Friday, March 20, 2015

KR vann fyrsta leikinn gegn Grindavík


Hversu oft höfum við ekki séð þessa uppskrift áður í úrslitakeppninni. Liðið í fyrsta sæti í deildinni tekur á móti liðinu í áttunda sæti í leik eitt í fyrstu umferð. Lið eitt hefur forystuna framan af og kemur sér í dauðafæri til að klára leikinn í fyrri hálfleik, en á þá lélegan kafla í staðinn og leikurinn er galopinn í hálfleik.

Í síðari hálfleik er liðið í fyrsta sæti með forystuna áfram og heldur áfram að bæta við hana, en þegar rothöggið á að koma, drullar það á sig og hleypir gestunum inn í leikinn - og rúmlega það. Gestirnir ná að jafna leikinn þegar skammt er til leiksloka, en hafa ekki kraft eða hæfileika til að klára dæmið.

Í stað þess að gestirnir steli leiknum, er það nefnilega fagmaður í liði heimamanna sem ákveður að ganga fram fyrir skjöldu og loka þessu fyrir sína menn, sem taka 1-0 forystu í einvíginu og standa af sér fyrstu áskorunina í úrslitakeppninni.

Við vitum ekki með ykkur, en við höfum mjög oft séð fyrsta leik eitt og átta þróast nákvæmlega svona. Þar með erum við ekki að segja að leikur KR og Grindavíkur í kvöld hafi verið ein klisja út í gegn, alls ekki. Úrslit og þróun leiksins voru bara eilítið fyrirsjáanleg, þar sem KR hafði betur 71-65.

Fyrsti leikur KR og Grindavíkur verður aldrei sæmdur heiðursverðlaunum fagurfræðiráðs, en Grindvíkingar sáu þó að minnsta kosti til þess að við fengum smá spennu í síðari hálfleikinn, enda var leikurinn sýndur beint á Stöð 2 Sport. Sjónvarpsleikir þar bjóða alltaf upp á annað hvort rosalegt tilþrif eða rafmagnaða spennu. Alltaf.

Við verðum líka að hafa hugfast að það er afar ólíklegt að við fáum flæði í körfuboltaleiki þar sem leikstjórnandi annars liðsins er meiddur og spilar (eiginlega) ekki og ungur leikstjórnandi hins liðsins lendir í villuvandræðum.

Það er náttúrulega lúxus fyrir Grindavík að geta plöggað ref eins og Þorleifi Ólafssyni inn í leikstjórnandastöðuna á köflum þegar byrjunarliðsleikstjórnandinn (Jón Axel Guðmundsson) lendir í villuveseni.

Og talandi um refi. Refur allra refa í kvöld var Helgi Már Magnússon hjá KR, sem tók þá snjöllu og hárréttu ákvörðun að klára bara leikinn undir lokin þegar KR þurfti virkilega á því að halda. Það er nákvæmlega út af mönnum eins og Helga sem allir tippa á að KR verði Íslandsmeistari í vor. Íslandsmótið hefði vafalítið verið mun jafnara ef öll liðin í deildinni hefðu verið með Helga Magg í sínum röðum, en því miður fyrir þau, er bara eitt eintak af Helga og það er í KR.

Það er skítt að menn eins og Pavel Ermolinski og Ólafur Ólafsson skuli ekki geta verið með í veislunni sem þetta einvígi gæti orðið. Þó þessir tveir leikmenn séu bæði sterkir og skemmtilegir spilarar er alls ekkert útilokað að rimman geti orðið mjög skemmtileg, en til að svo megi verða, þarf Grindavík helst að vinna annan leikinn á heimavelli sínum.

KR er búið að gera það sem það þurfti að gera og við gætum alveg stappað stálinu í Grindvíkinga með því að benda á að nokkrir leikmenn í þeirra röðum eiga nokkuð inni fyrir næsta leik.

Gallinn við það er að KR á líka helling inni og það segir okkur væntanlega að næsti leikur verði fjörugri. Það getur vel verið að vanti menn í þessi lið, en þeir sem fyrir eru hafa farið djúpt inn í úrslitakeppnina á hverju ári í mörg ár og eiga að kunna þetta.

Samt er óþarfi að grenja þó við fáum einn og einn leik sem er ekki áferðarfallegur. Fegurðin getur líka búið í ljótleikanum og hún er líka út um allt í varnarleiknum. Við skulum segja að KR hafi tekið þennan á vörninni bara, því ekki var það rífandi sóknarleikurinn sem sökkti Suðurnesjamönnum - ekki fyrr en Helgi nennti þessu ekki lengur og kláraði dæmið.

Leikir KR og Grindavíkur eru búnir að vera algjört konfekt í mörg ár, alveg sama hvort það er í deild, bikar eða úrslitakeppni. Það er því engin ástæða til að ætla annað en að þetta einvígi skili sínu þrátt fyrir kaldstartið.

Hér fyrir neðan eru svo nokkrar myndir: