Wednesday, October 31, 2012
Miklar breytingar hjá Dallas
Það er erfiður vetur fram undan hjá Dallas þó liðið hafi unnið góðan útisigur á Lakers í fyrsta leik án lykilmanna. Jason Terry er farinn og Dirk Nowitzki missir af fyrstu leikjum tímabilsins. Það gæti orðið til þess að liðið missti keppinauta sína fram úr sér í harðri Vesturdeildinni.
Það er ekkert grín að taka Dirk og Terry út úr samhenginu hjá Dallas. Terry, sem nú er leikmaður Boston Celtics eins og flestir vita, skoraði 267 stig Dallas í fjórða leikhluta á síðustu leiktíð.
Dirk Nowitzki kom fast á hæla honum með 235 stig og það segir þér kannski ekki mikið, en þriðji stigahæsti leikmaður Dallas Mavericks í fjórða leikhluta á síðustu leiktíð var Rodrigue Beaubois með 118. Ansi mikill munur þarna.
Terry og Dirk skoruðu 54 stig á síðustu tveimur mínútum leikja fyrir Dallas á síðustu leiktíð. Næst þar á eftir? Shawn Marion, með 11 stig. Ellefu.
Á síðustu tveimur árum, hafa 67% skota Dallas í krönsinu (innan við tvær mín. eftir og 4 stiga munur í leiknum eða minna) verið tekin af Dirk Nowitzki eða Jason Terry. Og þeir eru báðir mjög hagkvæmir sóknarmenn á tölfræðimáli.
Auðvitað fylla OJ Mayo, Darren Collison og fleiri leikmenn upp í eitthvað af þessu, Dallas er nú einu sinni með einn allra besta þjálfarann í deildinni. Þessi tölfræði sýnir hinsvegar svart á hvítu að breytinga er að vænta hjá Dallas, sérstaklega meðan Nowitzki er frá keppni.
Ef þessar breytingar skila sér ekki, gæti Dallas átt á hættu að missa af úrslitakeppninni í fyrsta sinn í tólf ár. Fátt sem Vince Carter getur gert til að sporna við því.
Efnisflokkar:
Dirk Nowitzki
,
Jason Terry
,
Mavericks
Leiktíðin byrjaði á körfuboltaleikjum
Jæja, þá er tímabilið loksins byrjað og allir geta tekið gleði sína á ný.
Nema Lakers og KR kannski. Gengur ekki vel hjá stórveldunum þessa dagana.
Lakers fékk skell á heimavelli í fyrsta leik tímabilsins og þó það drepi engan að tapa körfuboltaleik, var ekki beint glamúr og glans yfir ofurliði Lakers svona í fyrsta leik.
Steve Nash lítur ekki vel út ef hann spilar eins og 38 ára gamall bleiknefji og það gerði hann í þessum leik.
Lakers á eftir að spila miklu betur en þetta, en liðið virkar eins og svartsýnustu menn spáðu fyrir um. Leikmenn liðsins þekkjast lítið sem ekkert og lykilmenn hafa lítið spilað saman. Margir voru hreinlega sprungnir á limminu.
En af hverju var ekki þetta nákvæmlega sama uppi á teningnum hjá Dallas?
Strangt til tekið hafa orðið alveg jafn miklar breytingar á liði Dallas, ef við tökum inn í þetta að Þjóðverjarnir voru ekki með og Jason Terry er farinn til Boston.
Mörg ykkar hlakkaði eflaust til þess að sjá okkur hakka Lakersliðið í spað af því það skeit á sig, en þó við séum viðvaningar, erum við ekki alveg svo vitlaus.
Lakers tapaði samt með liði með Eddy Curry í byrjunarliði.
-----------
Hey, Miami er rosalega gott körfuboltalið líka og finnst við erum farin að tala um skít, er ekki úr vegi að benda á það að meistaranir litu drulluvel út í fyrsta leik.
Það þó LeBron James fengi krampa og eitthvað af því hann hefur ekki nennt að setja á fullt ennþá.
Við vitum að Ray Allen er góð skytta og þó hann verði líklega aldrei aftur eins góður og hann var hjá Celtics upp á sitt besta, verður Miami hrikalegt ef hann setur niður skotin sín.
Rashard Lewis gæti líka reynst liðinu stærri fengur en flestir þorðu að vona. Hann var eftir allt mjög góður leikmaður, þó hann væri í raun notaður vitlaust allan sinn feril hjá Orlando.
Lewis drullaði undir hjá Washington, en þú hefðir líka gert það ef þú hefðir þurft að spila körfubolta með liði fullu af tapírum á krakki.
