Friday, May 31, 2013
Roy Hibbert er maðurinn í miðjunni hjá Indiana
Eins og þið vitið, erum við engir sérfræðingar þegar kemur að körfubolta. Ritstjórn NBA Ísland samanstendur af persónuleikum sem fyrst og fremst elska körfubolta. Hitt er svo annað hvort þeir hafa eitthvað vit á honum.
Þeir sem hafa lítið vit á körfubolta, gætu dottið í þá gryfju að fara að skammast út í Miami og Indiana fyrir að sýna ekki sínar bestu sóknarhliðar í úrslitaeinvígi Austurdeildarinnar, sem er líklega orðið besta einvígið í úrslitakeppninni til þessa.
Við gerðumst sek um að skammast út í Miami í svefngalsanum í nótt og ætlum nú reyndar að standa við bróðurpartinn af þeim skömmum, en við verðum samt að passa okkur á því.
Við megum ekki gleyma því að Miami og Indiana eru óhemju sterk varnarlið, sem þýðir að þau leyfa hvort öðru sjaldan að glansa í sóknarleiknum.
Sókn eftir sókn eru liðin að berja hvort á öðru og leita lausna, en vörnin gerir fá mistök og því enda margar sóknir á dálítið neyðarlegum skotum.
Það eru sennilega ekki nema lengra komnir sem átta sig fullkomlega á þessu og við ætlum ekki að þykjast tilheyra þeim flokki, því miður.
Þegar svona illa gengur að skora, leita liðin vitanlega að lausnum sem eru líklegastar til að bera árangur og í tilviki Indiana felst það í því að dæla boltanum inn í teig. Ekki aðeins vegna þess að Pacers er sterkt í miðjunni, heldur einnig af því miðjan er Akkílesarhæll meistaranna.
Indiana skoraði líka flest stig per sókn í "post ups" í NBA í vetur, ef einhver njörðurinn hefur gaman af slíkum upplýsingum.
Alráður í miðjunni hjá Indiana er Roy Hibbert og það hefur verið skondið að fylgjast með framgöngu hans í úrslitakeppninni í ár. Þeir sem lesa NBA Ísland daglega vita að við höfum oftar en einu sinni verið með læti út í Hibbert af því hann var valinn í Stjörnuliðið á síðustu leiktíð.
Það var stórkostlega óverðskuldað, nema þér finnist eðlilegt að maður sem skorar tólf stig og hirðir 8-9 fráköst sé Stjörnuleikmaður. Okkur þótti það full langt gengið í meðvirkninni með stóru mönnunum að setja svona svepp í febrúarfestivalið.
Ekki var Hibbert með skárri tölur í vetur. Hann byrjaði vægast sagt hræðilega og þó eitthvað af erfiðleikum hans eigi rætur að rekja til meiðsla, er ekkert ósanngjarnt að segja að hann hafi valdið vonbrigðum í vetur - að minnsta kosti þegar kemur að sóknarleiknum.
Spólum nú inn í úrslitakeppnina. Skemmst er frá því að segja að þar hefur Hibbert verið sem nýr maður. Tölfræðin og frammistaðan hjá honum hefur verið lóðrétt upp á við. Hann spilaði 32 mínútur í leik gegn Atlanta, 38 mínútur gegn New York og er kominn hátt í 40 mínúturnar gegn Miami.
Hibbert hefur verið akkerið í varnarleiknum hjá Indiana og án hans væri liðið sannarlega ekki komið jafn langt og raun ber vitni. Ekki nóg með það, heldur skorar hann stóran hluta af stigum sínum eftir sóknarfráköst.
Hibbert hirðir að meðaltali yfir fimm sóknarfráköst í leik í úrslitakeppninni og átti stóran þátt í því að í fyrstu fjórum leikjunum gegn Miami, hirti Indiana sóknarfrákastið eftir 40% af skotunum sem það klikkaði á. Það er með ólíkindum.
Það verður áhugavert að fylgjast með Roy Hibbert á komandi árum. Er drengurinn með metnað í að koma sér í fremstu röð, eða ætlar hann að láta sér nægja að spila vörn og blaka einum og einum bolta í körfuna í sókninni? Hann verður aldrei lipur eða fljótur, en hæð hans og styrkur eru það sem hann treystir á.
Hibbert er aðeins 26 ára gamall, sem er ungt í miðherjaárum (miðherjar toppa oftast seinna en aðrir leikmenn) og hann hefur nægan tíma til að bæta brellum inn í sóknarleikinn sinn. Hvernig væri að æfa upp góðan krók eða áreiðanlegt fimm metra stökkskot?
Komdu okkur á óvart, Hibbert. Það er átakanlega mikið pláss fyrir bætingar í miðherjastöðunni í NBA og sviðið er þitt ef þú nennir þessu.
Þegar við vorum að spá í spilin fyrir úrslitakeppnina, sáum við fyrir okkur að Indiana myndi ná að gera þokkalega hluti út af sterkum varnarleiknum en að sóknarleikurinn yrði því að falli.
Það var nefnilega stundum þannig í vetur að Indiana tók fínar rispur, sem lauk svo alltaf með háværum skelli þegar liðið datt inn á leik þar sem það hitti bara ekki neitt.
Við óttuðumst að Indiana myndi eiga einn eða tvo svona leiki í hverri séríu en það hefur sloppið ótrúlega vel og í rauninni má segja að sóknarleikur Indiana í einvíginu við Miami sé búinn að vera bara nokkuð góður.
Annar veikleiki Indiana, tapaðir boltar, hefur líka vafist fyrir liðinu gegn Miami. Það er einfaldlega bannað að tapa boltanum á móti Miami, þá er þér refsað grimmilega.
Indiana-drengir eru nú komnir með bakið upp að vegg í einvíginu og verða að vinna heimaleikinn sinn annað kvöld til að halda lífi í keppninni. Flestir hallast að því að Miami muni loka þessu en veturinn er samt búinn að vera mjög flottur hjá Indiana og getur orðið enn flottari ef liðinu tekst að komast í úrslit.
Indiana er þegar komið með A í einkunn fyrir veturinn í okkar bókum en næsta vetur verður pressan meiri. Þá verður gerð krafa um að liðið fari lengra, sérstaklega ef það nær nú að búa sér til varamannabekk og finna sér skyttur. Grunnurinn er sannarlega til staðar og er einn sá besti í deildinni. Þá er bara að hlaða ofan á hann.
Efnisflokkar:
Framfarir
,
Heat
,
Metnaður
,
Miðherjar
,
Pacers
,
Roy Hibbert
,
Úrslitakeppni 2013
,
Varnarleikur
,
Þetta er ungt og leikur sér
LeBron James var eina stórstjarnan í Miami í nótt:
Ungt fólk um víða veröld hefði eflaust leiðst út í fíkniefnaneyslu og afbrot ef TNT-sjónvarpsstöðin hefði ekki sett móðu fyrir kjaftinn á LeBron James þegar hann húðskammaði félaga sína í Miami í nótt.
Við verðum eiginlega að hrósa James fyrir þolinmæðina, því meistararnir eru búnir að spila vel í einum leik í þessu einvígi. Og um leið einum leik í úrslitakeppninni. Milwaukee var engin fyrirstaða í fyrstu umferðinni og Chicago meinaði Miami að spila vel í annari umferðinni.
James hefði átt að hrauna yfir félaga sína strax eftir leik eitt, þegar Miami sýndi strax að það var ekki að taka Indiana nógu alvarlega.
Það var aðeins í leik þrjú sem Heat spilaði af fullri hörku frá upphafi til enda (eða þangað til úrslitin voru ráðin), en þar fyrir utan hefur það ekki náð að kveikja í sér nema í mínútu og mínútu.
Við sáum aðeins af þessu í þriðja leikhlutanum í kvöld og þá fyrst og fremst í vörninni. Í sókninni var LeBron James í Cleveland-leik og jarðaði Indiana bara sjálfur. Þurfti ekki aðstoð við það. Hann er það góður, en þó það sé óhemju gaman að horfa á James spila í þessum ham, er það ekki vænlegt til árangurs til lengdar hjá Miami.
