Friday, May 31, 2013

LeBron James var eina stórstjarnan í Miami í nótt:


Ungt fólk um víða veröld hefði eflaust leiðst út í fíkniefnaneyslu og afbrot ef TNT-sjónvarpsstöðin hefði ekki sett móðu fyrir kjaftinn á LeBron James þegar hann húðskammaði félaga sína í Miami í nótt.



Við verðum eiginlega að hrósa James fyrir þolinmæðina, því meistararnir eru búnir að spila vel í einum leik í þessu einvígi. Og um leið einum leik í úrslitakeppninni. Milwaukee var engin fyrirstaða í fyrstu umferðinni og Chicago meinaði Miami að spila vel í annari umferðinni.

James hefði átt að hrauna yfir félaga sína strax eftir leik eitt, þegar Miami sýndi strax að það var ekki að taka Indiana nógu alvarlega.

Það var aðeins í leik þrjú sem Heat spilaði af fullri hörku frá upphafi til enda (eða þangað til úrslitin voru ráðin), en þar fyrir utan hefur það ekki náð að kveikja í sér nema í mínútu og mínútu.

Við sáum aðeins af þessu í þriðja leikhlutanum í kvöld og þá fyrst og fremst í vörninni. Í sókninni var LeBron James í Cleveland-leik og jarðaði Indiana bara sjálfur. Þurfti ekki aðstoð við það. Hann er það góður, en þó það sé óhemju gaman að horfa á James spila í þessum ham, er það ekki vænlegt til árangurs til lengdar hjá Miami.

Indiana var fullkomlega inni í þessum leik þangað til í þriðja leikhlutanum og fór hrikalega illa með mörg dauðafæri í fyrri hálfleik. Við sáum þreytumerki á Pacers í síðari hálfleiknum í nótt.

Það getur meira en verið að Indiana nái að æsa sig upp í að eiga brjálaðan leik á laugardaginn og jafna þetta einvígi. En við sjáum liðið bara ekki vinna þessa seríu. Sjáum ekki að þessir strákar hafi trú á því og sjáum ekki að þeir hafi breidd til þess.

Við mældum það á vísindalegan hátt í nótt og hér eru niðurstöðurnar: Það er ENGIN breidd í liði Indiana.

Það er ekkert lið í NBA deildinni með jafn gagnslausan varamannabekk. Að minnsta kosti ekkert af liðunum sem komust í úrslitakeppnina.

Meira að segja varamenn Lakers og Memphis myndu líta vel út við hliðina á þessum sekkjum.

Þetta telur rosalega. Strákarnir í byrjunarliði Indiana eru óhemju duglegir og virðast næstum hafa endalausa orku, en það getur bara ekki verið að lið með engan bekk komist alla leið í lokaúrslit.

Eins manns liðið Cleveland frá 2007 kemur einna fyrst upp í hugann þegar við hugsum um lið í úrslitum með lélegan bekk, en það lið var líka með LeBron James í sínum röðum.

Indiana er sannarlega ekki með neinn LeBron James og enga súperdúperofurmegastjörnu, þó það sé með þrjá leikmenn á Stjörnuleikskalíberi í þeim Paul George (1 stjörnuleikur), David West (2) og Roy Hibbert (1, reyndar óverðskuldað, en samt).

Talandi um Paul George. Við verðum að koma einni pælingu að í sambandi við hann. Ekki vera þessi sem byrjar að drulla yfir Paul George ef Indiana tapar þessu einvígi. Það er ekki honum að kenna ef svo fer. Drengurinn er tuttugu og þriggja ára gamall!

Að okkar mati er George einn mest spennandi ungi leikmaðurinn í allri NBA deildinni. Já, hann tapar dálítið mörgum boltum og já, hann gæti verið betri skytta - já - hann er ekki fullkominn.

En sjáðu pakkann sem þessi drengur er að bjóða upp á. Hann er frábær varnarmaður, gerir allt á vellinum og á bara eftir að verða betri.

Hvernig heldur þú að þér hefði tekist til með að spila leikstjórnanda, bera ábyrgð á sóknarleiknum og dekka LeBron James í 40+ mínútur á hverju kvöldi þegar þú varst 23 ára gamall?

Einmitt.

Gerið okkur greiða. Ekki drullast út í Paul George.

Skammið heldur Frank Vogel fyrir að koma boltanum ekki oftar inn í teig og stjórn Indiana fyrir að geta ekki fjósast til að setja saman mannsæmandi varamannabekk.

Já, og skammaðu meinta bakverði Indiana, sem gleymdu að taka þátt í fimmta leiknum - hurfu.

Leit stendur enn yfir og farið verður nánar yfir málið í kvöldfréttum klukkan tuttugu.

Okkur dettur ekki í hug að spá fyrir um úrslitin í leik sex á laugardagskvöldið, en vonum satt best að segja að Indiana vinni, því það er alltaf gaman að sjá úr hverju stjörnurnar eru gerðar í hreinum úrslitaleikjum.

Það er samt fjandi líklegt að LeBron James verði að fá aðstoð frá fleiri mönnum en Udonis Haslem og Mario Chalmers í sóknarleiknum ef meistararnir ætla að loka þessari seríu eins og menn.

Það er helvíti dýrt að menn sem þiggja 38 milljónir dollara (rúmlega 4,6 milljarða króna) í laun á ári skuli vera að skila sex körfum samanlagt í jafn þýðingarmiklum leik.

Gefum Dwyane Wade smá slaka því hann er meira en augljóslega í hakki, en Chris Bosh... hvað er hægt að segja um þann mann?

Bara ef til væri lið sem gæti lamið Miami út í horn og laðað fram það allra besta í meisturunum. Þetta eru óraunhæfar kröfur hjá okkur, en við gerum kröfur til besta körfuboltaliðs í heimi - alveg sama hvað það heitir.