Ef Miami fær fullt framlag frá Lewis (og Allen) í vetur, getur þú bara gleymt þessu, gæskur.
* Kevin Garnett er frábær körfuboltamaður, fer í höllina og allt það, en hann er fáviti. Sorry.
* Kyrie Irving er rosalegur - og það er Andy Varejao líka - en þú vissir það nú þegar.
* Veikindi eru æði.
* Immit.
Efnisflokkar:
Frumraunir/frumsýningar
,
Heat
,
Lakers
,
Rashard Lewis
,
Ray Allen
,
Steve Nash
Flóðabíll Stoudemire
Range Rover bifreið Amare Stoudemire er neðansjávar núna, sem er ferlegt fyrir hann, því hann spilar ekki körfubolta næstu tvo mánuðina eða svo.
Enda... til hvers að vera að spila körfubolta núna? Leiktíðin er að byrja. Piff...
Stoudemire ætti líka að vera kunnugt að enginn heilvita maður ekur um á Range Rover árið 2012. Og ekki koma með eitthvað "ööööh, Amare er þá bara ekki heilvita maður, öööööö prrruuuuump!" -röfl.
Þú ert bara $"?%$#%"$ ef þú ekur um á Range Rover - alveg sama hvort það er á Íslandi eða í Bandaríkjunum.
Dífens rests, alveg eins og Amare.
Efnisflokkar:
99 vandamál
,
Allt er vænt sem vel er grænt
,
Amare Stoudemire
,
Bifreiðar og landbúnaðarvélar
,
Frussandi gremja
,
Knicks
,
Meiðsli
Áður en lengra er haldið...
... verðum við að fá nokkra tóna frá Primus.
Þetta er lagið Welcome to this world af plötunni Pork Soda, sem er ekki nálægt því að vera besta plata sveitarinnar þó efni af henni hafi einhverra hluta vegna ratað út í breiðasta farveg poppfljótsins. Bassafletturnar í því eru bara eitthvað svo hrikalegar.
Láta okkur hoppa um nakin þó við höfum legið emjandi í rúminu á Opening Night.
Þeim sem hafa ekki hundsvit á því hvað Primus er, getum við bent á lagið My name is mud, sem svo skemmtilega var notað í auglýsingastiklum fyrir NBA deildina á síðustu leiktíð.
Hérna er lagið sjálft með myndbandi:
Og hérna er NBA stiklan:
Þessa hluti þarft þú bara að vera með á hreinu ef þú lest NBA Ísland.
Maður þarf að læra helling af ömurlega leiðinlegri tölfræði (stærðfræði) ef maður ætlar að verða sálfræðingur eða félagsfræðingur og ef þú ætlar að lesa NBA Ísland, þarft þú bara að vita hvað alvöru tónlist er - sama hvort það er glæparapp eða metall.
Troddu því í pípuna þína og reyktu það.
Súmmering á opnunardeginum í NBA er á leiðinni. Hlustaðu á Primus á meðan.
Kveðja,
Ritstjórnin
Efnisflokkar:
Lærdómur
,
Metall
,
Tónlistarhornið
Tuesday, October 30, 2012
NBA Ísland á Úlfavaktinni með Derrick Williams
Stórvinur ritstjórnarinnar, séra Guðni Már Harðarson, stundar nú nám í Minnesota í Bandaríkjunum. Guðni er ekki aðeins gull af manni heldur mikill áhugamaður um íþróttir og verður sérstakur heiðursfulltrúi NBA Ísland á #Úlfavaktinni í vetur.
Guðni og sonur hans Nói voru svo heppnir að ramba inn á skyndibitastað þarna ytra þar sem þeir Derrick Williams og Greg Stiemsma hjá Minnesota voru að flippa borgurum til góðs og auðvitað var myndavélin með í för.
Þá var ekki annað að gera en að bola sig í gang og William var ekki lengi að meðtaka þegar presturinn bað hann um mynd með bolinn góða á lofti.
Tvímenningarnir voru hinir hressustu eins og sjá má á myndinni hér til hliðar.
Við tilkynnum hér með af miklu stolti að Derrick Williams er fyrsti NBA leikmaðurinn sem við ætlum að taka inn í Heiðurshöll NBA Ísland vegna þessa.
Williams náði sér ekki á strik á nýliðaárinu sínu með Úlfunum, en fær kjörið tækifæri til að sanna sig í fjarveru Kevin Love í byrjun þessarar leiktíðar. Við munum að sjálfssögðu hvetja hann og senda honum alla okkar bestu strauma eftirleiðis.