Indiana var fullkomlega inni í þessum leik þangað til í þriðja leikhlutanum og fór hrikalega illa með mörg dauðafæri í fyrri hálfleik. Við sáum þreytumerki á Pacers í síðari hálfleiknum í nótt.
Það getur meira en verið að Indiana nái að æsa sig upp í að eiga brjálaðan leik á laugardaginn og jafna þetta einvígi. En við sjáum liðið bara ekki vinna þessa seríu. Sjáum ekki að þessir strákar hafi trú á því og sjáum ekki að þeir hafi breidd til þess.
Við mældum það á vísindalegan hátt í nótt og hér eru niðurstöðurnar: Það er ENGIN breidd í liði Indiana.
Það er ekkert lið í NBA deildinni með jafn gagnslausan varamannabekk. Að minnsta kosti ekkert af liðunum sem komust í úrslitakeppnina.
Meira að segja varamenn Lakers og Memphis myndu líta vel út við hliðina á þessum sekkjum.
Þetta telur rosalega. Strákarnir í byrjunarliði Indiana eru óhemju duglegir og virðast næstum hafa endalausa orku, en það getur bara ekki verið að lið með engan bekk komist alla leið í lokaúrslit.
Eins manns liðið Cleveland frá 2007 kemur einna fyrst upp í hugann þegar við hugsum um lið í úrslitum með lélegan bekk, en það lið var líka með LeBron James í sínum röðum.
Indiana er sannarlega ekki með neinn LeBron James og enga súperdúperofurmegastjörnu, þó það sé með þrjá leikmenn á Stjörnuleikskalíberi í þeim Paul George (1 stjörnuleikur), David West (2) og Roy Hibbert (1, reyndar óverðskuldað, en samt).
Talandi um Paul George. Við verðum að koma einni pælingu að í sambandi við hann. Ekki vera þessi sem byrjar að drulla yfir Paul George ef Indiana tapar þessu einvígi. Það er ekki honum að kenna ef svo fer. Drengurinn er tuttugu og þriggja ára gamall!
Að okkar mati er George einn mest spennandi ungi leikmaðurinn í allri NBA deildinni. Já, hann tapar dálítið mörgum boltum og já, hann gæti verið betri skytta - já - hann er ekki fullkominn.
En sjáðu pakkann sem þessi drengur er að bjóða upp á. Hann er frábær varnarmaður, gerir allt á vellinum og á bara eftir að verða betri.
Hvernig heldur þú að þér hefði tekist til með að spila leikstjórnanda, bera ábyrgð á sóknarleiknum og dekka LeBron James í 40+ mínútur á hverju kvöldi þegar þú varst 23 ára gamall?
Einmitt.
Gerið okkur greiða. Ekki drullast út í Paul George.
Skammið heldur Frank Vogel fyrir að koma boltanum ekki oftar inn í teig og stjórn Indiana fyrir að geta ekki fjósast til að setja saman mannsæmandi varamannabekk.
Já, og skammaðu meinta bakverði Indiana, sem gleymdu að taka þátt í fimmta leiknum - hurfu.
Leit stendur enn yfir og farið verður nánar yfir málið í kvöldfréttum klukkan tuttugu.
Okkur dettur ekki í hug að spá fyrir um úrslitin í leik sex á laugardagskvöldið, en vonum satt best að segja að Indiana vinni, því það er alltaf gaman að sjá úr hverju stjörnurnar eru gerðar í hreinum úrslitaleikjum.
Það er samt fjandi líklegt að LeBron James verði að fá aðstoð frá fleiri mönnum en Udonis Haslem og Mario Chalmers í sóknarleiknum ef meistararnir ætla að loka þessari seríu eins og menn.
Það er helvíti dýrt að menn sem þiggja 38 milljónir dollara (rúmlega 4,6 milljarða króna) í laun á ári skuli vera að skila sex körfum samanlagt í jafn þýðingarmiklum leik.
Gefum Dwyane Wade smá slaka því hann er meira en augljóslega í hakki, en Chris Bosh... hvað er hægt að segja um þann mann?
Bara ef til væri lið sem gæti lamið Miami út í horn og laðað fram það allra besta í meisturunum. Þetta eru óraunhæfar kröfur hjá okkur, en við gerum kröfur til besta körfuboltaliðs í heimi - alveg sama hvað það heitir.
Efnisflokkar:
Chris Bosh
,
Dwyane Wade
,
Heat
,
LeBron James
,
Pacers
,
Paul George
,
Úrslitakeppni 2013
Thursday, May 30, 2013
Vitnisburður - Rage Against the Machine
Um þessar mundir eru 20 ár síðan rokkhljómsveitin Rage Against the Machine kom hingað til lands og hélt tónleika í Kaplakrika. Hljómsveitin var þá um það bil að öðlast heimsfrægð eftir að fyrsta plata hennar (jú, Rage Against the Machine) sló rækilega í gegn - eitthvað sem kom meðlimum sveitarinnar mikið á óvart.
Íslenski bolurinn lét ekki sitt eftir liggja þegar hljómsveitin sem átti vinsælasta lagið í útvarpinu (Killing in the name) mætti á klakann og fjölmennti í Kaplakrika. Hér fyrir neðan eru tónleikarnir í heild. Smá hljóðtruflanir við og við, en þetta er sterkt stöff. Beint í æð og meira að segja íslenskur texti.
Takið t.d. eftir því að Zack er ekki búinn að klára textann við People of the sun þarna og frístælar hann í gegn - geðveikt.
Óvíst er að 10% af þeim sem dönsuðu, öskruðu og svitnuðu í Krikanum fyrir 20 árum hafi haft hugmynd um hvaða boðskap hljómsveitin var að flytja. Þeir bara skvettu í sig brennivíni og öskruðu "Fuck you I won´t do what you tell me!" og fíluðu sig í botn. Ekkert við það að athuga svo sem.
En Rage Against the Machine var svo miklu, miklu meira en bara hljómsveit sem grísaði á einn hittara og kom til Íslands. Hljómsveitin var mjög pólitísk, svo pólitísk að hún átti eftir að vera milli tannanna á fólki í mörg ár.
Stjórnmálamenn, bransafólk, tónlistarfólk og allt þar á milli, höfðu skoðanir á vinstrisinnuðum boðskap og ákvarðanatöku Rage Against the Machine.
Elítan var skíthrædd við sveitina, því hún talaði um hluti sem mátti ekki tala um - eins og til dæmis hvernig Bandaríkjamenn og vinir þeirra slátruðu hundruðum þúsunda saklausra borgara í Írak í nafni frelsis (og endurtóku það svo nokkrum árum seinna).
Þetta var fyrir daga Zeitgeist nota bene.
Hljómsveitin fékk líka að heyra það frá fólki í tónlistarbransanum og meira að segja frá aðdáendum sínum, því það þótti ekki sæma pólitísku neðanjarðarbandi að vera á samningi hjá risa eins og Sony (Epic).
Það er ekki hægt að gera öllum til hæfis - ekki í dag og ekki þá.
Rage Against the Machine hætti um aldamótin en kom aftur saman fyrir nokkrum árum og spilaði nokkur gigg.
Líklega höfum við séð síðustu plötuna frá sveitinni, en það er allt í lagi, hún er löngu búin að stimpla sig inn í tónlistarsöguna.
Rage Against the Machine vakti flesta sem á hlýddu til umhugsunar með textum sínum og boðskap, það getum við vottað, en hún skilur meira eftir sig en það.
Sumir vilja nefnilega meina að Rage hljómsveitin sem brúaði endanlega bilið milli rapps (hip hop) og þungarokks. Óvíst er hvort meðlimir sveitarinnar ætluðu sér það, en staðreyndin er samt sú að Rage Against the Machine er eiginlega eina hljómsveitin sem hefur gert það almennilega.
Rappið tók ekki frá rokkinu og öfugt, allt virkaði eins og smurt og ekki skemmdi að boðskapurinn var flugbeittur - ekki einhver froða.
