Friday, May 24, 2013

Þú gætir verið Kelly Tripucka



























Af hverju erum við með Kelly Tripucka á heilanum núna? Það er nákvæmlega ekkert eðlilegt við það að vera með Tripucka á heilanum. Dálítið eins og að vera með Fossa í Prúðuleikurunum á heilanum. Kannski verra. Við fundum ekkert um þetta á doktor.is.

Góð spurning. Hann datt bara allt í einu inn í hausinn á okkur eftir að einhverjir netverjar voru að birta myndir af honum þar sem hann var að frumsýna fyrstu keppnistreyjuna í sögu Charlotte Hornets árið 1988.

Tripucka hóf ferilinn hjá Detroit árið 1981 og afrekaði þar að skora næstum 27 stig að meðaltali í leik og leiða deildina í spiluðum mínútum á öðru árinu sínu.

Kappinn var í fimm ár hjá Detroit, tvö hjá Utah (þar sem hann lenti upp á kant við þjálfarann) og var að lokum sendur til nýliða Charlotte Hornets, sem venju samkvæmt mátti velja sér leikmenn úr hinum liðunum í deildinni með samþykki (Expansion draft). Liðin höfðu sem sagt eitthvað með það að gera hvaða leikmenn þau ákváðu að senda frá sér til nýliðanna og Jazzarar voru ekki lengi að hugsa sig um og sjoppuðu okkar manni út.

Tripucka er á margan hátt goðsögn af því hann bauð upp á bæði mottu og möllett. Það var auðvitað enginn maður með mönnum á níunda áratugnum nema hann skartaði öðru eða báðum atriðum - í bland við hrikalega þröngar stuttbuxur auðvitað.

Stockton-þröngar - þú ert ekkert að fara að fjölga þér á næstunni-þröngar.

En það var meira í hann Tripucka spunnið. Hann var mikill skorari eins og við sögðum ykkur áðan og átti sín bestu ár þegar hann var hjá Detroit.

Þar afrekaði hann að vera tvisvar valinn í stjörnuliðið (´82 og ´84) og það voru hvorki meira né minna en þrír Pistons-menn í Stjörnuleiknum árið 1984 eins og þú sérð á myndinni hér fyrir ofan.

Tripucka er vinstra megin á myndinni, Bill Laimbeer hægra megin og fyrir aftan þá stendur leikstjórnandinn Isiah Thomas, en til gamans má geta að hann var kjörinn verðmætasti leikmaðurinn í umræddum Stjörnuleik.

Thomas skilaði 21 stigi, 15 stoðsendingum og fjórum stolnum boltum í leiknum og hreppti verðlaunin af Julius Erving sem átti engu síðri leik - 34 stig (14-21= 64%), 8 fráköst, 5 stoðsendingar, tvö varin og tvo stolna.

Það var austurliðið sem hafði betur í leiknum 154-145 og rétt er að minnast á að Bill Laimbeer kom reyndar inn í Stjörnuliðið sem varamaður fyrir Moses Malone sem var meiddur. Það var Moses sem hlaut flest atkvæði allra í byrjunarliðið - tæp 928 þúsund tikk.

Gríðarlega eðlilegt að fara allt í einu að skrifa pistil um Kelly Tripucka í miðri úrslitakeppni.

Kannski erum við öll Kelly Tripucka.

Hrikalega var þetta fáránlegur pistill, en við skemmtum okkur konunglega. Þið vonandi líka.