Thursday, May 30, 2013

Vitnisburður - Rage Against the Machine




Um þessar mundir eru 20 ár síðan rokkhljómsveitin Rage Against the Machine kom hingað til lands og hélt tónleika í Kaplakrika. Hljómsveitin var þá um það bil að öðlast heimsfrægð eftir að fyrsta plata hennar (jú, Rage Against the Machine) sló rækilega í gegn - eitthvað sem kom meðlimum sveitarinnar mikið á óvart.

Íslenski bolurinn lét ekki sitt eftir liggja þegar hljómsveitin sem átti vinsælasta lagið í útvarpinu (Killing in the name) mætti á klakann og fjölmennti í Kaplakrika. Hér fyrir neðan eru tónleikarnir í heild. Smá hljóðtruflanir við og við, en þetta er sterkt stöff. Beint í æð og meira að segja íslenskur texti.

Takið t.d. eftir því að Zack er ekki búinn að klára textann við People of the sun þarna og frístælar hann í gegn - geðveikt.



Óvíst er að 10% af þeim sem dönsuðu, öskruðu og svitnuðu í Krikanum fyrir 20 árum hafi haft hugmynd um hvaða boðskap hljómsveitin var að flytja. Þeir bara skvettu í sig brennivíni og öskruðu "Fuck you I won´t do what you tell me!" og fíluðu sig í botn. Ekkert við það að athuga svo sem.

En Rage Against the Machine var svo miklu, miklu meira en bara hljómsveit sem grísaði á einn hittara og kom til Íslands. Hljómsveitin var mjög pólitísk, svo pólitísk að hún átti eftir að vera milli tannanna á fólki í mörg ár.

Stjórnmálamenn, bransafólk, tónlistarfólk og allt þar á milli, höfðu skoðanir á vinstrisinnuðum boðskap og ákvarðanatöku Rage Against the Machine.



Elítan var skíthrædd við sveitina, því hún talaði um hluti sem mátti ekki tala um - eins og til dæmis hvernig Bandaríkjamenn og vinir þeirra slátruðu hundruðum þúsunda saklausra borgara í Írak í nafni frelsis (og endurtóku það svo nokkrum árum seinna).

Þetta var fyrir daga Zeitgeist nota bene.

Hljómsveitin fékk líka að heyra það frá fólki í tónlistarbransanum og meira að segja frá aðdáendum sínum, því það þótti ekki sæma pólitísku neðanjarðarbandi að vera á samningi hjá risa eins og Sony (Epic).

Það er ekki hægt að gera öllum til hæfis - ekki í dag og ekki þá.

Rage Against the Machine hætti um aldamótin en kom aftur saman fyrir nokkrum árum og spilaði nokkur gigg.

Líklega höfum við séð síðustu plötuna frá sveitinni, en það er allt í lagi, hún er löngu búin að stimpla sig inn í tónlistarsöguna.

Rage Against the Machine vakti flesta sem á hlýddu til umhugsunar með textum sínum og boðskap, það getum við vottað, en hún skilur meira eftir sig en það.

Sumir vilja nefnilega meina að Rage hljómsveitin sem brúaði endanlega bilið milli rapps (hip hop) og þungarokks. Óvíst er hvort meðlimir sveitarinnar ætluðu sér það, en staðreyndin er samt sú að Rage Against the Machine er eiginlega eina hljómsveitin sem hefur gert það almennilega.

Rappið tók ekki frá rokkinu og öfugt, allt virkaði eins og smurt og ekki skemmdi að boðskapurinn var flugbeittur - ekki einhver froða.

Zack de la Rocha skaffaði (reiðar) rímurnar og reif á sér barkann, Tom Morello var fullkomlega skólaður gítarleikari undir skemmtilega blönduðum hip hop- og Zeppelin áhrifum og þeir Brad Wilk og Tim Commerford tengdu, límdu og héldu taktinum.

Þeir voru áróðursmaskína á móti áróðursmaskínunni. Sjáðu bara næsta myndband.



Óhemju fjöldi hljómsveita reyndi að stökkva á formúluna sem Rage fann upp, en 99% þeirra mistókst. Það er því dálítið neyðarlegt þegar verið er að kenna Rage um það að hafa fætt af sér Nu-metal senuna sem fæddist um miðjan tíunda áratuginn með hljómsveitunum Korn og Deftones. Þessi bönd eiga lítið sem ekkert sameiginlegt með Rage Against the Machine, þó þau séu fín hvort á sinn hátt.

Það væri hægt að skrifa nokkrar bækur um öll stöntin og allan aktívismann sem Rage-liðar tóku þátt í í gegn um árin, en það sem upp úr stendur hjá okkur er tónlistin, grunnboðskapurinn og framsetningin. Þú keyptir Rage Against the Machine þegar þú settir þá á fóninn og enn frekar ef þú sást þá á tónleikum.

Sömuleiðis þýddi ekkert að setja Rage á fóninn áður en þú fórst að sofa, því eftir smá stund varstu farinn að gnísta tönnum og langa að lemja menn í bandaríska utanríkisráðuneytinu með felgulykli.

Það sem fjórmenningarnir í Rage Against the Machine náðu að sjóða saman hefur hvorki fyrr né síðar verið leikið eftir og við eigum tæplega eftir að sjá það gerast aftur (enn síður af því hvernig bransinn er orðinn).

Það getur vel verið að hámenntaðir tónlistarkrítíkerar og hámenntaðir samfélagsfræðingar geti fundið betri tóna og betri boðskap einhvers staðar þarna úti.

En það besta úr báðum áttum mun aldrei aftur koma saman í bílskúr, finna taktinn, vekja milljónir til umhugsunar og meira að segja spila í fokkíng Kaplakrika!

Við lofum því.

P.s. - Við misstum af tónleikunum í Kaplakrika, sem er ekki gott, en við sáum Rage Against the Machine sannarlega spila á tónleikum og það er lífsreynsla sem við munum deila með barnabörnunum.