Við erum alltaf að tuða um dauða stóra mannsins - þá staðreynd að alvöru miðherjar eru að verða útdauð tegund í NBA deildinni. Skondið dæmi um þetta eru úrvalsliðin þrjú sem tilkynnt voru í dag.
Stóri maðurinn í fyrsta úrvalsliðinu er tæknilega ekki miðherji, en fyrir þá sem vilja kalla Tim Duncan miðherja, skoraði hann 18 stig, hirti 10 fráköst og varði þrjú skot í leik í vetur.
Maðurinn í öðru úrvalsliðinu, Marc Gasol, var með skítlélegar tölur (14 stig, 8 fráköst, 2 varin) eins og við sögðum ykkur í aurskriðunni af pistli fyrr í kvöld. Við gáfum Gasol samt undanþágu og "leyfðum honum" að vera á sínum stað í úrvalsliðinu af því hann er svo óeigingjarn, góður sendingamaður og duglegur í vörninni.
Þriðji miðherjinn í úrvalsliðið var svo Dwight Howard blessaður. Hann átti slakasta ár sitt í langan tíma, mestmegnis vegna meiðsla, en náði þó að skila þokkalegum tölum. Hann skoraði 17 stig, hirti 12 fráköst og varði tvö skot í leik í vetur.
Þetta eru nú ekki beint MVP-tölur eins og þið sjáið. Eigum við að fá smá samanburð?
Árið 1992 var miðherji nokkur að spila í NBA deildinni sem skoraði 22 stig, hirti 12 fráköst, varði 4 skot og stal tveimur boltum að meðaltali í leik. Hann var með yfir 50% skotnýtingu og liðið hans var með yfir 50% vinningshlutfall.
Þessi maður komst ekki í úrvalslið NBA deildarinnar.
Ekki í fyrsta lið, ekki í annað, ekki þriðja heldur.
Þetta var Hakeem Olajuwon, leikmaður Houston.
David Robinson hjá San Antonio var í fyrsta úrvalsliði, Patrick Ewing hjá New York í öðru og Cleveland-miðherjinn Brad Daugherty í því þriðja.
Heldurðu að Hakeem hefði komist í úrvalsliðið í ár?