Sunday, March 29, 2015
Hot Rod Hundley lýkur keppni
"Stockton to Malone, hammer dunk! You gotta love it, baby!"
Þetta er einn af fjölmörgum frösunum hans Rod "Hot Rod" Hundley sem féll frá um helgina, áttræður að aldri. Ef þú fylgdist eitthvað með NBA deildinni hér á árum áður, hefurðu heyrt röddina hans Hot Rod lýsa einhverjum tilþrifum. Ef ekki, ertu líklega döff og þá hefur lítið upp á sig að vera að pæla í því.
Í myndbrotinu hér fyrir neðan má heyra Hundley lýsa því þegar John Stockton sló stoðsendingamet Magic Johnson á sínum tíma (og undirstrikar í leiðinni hvað NBA deildin hefur frjálslegar hugmyndir um það hvað er stoðsending og hvað ekki).
Hundley gerði gott mót með Vestur Virginíuháskóla eins og Jerry West á sínum tíma og spilaði sex ár í NBA deildinni með Minneapolis- og síðar Los Angeles Lakers. Eftir að leikmannsferlinum lauk, flutti Hundley sig yfir á hljóðnemann, þar sem hann lærði mikið af goðsögninni Chick Hearn hjá Lakers. Hot Rod var stundum sakaður um að stela frösum frá Hearn, en svaraði því jafnan svo:
"Ég stal ekki nokkrum frösum frá Chick Hearn, ég stal öllum mínum frösum frá Chick Hearn!"
Frá Lakers lá leið hans til New Orleans þegar Jazz var stofnað árið 1974 og flutti með því til Utah árið 1979. Hann var aðalþulur Jazz í útvarpi og sjónvarpi í 35 ár og enginn hafði starfað lengur hjá félaginu þegar hann lagði míkrafóninn á hilluna árið 2009.
Svo djúp spor liggja eftir þennan skemmtilega mann hjá félaginu að það nefndi fjölmiðlamiðstöð sína í höfuðið á honum og sumir gátu hreinlega ekki hugsað sér að fylgjast með Jazz án þess að hafa rödd Hundley með í för. John Stockton sagði að hann ætti erfitt með að ímynda sér hvernig einhver annar en Hot Rod ætti að geta lýst leikjum Jazz, sem var kannski ekki furða eftir að sá gamli hafði lýst meira en 3000 leikjum með liðinu.
Ef þú ert ennþá að lesa þegar hér er komið við sögu, gæti verið að þér leiðist og þú hafir ekkert annað að gera. Það má vel vera og við sýnum því skilning.
En kannski ertu enn að lesa af því þér er ekki skítsama um allt og alla. Kannski gerir þú eins og við gerðum þegar Anthony Mason og Jerome Kersey létust um daginn. Kannski tekurðu þér smá stund, staldrar við og hugsar um hvernig þessir menn lögðu sín lóð á vogarskálarnar til að gera Leikinn að því sem hann er. Öll erum við jú á sama ferðalaginu og við ráðum sjálf hvort við tökum þátt í því eða ekki.
You gotta love it, baby!
Efnisflokkar:
Dánarfregnir og jarðarfarir
,
Fjölmiðlar
,
Fret úr fortíðinni
,
Goðsagnir
,
Jazz
,
Lýsingar
,
NBA 101
Thursday, March 26, 2015
Saturday, March 21, 2015
Fyrsta höggið
Okkur grunaði þetta. Við reiknuðum með því að gömlu refirnir í Keflavík ættu eftir að prófa að lemja strákana í Haukum strax í byrjun og freista þess að slá þá út af laginu. Við sáum reyndar ekki fyrri hálfleikinn - og við höfum oft séð Keflavík leika fastar - en Suðurnesjaliðinu tókst að gera nákvæmlega það sem það ætlaði sér. Nýta sér reynslu sína og klókindi til að stela heimavellinum af guttunum.
Þetta var sannkölluð prófraun fyrir Haukapilta, það var ekkert leyndarmál. Nú er kominn tími á þá að fara að vinna leiki í úrslitakeppni eftir að hafa verið að krúttast og þroskast í nokkur ár. Nú er ekkert í boði að láta sópa sér út í fyrstu umferð, núna er efniviður í Hafnarfirðinum til að fara lengra. Fólk beið enda eftir því.
Haukar - Kef er mjög áhugaverður leikur. Time to grow up, Hawks. #nextlevel
— Baldur Beck (@nbaisland) March 20, 2015
Hafnfirðingar þurfa ekkert að örvænta þó þeir hafi tapað fyrsta leiknum í einvíginu, það er nóg eftir. Þessi leikur var svo jafn að sigurinn hefði getað dottið hvoru megin sem var. Rétt eins og KR-ingar gátu treyst á Helga Magg í gærkvöldi, gátu Keflvíkingar treyst á Össur til að framleiða stig upp úr engu þegar allt var í lás í krönsinu.
Þetta verður hrikalega áhugaverð sería og við getum ekki beðið eftir að sjá hvernig þeir Emil og Kári, sem báðir hótuðu þrennum í kvöld, ná að svara fyrir sig í Sláturhúsinu. Hérna fyrir neðan er slatti af myndum ef þú hefur áhuga.
