Monday, May 27, 2013

Miami-molar


Miami Heat er búið að vera á sögulegri siglingu í allan vetur. Liðið vann 66 leiki í deildakeppninni og afrekaði að vinna 27 leiki í röð eftir áramót, sem er næst lengsta sigurganga í sögu NBA.

Glansinn fer auðvitað dálítið af öllum þessum flottu tölum ef liðið nær ekki að verða meistari í næsta mánuði, en því er ekki að neita að liðið er búið að vera á sögulegum spretti.

Vissirðu til dæmis að Miami er 5-0 á útivelli í úrslitakeppninni og hefur ekki tapað nema einum útileik síðan 1. febrúar?

Þann dag tapaði liðið fyrir Indiana á útivelli í deildakeppninni og eina tapið síðan kom gegn Chicago Bulls þegar liðið stöðvaði sigurgöngu Miami með eftirminnilegum hætti þann 27. mars sl.

Þá tapaði Miami síðast tveimur leikjum í röð dagana 8. og 10. janúar, þegar það lá fyrir Indiana og Portland. Skondið að Indiana skuli koma fyrir í tvígang þarna. Indiana og New York voru einu liðin í deildinni sem unnu einvígi sín við Miami í deildakeppninni.

Nokkrir af leikmönnum Miami hafa líka verið að opna metabækur og rifja upp gamla takta í úrslitakeppninni.

Chris Fuglamaður Andersen er þannig búinn að hitta úr 16 skotum í röð í síðustu fjórum leikjum sínum og er fyrsti maðurinn í sögu NBA sem klikkar ekki á skoti í fjóra leiki í röð með amk tvær skottilraunir.

Udonis Haslem  sló hressilega í gegn í þriðja leiknum gegn indiana í gærkvöldi þegar hann skoraði 17 stig, hitti úr 8 af 9 skotum sínum og hirti 7 fráköst. Haslem hafði aðeins 57 sinnum á ferlinum skorað 17 stig eða meira í 781 leik í deilda- og úrslitakeppni. Hann skoraði síðast 17 stig fyrir Miami haustið 2010.

LeBron James er með 29 stig, 7 fráköst og 5 stoðsendingar að meðaltali í leik í seríunni en stundum er eins og hann sé bara að skokka um völlinn og velja sér augnablik til að tortíma. Hann er fyrsti maðurinn í sögu úrslitakeppninnar sem skorar 30 stig, nær þrefaldri tvennu og skorar sigurkörfuna í sama leiknum.

Ekki flókið fyrir besta leikmann í heimi, sem náði líka þrennu í fyrsta leik sínum í úrslitakeppni á ferlinum, þá sem leikmaður Cleveland.