Friday, May 24, 2013
Eru laumufarþegar í úrvalsliðum NBA?
Þá er búið að útnefna þá leikmenn sem komust í úrvalslið vetrarins 2012-13 í NBA deildinni. Þegar verið er að hampa leikmönnum í NBA deildinni, er leiðindasiður að telja upp hve marga Stjörnuleiki þeir hafa spilað. Valið í (byrjunarlið) Stjörnuleiksins er bara asnaleg vinsældakeppni, sem segir ekkert um getu leikmannsins.
Þess vegna er úrvalslið deildarinnar miklu betri mælikvarði á frammistöðu og styrk leikmanna. Þetta kjör er alls ekki gallalaust frekar en annað í kring um þessa blessuðu deild og eins og þið getið ímyndað ykkur, höfum við smá skoðanir á úrvalsliðinu sem birt var í dag.
Svona leit þetta út:
Rétt eins og þegar Verðmætasti leikmaður deildarinnar er valinn, horfa nefndarmenn jafnan í vinningshlutfall liða þegar þeir velja menn í úrvalsliðið. Þess vegna er fullkomlega eðlilegt að menn eins og LeBron James og Kevin Durant skuli vera í 1. úrvalsliði. Liðin þeirra voru frábær í vetur og þeir tveir sömuleiðis, eiginlega sögulega góðir.
Tim Duncan var maðurinn í miðjunni hjá frábæru liði San Antonio og þess vegna fær hann að vera stóri maðurinn í fyrsta úrvalsliðinu. Menn hafa deilt um það í mörg ár hvort Duncan er kraftframherji eða miðherji og ætli sé ekki best að við útskýrum það þá aðeins.
Duncan hefur alltaf verið skráður sem kraftframherji og er jafnan með stærri mann sér við hlið sem spilar miðherjastöðuna (Splitter þessa dagana). Hann er hinsvegar oft kallaður miðherji af því hann spilar oft með bakið í körfuna og spilar oft eins og miðherji.
Við skulum samt hafa það á hreinu að Tim Duncan er kraftframherji - ekki miðherji - það þýðir ekkert fyrir þig að rífast um það.
Hvað um það, Duncan fær sætið í fyrsta liðinu af því hann átti sinn besta vetur í nokkur ár og af því San Antonio var enn einu sinni við toppinn í deildinni. Það munar ekki miklu vinningshlutfalli Spurs og til dæmis Memphis, sem er með Marc Gasol í miðjunni. En af hverju var Gasol þá ekki í fyrsta úrvalsliðinu spyrðu? Var hann ekki varnarmaður ársins og læti?
Jú, en Gasol var bara með lélega tölfræði í vetur. Hann er frábær leikmaður, en honum gæti ekki verið meira sama um alla tölfræði og öfugt við marga aðra, eyðir hann meiri orku í vörninni en í sókninni. Við tippum á að það hafi eitthvað með það að gera.
Gasol er miklu betri en tölurnar sýna, en hann mætti klárlega vera grimmari bæði í stigaskori og fráköstum, hvort sem hann spilar með Zach Randolph eða ekki. Pappíraðu þig, Gasol! Þú getur miklu meira!
Svo við klárum miðherjana, er Dwight Howard í þriðja úrvalsliðinu og það má alveg deila um það. Við hefðum til að mynda alveg sætt okkur við að sjá Joakim Noah eða Brook Lopez í sætinu hans.
Jú, jú, Howard leiddi deildina í fráköstum, en hann var mjög lengi í gang í vetur og fór ekki að spila eins og hann á að sér fyrr en undir vor. Svo var og er vandræðagangurinn á honum utan vallar ekki til að hækka hann í tign.
Ekki gleyma því heldur að LA Lakers vann ekki nema 45 leiki í vetur. Brooklyn (49) og Chicago (45) unnu ekkert mikið fleiri, en það er samt engin ástæða til að velja Howard umfram hina tvo.
Við minnumst ekki einu sinni á menn eins og Roy Hibbert og Al Horford, því þeir eru með drullu lélega tölfræði þrátt fyrir að vera ágætis leikmenn (við verðum að fara að koma Horford frá Atlanta. Hann er nefnilega mjög góður leikmaður).
Talandi um menn sem eru í of slökum liðum til að eiga skilið sæti í fyrsta úrvalsliði deildarinnar...
Sorry, Lakers-menn, en Kobe Bryant á þetta ekki skilið.
Kobe er hér valinn í fyrsta úrvalslið deildarinnar í ellefta sinn á ferlinum og jafnar þar með met Karl Malone.
Það er ekki við hæfi, því Karl Malone var raunverulega annar af tveimur bestu framherjum deildarinnar í ellefu ár í röð, sem segir sitt um vélrænan stöðugleika hans.