Efnisflokkar:
Haukar
,
Heimabrugg
,
Keflavík
,
Úrslitakeppni 2015
Friday, March 20, 2015
Pat Riley er sjötugur í dag
Það er enginn smá karl sem á afmæli í dag, enda er Pat Riley eitt stærsta nafn í sögu NBA deildarinnar. Honum er oft líkt við guðföðurinn úr samnefndri kvikmynd eftir skáldsögu Mario Puzo.
Riley er alveg einstakur með það að hann átti farsælan feril sem leikmaður, þar sem hann var m.a. partur af einu besta liði allra tíma (Lakers ´72), vann nokkra meistaratitla sem þjálfari og rak svo smiðshöggið á þetta með því að verða einn besti skrifstofumaður deildarinnar hjá Miami.
Það er óþarfi að vera að masa eitthvað um Pat Riley hér, því ef þú veist ekki hver Pat Riley er, er ljóst að þú hefur engan áhuga á körfubolta og myndir því ekki lesa pistilinn okkar ef við skrifuðum hann. Þetta heitir að koma sér fagmannlega hjá hlutunum.
Nei, við skulum heldur skoða extra feitan bunka af myndum af Riley. Nokkrar frá því þegar hann var leikmaður í NBA, nokkrar úr þjálfuninni og svo slatti af honum bæði við skrifstofustörfin og í chilli með forsetum og öðru frægu fólki. Smelltu á myndirnar til að stækka þær.
Innilega til hamingju með daginn, Pat Riley.
KR vann fyrsta leikinn gegn Grindavík
Hversu oft höfum við ekki séð þessa uppskrift áður í úrslitakeppninni. Liðið í fyrsta sæti í deildinni tekur á móti liðinu í áttunda sæti í leik eitt í fyrstu umferð. Lið eitt hefur forystuna framan af og kemur sér í dauðafæri til að klára leikinn í fyrri hálfleik, en á þá lélegan kafla í staðinn og leikurinn er galopinn í hálfleik.
Í síðari hálfleik er liðið í fyrsta sæti með forystuna áfram og heldur áfram að bæta við hana, en þegar rothöggið á að koma, drullar það á sig og hleypir gestunum inn í leikinn - og rúmlega það. Gestirnir ná að jafna leikinn þegar skammt er til leiksloka, en hafa ekki kraft eða hæfileika til að klára dæmið.
Í stað þess að gestirnir steli leiknum, er það nefnilega fagmaður í liði heimamanna sem ákveður að ganga fram fyrir skjöldu og loka þessu fyrir sína menn, sem taka 1-0 forystu í einvíginu og standa af sér fyrstu áskorunina í úrslitakeppninni.
Við vitum ekki með ykkur, en við höfum mjög oft séð fyrsta leik eitt og átta þróast nákvæmlega svona. Þar með erum við ekki að segja að leikur KR og Grindavíkur í kvöld hafi verið ein klisja út í gegn, alls ekki. Úrslit og þróun leiksins voru bara eilítið fyrirsjáanleg, þar sem KR hafði betur 71-65.
Fyrsti leikur KR og Grindavíkur verður aldrei sæmdur heiðursverðlaunum fagurfræðiráðs, en Grindvíkingar sáu þó að minnsta kosti til þess að við fengum smá spennu í síðari hálfleikinn, enda var leikurinn sýndur beint á Stöð 2 Sport. Sjónvarpsleikir þar bjóða alltaf upp á annað hvort rosalegt tilþrif eða rafmagnaða spennu. Alltaf.
Við verðum líka að hafa hugfast að það er afar ólíklegt að við fáum flæði í körfuboltaleiki þar sem leikstjórnandi annars liðsins er meiddur og spilar (eiginlega) ekki og ungur leikstjórnandi hins liðsins lendir í villuvandræðum.
Það er náttúrulega lúxus fyrir Grindavík að geta plöggað ref eins og Þorleifi Ólafssyni inn í leikstjórnandastöðuna á köflum þegar byrjunarliðsleikstjórnandinn (Jón Axel Guðmundsson) lendir í villuveseni.
Og talandi um refi. Refur allra refa í kvöld var Helgi Már Magnússon hjá KR, sem tók þá snjöllu og hárréttu ákvörðun að klára bara leikinn undir lokin þegar KR þurfti virkilega á því að halda. Það er nákvæmlega út af mönnum eins og Helga sem allir tippa á að KR verði Íslandsmeistari í vor. Íslandsmótið hefði vafalítið verið mun jafnara ef öll liðin í deildinni hefðu verið með Helga Magg í sínum röðum, en því miður fyrir þau, er bara eitt eintak af Helga og það er í KR.
Það er skítt að menn eins og Pavel Ermolinski og Ólafur Ólafsson skuli ekki geta verið með í veislunni sem þetta einvígi gæti orðið. Þó þessir tveir leikmenn séu bæði sterkir og skemmtilegir spilarar er alls ekkert útilokað að rimman geti orðið mjög skemmtileg, en til að svo megi verða, þarf Grindavík helst að vinna annan leikinn á heimavelli sínum.
KR er búið að gera það sem það þurfti að gera og við gætum alveg stappað stálinu í Grindvíkinga með því að benda á að nokkrir leikmenn í þeirra röðum eiga nokkuð inni fyrir næsta leik.
