir að gera mikið af því, sannaðu til, og hann á eftir að setja heimsmet í því ef hann mætir Houston "við erum ekkert svo með lélegustu vítaskyttur í sögu mannkyns í okkar röðum, raunar svo hrottalega lélegar að við myndum tapa í vítakeppni fyrir Kristjáni Loftssyni, Vigdísi Finnboga og ófleygri branduglu" Rockets.

Það er sumsé sama hvernig þetta einvígi fer, það verða stórfréttir þegar annað þeirra tapar og það þarf að svara erfiðum spurningum. Ef San Antonio tapar, segja menn "þeeeett´er búið!" og heimta að Duncan hætti. Tapi Clippers hinsvegar, heimta allir fjölmiðar í heimi höfuðið á Chris Paul á bakka og hann verður stimplaður skussi, gunga, lydda og lúsablesi. Blake Griffin líka og það mögulega án tillits til spilamennsku þeirra.

Enn og aftur, það yrði ósanngjarnt, en kannski er að verða komið nóg af meðvirkni með Chris Paul sem á að baki sex ferðir í úrslitakeppnina, þar sem hann hefur þrisvar verið sleginn út í fyrstu umferð og þrisvar í annari umferð.

Það er eitt að vinna ekki titil, annað að komast ekki í lokaúrslit, en ef leikmaður í hæsta kaliberi kemst ekki einu sinni í úrslit Vesturdeildarinnar, þurfum við kannski að kíkja í bækur og kæla kippu af Hatorade...