Zack de la Rocha skaffaði (reiðar) rímurnar og reif á sér barkann, Tom Morello var fullkomlega skólaður gítarleikari undir skemmtilega blönduðum hip hop- og Zeppelin áhrifum og þeir Brad Wilk og Tim Commerford tengdu, límdu og héldu taktinum.
Þeir voru áróðursmaskína á móti áróðursmaskínunni. Sjáðu bara næsta myndband.
Óhemju fjöldi hljómsveita reyndi að stökkva á formúluna sem Rage fann upp, en 99% þeirra mistókst. Það er því dálítið neyðarlegt þegar verið er að kenna Rage um það að hafa fætt af sér Nu-metal senuna sem fæddist um miðjan tíunda áratuginn með hljómsveitunum Korn og Deftones. Þessi bönd eiga lítið sem ekkert sameiginlegt með Rage Against the Machine, þó þau séu fín hvort á sinn hátt.
Það væri hægt að skrifa nokkrar bækur um öll stöntin og allan aktívismann sem Rage-liðar tóku þátt í í gegn um árin, en það sem upp úr stendur hjá okkur er tónlistin, grunnboðskapurinn og framsetningin. Þú keyptir Rage Against the Machine þegar þú settir þá á fóninn og enn frekar ef þú sást þá á tónleikum.
Sömuleiðis þýddi ekkert að setja Rage á fóninn áður en þú fórst að sofa, því eftir smá stund varstu farinn að gnísta tönnum og langa að lemja menn í bandaríska utanríkisráðuneytinu með felgulykli.
Það sem fjórmenningarnir í Rage Against the Machine náðu að sjóða saman hefur hvorki fyrr né síðar verið leikið eftir og við eigum tæplega eftir að sjá það gerast aftur (enn síður af því hvernig bransinn er orðinn).
Það getur vel verið að hámenntaðir tónlistarkrítíkerar og hámenntaðir samfélagsfræðingar geti fundið betri tóna og betri boðskap einhvers staðar þarna úti.
En það besta úr báðum áttum mun aldrei aftur koma saman í bílskúr, finna taktinn, vekja milljónir til umhugsunar og meira að segja spila í fokkíng Kaplakrika!
Við lofum því.
P.s. - Við misstum af tónleikunum í Kaplakrika, sem er ekki gott, en við sáum Rage Against the Machine sannarlega spila á tónleikum og það er lífsreynsla sem við munum deila með barnabörnunum.
Efnisflokkar:
Fret úr fortíðinni
,
Metall
,
Nostalgía
,
Tónlistarhornið
Wednesday, May 29, 2013
Allt í járnum í austrinu
Við ætlum ekki að fara mörgum orðum um fjórða leik Miami og Indiana í úrslitaeinvígi Austurdeildarinnar. Við þurfum þess ekki. Indiana varð að vinna þennan leik, sérstaklega í ljósi þess hvernig fór í vestrinu. Við viljum ekki sjá sóp (4-0) og herramannasóp (4-1) í undanúrslitarimmunum. Það væri bara glatað. Lokatölurnar urðu 99-92.
Indiana slapp ekki aðeins við að lenda undir 3-1 og eiga næsta leik á útivelli, heldur er liðið nú búið að jafna metin í seríunni - sem er allt í einu orðin galopin á ný. Það er ekkert stórfurðulegt að Indiana hafi unnið þennan leik. Þeir áttu inni að spila betur en í leik þrjú og Miami gat fjandakornið ekki haldið áfram að hitta eins og það gerði í leiknum á undan.
Nú er því tryggt að við fáum amk eina undanúrslitarimmu sem verður spennandi og á meðan safna Tim Duncan og félagar í San Antonio ryki heima í Texas. Sjá fram á níu eða tíu daga frí.
Þegar Indiana vinnur Miami, er það af því liðið leikur góða vörn (39% hittni hjá Heat), frákastar vel (+19) og fær gott stigaframlag frá Lance Stephenson (20 stig, 9 af 15 í skotum). Svo var sláninn okkar Roy Hibbert líka að standa sig, bauð upp á þriðja 20/10 leikinn í röð og hirti sóknarfráköstin sem tryggðu Pacers sigurinn í nótt.
Það er skammt stórra högga á milli. Eftir öruggan sigur Miami í þriðja leiknum, sáu margir ekki fram á að liðið myndi tapa öðrum leik í þessu einvígi og Indiana átti að vera alveg búið á því. Sem betur fer var það ekki þannig og heimamenn kipptu því í liðinn sem þeir þurftu að laga fyrir fjórða leikinn. Þessi sería búin að vera hin besta veisla og ætlar að vera það áfram. Sérdeilis prýðilegt.
Efnisflokkar:
Fráköst
,
Pacers
,
Roy Hibbert
,
Sönn seigla
,
Úrslitakeppni 2013
Tuesday, May 28, 2013
Þessi Manu
Manu Ginobili er kannski ekki að hitta vel eða skora mikið í úrslitakeppninni, en hann er enn sami listamaðurinn. Hér fyrir neðan er ein af sendingunum hans í Memphis í nótt sem leið. Svona gera bara snillingar.
Efnisflokkar:
GINOBILIIIIII!!!
,
Klobbi
,
Manu Ginobili
,
Spurs
,
Stoðsendingar
,
Tilþrif
,
Úrslitakeppni 2013
San Antonio er komið í lokaúrslit
San Antonio er komið í lokaúrslit NBA deildarinnar í fimmta skipti eftir nokkuð öruggan 93-86 sigur á Memphis í fjórða leik liðanna í nótt. San Antonio sópaði Memphis út í úrslitum Vesturdeildarinnar. Gefðu þér tíma til að melta þetta í smá stund. Engum hefði dottið í hug að spá þessu. Nákvæmlega engum.
En hingað eru þeir komnir, gömlu hundarnir í San Antonio. Svo fór að lokum að þeir töpuðu aðeins tveimur leikjum á leið sinni í úrslitin. Auðvitað spáðir þú því að eina liðið sem myndi ná að vinna Spurs á leið í úrslitaeinvígið væri Spútnikliðið hans Mark Jackson. Einmitt.
Tim Duncan er nú að fara með San Antonio liðið sitt í lokaúrslit þriðja áratuginn í röð. Hugsið ykkur. Þetta hljómar dálítið klikkað, en svona er þetta.
San Antonio vann fyrsta titilinn í sögu félagsins þegar Duncan var gutti árið 1999. Svo fylgdu þrír í viðbót eftir að þeir Parker og Ginobili mættu til sögunnar - árið 2003, 2005 og 2007.
Síðast þegar Spurs fór í úrslit, var mótherjinn LeBron James og Cleveland-lið hans. James dró þá Cavs-lið sem var ekkert sérstaklega gott alla leið í úrslit. Þegar þangað var komið, var hinn meira en efnilegi James kominn á leiðarenda. Gregg Popovich setti hann og fyrrum lærling sinn Mike Brown í hakkavélina og sópaði þeim 4-0.
Nú er ekki ólíklegt að LeBron James fái tækifæri til að hefna sín á Popovich, Duncan og félögum, en í þetta skiptið með alvöru lið á bak við sig. Það verður einhver skákin. Vá. Það er gjörsamlega ómögulegt að spá því hvað gerist ef þessi lið mætast.
Við gefum þeim reyndar D- mínus fyrir einvígið gegn Spurs, en það er mikið til af því Spurs sýndi spilamennsku upp á A. Húnarnir börðust af öllum mætti í fyrstu þremur leikjunum en okkur fannst þeir allt of daufir í leik fjögur.
Það má vel vera að mannskapurinn hafi verið búinn að missa trú á að vinna einvígið eftir að hafa lent 3-0 undir, en fjandakornið að menn hafi ekki stolt í að reyna að minnsta kosti að láta ekki sópa sér út á eigin heimavelli. Það þykir okkur bara lélegt. Sorry. Memphis á að vera betra lið en þetta.