Gallinn við það er að KR á líka helling inni og það segir okkur væntanlega að næsti leikur verði fjörugri. Það getur vel verið að vanti menn í þessi lið, en þeir sem fyrir eru hafa farið djúpt inn í úrslitakeppnina á hverju ári í mörg ár og eiga að kunna þetta.
Samt er óþarfi að grenja þó við fáum einn og einn leik sem er ekki áferðarfallegur. Fegurðin getur líka búið í ljótleikanum og hún er líka út um allt í varnarleiknum. Við skulum segja að KR hafi tekið þennan á vörninni bara, því ekki var það rífandi sóknarleikurinn sem sökkti Suðurnesjamönnum - ekki fyrr en Helgi nennti þessu ekki lengur og kláraði dæmið.
Leikir KR og Grindavíkur eru búnir að vera algjört konfekt í mörg ár, alveg sama hvort það er í deild, bikar eða úrslitakeppni. Það er því engin ástæða til að ætla annað en að þetta einvígi skili sínu þrátt fyrir kaldstartið.
Hér fyrir neðan eru svo nokkrar myndir:
Efnisflokkar:
Grindavík
,
Heimabrugg
,
Helgi Magnússon
,
KR
,
Úrslitakeppni 2015
Wednesday, March 18, 2015
Titilvonir Oklahoma í ár eru nánast úr sögunni
Við reyndum að halda þessu í okkur í allan dag, en það mistókst. Við verðum að bregðast bæði allt of harðlega og dramatískt við nýjustu fréttum frá Oklahoma City, sem herma að Serge Ibaka verði frá keppni næstu fjórar til sex vikurnar eftir að hafa gengist undir hnéaðgerð.
Við vitum að við eigum að vera þolinmóð og "sjá hvað setur" í vor, en við getum það ekki. Þolinmæði okkar er á þrotum með þetta lið, kannski af því við höfum alltaf óskað þess að því gengi vel og tökum því þess vegna mjög illa þegar eitthvað ber út af hjá því.
Það skiptir samt ekki nokkru máli núna. Það sem skiptir máli núna er að við segjum ykkur hvaða þýðingu það hefur að Oklahoma skuli nú vera að fá fimmtánhundruðasta babbið í bátinn sinn flotta síðan það tapaði í úrslitunum fyrir Miami hér um árið. Þetta kallar á hávaðadrama, þó enginn sé að fjalla um það vestra.
Það er best að koma bara fram og segja það: Þetta er ekkert að fara að gerast hjá Oklahoma þetta árið, frekar en öll hin.
Það væri heimskulegt að segja meistaraglugga liðsins lokaðan enda eru allir lykilmenn liðsins nýkomnir með bílpróf, en þessi vetur er bara búinn að vera eitt stórt helvítis vesen sem getur ekki átt farsælan endi.
Þér finnst þetta allt of mikið drama, við vitum það alveg, en við höfum séð þetta allt áður. Þetta er bara ekki árið þeirra Oklahoma-manna, sem eru búnir að vera með hálfgerða bölvun hvílandi á sér frá fyrsta leik í haust - og raunar miklu miklu lengur.
Næsta ár á alltaf að verða ár Oklahoma City, en alltaf skal eitthvað koma upp á sem setur væntingar liðsins á hliðina.
Að þessu sinni er það sú staðreynd að Kevin Durant og Serge Ibaka verða ekki orðnir nægilega heilir í úrslitakeppninni og svo má ekki gleyma því að liðið er ekki búið að spila eina mínútu með allan mannskapinn sem það hefur nú yfir að ráða heilan.
Durant og Ibaka eru hugsanlega tveir mikilvægustu leikmenn Oklahoma og ef þeir eru ekki 100% og hinir leikmennirnir i liðinu eru ekki einu sinni farnir að læra nöfnin hver á öðrum, er þetta lið ekkert að fara að slá Golden State út úr úrslitakeppninni. Varla eru það stórtíðindi fyrir þér, svona ef þú pælir í því.
Vonir Oklahoma hanga því á þynnsta bláþræði sem um getur, sem er þynnri en punghár af veggjalús (Cimex lectularius) og jafnvel þynnri en Dennis Rodman á miðvikudagsmorgni.
Ekkert í NBA deildinni í vetur vekur hjá okkur aðra eins gremju eins og það að ef Oklahoma drullast á annað borð í úrslitakeppninna, eru 99% líkur á að það mæti Golden State Warriors og það þýðir að eitt af þeim fjórum liðum sem eiga bestar líkur á að verða meistari í sumar fellur úr leik í fyrstu umferð.
Það er fucked up, eins og sagt er.
Nýjustu tíðindi af Oklahoma liðinu minnka þessa gremju sem betur fer aðeins, af því við vitum að Oklahoma verður ekki nálægt fullum styrk í úrslitakeppninni (sama hvað hver segir) og því er ofur eðlilegt að Golden State fari því áfram úr því einvígi.
Það þýðir ekki að vera með neinar afsakanir í NBA deildinni og því munu ansi mörg spjót berast að Oklahoma þegar það fellur úr leik í úrslitakeppninni í vor.
Fjölmiðlaspjót munu fyrst berast að Scott Brooks fyrir að kunna ekki að þjálfa og fyrir að drulla þessu liði aldrei í úrslit (utan einu sinni) en þegar hater-arnir eru búnir að tyggja Brooks í sig og spýta honum í flórinn, verður röðin komin að Durant og Westbrook.
