Wednesday, March 18, 2015

Titilvonir Oklahoma í ár eru nánast úr sögunni


Við reyndum að halda þessu í okkur í allan dag, en það mistókst. Við verðum að bregðast bæði allt of harðlega og dramatískt við nýjustu fréttum frá Oklahoma City, sem herma að Serge Ibaka verði frá keppni næstu fjórar til sex vikurnar eftir að hafa gengist undir hnéaðgerð.

Við vitum að við eigum að vera þolinmóð og "sjá hvað setur" í vor, en við getum það ekki. Þolinmæði okkar er á þrotum með þetta lið, kannski af því við höfum alltaf óskað þess að því gengi vel og tökum því þess vegna mjög illa þegar eitthvað ber út af hjá því.

Það skiptir samt ekki nokkru máli núna. Það sem skiptir máli núna er að við segjum ykkur hvaða þýðingu það hefur að Oklahoma skuli nú vera að fá fimmtánhundruðasta babbið í bátinn sinn flotta síðan það tapaði í úrslitunum fyrir Miami hér um árið. Þetta kallar á hávaðadrama, þó enginn sé að fjalla um það vestra.

Það er best að koma bara fram og segja það: Þetta er ekkert að fara að gerast hjá Oklahoma þetta árið, frekar en öll hin. 

Það væri heimskulegt að segja meistaraglugga liðsins lokaðan enda eru allir lykilmenn liðsins nýkomnir með bílpróf, en þessi vetur er bara búinn að vera eitt stórt helvítis vesen sem getur ekki átt farsælan endi.

Nú er ekkert í spilunum fyrir Oklahoma annað en að gæta þess að Kevin Durant jafni sig 110% af meiðslum sínum (sem allur NBA heimurinn er SKÍT-hræddur við) og sætti sig við að falla úr leik í fyrstu umferð úrslitakeppninnar. Koma bara sterkara inn í þetta á næsta sísoni eins og Liverpool ætlar alltaf að gera.

Þér finnst þetta allt of mikið drama, við vitum það alveg, en við höfum séð þetta allt áður. Þetta er bara ekki árið þeirra Oklahoma-manna, sem eru búnir að vera með hálfgerða bölvun hvílandi á sér frá fyrsta leik í haust - og raunar miklu miklu lengur. 

Næsta ár á alltaf að verða ár Oklahoma City, en alltaf skal eitthvað koma upp á sem setur væntingar liðsins á hliðina.

Að þessu sinni er það sú staðreynd að Kevin Durant og Serge Ibaka verða ekki orðnir nægilega heilir í úrslitakeppninni og svo má ekki gleyma því að liðið er ekki búið að spila eina mínútu með allan mannskapinn sem það hefur nú yfir að ráða heilan. 

Durant og Ibaka eru hugsanlega tveir mikilvægustu leikmenn Oklahoma og ef þeir eru ekki 100% og hinir leikmennirnir i liðinu eru ekki einu sinni farnir að læra nöfnin hver á öðrum, er þetta lið ekkert að fara að slá Golden State út úr úrslitakeppninni. Varla eru það stórtíðindi fyrir þér, svona ef þú pælir í því.

Vonir Oklahoma hanga því á þynnsta bláþræði sem um getur, sem er þynnri en punghár af veggjalús (Cimex lectularius) og jafnvel þynnri en Dennis Rodman á miðvikudagsmorgni.

Ekkert í NBA deildinni í vetur vekur hjá okkur aðra eins gremju eins og það að ef Oklahoma drullast á annað borð í úrslitakeppninna, eru 99% líkur á að það mæti Golden State Warriors og það þýðir að eitt af þeim fjórum liðum sem eiga bestar líkur á að verða meistari í sumar fellur úr leik í fyrstu umferð.

Það er fucked up, eins og sagt er.

Nýjustu tíðindi af Oklahoma liðinu minnka þessa gremju sem betur fer aðeins, af því við vitum að Oklahoma verður ekki nálægt fullum styrk í úrslitakeppninni (sama hvað hver segir) og því er ofur eðlilegt að Golden State fari því áfram úr því einvígi.