En, eins og við sögðum, má Memphis vel við una eftir dramatískan vetur. Enn er hægt að bæta við og gera þetta lið sterkara en framtíð þess í þjálfaramálum er alveg upp í loft. Það er samt engin ástæða til að ætla annað en að Memphis verði með samkeppnishæft lið á allra næstu árum.
Nú fórum við allt í einu að hugsa um San Antonio aftur. Hugsaðu þér, San Antonio sópaði Memphis í úrslitum Vesturdeildarinnar! Þvílík frammistaða.
Það var engin tilviljun að Zach Randolph blessaður gat EKKERT í einvíginu. Hann var tekinn úr umferð og Memphis fékk ekki að gera neitt sem það vildi gera í sókninni.
Húnunum líður alltaf betur í varnarleiknum en sóknarleiknum, en þeim tókst ekki heldur að finna svör við sóknarleik San Antonio - þar sem Tony Parker reif þá í sig sókn eftir sókn.
Tony flippin Parker.
Menn tala ALDREI um Tony Parker þegar rætt er um bestu leikstjórnendur heimsins, en alltaf skal hann vera síðasti leikstjórnandinn á lífi - spila lengst inn í sumarið af öllum þessum hetjum. Nú ætlum við ekki að halda því fram hér að Parker sé sá besti, en við hvetjum fólk til að staldra aðeins við og pæla í því hvað drengurinn er góður leikmaður.
Hann bar sóknarleik San Antonio uppi í einvíginu við Memphis.
Mike Conley, leikstjórnandi Memphis, náði að halda eins vel aftur af Chris Paul í fyrstu umferðinni og hægt er.
Hann og Tony Allen (sem er almennt álitinn einn besti - ef ekki besti - varnarmaður úti á velli í NBA) reyndu allt sem þeir gátu, en hraði og útsjónarsemi Parker og heimsklassa hindranir Splitter og Duncan gerðu það að verkum að Memphis fann aldrei svar við honum.
Og svo þakkar hann bara liðsfélögum sínum þegar verið er að hrósa honum. Alvöru maður.
Nú fær San Antonio líklega yfir viku hvíld þangað til ræðst hver mótherji þess verður í lokaúrslitunum.
Það er óhemju mikilvægur þáttur fyrir þessar gömlu lappir og meiddu skanka í liðinu.
Einhver lið myndu hafa áhyggjur af því að ryðga á viku, en Spurs fagna hvíldinni, enda hefur þreyta verið óvinur liðsins númer eitt í úrslitakeppninni. Það var sérstaklega áberandi í einvíginu gegn Golden State.
Eins og staðan er núna verður að teljast líklegt að það verði meistarar Miami sem mæta San Antonio í úrslitunum (jinx). Það verður ekkert minna en skákeinvígi með flugeldasýningu eftir hvern leik. Réttast væri að rukka þrefalt inn á þetta.
Og við sem vorum búin að skrifa San Antonio út sem meistarakandídat og halda jarðarför því tengt. Það var ekki annað hægt, eftir að liðið drullaði á sig í úrslitakeppninni ár eftir ár eftir ár.
Nei, svo dúkka þessir herramenn upp, SEX árum eftir síðasta titil og ætla bara alla leið!
Það sem fólk leggur ekki á sig til að láta okkur líta illa út!
Efnisflokkar:
Gregg Popovich
,
Grizzlies
,
Sigurgöngur
,
Sigurvegarar
,
Spurs
,
Tony Parker
,
Úrslitakeppni 2013
Monday, May 27, 2013
Þróun skotvals LeBron James
LeBron James er búinn að taka nákvæmlega 200 skot í úrslitakeppninni. 102 þeirra hafa komið undir körfunni. Slökustu stærðfræðingar átta sig á því að það er um það bil helmingur skota hans (smelltu á myndirnar til að stækka þær).
Það er allt annað en var uppi á teningnum hjá honum þegar hann var hjá Cleveland, þegar hann var að skjóta miklu meira utan af velli. Tökum sem dæmi árið sem hann fór í lokaúrslitin með Cleveland gegn San Antonio. Þá tók hann 399 skot í úrslitakeppninni og eins og þið sjáið á skotkortinu hér fyrir neðan tók hann aðeins 164 þeirra undir körfunni. Það eru um 41% skota hans.
Grantland fór líka ofan í saumana á skotþróun LeBron James frá Cleveland til Miami með myndrænum og skemmtilegum hætti. Fyrst sjáum við hvernig James var að skjóta hjá Cleveland á síðasta árinu sínu í deildakeppninni.
Og hér sjáum við hvernig hann var að skjóta í deildakeppninni í vetur.
Því meira sem James spilar nær körfunni, því hættulegri er hann og því betri árangri hefur lið hans náð.
Efnisflokkar:
Excel
,
LeBron James
,
Tölfræði
Miami-molar
Miami Heat er búið að vera á sögulegri siglingu í allan vetur. Liðið vann 66 leiki í deildakeppninni og afrekaði að vinna 27 leiki í röð eftir áramót, sem er næst lengsta sigurganga í sögu NBA.
Glansinn fer auðvitað dálítið af öllum þessum flottu tölum ef liðið nær ekki að verða meistari í næsta mánuði, en því er ekki að neita að liðið er búið að vera á sögulegum spretti.
Vissirðu til dæmis að Miami er 5-0 á útivelli í úrslitakeppninni og hefur ekki tapað nema einum útileik síðan 1. febrúar?
Þann dag tapaði liðið fyrir Indiana á útivelli í deildakeppninni og eina tapið síðan kom gegn Chicago Bulls þegar liðið stöðvaði sigurgöngu Miami með eftirminnilegum hætti þann 27. mars sl.
Þá tapaði Miami síðast tveimur leikjum í röð dagana 8. og 10. janúar, þegar það lá fyrir Indiana og Portland. Skondið að Indiana skuli koma fyrir í tvígang þarna. Indiana og New York voru einu liðin í deildinni sem unnu einvígi sín við Miami í deildakeppninni.
Nokkrir af leikmönnum Miami hafa líka verið að opna metabækur og rifja upp gamla takta í úrslitakeppninni.
Chris Fuglamaður Andersen er þannig búinn að hitta úr 16 skotum í röð í síðustu fjórum leikjum sínum og er fyrsti maðurinn í sögu NBA sem klikkar ekki á skoti í fjóra leiki í röð með amk tvær skottilraunir.
Udonis Haslem sló hressilega í gegn í þriðja leiknum gegn indiana í gærkvöldi þegar hann skoraði 17 stig, hitti úr 8 af 9 skotum sínum og hirti 7 fráköst. Haslem hafði aðeins 57 sinnum á ferlinum skorað 17 stig eða meira í 781 leik í deilda- og úrslitakeppni. Hann skoraði síðast 17 stig fyrir Miami haustið 2010.
LeBron James er með 29 stig, 7 fráköst og 5 stoðsendingar að meðaltali í leik í seríunni en stundum er eins og hann sé bara að skokka um völlinn og velja sér augnablik til að tortíma. Hann er fyrsti maðurinn í sögu úrslitakeppninnar sem skorar 30 stig, nær þrefaldri tvennu og skorar sigurkörfuna í sama leiknum.
Ekki flókið fyrir besta leikmann í heimi, sem náði líka þrennu í fyrsta leik sínum í úrslitakeppni á ferlinum, þá sem leikmaður Cleveland.
Efnisflokkar:
Fuglamaðurinn
,
Heat
,
LeBron James
,
Tölfræði
,
Udonis Haslem
,
Úrslitakeppni 2013
Nær Memphis að halda lífi í kvöld?
San Antonio Spurs stendur frammi fyrir erfiðu en öfundsverðu verkefni í nótt þegar það sækir Memphis Grizzlies heim í fjórða leik liðanna í úrslitum Vesturdeildarinnar.
Við segjum öfundsverðu, því okkur er alveg sama hvað hver segir - enginn sá fyrir að Spurs myndi vinna fyrstu þrjá leikina í þessu einvígi - og það er ansi þægilegt að vera yfir 3-0 í einvígi í úrslitakeppni.