Þá byrja menn að skrifa um hvað þeir séu augljóslega ofmetnir leikmenn af því þetta Oklahoma-lið þeirra drullar alltaf á sig í úrslitakeppninni þegar allir vita að það á að geta miklu betur! Við sjáum þetta allt fyrir og það þarf heldur enga eldflaugaverkfræðinga til þess. Þetta er augljóst.
Við erum búin að paunkast á eigendum Oklahoma ár eftir ár fyrir að drullast ekki til að bæta við liðið þessu litla sem upp á vantaði til að það geti keppt um titil á hverju einasta ári.
Það kaldhæðnislega við þetta allt saman er að það getur verið að þeir séu búnir að því núna, en þá geta lykilmennirnir ekki hangið heilir
Oklahoma var sannarlega að fara beint aftur í úrslitin eftir að það tapaði fyrir Miami í lokaúrslitunum 2012, en árið eftir meiddist Russell Westbrook (reyndar meiddist hann ekki, heldur meiddi annar maður hann, sem er allt annar hlutur og við erum ekki búinn að gleyma því, helvítis drullusokkurinn þinn Patrick Beverley) og í fyrra meiddist Serge Ibaka nógu mikið til að við fáum aldrei að vita hvort Oklahoma hefði náð að vinna San Antonio ef hans hefði notið við.
Auðvitað er þetta ekkert nema neikvæðni og bölsýni hjá okkur og auðvitað erum við að bregðast allt of hart við og haga okkur eins og Kardashian sem fær enga athygli, en við fullyrðum að hér er verið að vinna með staðreyndir.
Við erum búin að segja ykkur það 400 sinnum í vetur að Vesturdeildin sé sterkari en nokkru sinni og það gefur augaleið að ef þú ætlar í gegn um úrslitakeppni úr áttunda sætinu á slíkri deild, þá þarftu frábæra samhæfingu, 100% heilsu og helling af heppni.
Þetta snýst líka ekki um að vinna eina eða tvær seríur hjá Oklahoma. Hjá þessu liði eru nákvæmlega sömu væntingar og hjá San Antonio Spurs, það er bara titill eða dauði. Allt annað er vonbrigði.
Þess vegna skiptir það svo sem er engu máli hvort Oklahoma dettur út í fyrstu umferð eða úrslitum Vesturdeildar - tímabilið er þá allt nema ónýtt, sem er hart, en satt. Og þú veist það.
Það er ekki gaman að bera svona fréttir á borð fyrir ykkur, elsku lesendur, en það er betra að þið heyrið þetta frá okkur (langt á undan öllum öðrum) en frá einhverjum miðli sem er skítsama um ykkur.
Meiðsli eru sem sagt að setja stórt strik í reikninginn í enn eitt skiptið og vitið þið til, þetta verður ekki í það síðasta. Haldið þið til dæmis að Stephen Curry, Andrew Bogut, Al Horford, Chicago Bulls, Dwight Howard, Kevin Love, Kieron Dyer, LaMarcus Aldridge, Zach Randolph, Manu Ginobili, Kawhi Leonard og Tony Parker verði bara AL-heilir eftir mánuð þegar úrslitakeppnin byrjar?
Nei, þá er eitthvað að ykkur.
Við erum farin út í apótek að kaupa þunglyndislyf...
Efnisflokkar:
Bölvanir og blökku-galdur
,
Kevin Durant
,
Meiðsli
,
Serge Ibaka
,
Svartmálmur
,
Thunder
,
Þunglyndi
Nýtt hlaðvarp
Nú er úrslitakeppni Domino´s deildarinnar í karlaflokki að hefjast og þá verður að sjálfssögðu að fá sérfræðinga til að spá í spilin. NBA Ísland fékk ritstjóra karfan.is til að gera einmitt það í 37. þætti hlaðvarpsins. Smelltu hér til að hoppa inn á hlaðvarpssíðuna góðu.
Efnisflokkar:
Hlaðvarpið
Tuesday, March 17, 2015
Denni Dæmalausi
Flest ykkar hafa eflaust séð að minnsta kosti einn körfuboltaleik með Dennis Rodman á ævinni. Þeir sem eiga það eftir, ættu að hjóla á youtube og athuga hvort þið finnið ekki eitthvað skemmtilegt.
Við rákumst á nokkrar myndir af Rodman í glímutökum á einhverju ónefndu bloggi um helgina og datt í hug í framhaldinu að henda í sérstaka myndafærslu með Rodman þar sem hann er að gera einhvern geðveikan með einum eða öðrum hætti. Svona týpa ætti líklega erfitt uppdráttar í rétttrúnaðar fasismanum sem tíðkast í NBA deildinni í dag, en það er ástæða fyrir því að það hangir Bulls-treyja númer 91 uppi á vegg á skrifstofu NBA Ísland.
Efnisflokkar:
Dennis Rodman
,
Dýraríkið
,
Handalögmál
,
MAFS
Sunday, March 15, 2015
Frá stórum mönnum til stormsveita
Körfuboltinn sem spilaður er í NBA deildinni er búinn að þróast og breytast gríðarlega frá því deildinni var hleypt af stokkunum um miðja síðustu öld. Fyrir vikið er erfitt - og raunar ekki hægt - að bera saman spilamennsku manna sem spiluðu í deildinni með áratuga millibili.
