Friday, May 31, 2013

Roy Hibbert er maðurinn í miðjunni hjá Indiana


Eins og þið vitið, erum við engir sérfræðingar þegar kemur að körfubolta. Ritstjórn NBA Ísland samanstendur af persónuleikum sem fyrst og fremst elska körfubolta. Hitt er svo annað hvort þeir hafa eitthvað vit á honum.

Þeir sem hafa lítið vit á körfubolta, gætu dottið í þá gryfju að fara að skammast út í Miami og Indiana fyrir að sýna ekki sínar bestu sóknarhliðar í úrslitaeinvígi Austurdeildarinnar, sem er líklega orðið besta einvígið í úrslitakeppninni til þessa.

Við gerðumst sek um að skammast út í Miami í svefngalsanum í nótt og ætlum nú reyndar að standa við bróðurpartinn af þeim skömmum, en við verðum samt að passa okkur á því.

Við megum ekki gleyma því að Miami og Indiana eru óhemju sterk varnarlið, sem þýðir að þau leyfa hvort öðru sjaldan að glansa í sóknarleiknum.

Sókn eftir sókn eru liðin að berja hvort á öðru og leita lausna, en vörnin gerir fá mistök og því enda margar sóknir á dálítið neyðarlegum skotum.

Það eru sennilega ekki nema lengra komnir sem átta sig fullkomlega á þessu og við ætlum ekki að þykjast tilheyra þeim flokki, því miður.

Þegar svona illa gengur að skora, leita liðin vitanlega að lausnum sem eru líklegastar til að bera árangur og í tilviki Indiana felst það í því að dæla boltanum inn í teig. Ekki aðeins vegna þess að Pacers er sterkt í miðjunni, heldur einnig af því miðjan er Akkílesarhæll meistaranna.

Indiana skoraði líka flest stig per sókn í "post ups" í NBA í vetur, ef einhver njörðurinn hefur gaman af slíkum upplýsingum.

Alráður í miðjunni hjá Indiana er Roy Hibbert og það hefur verið skondið að fylgjast með framgöngu hans í úrslitakeppninni í ár. Þeir sem lesa NBA Ísland daglega vita að við höfum oftar en einu sinni verið með læti út í Hibbert af því hann var valinn í Stjörnuliðið á síðustu leiktíð.

Það var stórkostlega óverðskuldað, nema þér finnist eðlilegt að maður sem skorar tólf stig og hirðir 8-9 fráköst sé Stjörnuleikmaður. Okkur þótti það full langt gengið í meðvirkninni með stóru mönnunum að setja svona svepp í febrúarfestivalið.

Ekki var Hibbert með skárri tölur í vetur. Hann byrjaði vægast sagt hræðilega og þó eitthvað af erfiðleikum hans eigi rætur að rekja til meiðsla, er ekkert ósanngjarnt að segja að hann hafi valdið vonbrigðum í vetur - að minnsta kosti þegar kemur að sóknarleiknum.

Spólum nú inn í úrslitakeppnina. Skemmst er frá því að segja að þar hefur Hibbert verið sem nýr maður. Tölfræðin og frammistaðan hjá honum hefur verið lóðrétt upp á við. Hann spilaði 32 mínútur í leik gegn Atlanta, 38 mínútur gegn New York og er kominn hátt í 40 mínúturnar gegn Miami.

Hibbert hefur verið akkerið í varnarleiknum hjá Indiana og án hans væri liðið sannarlega ekki komið jafn langt og raun ber vitni. Ekki nóg með það, heldur skorar hann stóran hluta af stigum sínum eftir sóknarfráköst.

Hibbert hirðir að meðaltali yfir fimm sóknarfráköst í leik í úrslitakeppninni og átti stóran þátt í því að í fyrstu fjórum leikjunum gegn Miami, hirti Indiana sóknarfrákastið eftir 40% af skotunum sem það klikkaði á. Það er með ólíkindum.



Það verður áhugavert að fylgjast með Roy Hibbert á komandi árum. Er drengurinn með metnað í að koma sér í fremstu röð, eða ætlar hann að láta sér nægja að spila vörn og blaka einum og einum bolta í körfuna í sókninni? Hann verður aldrei lipur eða fljótur, en hæð hans og styrkur eru það sem hann treystir á.

Hibbert er aðeins 26 ára gamall, sem er ungt í miðherjaárum (miðherjar toppa oftast seinna en aðrir leikmenn) og hann hefur nægan tíma til að bæta brellum inn í sóknarleikinn sinn. Hvernig væri að æfa upp góðan krók eða áreiðanlegt fimm metra stökkskot?

Komdu okkur á óvart, Hibbert. Það er átakanlega mikið pláss fyrir bætingar í miðherjastöðunni í NBA og sviðið er þitt ef þú nennir þessu.

Þegar við vorum að spá í spilin fyrir úrslitakeppnina, sáum við fyrir okkur að Indiana myndi ná að gera þokkalega hluti út af sterkum varnarleiknum en að sóknarleikurinn yrði því að falli.

Það var nefnilega stundum þannig í vetur að Indiana tók fínar rispur, sem lauk svo alltaf með háværum skelli þegar liðið datt inn á leik þar sem það hitti bara ekki neitt.

Við óttuðumst að Indiana myndi eiga einn eða tvo svona leiki í hverri séríu en það hefur sloppið ótrúlega vel og í rauninni má segja að sóknarleikur Indiana í einvíginu við Miami sé búinn að vera bara nokkuð góður.

Annar veikleiki Indiana, tapaðir boltar, hefur líka vafist fyrir liðinu gegn Miami. Það er einfaldlega bannað að tapa boltanum á móti Miami, þá er þér refsað grimmilega.

Indiana-drengir eru nú komnir með bakið upp að vegg í einvíginu og verða að vinna heimaleikinn sinn annað kvöld til að halda lífi í keppninni. Flestir hallast að því að Miami muni loka þessu en veturinn er samt búinn að vera mjög flottur hjá Indiana og getur orðið enn flottari ef liðinu tekst að komast í úrslit.

Indiana er þegar komið með A í einkunn fyrir veturinn í okkar bókum en næsta vetur verður pressan meiri. Þá verður gerð krafa um að liðið fari lengra, sérstaklega ef það nær nú að búa sér til varamannabekk og finna sér skyttur. Grunnurinn er sannarlega til staðar og er einn sá besti í deildinni. Þá er bara að hlaða ofan á hann.