Það verður kannski ekki bókstaflega auðvelt fyrir Spurs að loka þessu, en öll 107 liðin sem náð hafa 3-0 forystu í sjö leikja seríu í úrslitakeppni NBA til þessa, hafa náð að loka dæminu.
San Antonio hefur ágætis reynslu af því að komast í 3-0 í úrslitakeppninni og er 7-4 í leiknum sem á eftir kom.
Það ætti að þýða að liðið ætti ágætis möguleika á að klára dæmið í Memphis í nótt.
Við skulum þó vona að heimamenn hafi meira stolt en svo, að þeir láti sópa sér út með þessum hætti. Mjög margir spáðu því að Memphis ætti eftir að vinna þetta einvígi og það var ekkert galin spá.
Memphis vann nokkuð öruggan sigur þegar þessi lið mættust síðast í úrslitakeppni og menn sáu ekki alveg hvernig gömlu lurkarnir í Spurs ættu eftir að standa sig á móti tröllslegri framlínu Memphis.
Til að gera langa sögu stutta, hefur kerfisbundinn, líflegur og skipulagður sóknarleikur Spurs gjörsamlega komið Memphis úr jafnvægi og stóru mönnunum hjá Grizzlies hefur verið mætt af fullum þunga.
Nú erum við ekki að segja að San Antonio sé búið að valta yfir andstæðinga sína í þessu einvígi, því eins og flestir vita hafa tveir af þremur leikjanna endað í framlengingu. San Antonio er samt búið að vera betri aðilinn lengst af í rimmunni.
Marc Gasol virkar á felgunni af þreytu, Zach Randolph hefur ekkert getað í sóknarleiknum í einvíginu og stigahæsti leikmaður Memphis í tveimur af þremur leikjunum hefur verið maður sem leiddi liðið ekki einu sinni í stigaskori í allan vetur, Quincy Pondexter. Einmitt.
En hver er munurinn á Spurs í dag og liðinu sem tapaði fyrir Grizzlies í fyrstu umferð fyrir tveimur árum?
Við vorum búin að segja ykkur það.
Tim Duncan er léttari og frískari, Manu Ginobili er þokkalega heill, Parker er enn betri leikmaður og besti leikmaðurinn í seríunni, Tiago Splitter er farinn að spila stóra rullu í liðinu og þá hefur Spurs yfir að ráða fullt af aukaleikurum sem geta komið inn á völlinn og spilað vörn og sett niður stór skot.
Lykilatriðið er samt varnarleikurinn. Spurs er fyrst og fremst betra lið í ár af því vörnin er betri. Og hey, það er líka ákveðinn lúxus að geta farið í gegn um Vesturdeildina án þess að hitta Oklahoma City með Russell Westbrook í lagi.
Við komum hérmeð þeim tilmælum til leikmanna Memphis Grizzlies að þeir standi undir nafni í kvöld. Leikstíll þeirra Grit & Grind hefur ekki skilað neinu gegn Spurs til þessa, en þessir menn hljóta að vera stoltari en svo að láta þessa gömlu karla sópa sér út á sinum eigin heimavelli, fjandakornið.
Fjórði leikur Memphis og San Antonio er á dagskrá klukkan eitt í nótt og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport.
Efnisflokkar:
Grizzlies
,
Spurs
,
Úrslitakeppni 2013
Við elskum körfubolta
Sæl aftur.
Það er ekki við Indiana að sakast, en Miami er nú mætt í úrslitakeppnina árið 2013. Miami vélin þurfti smá ræsingarúða eins og gamall Nalli, en naumur sigur í fyrsta leik og tap í öðrum gegn Pacers á heimavelli var það eina sem þurfti.
Þetta er Miami - liðið sem var óstöðvandi í deildinni í vetur og liðið sem við áttum von á að sjá eins og bremsulausa jarðýtu í úrslitakeppninni. Þarna er það.
Þriðji leikur Miami og Indiana í gær var ekki mjög spennandi, slíkir voru yfirburðir gestanna, en það var samt unun að horfa á það hvernig Miami hakkaði allt í sig sem Indiana reyndi að setja fyrir það.
Ekkert lið vinnur Miami þegar stjörnurnar eru rétt stilltar og fá í þokkabót hjálp frá öllum aukaleikurunum.
Aumingja Indiana ef þetta heldur svona áfram. Hætt við að þetta tap í gær hafi slegið úr þeim eitthvað af tönnunum. Það var alveg sama hvað þeir reyndu, allt kom fyrir ekki.
Við erum búin að segja ykkur allt um LeBron James og þurfum ekki að segja meira um hann í bili, en þessum snillingi er enn að takast að lyfta leik sínum á hærra plan.
Við verðum að deila með ykkur stuttu myndbroti sem fangar svo fullkomlega af hverju við elskum körfubolta.
Myndbrotið hér fyrir neðan er úr leik tvö hjá Miami og Indiana. Ungstirni dagsins í dag, Paul George hjá Indiana, byrjar þar á því að HAMRA boltanum í andlitið á Fuglamanninum Chris Andersen, en LeBron James lætur það ekkert á sig fá, brunar upp völlinn og setur niður langan þrist í andlitið á honum til baka.
Eftir þetta sjáið þið að þeir James og George skiptast á einhverjum pillum og í síðustu endurtekningunni, í blálokin á myndbrotinu, sérðu þá takast í hendur, brosa og halda hvor í sína áttina í lok leikhlutans.
Þetta er gæsahúðaraugnablik af bestu gerð.
Þetta er ástæðan fyrir því að körfubolti er fallegasta íþrótt í heimi að okkar mati.
Efnisflokkar:
Gæsahúð
,
Heat
,
LeBron James
,
Pacers
,
Paul George
,
Tilþrif
,
Úrslitakeppni 2013
Saturday, May 25, 2013
Sælar stelpur, Paul George hérna.
Efnisflokkar:
Andlitsmeðferð
,
Fuglamaðurinn
,
Hamarinn
,
Heat
,
Pacers
,
Paul George
,
Úrslitakeppni 2013
,
Veðrið þarna uppi
Friday, May 24, 2013
Fuglamaðurinn spilar stóra rullu hjá Miami
Við reiknuðum með því að Fuglamaðurinn Chris Andersen ætti eftir að geta hjálpað Miami í nokkrar mínútur annað slagið þegar hann gerði samning við Miami seint í vetur.
Enginn sá samt fyrir að hann yrði lykilmaður í liði meistaranna nánast frá fyrstu mínútu. Hann kemur með brjálaða baráttu inn í miðjuna, djöflast í fráköstum, ver skot og hleypur endalínuna vel í sókninni þar sem hann er alltaf að pikka upp eina og eina viðstöðulausa.
Það segir að okkar mati meira um það hvað menn eins og Joel Anthony eru fullkomlega gagnslausir þegar gaur eins og Andersen getur vaðið beint inn í þetta sterka lið þó hann hafi verið út úr NBA deildinni í nokkurn tíma.
Liðið hefur ekki slegið feilpúst síðan Fuglamaðurinn kom til sögunnar og er með 45 sigra og aðeins fimm töp, en það vill þannig til að Anderson og LeBron James misstu úr einhverja af þessum fimm leikjum sem töpuðust, svo við tökum þá varla með.
Andersen hefur ekki aðeins fært Miami siguranda og lukku. Hann er líka að spila gjörsamlega eins og engill í úrslitakeppninni. Í tíu leikjum hefur hann hitt úr hvorki meira né minna en 29 af 35 skotum sínum utan af velli (82%).
Hann var mjög flottur í fyrsta leiknum gegn Indiana þar sem hann hitti öllum sjö skotum sínum, skoraði 16 stig á aðeins 18 mínútum, hirti 5 fráköst og varði þrjú skot, takk fyrir. Miami hefur vantað svona kappa í miðjuna allar götur síðan James og Bosh mættu á svæðið. Magnað að skrautlegur karakter eins og Fuglamaðurinn skuli geta lagt í púkkið og gert meistarana enn sterkari.
