Saturday, March 21, 2015

Fyrsta höggið


Okkur grunaði þetta. Við reiknuðum með því að gömlu refirnir í Keflavík ættu eftir að prófa að lemja strákana í Haukum strax í byrjun og freista þess að slá þá út af laginu. Við sáum reyndar ekki fyrri hálfleikinn - og við höfum oft séð Keflavík leika fastar - en Suðurnesjaliðinu tókst að gera nákvæmlega það sem það ætlaði sér. Nýta sér reynslu sína og klókindi til að stela heimavellinum af guttunum.

Þetta var sannkölluð prófraun fyrir Haukapilta, það var ekkert leyndarmál. Nú er kominn tími á þá að fara að vinna leiki í úrslitakeppni eftir að hafa verið að krúttast og þroskast í nokkur ár. Nú er ekkert í boði að láta sópa sér út í fyrstu umferð, núna er efniviður í Hafnarfirðinum til að fara lengra. Fólk beið enda eftir því.


Hafnfirðingar þurfa ekkert að örvænta þó þeir hafi tapað fyrsta leiknum í einvíginu, það er nóg eftir. Þessi leikur var svo jafn að sigurinn hefði getað dottið hvoru megin sem var. Rétt eins og KR-ingar gátu treyst á Helga Magg í gærkvöldi, gátu Keflvíkingar treyst á Össur til að framleiða stig upp úr engu þegar allt var í lás í krönsinu.

Þetta verður hrikalega áhugaverð sería og við getum ekki beðið eftir að sjá hvernig þeir Emil og Kári, sem báðir hótuðu þrennum í kvöld, ná að svara fyrir sig í Sláturhúsinu. Hérna fyrir neðan er slatti af myndum ef þú hefur áhuga.