Saturday, March 14, 2015

Gobert-skýrslan


Einhver ykkar hafa eflaust fundið það á sér að þessi pistill væri á leiðinni. Við ætlum að reyna að hafa hann stuttan og það sem meira er, reyna að gæta þess að segja ekki eitthvað sem við gætum fengið í bakið seinna eins og ryðgaðan búrhníf.

Málið er bara að við getum ekki haldið aftur af hrifningu okkar á franska miðherjanum Rudy Gobert hjá Utah Jazz. Við höfum orðið vitni að mörgum skemmtilegum hlutum í NBA deildinni í vetur, en Franska Andspyrnuhreyfingin Rudy Gobert er á góðri leið með að toppa þá alla.

Í gær sáum við Rudy taka Houston og gjörsamlega hakka það í sig með troðslum, fráköstum (og fleiri fráköstum), vörðum skotum og meira að segja stoðsendingum! Ef þú ert með athyglisbrest, geturðu látið þér nægja að horfa á þessa huggulegu troðslu hans:



En ef þú ert alvöru körfuboltaáhugamaður eða kona, skaltu kíkja á þessa Rudy-samantekt úr leiknum í nótt, þar sem troðslan hér fyrir ofan er innifalin. Hann hirti m.a. ellefu sóknarfráköst í fyrri hálfleik, sem Twitter NBA deildarinnar sagði hafa verið tveimur sóknarfráköstum frá meti Charles Barkley yfir flest sóknarfráköst í einum hálfleik. Seljum það svo sem ekki ekki dýrara.



Okkur hefur ekki þótt svona vænt um neinn Rudy síðan Rudy Huxtable var upp á sitt dúllulegasta á sjónvarpsskjánum okkar á níunda áratugnum.

Rudy Gobert átti ekkert að vera svona góður, en annað er að koma á daginn. Á meðan fyrrum liðsfélagi hans Enes Kanter er að skora og skora eins og Grindvíkingur í Oklahoma, hefur Kanter bókstaflega farið hamförum með Utah.

Það er eiginlega með ólíkindum að eintak eins og þessi drengur hafi gjörsamlega farið fram hjá NBA njósnurum og ekki verið tekinn fyrr en 27. í nýliðavalinu fyrir tveimur árum.

Þá erum við ekki endilega að tala um að hæfileikar hans hafi farið fram hjá fólki, enda voru þeir ekki meiri en hjá öðrum leikmönnum, heldur fyrirbærafræðileg stærðarhlutföll hans og keppnisskap.

Við sögðum ykkur frá því um daginn hvað það asnalegt að þetta Utah-lið sé allt í einu farið að vinna alla leiki - það meikar ekki nokkurn einasta sens.

Það er hinsvegar alveg ljóst að Rudy á stóran þátt í þessum framförum.

Í þeim ellefu leikjum sem Jazz hefur spilað eftir að Gobert leysti Enes Kanter af í byrjunarliðinu, er hann með 11 stig, 14 fráköst, 3 varin skot, stolinn bolta og 57% skotnýtingu. Það sem er merkilegra en þessi huggulega tölfræði er að Utah er búið að vinna níu af þessum ellefu leikjum, sem margir hverjir hafa komið á móti sterkum liðum sem eru á leið í úrslitakeppni.

Það er erfitt að hrífast ekki af þessari frammistöðu Gobert og í raun alls Utah-liðsins, en við erum búin að fylgjast það lengi með NBA deildinni að við vitum alveg að Öskubuskuævintýrin eru algeng í deild þar sem mikið er af hæfileikamönnum, sem fá endalaus tækifæri til að sýna þessa hæfileika.

Við vitum líka að Rudy Gobert er óralangt frá því að vera eitthvað gallalaus leikmaður. Hann er kornungur og óreyndur, þarf að verða miklu sterkari, taka betri ákvarðanir og koma sér upp einhvers konar sóknarleik. Þetta koma samt til með að verða aukaatriði hjá Rudy Gobert í nánustu framtíð, því drengurinn er þegar orðinn eitt óárennilegasta varnartæki í deildinni.

Ef við gæfum okkur að allir yngri leikmenn NBA deildarinar yrðu settir í pott og framkvæmdastjórar liðanna fengju að drafta þá leikmenn sem þeir myndu helst vilja fá til sín til að byggja upp sterkt lið til framtíðar. Það er nokkuð öruggt að Anthony Davis yrði tekinn númer eitt í slíku drafti en við fullyrðum að Rudy Gobert þyrfti ekki að bíða lengi eftir að verða valinn þar á eftir.

Tvær gerðir af leikmönnum verða ekki metnar til fjár í NBA deildinni. Ofurstjörnur og varnarakkeri. Og Utah Jazz  hefur einhvern veginn í fjandanum tekist að stela sér svona varnarakkeri fyrir ekki neitt.

Það er þegar orðið ljóst að Quin Snyder þjálfari Utah veit hvað hann er að gera og það verður rosalega forvitnilegt að sjá hvað hann gæti gert ef hann fengi t.d. bakverði í hendurnar sem væru betri en þeir sem spila í Domino´s deildinni.

En það verður Rudy Gobert sem verður þungamiðjan í varnarleik Jazz næstu árin. Við fullyrðum að ef hann sleppur við meiðsli og heldur áfram að bæta sig með eðlilegum hætti næstu árin, verður hann topp þrjú varnarmiðherji í deildinni um ókomin ár.

Það er reyndar ólíklegt að hann eyði öllum ferlinum í Salt Lake City, en menn eins og Gobert  - fyrirbæri eins og Gobert - geta haft úrslitaþýðingu fyrir lið sem ætla að vinna meistaratitla í framtíðinni. Gobert er nefnilega fyribæri. Líkamlegt fyrirbæri sem á eftir að gera mönnum lífið leitt í teigum NBA deildarinnar næstu árin. Sannaðu til.