Efnisflokkar:
Chris Andersen
,
Fuglamaðurinn
,
Heat
,
Úrslitakeppni 2013
Joe Dumars er fimmtugur í dag
Stórhöfðinginn Joe Dumars sem spilaði allan sinn feril hjá Detroit er fimmtugur í dag. Dumars var nokkuð vanmetinn leikmaður, hörku varnarmaður og ágætis skotmaður.
Hann myndaði eitt sterkasta bakvarðapar í sögu deildarinnar með Isiah Thomas félaga sínum og urðu þeir meistarar í tvígang með Pistons árin 1989 og 1990.
Dumars var kjörinn verðmætasti leikmaður lokaúrslitanna árið 1989 og á myndinni tekur hann við verðlaunum því tengt.
Þá má bæta því við að þeir Mitch Kupchak framkvæmdastjóri Lakers og sjálfur Té-Mákur hjá San Antonio eiga einnig afmæli í dag.
Ekki er það síður merkilegt að Björgvin Páll Gústavsson handboltamaður og Anna Garðarsdóttir knattspyrnukona eiga líka afmæli þennan dag. Það er allt að verða vitlaust hérna!
Efnisflokkar:
Afmæli
,
Joe Dumars
,
Nostalgía
,
Pistons
Þú gætir verið Kelly Tripucka
Af hverju erum við með Kelly Tripucka á heilanum núna? Það er nákvæmlega ekkert eðlilegt við það að vera með Tripucka á heilanum. Dálítið eins og að vera með Fossa í Prúðuleikurunum á heilanum. Kannski verra. Við fundum ekkert um þetta á doktor.is.
Góð spurning. Hann datt bara allt í einu inn í hausinn á okkur eftir að einhverjir netverjar voru að birta myndir af honum þar sem hann var að frumsýna fyrstu keppnistreyjuna í sögu Charlotte Hornets árið 1988.
Tripucka hóf ferilinn hjá Detroit árið 1981 og afrekaði þar að skora næstum 27 stig að meðaltali í leik og leiða deildina í spiluðum mínútum á öðru árinu sínu.
Kappinn var í fimm ár hjá Detroit, tvö hjá Utah (þar sem hann lenti upp á kant við þjálfarann) og var að lokum sendur til nýliða Charlotte Hornets, sem venju samkvæmt mátti velja sér leikmenn úr hinum liðunum í deildinni með samþykki (Expansion draft). Liðin höfðu sem sagt eitthvað með það að gera hvaða leikmenn þau ákváðu að senda frá sér til nýliðanna og Jazzarar voru ekki lengi að hugsa sig um og sjoppuðu okkar manni út.
Tripucka er á margan hátt goðsögn af því hann bauð upp á bæði mottu og möllett. Það var auðvitað enginn maður með mönnum á níunda áratugnum nema hann skartaði öðru eða báðum atriðum - í bland við hrikalega þröngar stuttbuxur auðvitað.
Stockton-þröngar - þú ert ekkert að fara að fjölga þér á næstunni-þröngar.
En það var meira í hann Tripucka spunnið. Hann var mikill skorari eins og við sögðum ykkur áðan og átti sín bestu ár þegar hann var hjá Detroit.
Þar afrekaði hann að vera tvisvar valinn í stjörnuliðið (´82 og ´84) og það voru hvorki meira né minna en þrír Pistons-menn í Stjörnuleiknum árið 1984 eins og þú sérð á myndinni hér fyrir ofan.
Tripucka er vinstra megin á myndinni, Bill Laimbeer hægra megin og fyrir aftan þá stendur leikstjórnandinn Isiah Thomas, en til gamans má geta að hann var kjörinn verðmætasti leikmaðurinn í umræddum Stjörnuleik.
Thomas skilaði 21 stigi, 15 stoðsendingum og fjórum stolnum boltum í leiknum og hreppti verðlaunin af Julius Erving sem átti engu síðri leik - 34 stig (14-21= 64%), 8 fráköst, 5 stoðsendingar, tvö varin og tvo stolna.
Það var austurliðið sem hafði betur í leiknum 154-145 og rétt er að minnast á að Bill Laimbeer kom reyndar inn í Stjörnuliðið sem varamaður fyrir Moses Malone sem var meiddur. Það var Moses sem hlaut flest atkvæði allra í byrjunarliðið - tæp 928 þúsund tikk.
Gríðarlega eðlilegt að fara allt í einu að skrifa pistil um Kelly Tripucka í miðri úrslitakeppni.
Kannski erum við öll Kelly Tripucka.
Hrikalega var þetta fáránlegur pistill, en við skemmtum okkur konunglega. Þið vonandi líka.
Efnisflokkar:
Allir að halda sér
,
Fret úr fortíðinni
,
Hornets
,
Kelly Tripucka
,
NBA 101
,
Nostalgía
,
Pistons
,
Raunir hvíta mannsins
Sólstrandargæjarnir eru hrikalegir
Sólstrandargæjarnir LeBron James og Dwyane Wade hjá Miami skelltu sér á ströndina á dögunum. Eins og sjá má á myndinni, steingleymdu þeir alveg að vera góðu í formi(!)
Munaður fyrir þessa ofuríþróttamenn að fá að slappa af í sólinni á Suðurströnd í nokkra daga milli leikja. En nú er alvaran hafin. Miami leiðir 1-0 gegn Indiana í úrslitaeinvígi Austurdeildarinnar. Leikur tvö er í nótt klukkan hálfeitt og verður í beinni á Sportinu. Fyrsti leikurinn var frábær skemmtun, svo við hvetjum fólk til að missa ekki af þessum.
Efnisflokkar:
Dwyane Wade
,
Heat
,
Holdafar
,
Hrikalegheit
,
LeBron James
,
Líkamsþróttur er eftirsóttur
,
Miðar á byssusýninguna
,
Sælar stelpur
,
Sólstrandargæjarnir
Aldarfjórðungs afmæli Miami Heat
Miami Heat er 25 ára um þessar mundir og því fannst okkur vel við hæfi að sýna ykkur þessa skemmtilegu mynd. Hún er frá því á að giska um 1990 og sýnir þrjá af byrjunarliðsmönnum Miami á fyrstu árum liðsins í deildinni.
Bleiknefjinn í forgrunni er Rony Seikaly, en hann var einmitt fyrsti nýliðinn í sögu Miami, tekinn í nýliðavalinu árið 1988.
Seikaly kom úr Syracuse háskólanum og var valinn númer níu í fyrstu umferð. Hann fæddist í Beirút og afrekaði meðal annars að setja fyrsta 30/20 leikinn í sögu félagsins. Síðar gerði hann gott mót sem plötusnúður.
Annar Syracuse piltur er vinstra megin á efstu myndinni, en það er leikstjórnandinn Sherman Douglas.
Honum náði Miami að stela í annari umferð nýliðavalsins árið 1990 og stóð hann sig svo vel að hann var valinn í úrvalslið nýliða það árið.
Douglas var strax á öðru ári sínu orðinn stigahæsti maður Miami og var þá eini leikstjórnandinn sem leiddi lið sitt í stigum, með rúm 18 að meðaltali í leik.
Hann var vægast sagt skrautlegur leikmaður, sinnti vörninni illa og var sérfræðingur í að gefa sirkussendingar á félaga sína.
Þriðji maðurinn á myndinni og um leið sá frægasti, er stórskyttan Glen Rice sem stendur uppi á trukknum. Rice leiddi Michigan til sigurs í háskólaboltanum árið 1989 og var í kjölfarið tekinn númer fjögur í nýliðavalinu í NBA.
Rice byrjaði ekki með neinum látum og skoraði ekki nema um 13 stig á nýliðaárinu og hitti ekki nema úr tæplega 25% þriggja stiga skota sinna.
Það átti nú heldur betur eftir að breytast, því Rice var 40% þriggja stiga skytta yfir ferilinn.
Menn voru ekki eins duglegir að skjóta fyrir utan í þá daga eins og núna, en Rice var yfirleitt ein viljugasta langskytta deildarinnar.
