Friday, May 24, 2013

Aldarfjórðungs afmæli Miami Heat


Miami Heat er 25 ára um þessar mundir og því fannst okkur vel við hæfi að sýna ykkur þessa skemmtilegu mynd. Hún er frá því á að giska um 1990 og sýnir þrjá af byrjunarliðsmönnum Miami á fyrstu árum liðsins í deildinni.

Bleiknefjinn í forgrunni er Rony Seikaly, en hann var einmitt fyrsti nýliðinn í sögu Miami, tekinn í nýliðavalinu árið 1988.

Seikaly kom úr Syracuse háskólanum og var valinn númer níu í fyrstu umferð. Hann fæddist í Beirút og afrekaði meðal annars að setja fyrsta 30/20 leikinn í sögu félagsins. Síðar gerði hann gott mót sem plötusnúður.

Annar Syracuse piltur er vinstra megin á efstu myndinni, en það er leikstjórnandinn Sherman Douglas.

Honum náði Miami að stela í annari umferð nýliðavalsins árið 1990 og stóð hann sig svo vel að hann var valinn í úrvalslið nýliða það árið.

Douglas var strax á öðru ári sínu orðinn stigahæsti maður Miami og var þá eini leikstjórnandinn sem leiddi lið sitt í stigum, með rúm 18 að meðaltali í leik.

Hann var vægast sagt skrautlegur leikmaður, sinnti vörninni illa og var sérfræðingur í að gefa sirkussendingar á félaga sína.

Þriðji maðurinn á myndinni og um leið sá frægasti, er stórskyttan Glen Rice sem stendur uppi á trukknum. Rice leiddi Michigan til sigurs í háskólaboltanum árið 1989 og var í kjölfarið tekinn númer fjögur í nýliðavalinu í NBA.

Rice byrjaði ekki með neinum látum og skoraði ekki nema um 13 stig á nýliðaárinu og hitti ekki nema úr tæplega 25% þriggja stiga skota sinna.

Það átti nú heldur betur eftir að breytast, því Rice var 40% þriggja stiga skytta yfir ferilinn.

Menn voru ekki eins duglegir að skjóta fyrir utan í þá daga eins og núna, en Rice var yfirleitt ein viljugasta langskytta deildarinnar.

Rice skoraði mest tæp 27 stig að meðaltali í leik þegar hann var 29 ára gamall, en þá var hann reyndar á sínu öðru ári með Charlotte Hornets eftir að hafa spilað fyrstu sex árin í Miami.

Hann afrekaði síðar að verða bæði þriggja stiga kóngur um Stjörnuhelgina í Phoenix árið 1995 (þegar liðsfélagi hans Harold Miner varð einmitt troðkóngur) og verðmætasti leikmaður Stjörnuleiksins 1997 sem haldinn var í Cleveland.

Þar setti hann met yfir flest stig í einum leikhluta í Stjörnuleik þegar hann setti 20 í þriðja leikhluta.
Þrisvar var hann valinn í Stjörnuliðið og tvisvar í úrvalslið deildarinnar - einu sinni í annað og einu sinni í þriðja.

Rice á stigametið í einum leik hjá Heat - 56 stig - sett í apríl árið 1995 í leik gegn grönnunum í Orlando. Hann hitti þá úr 20 af 27 skotum sínum og 7 af 8 þristum. Að lokum má geta þess til gamans að Rice náði einu sinni að verða NBA meistari, en það var á aldamótaárinu þegar hann var varamaður hjá Los Angeles Lakers.

Miami liðið var skiljanlega afleitt á þessum tíma og vann ekki nema 15 og 18 leiki á fyrstu tímabilunum í deildinni.

Leiðin lá hinsvegar alltaf upp á við og strax árið 1997 vann liðið 61 leik og komst í úrslit Austurdeildarinnar þar sem það lá fyrir meisturum Chicago Bulls.

Miami lið þeirra Alonzo Mourning og Tim Hardaway undir stjórn Pat Riley náði aldrei að fara alla leið þrátt fyrir að vera mjög gott, en það var næsta kynslóð sem kom Miami endanlega á kortið.

Allt byrjaði það þegar félagið tók Dwyane Wade í nýliðavalinu og síðar náði Pat Riley að lokka Shaquille O´Neal á Suðurströndina.

Það sem á eftir kom stendur svo í sögubókum. Miami varð sem kunnugt er meistari árið 2006 eftir ótrúlegan sigur á Dallas (þar sem liðið lenti 2-0 undir og var hársbreidd frá því að lenda 3-0 undir) í lokaúrslitum.

Restina af sögunni þekkja allir og nú reyna Dwyane Wade, LeBron James og félagar að halda upp á aldarfjórðungsafmæli félagsins með því að koma þriðja titlinum í hús í sumar.

Það yrði ekki amaleg afmælisveisla.