Efnisflokkar:
Bolurinn
,
Derrick Williams
,
Greg Stiemsma
,
Heiðurshöll NBA Ísland
,
Úlfavaktin
Harden farinn, Oklahoma tekur skref aftur á bak
Við höfum fengið óhemju magn af pósti og skilaboðum vegna nýjustu leikmannaskiptanna í NBA deildinni og það er auðvitað engin furða. Okkur langar að leggja hérna fram nokkrar línur um málið, þó seint sé.*
Stjórn Oklahoma City, silfurdrengjanna frá í sumar, ákvað nokkuð óvænt að skipta James Harden og skiptimynt til Houston Rockets í staðinn fyrir Kevin Martin og skiptimynt.
Ekki móðgast þó við notum orðið skiptimynt, þessir tveir leikmenn eru þungamiðjan í skiptunum hvað svo sem verður með ungu mennina og valréttina í framtíðinni.
Kjarasamningar og launaþak eru hugtök sem eru hvorki innan áhuga- né þekkingarsviðs okkar en það litla sem við höfum kynnt okkur um einstök efnisatriði þessara viðskipta, segir okkur að þau komi sér ágætlega fyrir bæði félög þegar allt er talið.
Það kemur þó endanlega ekki í ljós fyrr en eftir nokkur ár.
Harden hafði verið í sviðsljósinu um nokkurt skeið því samningar hans voru að losna. Oklahoma er lítið félag á litlum markaði og eigandi þess er skíthæll (sjá: Seattle Supersonics) og því var alltaf vitað að það yrði erfitt fyrir að að semja við Harden.
Thunder hafði þegar samið við þá Kevin Durant, Russell Westbrook og Serge Ibaka. Það kostaði sitt og þegar við bætum við feitum samningi Kendrick Perkins, var ljóst að ekki var mikið pláss eftir til að bæta við einum feitum samningi í viðbót.
Oklahoma var þó tilbúið að ganga ansi langt og bauð Harden samning sem var ekki langt frá hámarkinu, en hefði þýtt að launakostnaður hefði orðið ansi hár á næstu árum og snarminnkað svigrúm í leikmannamálum. Það er ekkert grín að borga lúxusskatt í nútíma NBA og það er ekki eitthvað sem lítil félög gera að gamni sínu.
Harden er sterkur og kornungur leikmaður sem var að leita að sínum fyrsta stóra samningi á ferlinum.
Auðvitað hefði sjötti maður ársins viljað halda áfram að spila með Thunder. Frábært lið og góður mórall, framtíðin björt og hlutverkið klárt. Það kom til greina.
En hvaða NBA leikmaður vill ekki fá tækifæri til að komast á topplaun og prófa að vera andlit metnaðarfulls félags sem er miklu stærra en Thunder.
Það er ekki ljóst hvað gerðist. Hvort stjórn Thunder var í kjúkling við Harden eða ekki. Skiptir eiginlega ekki máli. Það sem skiptir máli er að algjör lykilmaður í næstbesta liði deildarinnar er horfinn á braut.
Harden sinnti í raun tvöföldu hlutverki hjá Oklahoma á síðustu leiktíð. Spilaði bæði stöðu leikstjórnanda og skotbakvarðar þegar hann var inná - og hann var auðvitað inná lengur en flestir varamenn. Helsti styrkur Harden sem leikmanns liggur í því hvað hann er yfirnáttúrulega hagkvæmur sóknarmaður. Hann sprengir alla hagkvæmniskala og fær tölfræðigúrúa til að slefa.
Kevin Martin hefur reyndar líka verið nokkuð hagkvæmur leikmaður á sínum ferli. Er góður skotmaður og lúmskur í að koma sér á línuna, en þar með er það því miður upptalið. Hann er skelfilega lélegur varnarmaður, hefur verið í vandræðum með meiðsli, hann er lítill, léttur og aumur og gefur þér ekkert nema stig.
Eitt mikilvægasta atriðið í skiptunum hvað Oklahoma varðar, er svo hvernig Martin passar inn í móralinn í liðinu. Hann er nefnilega nokkuð fýlugjarn og hefur átt til að stangast á við þjálfara sína.
Oklahoma getur leyft sér þann munað að skipta Harden út og fá hreinræktaðan skotbakvörð í staðinn af því Eric Maynor, varaleikstjórnandi liðsins, snýr aftur í vetur eftir að hafa verið í meiðslum alla síðustu leiktíð. Miklar vonir eru bundnar við Maynor og Thunder er tvímælalaust sterkara lið þegar hann tekur við varaleikstjórn í stað Derek Fisher.
Þá er bara að sjá hvort Kevin Martin stendur undir hlutverki sínu.