Bryant hefur líka verið mjög stöðugur, en núna er komið að því að skutla honum niður um sæti í úrvalsliðinu.
Kannski hafa menn ekki haft það í sér að setja hann í annað eða þriðja úrvalslið deildarinnar eftir að hann meiddist svona illa og óvíst er með framhaldið hjá honum.
Það breytir því ekki að í ár spilaði Kobe Bryant svo skelfilega vörn að ALLIR eru loksins farnir að taka eftir því. Líka Jón úti í bæ. Það hefur verið vel varið leyndarmál síðustu ár hvað Bryant var farinn að hvíla sig mikið í vörninni til að eiga djús í sóknina, en í vetur var það átakanlegt.
Kobe breytti leik sínum aðeins í vetur og verður að fá smá kúdós fyrir það. Hann bætti hjá sér skotnýtinguna og gaf fleiri stoðsendingar. Hann hefur samt enn ekki lært hvað gæti talist eðlilegt skotval, gefur boltann helst bara þegar hann er viss um að fá stoðsendingu fyrir og svo eitt í viðbót.
Kobe Bryant er ekki góð þriggja stiga skytta. Nennið þið að sætta ykkur við það?
Við leyfðum Tim Duncan að vera í úrvalsliðinu af því hann var sá eini sem féll undir kríteríuna, en við ætlum ekki að gera það við Kobe Bryant. Að okkar mati eru tveir menn sem eiga frekar skilið að vera bakvarðarstöðunni í fyrsta úrvalsliðinu í vetur.
Þetta eru Tony Parker og Russell Westbrook.
Chris Paul fékk að sitja við hlið Kobe Bryant í fyrsta úrvalsliðinu og það er allt í lagi.
Þegar Paul er annars vegar, erum við ekki mikið að skoða tölur, heldur er það bara svo augljóst hvað hann er algjörlega heilinn í Clippers-liðinu sem náði besta árangrinum í sögu sinni í vetur.
Paul er einstakur leikmaður. Hann spilar ekki margar mínútur, er alltaf eitthvað meiddur, er fýlupúki og náði ekki að koma Clippers í gegn um 1. umferð í úrslitakeppninni - en hann er samt besti leikstjórnandi í heimi.
Parker og Westbrook unnu báðir fleiri leiki en Chris Paul og miklu fleiri en Kobe Bryant. Þegar Lakers var annars vegar, virðast þeir sem kusu í valinu að þessu sinni ákveðið að loka augunum fyrir því að Lakers-liðið var drasl í vetur.
Flestir eru á einu máli um að Tony Parker hafi átt sinn besta vetur á ferlinum í ár. Hann er lykilmaður í frábæru liði San Antonio í dag, ekki Tim Duncan, og hann er með fína tölfræði (20 stig, 8 stoðsendingar og 52% skotnýtingu.
Parker meiddist að vísu aðeins og spilaði ekki nema 66 leiki, en það á að vera alveg nóg.
Russell Westbrook missti sko ekki úr leiki í deildakeppninni frekar en venjulega og þó það sé auðvitað ekki haft til hliðsjónar í valinu á úrvalsliðinu - fékk fólk loksins að sjá það um daginn hvernig gríðarlega sterku liði Oklahoma vegnar án hans.
Oklahoma er nefnilega ekkert sterkt án hans og fá þá nokkrir af hörðustu gagnrýnendum Westbrook á kjaftinn.
Já, já, hann er dálítið villtur, en hann er frábær leikmaður. Skilaði 23 stigum, 5 fráköstum, 7 stoðsendingum og 2 stolnum boltum í besta liði Vesturdeildarinnar - liði sem vann FIMMTÁN fleiri leiki en Lakers.
Nú fara sjálfsagt einhverjir að væna okkur um Hatorade-drykkju í garð Kobe Bryant, en við þvertökum fyrir það. Sumir af göllum hans sem leikmanns fara í taugarnar á okkur, en við höfum gaman af þeim um leið. Og við berum fulla virðingu fyrir Mömbunni, það eigið þið að vita.
Hann á bara ekki skilið að vera í fyrsta úrvalsliði NBA deildarinnar árið 2013. Þá er alveg eins hægt að velja James Harden, sem er með svipaðar tölur, í svipuðu liði og spilar svipað hörmulega vörn.
Látið ekki svona. Kobe á ekkert að vera þarna. Það gerir bara lítið úr hinum tíu skiptunum sem hann var (sjálfsagt) réttilega valinn í fyrsta úrvalsliðið.
40% af okkur langar að henda þessum pistli af því hann er of neikvæður og af því við fórum hálfpartinn að sjá eftir því þegar við vorum að leita að myndum af Bryant.
En svona ætlum við að hafa þetta - hvort sem þú ert sammála því eða ekki.
Efnisflokkar:
Kobe Bryant
,
Úrvalsleikmenn
,
Úrvalslið NBA