Það þýðir ekki að vera með neinar afsakanir í NBA deildinni og því munu ansi mörg spjót berast að Oklahoma þegar það fellur úr leik í úrslitakeppninni í vor. 

Fjölmiðlaspjót munu fyrst berast að Scott Brooks fyrir að kunna ekki að þjálfa og fyrir að drulla þessu liði aldrei í úrslit (utan einu sinni) en þegar hater-arnir eru búnir að tyggja Brooks í sig og spýta honum í flórinn, verður röðin komin að Durant og Westbrook. 

Þá byrja menn að skrifa um hvað þeir séu augljóslega ofmetnir leikmenn af því þetta Oklahoma-lið þeirra drullar alltaf á sig í úrslitakeppninni þegar allir vita að það á að geta miklu betur! Við sjáum þetta allt fyrir og það þarf heldur enga eldflaugaverkfræðinga til þess. Þetta er augljóst.

Við erum búin að paunkast á eigendum Oklahoma ár eftir ár fyrir að drullast ekki til að bæta við liðið þessu litla sem upp á vantaði til að það geti keppt um titil á hverju einasta ári. 

Það kaldhæðnislega við þetta allt saman er að það getur verið að þeir séu búnir að því núna, en þá geta lykilmennirnir ekki hangið heilir

Oklahoma var sannarlega að fara beint aftur í úrslitin eftir að það tapaði fyrir Miami í lokaúrslitunum 2012, en árið eftir meiddist Russell Westbrook (reyndar meiddist hann ekki, heldur meiddi annar maður hann, sem er allt annar hlutur og við erum ekki búinn að gleyma því, helvítis drullusokkurinn þinn Patrick Beverley) og í fyrra meiddist Serge Ibaka nógu mikið til að við fáum aldrei að vita hvort Oklahoma hefði náð að vinna San Antonio ef hans hefði notið við.

Auðvitað er þetta ekkert nema neikvæðni og bölsýni hjá okkur og auðvitað erum við að bregðast allt of hart við og haga okkur eins og Kardashian sem fær enga athygli, en við fullyrðum að hér er verið að vinna með staðreyndir.

Við erum búin að segja ykkur það 400 sinnum í vetur að Vesturdeildin sé sterkari en nokkru sinni og það gefur augaleið að ef þú ætlar í gegn um úrslitakeppni úr áttunda sætinu á slíkri deild, þá þarftu frábæra samhæfingu, 100% heilsu og helling af heppni. 

Oklahoma er ekki nálægt því að tikka í einn af þessum reitum, hvað þá alla þrjá. Gleymdu því.

Þetta snýst líka ekki um að vinna eina eða tvær seríur hjá Oklahoma. Hjá þessu liði eru nákvæmlega sömu væntingar og hjá San Antonio Spurs, það er bara titill eða dauði. Allt annað er vonbrigði.

Þess vegna skiptir það svo sem er engu máli hvort Oklahoma dettur út í fyrstu umferð eða úrslitum Vesturdeildar - tímabilið er þá allt nema ónýtt, sem er hart, en satt. Og þú veist það.

Það er ekki gaman að bera svona fréttir á borð fyrir ykkur, elsku lesendur, en það er betra að þið heyrið þetta frá okkur (langt á undan öllum öðrum) en frá einhverjum miðli sem er skítsama um ykkur.

Meiðsli eru sem sagt að setja stórt strik í reikninginn í enn eitt skiptið og vitið þið til, þetta verður ekki í það síðasta. Haldið þið til dæmis að Stephen Curry, Andrew Bogut, Al Horford, Chicago Bulls, Dwight Howard, Kevin Love, Kieron Dyer, LaMarcus Aldridge, Zach Randolph, Manu Ginobili, Kawhi Leonard og Tony Parker verði bara AL-heilir eftir mánuð þegar úrslitakeppnin byrjar? 

Nei, þá er eitthvað að ykkur.

Við erum farin út í apótek að kaupa þunglyndislyf...