Boltinn sem spilaður er í dag er ekki bara allt öðruvísi en sá sem var spilaður t.d. á áttunda og níunda áratugnum - hann er líka allt öðruvísi en boltinn sem spilaður var í deildinni fyrir 20 árum. Og við þurfum ekki einu sinni að fara svo langt aftur til að finna spilamennsku sem er allt öðruvísi en sú sem við sjáum í dag.
Það er nóg að skoða fyrstu meistaralið San Antonio Spurs í kring um aldamótin, en þessi lið - auk aldamótaliðs Lakers - voru að heita má síðustu liðin sem unnu meistaratitla að megninu til út á stóru mennina sína.
Tim Duncan og David Robinson lögðu grunninn að titlum Spurs árin 1999 og 2003 og gjöreyðingarvopnið Shaquille O´Neal ruddi braut Lakers að þremur titlum í röð árin 2000-2002.
Þar með erum við ekki að segja að stórir menn skipti ekki máli í NBA deildinni, þeir hafa oftast úrslitaþýðingu í varnarleiknum þó þeir geri það kannski sjaldnast í sókninni nú orðið.Allar þessar breytingar vöktu okkur til umhugsunar.
Við höfum oft skrifað pistla um dauða miðherjastöðunnar hér á þessu vefsvæði, en þó allt í einu virðist eitthvað aðeins vera að rofa til í þeim efnum í deildinni, er ljóst að miðherjarnir eru nánast horfnir af sjónarsviðinu sem bestu menn deildarinnar eins og hér áður fyrr.
Þannig hafa aðeins þrír hreinræktaðir miðherjar* verið kjörnir leikmenn ársins í NBA deildinni á síðustu þremur áratugum, eða síðan þeir Moses Malone og Kareem Abdul-Jabbar skiptu styttunni á milli sín á árunum í kring um 1980. Þetta eru Hakeem Olajuwon (1994), David Robinson (1995) og Shaquille O´Neal (2000).
Þessi rannsókn leiðir óneitanlega í ljós hvað hlutur miðherjans hefur verið lítill á síðustu árum, sérstaklega af haft er í huga hvað stóru mennirnir áttu deildina á fyrstu áratugunum. Þannig voru hvorki meira né minna en 23 af fyrstu 28 verðmætustu leikmönnum ársins í NBA deildinni miðherjar og á kafla unnu þeir MVP tíu ár í röð.
Á árunum 1960 til 1980 unnu aðeins tveir leikmenn nafnbótina MVP sem ekki voru miðherjar, þeir Oscar Robertson og Bob McAdoo, sem reyndar var stundum titlaður miðherji, þó við sjáum hann frekar sem framherja.
Kannski má segja að Julius Erving hafi hringt inn nýja tíma þegar hann var kjörinn MVP árið 1981, því þó Moses Malone tæki verðlaunin 1982 og ´83, má kannski segja að gullöld miðherjanna hafi verið liðin.
Þarna fór í hönd tími minni, fjölhæfari og hæfileikaríkari leikmanna sem höfðu MVP-styttuna í sínum fórum allar götur til ´94 og ´95 þegar Hakeem og Robinson fengu hana lánaða.
Mennirnir sem um ræðir eru auðvitað Magic Johnson, Larry Bird og Michael Jordan. Þeir skiptu styttunni á milli sín óslitið frá 1984 til 1993 þegar Charles Barkley hirti hana. Þessi stutta sagnfræðilexía sýnir okkur svo ekki verður um villst að það eru breyttir tímar í NBA deildinni.
En það er svo sem ekki bara dauði miðherjans sem hefur haft áhrif á breytingarnar í deildinni. Reglubreytingar hafa líka haft gríðarlega mikið að segja og þar bera hæst breyttar reglur um þukl á andstæðingunum í varnarleiknum og þegar svæðisvarnarafbrigði voru leyfð eftir að einn á einn hjakkið um miðjan tíunda áratuginn stóð illa í fagurkerum.
Til að gera langa sögu stutta er búið að sníða reglurnar í NBA deildinni þannig til að bakverðirnir eru orðnir ósnertanlegir miðað við það sem tíðkaðist áður (þegar þeir máttu allt nema berja hver annan) og regluhöfundar hafa leitast við að vernda flæði og hraða leiksins með von um hærra stigaskor og hærra skemmtanagildi.
Þessar áherslubreytingar fara ekki vel í alla og reglulega má heyra gamla nagla kvarta yfir því að deildin í dag sé fyrir dúkkulísur.
Þetta Phoenix-lið var sannarlega magnað og líklega hafa flestir sem lesa þetta orðið vitni að spilamennsku þess í lengri eða skemmri tíma á síðasta áratug. Hinn frægi "sjö sekúndur eða minna" -sóknarleikur Suns undir stjórn D´Antoni og umfram allt Steve Nash.
Það er sannarlega ótrúlegt, en eins falleg, skemmtileg og áhrifarík þessi leikaðferð Suns var, eru menn enn þann dag í dag að bölva henni í sand og ösku.
Við vitum alveg upp á hár af hverju menn höfðu svona mikið á móti Suns á sínum tíma og hafa enn. Það er út af öfund og engu öðru.