Rice skoraði mest tæp 27 stig að meðaltali í leik þegar hann var 29 ára gamall, en þá var hann reyndar á sínu öðru ári með Charlotte Hornets eftir að hafa spilað fyrstu sex árin í Miami.
Hann afrekaði síðar að verða bæði þriggja stiga kóngur um Stjörnuhelgina í Phoenix árið 1995 (þegar liðsfélagi hans Harold Miner varð einmitt troðkóngur) og verðmætasti leikmaður Stjörnuleiksins 1997 sem haldinn var í Cleveland.
Þar setti hann met yfir flest stig í einum leikhluta í Stjörnuleik þegar hann setti 20 í þriðja leikhluta.
Þrisvar var hann valinn í Stjörnuliðið og tvisvar í úrvalslið deildarinnar - einu sinni í annað og einu sinni í þriðja.
Rice á stigametið í einum leik hjá Heat - 56 stig - sett í apríl árið 1995 í leik gegn grönnunum í Orlando. Hann hitti þá úr 20 af 27 skotum sínum og 7 af 8 þristum. Að lokum má geta þess til gamans að Rice náði einu sinni að verða NBA meistari, en það var á aldamótaárinu þegar hann var varamaður hjá Los Angeles Lakers.
Miami liðið var skiljanlega afleitt á þessum tíma og vann ekki nema 15 og 18 leiki á fyrstu tímabilunum í deildinni.
Leiðin lá hinsvegar alltaf upp á við og strax árið 1997 vann liðið 61 leik og komst í úrslit Austurdeildarinnar þar sem það lá fyrir meisturum Chicago Bulls.
Miami lið þeirra Alonzo Mourning og Tim Hardaway undir stjórn Pat Riley náði aldrei að fara alla leið þrátt fyrir að vera mjög gott, en það var næsta kynslóð sem kom Miami endanlega á kortið.
Allt byrjaði það þegar félagið tók Dwyane Wade í nýliðavalinu og síðar náði Pat Riley að lokka Shaquille O´Neal á Suðurströndina.
Það sem á eftir kom stendur svo í sögubókum. Miami varð sem kunnugt er meistari árið 2006 eftir ótrúlegan sigur á Dallas (þar sem liðið lenti 2-0 undir og var hársbreidd frá því að lenda 3-0 undir) í lokaúrslitum.
Restina af sögunni þekkja allir og nú reyna Dwyane Wade, LeBron James og félagar að halda upp á aldarfjórðungsafmæli félagsins með því að koma þriðja titlinum í hús í sumar.
Það yrði ekki amaleg afmælisveisla.
Efnisflokkar:
Afmæli
,
Dwyane Wade
,
Fret úr fortíðinni
,
Glen Rice
,
Heat
,
Netbrennur
,
Nostalgía
,
Pat Riley
,
Shaquille O´Neal
,
Sögubækur
Tveir á toppnum
Þú hefur kannski velt fyrir þér hvernig það væri að standa við hliðina á NBA leikmanni. Jafnvel trölli eins og Minnisótungnum Nikola Pekovic, sem er mögulega stærsti maðurinn í NBA deildinni ef tekið er mið af hæð, þyngd, kjöti og almennum hrikalegheitum.
Jæja, þú þarft ekki að leita lengur. Hér er skemmtileg (bola) tækifærismynd sem einhver hefur smellt af Pekovic og leikaranum geðþekka Zach Galifianakis, sem um þessar myndir féflettir fólkið sem er svo saklaust að mæta á myndina Þynnka Þrjú.
Okkur liggur forvitni á að vita hvort þeirra bað um að myndin yrði tekin (hver bolaði hvern), ef það var þá annar þeirra en ekki ljósmyndari sem átti leið hjá og sá þetta ólíklega par.
Efnisflokkar:
Bolurinn
,
Eðlilegt
,
Kvikmyndahornið
,
Myndir
,
Nikola Pekovic
,
Skrítlur
Jóhanna Sigurðardóttir er massaðari en Z-Bo
Efnisflokkar:
Allir að halda sér
,
Grizzlies
,
Hrikalegheit
,
Marc Gasol
,
Ógnarstyrkur
,
Zach Randolph
Meira af mönnunum í miðjunni
Við erum alltaf að tuða um dauða stóra mannsins - þá staðreynd að alvöru miðherjar eru að verða útdauð tegund í NBA deildinni. Skondið dæmi um þetta eru úrvalsliðin þrjú sem tilkynnt voru í dag.
Stóri maðurinn í fyrsta úrvalsliðinu er tæknilega ekki miðherji, en fyrir þá sem vilja kalla Tim Duncan miðherja, skoraði hann 18 stig, hirti 10 fráköst og varði þrjú skot í leik í vetur.
Maðurinn í öðru úrvalsliðinu, Marc Gasol, var með skítlélegar tölur (14 stig, 8 fráköst, 2 varin) eins og við sögðum ykkur í aurskriðunni af pistli fyrr í kvöld. Við gáfum Gasol samt undanþágu og "leyfðum honum" að vera á sínum stað í úrvalsliðinu af því hann er svo óeigingjarn, góður sendingamaður og duglegur í vörninni.
Þriðji miðherjinn í úrvalsliðið var svo Dwight Howard blessaður. Hann átti slakasta ár sitt í langan tíma, mestmegnis vegna meiðsla, en náði þó að skila þokkalegum tölum. Hann skoraði 17 stig, hirti 12 fráköst og varði tvö skot í leik í vetur.
Þetta eru nú ekki beint MVP-tölur eins og þið sjáið. Eigum við að fá smá samanburð?
Árið 1992 var miðherji nokkur að spila í NBA deildinni sem skoraði 22 stig, hirti 12 fráköst, varði 4 skot og stal tveimur boltum að meðaltali í leik. Hann var með yfir 50% skotnýtingu og liðið hans var með yfir 50% vinningshlutfall.
Þessi maður komst ekki í úrvalslið NBA deildarinnar.
Ekki í fyrsta lið, ekki í annað, ekki þriðja heldur.
Þetta var Hakeem Olajuwon, leikmaður Houston.
David Robinson hjá San Antonio var í fyrsta úrvalsliði, Patrick Ewing hjá New York í öðru og Cleveland-miðherjinn Brad Daugherty í því þriðja.
Heldurðu að Hakeem hefði komist í úrvalsliðið í ár?
Efnisflokkar:
Dauði miðherjans
,
Dwight Howard
,
Hakeem Olajuwon
,
Marc Gasol
,
Miðherjar
,
Nostalgía
,
Tim Duncan
,
Úrvalslið NBA
Eru laumufarþegar í úrvalsliðum NBA?
Þá er búið að útnefna þá leikmenn sem komust í úrvalslið vetrarins 2012-13 í NBA deildinni. Þegar verið er að hampa leikmönnum í NBA deildinni, er leiðindasiður að telja upp hve marga Stjörnuleiki þeir hafa spilað. Valið í (byrjunarlið) Stjörnuleiksins er bara asnaleg vinsældakeppni, sem segir ekkert um getu leikmannsins.
Þess vegna er úrvalslið deildarinnar miklu betri mælikvarði á frammistöðu og styrk leikmanna. Þetta kjör er alls ekki gallalaust frekar en annað í kring um þessa blessuðu deild og eins og þið getið ímyndað ykkur, höfum við smá skoðanir á úrvalsliðinu sem birt var í dag.
Svona leit þetta út:
Rétt eins og þegar Verðmætasti leikmaður deildarinnar er valinn, horfa nefndarmenn jafnan í vinningshlutfall liða þegar þeir velja menn í úrvalsliðið. Þess vegna er fullkomlega eðlilegt að menn eins og LeBron James og Kevin Durant skuli vera í 1. úrvalsliði. Liðin þeirra voru frábær í vetur og þeir tveir sömuleiðis, eiginlega sögulega góðir.
Tim Duncan var maðurinn í miðjunni hjá frábæru liði San Antonio og þess vegna fær hann að vera stóri maðurinn í fyrsta úrvalsliðinu. Menn hafa deilt um það í mörg ár hvort Duncan er kraftframherji eða miðherji og ætli sé ekki best að við útskýrum það þá aðeins.
