Körfuboltinn sem spilaður er í NBA deildinni er búinn að þróast og breytast gríðarlega frá því deildinni var hleypt af stokkunum um miðja síðustu öld. Fyrir vikið er erfitt - og raunar ekki hægt - að bera saman spilamennsku manna sem spiluðu í deildinni með áratuga millibili.
Boltinn sem spilaður er í dag er ekki bara allt öðruvísi en sá sem var spilaður t.d. á áttunda og níunda áratugnum - hann er líka allt öðruvísi en boltinn sem spilaður var í deildinni fyrir 20 árum. Og við þurfum ekki einu sinni að fara svo langt aftur til að finna spilamennsku sem er allt öðruvísi en sú sem við sjáum í dag.
Það er nóg að skoða fyrstu meistaralið San Antonio Spurs í kring um aldamótin, en þessi lið - auk aldamótaliðs Lakers - voru að heita má síðustu liðin sem unnu meistaratitla að megninu til út á stóru mennina sína.
Tim Duncan og David Robinson lögðu grunninn að titlum Spurs árin 1999 og 2003 og gjöreyðingarvopnið Shaquille O´Neal ruddi braut Lakers að þremur titlum í röð árin 2000-2002.
Þar með erum við ekki að segja að stórir menn skipti ekki máli í NBA deildinni, þeir hafa oftast úrslitaþýðingu í varnarleiknum þó þeir geri það kannski sjaldnast í sókninni nú orðið.Allar þessar breytingar vöktu okkur til umhugsunar.
Við höfum oft skrifað pistla um dauða miðherjastöðunnar hér á þessu vefsvæði, en þó allt í einu virðist eitthvað aðeins vera að rofa til í þeim efnum í deildinni, er ljóst að miðherjarnir eru nánast horfnir af sjónarsviðinu sem bestu menn deildarinnar eins og hér áður fyrr.
Þannig hafa aðeins þrír hreinræktaðir miðherjar* verið kjörnir leikmenn ársins í NBA deildinni á síðustu þremur áratugum, eða síðan þeir Moses Malone og Kareem Abdul-Jabbar skiptu styttunni á milli sín á árunum í kring um 1980. Þetta eru Hakeem Olajuwon (1994), David Robinson (1995) og Shaquille O´Neal (2000).
Þessi rannsókn leiðir óneitanlega í ljós hvað hlutur miðherjans hefur verið lítill á síðustu árum, sérstaklega af haft er í huga hvað stóru mennirnir áttu deildina á fyrstu áratugunum. Þannig voru hvorki meira né minna en 23 af fyrstu 28 verðmætustu leikmönnum ársins í NBA deildinni miðherjar og á kafla unnu þeir MVP tíu ár í röð.
Á árunum 1960 til 1980 unnu aðeins tveir leikmenn nafnbótina MVP sem ekki voru miðherjar, þeir Oscar Robertson og Bob McAdoo, sem reyndar var stundum titlaður miðherji, þó við sjáum hann frekar sem framherja.
Kannski má segja að Julius Erving hafi hringt inn nýja tíma þegar hann var kjörinn MVP árið 1981, því þó Moses Malone tæki verðlaunin 1982 og ´83, má kannski segja að gullöld miðherjanna hafi verið liðin.
Þarna fór í hönd tími minni, fjölhæfari og hæfileikaríkari leikmanna sem höfðu MVP-styttuna í sínum fórum allar götur til ´94 og ´95 þegar Hakeem og Robinson fengu hana lánaða.
Mennirnir sem um ræðir eru auðvitað Magic Johnson, Larry Bird og Michael Jordan. Þeir skiptu styttunni á milli sín óslitið frá 1984 til 1993 þegar Charles Barkley hirti hana. Þessi stutta sagnfræðilexía sýnir okkur svo ekki verður um villst að það eru breyttir tímar í NBA deildinni.
En það er svo sem ekki bara dauði miðherjans sem hefur haft áhrif á breytingarnar í deildinni. Reglubreytingar hafa líka haft gríðarlega mikið að segja og þar bera hæst breyttar reglur um þukl á andstæðingunum í varnarleiknum og þegar svæðisvarnarafbrigði voru leyfð eftir að einn á einn hjakkið um miðjan tíunda áratuginn stóð illa í fagurkerum.
Til að gera langa sögu stutta er búið að sníða reglurnar í NBA deildinni þannig til að bakverðirnir eru orðnir ósnertanlegir miðað við það sem tíðkaðist áður (þegar þeir máttu allt nema berja hver annan) og regluhöfundar hafa leitast við að vernda flæði og hraða leiksins með von um hærra stigaskor og hærra skemmtanagildi.
Þessar áherslubreytingar fara ekki vel í alla og reglulega má heyra gamla nagla kvarta yfir því að deildin í dag sé fyrir dúkkulísur.
Þetta Phoenix-lið var sannarlega magnað og líklega hafa flestir sem lesa þetta orðið vitni að spilamennsku þess í lengri eða skemmri tíma á síðasta áratug. Hinn frægi "sjö sekúndur eða minna" -sóknarleikur Suns undir stjórn D´Antoni og umfram allt Steve Nash.