Bæði þjálfarar og leikmenn annara liða í deildinni öfunduðu Suns af því að spila svona leiftrandi sóknarleik, vinna leiki og skila flottum tölum. Svo hlakkaði alltaf í þessum leiðindapésum þegar Phoenix féll úr leik í úrslitakeppninni af því að "það var ekki hægt að vinna titla á sóknarleiknum einum saman."
Við vorum stundum í þessum grátkór sem gagnrýndi Suns, en ef þetta lið hefði haft heppnina með sér bara einu sinni á þessum árum, hefði það vel getað unnið meistaratitilinn. Heppni var hinsvegar eitthvað sem var ekki í spilunum hjá þessu liði, því á hverju einasta ári voru það meiðsli eða leikbönn sem hjálpuðu til við að ýta því úr leik í úrslitakeppninni.
Það er tilgangslaust að velta sér upp úr þessari óheppni Suns í dag og nær væri að minnast þess þess skemmtilega sem það kom með inn í leikinn. Og það var sko skemmtilegt að horfa á þetta lið spila. Ef þú hafðir ekki gaman af því að horfa á Phoenix-hraðalestina á fullri ferð, varstu ekki með púls yfir höfuð.
Allt hófst þetta á tvímenningi Steve Nash og Amare Stoudemire (þegar hans naut á annað borð við) og restin af liðinu raðaði sér út á kantana til að búa til pláss og bomba niður þriggja stiga skotum.
Það var alveg sama hver átti í hlut, hvort það voru bakverðir, framherjar eða miðherjar - allir voru á græna ljósinu og þessi stormsveitaleikaðferð átti eftir að starta nýju trendi í NBA deildinni.
Þetta trend var ekki bara að spila hratt og létt, heldur var Phoenix líka eitt af fyrstu liðunum sem fór að spila með hugann við tölfræði fyrir lengra komna. Það tók tölfræðinga í NBA deildinni marga áratugi að átta sig á því hvað þriggja stiga skotið er dýrmætt og eins og þið munið var enginn maður í þessu Suns-liði feiminn við þristana.
Ein af þrálátustu goðsögnunum um þetta lið var að það hefði verið hræðilegt varnarlið, en það er einfaldlega kjaftæði. Það var vissulega ekkert San Antonio eða Detroit, en það var með þokkalegustu varnartölur ár eftir ár, enda hefði það aldrei verið að vinna svona sextíu leiki ef það hefði verið ónýtt í vörninni. Sóknarleikur liðsins var reyndar sögulega góður, en ekki svo góður.
Nú erum við ekki að segja að öll liðin í NBA deildinni í dag séu að spila "sjö sekúndur eða minna" sóknarleik, en leikaðferð Suns forðum gekk öll út á háan vegg og veltu, að teygja á gólfinu með skyttum og spila hraðan og óeigingjarnan sóknarleik.
Ef við ættum að lýsa algengustu leikaðferð NBa deildarinnar í dag gengur hún nákvæmlega út á þetta, ekki síst leikaðferð meistaranna sjálfra í lokaúrslitunum í fyrra þegar þeir tættu ofurlið Miami í sundur með spili sínu.
Nú getur vel verið að einhver ykkar sakni þess að horfa á svartmálm á borð við þann sem New York spilaði um miðjan tíunda áratuginn, nú eða ofbeldisfullan varnarleik Pörupiltanna í Detroit þar á undan, en þó við höfum haft lúmskt gaman af því öllu saman, er það engan veginn sambærilegur körfubolti. Með öðrum orðum: ef þú saknar áðurnefndra slagsmála svona mikið, væri upplagt fyrir þig að hætta að horfa á NBA boltann og einbeita þér að því að horfa á handbolta.
Það má vel vera að miðherjarnir séu hættir að vera bestu körfuboltamenn í heiminum og ef við eigum að vera alveg hreinskilin, vorum við farin að hafa dálitlar áhyggjur af framtíðinni í öllu þessu miðherjaleysi.
Körfuboltinn er hinsvegar eins og lífið, hann finnur sér alltaf leið í gegn um grjótið. Hann breytist stundum í nokkuð stórum stökkum, en hann finnur alltaf rétta farveginn á endanum. Skemmtilegasta, besta og fallegasta íþróttagrein heimsins væri það heldur ekki ef hún þyldi ekki að þróast aðeins. Þó það nú væri.
Körfuboltinn er hinsvegar eins og lífið, hann finnur sér alltaf leið í gegn um grjótið. Hann breytist stundum í nokkuð stórum stökkum, en hann finnur alltaf rétta farveginn á endanum. Skemmtilegasta, besta og fallegasta íþróttagrein heimsins væri það heldur ekki ef hún þyldi ekki að þróast aðeins. Þó það nú væri.
Efnisflokkar:
Amare Stoudemire
,
Dauði miðherjans
,
David Robinson
,
Hakeem Olajuwon
,
Kareem Abdul-Jabbar
,
Moses Malone
,
MVP
,
Reglubreytingar
,
Shaquille O´Neal
,
Sjö sekúndur eða minna
,
Steve Nash
,
Suns
Saturday, March 14, 2015
Gobert-skýrslan
Einhver ykkar hafa eflaust fundið það á sér að þessi pistill væri á leiðinni. Við ætlum að reyna að hafa hann stuttan og það sem meira er, reyna að gæta þess að segja ekki eitthvað sem við gætum fengið í bakið seinna eins og ryðgaðan búrhníf.