Oklahoma City verður ekkert allt í einu lélegt lið þó það skipti James Harden í burtu, en að okkar mati veikir þetta liðið mikið. Oklahoma hafði þann möguleika að halda Harden út komandi leiktíð og reyna aftur við titilinn - sjá svo til. Það lá ekkert á að sleppa honum, en hinsvegar skiljanlegt að stjórnin hafi kýlt á þetta fína tækifæri þegar það gast.
Við nennum samt ekki að velta upp úr peningamálum og pótensjal. Ekki í þessum pistli. Við erum bara að hugsa um hvað þessi skipti þýða fyrir Thunder núna - á þessari leiktíð og næstu. Við erum óskaplega hrædd um að það eina sem þessi skipti þýða í ár sé að helsti keppinautur Miami Heat í deildinni hafi rétt í þessu verið að veikjast töluvert. Þannig sjáum við það bara og getum ekki neitað því að það vekur upp dálitla gremju.
Það er dálítið deprímerandi að sjá hvernig sýstemið virkar. Sjá hvernig félag eins og Oklahoma sem hafði heppnina með sér í nýliðavalinu og gerði allt rétt, hefur einfaldlega ekki burði til að halda sér við toppinn. Eða virðist ekki hafa burði til þess.
Nú eru að taka við nýjar reglur um launamál og samninga í NBA og þetta þrengir nokkuð að. Það er ekki hægt annað en setja spurningamerki við það hvað Houston er að eyða miklu í menn eins og Jeremy Lin og Omer Asik (og kannski Harden líka).
Það voru samningar eins og þessir sem settu allt á hliðina og ollu verkbanni á síðustu leiktíð. Það virðist enginn læra neitt af því. Enn þyrfti helst að verja þessa heimsku eigendur fyrir bullinu í sjálfum sér.
Það hefur verið í tísku að gefa bæði OKC og Houston c.a. B+ fyrir þessi viðskipti og það er skiljanlegt. Við erum hinsvegar ekki svona jákvæð.
Það var rétt sem Bill Simmons skrifaði fyrir skömmu, Oklahoma átti bara að drullast til að borga Harden og hafa áhyggjur af peningamálunum seinna.
Lið sem er svona nálægt þeim stóra á ekki að breyta svona til hjá sér þegar það stendur á þröskuldinum, við förum aldrei af þeirri skoðun.
Það tekur okkur mörg ár að sjá hvað kemur út úr þessum skiptum, en beinar afleiðingar þess þýða einfaldlega að næstbesta körfuboltalið í heimi er ekki eins sterkt og það var. Það eina jákvæða við þetta er að Oklahoma sleppur við dramatíkina sem óneitanlega hefði valdið ónæði þegar fjölmiðlar héldu samningaviðræðum Harden efst í fréttum dag eftir dag.
Houston gerir vel að fá Harden, flottan leikmann, en við efumst um framtíðina og peningana sem fara í Lin og Asik.
Oklahoma situr eftir veikara. Ungir og upprennandi leikmenn liðsins eru alltaf að bæta sig og Kevin Martin veit alveg hvar körfuna er að finna, en því miður er það bara hvergi nærri nóg til að fylla skarð James Harden.
Og hafðu það, fjandakornið!
* - Þetta átti að vera stutt hugleiðing. Immit.
Efnisflokkar:
Blökkumaður fær borgað
,
James Harden
,
Kevin Martin
,
Leikmannamál
,
Rockets
,
Skoðanir
,
Sýndu mér peningana
,
Thunder
Nokkur orð um goðsögn
Gaman að geta þess að nú í kvöld eru nákvæmlega níu ár síðan LeBron James spilaði sinn fyrsta leik í NBA deildinni, útileik með Cleveland í Sacramento. Myndin hér fyrir ofan er af fyrstu troðslunni hans á atvinnumannsferlinum.
Ferill James hefur verið ævintýralegur síðan. Hann kom inn í lélegt Cleveland-lið sem fljótlega komst þó í úrslitakeppni. Þar var hann með þrennu í fyrsta leik og skömmu síðar fór hann alla leið í úrslitin.
Cleveland var rassskellt illa í lokaúrslitunum 2007 og eftir það var í raun allt niður á við hjá LeBron í Cleveland, þó liðinu gengi alltaf vel í deildakeppninni. Svo flutti hann niður til Miami og allir vita hvað þeir flutningar höfðu í för með sér.
Besti leikmaður deildarinnar var allt í einu orðinn einn sá hataðasti. Einna helst af því amatörarnir sem sáu um almannatengslin fyrir hann skitu á sig. LeBron James hefur aldrei viljað styggja nokkurn mann.