Það er sannarlega ótrúlegt, en eins falleg, skemmtileg og áhrifarík þessi leikaðferð Suns var, eru menn enn þann dag í dag að bölva henni í sand og ösku.
Við vitum alveg upp á hár af hverju menn höfðu svona mikið á móti Suns á sínum tíma og hafa enn. Það er út af öfund og engu öðru.
Bæði þjálfarar og leikmenn annara liða í deildinni öfunduðu Suns af því að spila svona leiftrandi sóknarleik, vinna leiki og skila flottum tölum. Svo hlakkaði alltaf í þessum leiðindapésum þegar Phoenix féll úr leik í úrslitakeppninni af því að "það var ekki hægt að vinna titla á sóknarleiknum einum saman."
Við vorum stundum í þessum grátkór sem gagnrýndi Suns, en ef þetta lið hefði haft heppnina með sér bara einu sinni á þessum árum, hefði það vel getað unnið meistaratitilinn. Heppni var hinsvegar eitthvað sem var ekki í spilunum hjá þessu liði, því á hverju einasta ári voru það meiðsli eða leikbönn sem hjálpuðu til við að ýta því úr leik í úrslitakeppninni.
Það er tilgangslaust að velta sér upp úr þessari óheppni Suns í dag og nær væri að minnast þess þess skemmtilega sem það kom með inn í leikinn. Og það var sko skemmtilegt að horfa á þetta lið spila. Ef þú hafðir ekki gaman af því að horfa á Phoenix-hraðalestina á fullri ferð, varstu ekki með púls yfir höfuð.
Allt hófst þetta á tvímenningi Steve Nash og Amare Stoudemire (þegar hans naut á annað borð við) og restin af liðinu raðaði sér út á kantana til að búa til pláss og bomba niður þriggja stiga skotum.
Það var alveg sama hver átti í hlut, hvort það voru bakverðir, framherjar eða miðherjar - allir voru á græna ljósinu og þessi stormsveitaleikaðferð átti eftir að starta nýju trendi í NBA deildinni.
Þetta trend var ekki bara að spila hratt og létt, heldur var Phoenix líka eitt af fyrstu liðunum sem fór að spila með hugann við tölfræði fyrir lengra komna. Það tók tölfræðinga í NBA deildinni marga áratugi að átta sig á því hvað þriggja stiga skotið er dýrmætt og eins og þið munið var enginn maður í þessu Suns-liði feiminn við þristana.
Ein af þrálátustu goðsögnunum um þetta lið var að það hefði verið hræðilegt varnarlið, en það er einfaldlega kjaftæði. Það var vissulega ekkert San Antonio eða Detroit, en það var með þokkalegustu varnartölur ár eftir ár, enda hefði það aldrei verið að vinna svona sextíu leiki ef það hefði verið ónýtt í vörninni. Sóknarleikur liðsins var reyndar sögulega góður, en ekki svo góður.
Nú erum við ekki að segja að öll liðin í NBA deildinni í dag séu að spila "sjö sekúndur eða minna" sóknarleik, en leikaðferð Suns forðum gekk öll út á háan vegg og veltu, að teygja á gólfinu með skyttum og spila hraðan og óeigingjarnan sóknarleik.
Ef við ættum að lýsa algengustu leikaðferð NBa deildarinnar í dag gengur hún nákvæmlega út á þetta, ekki síst leikaðferð meistaranna sjálfra í lokaúrslitunum í fyrra þegar þeir tættu ofurlið Miami í sundur með spili sínu.
Nú getur vel verið að einhver ykkar sakni þess að horfa á svartmálm á borð við þann sem New York spilaði um miðjan tíunda áratuginn, nú eða ofbeldisfullan varnarleik Pörupiltanna í Detroit þar á undan, en þó við höfum haft lúmskt gaman af því öllu saman, er það engan veginn sambærilegur körfubolti. Með öðrum orðum: ef þú saknar áðurnefndra slagsmála svona mikið, væri upplagt fyrir þig að hætta að horfa á NBA boltann og einbeita þér að því að horfa á handbolta.
Það má vel vera að miðherjarnir séu hættir að vera bestu körfuboltamenn í heiminum og ef við eigum að vera alveg hreinskilin, vorum við farin að hafa dálitlar áhyggjur af framtíðinni í öllu þessu miðherjaleysi.
Körfuboltinn er hinsvegar eins og lífið, hann finnur sér alltaf leið í gegn um grjótið. Hann breytist stundum í nokkuð stórum stökkum, en hann finnur alltaf rétta farveginn á endanum. Skemmtilegasta, besta og fallegasta íþróttagrein heimsins væri það heldur ekki ef hún þyldi ekki að þróast aðeins. Þó það nú væri.
Körfuboltinn er hinsvegar eins og lífið, hann finnur sér alltaf leið í gegn um grjótið. Hann breytist stundum í nokkuð stórum stökkum, en hann finnur alltaf rétta farveginn á endanum. Skemmtilegasta, besta og fallegasta íþróttagrein heimsins væri það heldur ekki ef hún þyldi ekki að þróast aðeins. Þó það nú væri.