Málið er bara að við getum ekki haldið aftur af hrifningu okkar á franska miðherjanum Rudy Gobert hjá Utah Jazz. Við höfum orðið vitni að mörgum skemmtilegum hlutum í NBA deildinni í vetur, en Franska Andspyrnuhreyfingin Rudy Gobert er á góðri leið með að toppa þá alla.
Í gær sáum við Rudy taka Houston og gjörsamlega hakka það í sig með troðslum, fráköstum (og fleiri fráköstum), vörðum skotum og meira að segja stoðsendingum! Ef þú ert með athyglisbrest, geturðu látið þér nægja að horfa á þessa huggulegu troðslu hans:
En ef þú ert alvöru körfuboltaáhugamaður eða kona, skaltu kíkja á þessa Rudy-samantekt úr leiknum í nótt, þar sem troðslan hér fyrir ofan er innifalin. Hann hirti m.a. ellefu sóknarfráköst í fyrri hálfleik, sem Twitter NBA deildarinnar sagði hafa verið tveimur sóknarfráköstum frá meti Charles Barkley yfir flest sóknarfráköst í einum hálfleik. Seljum það svo sem ekki ekki dýrara.
Okkur hefur ekki þótt svona vænt um neinn Rudy síðan Rudy Huxtable var upp á sitt dúllulegasta á sjónvarpsskjánum okkar á níunda áratugnum.
Rudy Gobert átti ekkert að vera svona góður, en annað er að koma á daginn. Á meðan fyrrum liðsfélagi hans Enes Kanter er að skora og skora eins og Grindvíkingur í Oklahoma, hefur Kanter bókstaflega farið hamförum með Utah.
Það er eiginlega með ólíkindum að eintak eins og þessi drengur hafi gjörsamlega farið fram hjá NBA njósnurum og ekki verið tekinn fyrr en 27. í nýliðavalinu fyrir tveimur árum.
Þá erum við ekki endilega að tala um að hæfileikar hans hafi farið fram hjá fólki, enda voru þeir ekki meiri en hjá öðrum leikmönnum, heldur fyrirbærafræðileg stærðarhlutföll hans og keppnisskap.
Við sögðum ykkur frá því um daginn hvað það asnalegt að þetta Utah-lið sé allt í einu farið að vinna alla leiki - það meikar ekki nokkurn einasta sens.
Það er hinsvegar alveg ljóst að Rudy á stóran þátt í þessum framförum.
Í þeim ellefu leikjum sem Jazz hefur spilað eftir að Gobert leysti Enes Kanter af í byrjunarliðinu, er hann með 11 stig, 14 fráköst, 3 varin skot, stolinn bolta og 57% skotnýtingu. Það sem er merkilegra en þessi huggulega tölfræði er að Utah er búið að vinna níu af þessum ellefu leikjum, sem margir hverjir hafa komið á móti sterkum liðum sem eru á leið í úrslitakeppni.
Það er erfitt að hrífast ekki af þessari frammistöðu Gobert og í raun alls Utah-liðsins, en við erum búin að fylgjast það lengi með NBA deildinni að við vitum alveg að Öskubuskuævintýrin eru algeng í deild þar sem mikið er af hæfileikamönnum, sem fá endalaus tækifæri til að sýna þessa hæfileika.
Við vitum líka að Rudy Gobert er óralangt frá því að vera eitthvað gallalaus leikmaður. Hann er kornungur og óreyndur, þarf að verða miklu sterkari, taka betri ákvarðanir og koma sér upp einhvers konar sóknarleik. Þetta koma samt til með að verða aukaatriði hjá Rudy Gobert í nánustu framtíð, því drengurinn er þegar orðinn eitt óárennilegasta varnartæki í deildinni.
Ef við gæfum okkur að allir yngri leikmenn NBA deildarinar yrðu settir í pott og framkvæmdastjórar liðanna fengju að drafta þá leikmenn sem þeir myndu helst vilja fá til sín til að byggja upp sterkt lið til framtíðar. Það er nokkuð öruggt að Anthony Davis yrði tekinn númer eitt í slíku drafti en við fullyrðum að Rudy Gobert þyrfti ekki að bíða lengi eftir að verða valinn þar á eftir.
Tvær gerðir af leikmönnum verða ekki metnar til fjár í NBA deildinni. Ofurstjörnur og varnarakkeri. Og Utah Jazz hefur einhvern veginn í fjandanum tekist að stela sér svona varnarakkeri fyrir ekki neitt.
Það er þegar orðið ljóst að Quin Snyder þjálfari Utah veit hvað hann er að gera og það verður rosalega forvitnilegt að sjá hvað hann gæti gert ef hann fengi t.d. bakverði í hendurnar sem væru betri en þeir sem spila í Domino´s deildinni.
En það verður Rudy Gobert sem verður þungamiðjan í varnarleik Jazz næstu árin. Við fullyrðum að ef hann sleppur við meiðsli og heldur áfram að bæta sig með eðlilegum hætti næstu árin, verður hann topp þrjú varnarmiðherji í deildinni um ókomin ár.
Það er reyndar ólíklegt að hann eyði öllum ferlinum í Salt Lake City, en menn eins og Gobert - fyrirbæri eins og Gobert - geta haft úrslitaþýðingu fyrir lið sem ætla að vinna meistaratitla í framtíðinni. Gobert er nefnilega fyribæri. Líkamlegt fyrirbæri sem á eftir að gera mönnum lífið leitt í teigum NBA deildarinnar næstu árin. Sannaðu til.