Duncan hefur alltaf verið skráður sem kraftframherji og er jafnan með stærri mann sér við hlið sem spilar miðherjastöðuna (Splitter þessa dagana). Hann er hinsvegar oft kallaður miðherji af því hann spilar oft með bakið í körfuna og spilar oft eins og miðherji.
Við skulum samt hafa það á hreinu að Tim Duncan er kraftframherji - ekki miðherji - það þýðir ekkert fyrir þig að rífast um það.
Hvað um það, Duncan fær sætið í fyrsta liðinu af því hann átti sinn besta vetur í nokkur ár og af því San Antonio var enn einu sinni við toppinn í deildinni. Það munar ekki miklu vinningshlutfalli Spurs og til dæmis Memphis, sem er með Marc Gasol í miðjunni. En af hverju var Gasol þá ekki í fyrsta úrvalsliðinu spyrðu? Var hann ekki varnarmaður ársins og læti?
Jú, en Gasol var bara með lélega tölfræði í vetur. Hann er frábær leikmaður, en honum gæti ekki verið meira sama um alla tölfræði og öfugt við marga aðra, eyðir hann meiri orku í vörninni en í sókninni. Við tippum á að það hafi eitthvað með það að gera.
Gasol er miklu betri en tölurnar sýna, en hann mætti klárlega vera grimmari bæði í stigaskori og fráköstum, hvort sem hann spilar með Zach Randolph eða ekki. Pappíraðu þig, Gasol! Þú getur miklu meira!
Svo við klárum miðherjana, er Dwight Howard í þriðja úrvalsliðinu og það má alveg deila um það. Við hefðum til að mynda alveg sætt okkur við að sjá Joakim Noah eða Brook Lopez í sætinu hans.
Jú, jú, Howard leiddi deildina í fráköstum, en hann var mjög lengi í gang í vetur og fór ekki að spila eins og hann á að sér fyrr en undir vor. Svo var og er vandræðagangurinn á honum utan vallar ekki til að hækka hann í tign.
Ekki gleyma því heldur að LA Lakers vann ekki nema 45 leiki í vetur. Brooklyn (49) og Chicago (45) unnu ekkert mikið fleiri, en það er samt engin ástæða til að velja Howard umfram hina tvo.
Við minnumst ekki einu sinni á menn eins og Roy Hibbert og Al Horford, því þeir eru með drullu lélega tölfræði þrátt fyrir að vera ágætis leikmenn (við verðum að fara að koma Horford frá Atlanta. Hann er nefnilega mjög góður leikmaður).
Talandi um menn sem eru í of slökum liðum til að eiga skilið sæti í fyrsta úrvalsliði deildarinnar...
Sorry, Lakers-menn, en Kobe Bryant á þetta ekki skilið.
Kobe er hér valinn í fyrsta úrvalslið deildarinnar í ellefta sinn á ferlinum og jafnar þar með met Karl Malone.
Það er ekki við hæfi, því Karl Malone var raunverulega annar af tveimur bestu framherjum deildarinnar í ellefu ár í röð, sem segir sitt um vélrænan stöðugleika hans.
Bryant hefur líka verið mjög stöðugur, en núna er komið að því að skutla honum niður um sæti í úrvalsliðinu.
Kannski hafa menn ekki haft það í sér að setja hann í annað eða þriðja úrvalslið deildarinnar eftir að hann meiddist svona illa og óvíst er með framhaldið hjá honum.
Það breytir því ekki að í ár spilaði Kobe Bryant svo skelfilega vörn að ALLIR eru loksins farnir að taka eftir því. Líka Jón úti í bæ. Það hefur verið vel varið leyndarmál síðustu ár hvað Bryant var farinn að hvíla sig mikið í vörninni til að eiga djús í sóknina, en í vetur var það átakanlegt.
Kobe breytti leik sínum aðeins í vetur og verður að fá smá kúdós fyrir það. Hann bætti hjá sér skotnýtinguna og gaf fleiri stoðsendingar. Hann hefur samt enn ekki lært hvað gæti talist eðlilegt skotval, gefur boltann helst bara þegar hann er viss um að fá stoðsendingu fyrir og svo eitt í viðbót.
Kobe Bryant er ekki góð þriggja stiga skytta. Nennið þið að sætta ykkur við það?
Við leyfðum Tim Duncan að vera í úrvalsliðinu af því hann var sá eini sem féll undir kríteríuna, en við ætlum ekki að gera það við Kobe Bryant. Að okkar mati eru tveir menn sem eiga frekar skilið að vera bakvarðarstöðunni í fyrsta úrvalsliðinu í vetur.
Þetta eru Tony Parker og Russell Westbrook.
Chris Paul fékk að sitja við hlið Kobe Bryant í fyrsta úrvalsliðinu og það er allt í lagi.
Þegar Paul er annars vegar, erum við ekki mikið að skoða tölur, heldur er það bara svo augljóst hvað hann er algjörlega heilinn í Clippers-liðinu sem náði besta árangrinum í sögu sinni í vetur.
Paul er einstakur leikmaður. Hann spilar ekki margar mínútur, er alltaf eitthvað meiddur, er fýlupúki og náði ekki að koma Clippers í gegn um 1. umferð í úrslitakeppninni - en hann er samt besti leikstjórnandi í heimi.
Parker og Westbrook unnu báðir fleiri leiki en Chris Paul og miklu fleiri en Kobe Bryant. Þegar Lakers var annars vegar, virðast þeir sem kusu í valinu að þessu sinni ákveðið að loka augunum fyrir því að Lakers-liðið var drasl í vetur.
Flestir eru á einu máli um að Tony Parker hafi átt sinn besta vetur á ferlinum í ár. Hann er lykilmaður í frábæru liði San Antonio í dag, ekki Tim Duncan, og hann er með fína tölfræði (20 stig, 8 stoðsendingar og 52% skotnýtingu.
Parker meiddist að vísu aðeins og spilaði ekki nema 66 leiki, en það á að vera alveg nóg.
Russell Westbrook missti sko ekki úr leiki í deildakeppninni frekar en venjulega og þó það sé auðvitað ekki haft til hliðsjónar í valinu á úrvalsliðinu - fékk fólk loksins að sjá það um daginn hvernig gríðarlega sterku liði Oklahoma vegnar án hans.
Oklahoma er nefnilega ekkert sterkt án hans og fá þá nokkrir af hörðustu gagnrýnendum Westbrook á kjaftinn.
Já, já, hann er dálítið villtur, en hann er frábær leikmaður. Skilaði 23 stigum, 5 fráköstum, 7 stoðsendingum og 2 stolnum boltum í besta liði Vesturdeildarinnar - liði sem vann FIMMTÁN fleiri leiki en Lakers.
Nú fara sjálfsagt einhverjir að væna okkur um Hatorade-drykkju í garð Kobe Bryant, en við þvertökum fyrir það. Sumir af göllum hans sem leikmanns fara í taugarnar á okkur, en við höfum gaman af þeim um leið. Og við berum fulla virðingu fyrir Mömbunni, það eigið þið að vita.
Hann á bara ekki skilið að vera í fyrsta úrvalsliði NBA deildarinnar árið 2013. Þá er alveg eins hægt að velja James Harden, sem er með svipaðar tölur, í svipuðu liði og spilar svipað hörmulega vörn.
Látið ekki svona. Kobe á ekkert að vera þarna. Það gerir bara lítið úr hinum tíu skiptunum sem hann var (sjálfsagt) réttilega valinn í fyrsta úrvalsliðið.
40% af okkur langar að henda þessum pistli af því hann er of neikvæður og af því við fórum hálfpartinn að sjá eftir því þegar við vorum að leita að myndum af Bryant.
En svona ætlum við að hafa þetta - hvort sem þú ert sammála því eða ekki.
Efnisflokkar:
Kobe Bryant
,
Úrvalsleikmenn
,
Úrvalslið NBA
Subscribe to:
Posts (Atom)