Efnisflokkar:
Framfarir
,
Fyrirbæri
,
Jazz
,
Rudy Gobert
,
Varnarleikur
,
Þau erfa landið
,
Þetta er ungt og leikur sér
Wiggins er á leið í meiðsli
Sjónvarpsmenn Fox sem sjá um að sýna frá leikjum Minnesota Timberwolves eru ekki hjátrúarfullir. Það sýndi sig í nótt þegar þeir vörpuðu þessu skilti á skjáinn.
Þeir eru sem sagt búnir að gefa sér það að nýliðinn magnaði Andrew Wiggins muni spila alla leikina með liðinu í vetur þennan mánuð sem eftir er af tímabilinu. Þeir hafa sumsé engar áhyggjur af því að jinxa stjörnunýliða klúbbs sem hefur varla náð að koma saman liði kvöld eftir kvöld vegna meiðsla í mörg ár.
Þið lásuð það hér að Andrew Wiggins er á leið í meiðsli. Vonandi ekki alvarleg. Þetta er efnilegur strákur. En það er ekki fræðilegur möguleiki að hann spili alla 82 leikina fyrir liðið eftir þetta hrokafulla og heimskulega útspil sjónvarpsmanna Fox í nótt. Þvílík sauðnaut.
Efnisflokkar:
Andrew Wiggins
,
Jinx
,
Meiðsli
,
Nýliðar
,
Óskalög sjúklinga
,
Úlfavaktin
Thursday, March 12, 2015
New Orleans er sjálfu sér verst
Við áttum ekki von á því að kapphlaupið um áttunda sætið í Vesturdeildinni yrði mikið kapphlaup eftir að Oklahoma náði Phoenix og New Orleans um daginn, en annað hefur komið á daginn.
Í haust var það Phoenix sem var að hóta því að gera eitthvað, en á meðan Suns hefur dalað, hefur New Orleans einhvern veginn haldið sér inni í myndinni áfram. Og það þrátt fyrir talsverð meiðsli á lykilmönnum. Við erum ekki viss um að New Orleans hafi spilað einn einasta leik í vetur án þess að vera án 2-3 lykilmanna.
Þegar þetta er skrifað munar ekki nema veiðihári á Oklahoma og New Orleans og Oklahoma er auðvitað ekki á fullum styrk á meðan Kevin Durant er í meiðslum, svo það er ennþá a.m.k. fræðilegur möguleiki fyrir Skarfana að komast í úrslitakeppnina.
Reyndar er það Dallas sem er liðið sem allir eru að benda á þessa dagana, enda er það gjörsamlega búið að gera í buxurnar. Dallas þarf reyndar að halda áfram að drulla á sig í nokkrar vikur í viðbót til að Oklahoma og New Orleans geti haft við það sætaskipti, en sá möguleiki er nú fræðilega inni í myndinni, sem hann var sannarlega ekki í febrúar. Hérna er staðan í Vesturdeildinni núna:
Við klipptum út leikjaplön New Orleans og Oklahoma það sem eftir
er af deildarkeppninni svo þið getið borið þau saman.
Ástæðan fyrir því að við dæmdum New Orleans úr leik um daginn var ekki bara að Oklahoma ætti eftir að taka rispu, heldur vorum við að skoða leikjaplanið hjá New Orleans og pirra okkur á því hvað Brúnar og félagar væru búnir að tapa hrikalega asnalegum leikjum.
Veistu til dæmis hvaðan tólf síðustu töp New Orleans hafa komið? Við skulum sýna ykkur það: Charlotte, Boston (2x), Philadelphia, New York, Denver, Oklahoma, Chicago, Utah, Indiana, Orlando, Dallas og Boston.
Þetta eru síðustu tólf tapleikir New Orleans. Þetta hlýtur að vera grín.
Auðvitað kemur það fyrir öll lið að tapa einum og einum asnalegum leik á svona löngu og erfiðu tímabili, en öll þessi töp fyrir skítaliðum hjá New Orleans eru gjörsamlega óafsakanleg.
Svo óafsakanleg að ef Oklahoma stelur af þeim áttunda sætinu, er það leikmönnum New Orleans sjálfum að kenna. Án gríns.
Pældu í því! Ef New Orleans hefði drullast til að vinna Charlotte, Boston (2x), Philadelphia, New York, Denver, Utah og Orlando - gefum þeim séns og segjum að þeir klári bara sex af þessum átta leikjum - þá er New Orleans ekki bara með örugga forystu á Oklahoma heldur að berjast við Dallas um sjöunda sætið.
Það er eðlilegt að fólk sé að spyrja sig hvort New Orleans eigi skilið að komast í úrslitakeppnina eftir að vera búið að drulla svona á sig. Eins mikið og við værum til í að sjá Brúnar í sinni fyrstu úrslitakeppni, verðum við að segja nei - fyrir utan það að það kemur ekki til greina að Russ missi af úrslitakeppninni.
Svona er lífið stundum stórundarlegt í NBA deildinni.
Efnisflokkar:
Papco
,
Pelicans
,
Skarfarnir
,
Thunder
Subscribe to:
Posts (Atom)