Magnað að séu aðeins nokkrar vikur síðan þessi besti körfuboltamaður heims náði að hrista af sér álögin og brennimarkið. Hann er líklega ekki elskaðasti maðurinn í NBA deildinni, en hann er mjög sennilega ekki sá hataðasti heldur. Ekki lengur.
Og nú hefur lækkað í gagnrýnendunum, sem skiptust í tvo hópa. Annar hópurinn var neikvæðir leiðindapésar sem eru neikvæðir yfir öllu hvort sem er og voru öfundsjúkir út í James.
Hinn hópur leiðindapésanna - og við tilheyrðum honum - var alltaf með gagnrýni og leiðindi út í James vegna þess að við gerðum svo rosalegar kröfur til hans. Okkur stóð ekki á sama. Við sáum fljótlega að James var ekki eins og hver önnur súperstjarna. Hann var einstakur.
Við gerum enn kröfur til hans, en okkur létti öllum þegar hann hristi af sér álögin og vann fyrsta titilinn sinn. Nú þarf hann að vinna fleiri titla og margir hallast að því að þeir gætu orðið nokkrir í viðbót. James er eftir allt búinn að sanna að hann er langbesti leikmaður í heimi og veit nú hvað þarf að gera til að vinna meistaratitil.
Það hljómar ótrúlega, en mesta pressan er farin af LeBron James. Górillan farin af bakinu á honum. Það eina sem LeBron þarf að gera til að standa undir þessum Magic-Bird-Jordan væntingum sem til hans eru gerðar, er að hafa heppnina með sér og halda áfram að vera LeBron James.
Það er ekki víst að þú hafir fengið að fylgjast með Bird og Magic þegar þeir voru upp á sitt besta. Flestir sem þetta lesa voru svo heppnir að fá að fylgjast með Michael Jordan, en vonandi fylgist þið öll með LeBron James.
Það er ekkert víst að þið sjáið annan slíkan næsta aldarfjórðunginn, eða meðan þið lifið.
P.s.- LeBron James var með 28,6 stig, 10,4 fráköst og 7,6 stoðsendingar að meðaltali í lokaúrslitunum í sumar.
Svona lína hefur ekki sést áður í sögu NBA.
Efnisflokkar:
Goðsagnir
,
Hatorade
,
LeBron James
Saturday, October 27, 2012
Ristill: Roy Hibbert er gunga og lydda
Ákveðið hefur verið að breyta kjörseðlum fyrir Stjörnuleikinn í NBA. Framvegis getur fólk kosið sér tvo bakverði og þrjá, tjah, framverði, í stað tveggja framherja og eins miðherja áður.
Þetta er gert til að bregðast við þessari leiðindaþróun sem við erum alltaf að segja ykkur frá, nefnilega Dauða Miðherjans. Þetta þótti okkur efni í stuttan ristil.*
Þeim fer fækkandi með hverju árinu, stóru mönnunum. Sérstaklega þeim sem kunna körfubolta. Roy Hibbert hjá Indiana er leikmaður sem kallar sig miðherja og bara þess vegna komst hann í Stjörnuleikinn í fyrra - ekki af því hann gæti eitthvað.
Hann fór að grenja þegar hann heyrði af nýju reglunum, allir 218 sentimetrarnir af honum titruðu í ekkasogum. Vildu bara snuddu og mömmu.
Fyrirgefið okkur þó við tölum svona með analnum, en Roy Hibbert getur bara ekki blautan s**t í körfubolta, sama hvað hver segir.
Hann á að vera maður sem fer með Indiana á næsta stig, en ræður ekki við það og mun líklega aldrei gera. Hann er drasl sem hefði aldrei átt að koma nálægt Stjörnuleik og vinnur engan veginn fyrir laununum sínum.
Hibbert er ekki eina draslið í miðherjastöðunni. NBA deildin er full af svona rusli. Þar er aftur á móti hægt að finna fullt af góðum framherjum og það er miklu nær að leyfa þeim að spila Stjörnuleiki.
Aldrei þessu vant tekur deildin gáfulega ákvörðun. Þú átt að vinna þér sæti í Stjörnuleik af því þú ert góður í körfubolta, ekki af því þú ert eini miðherjinn í deildinni sem skorar tíu stig að meðaltali í leik.
Við erum niðurbrotin yfir dauða miðherjans eftir að hafa hlotið síðari partinn af NBA uppeldinu á gullaldarárum stöðunnar. Þetta er eins og með þungavigtina í boxinu. Bara dáið og horfið og enginn veit hvað gerðist.
Einn daginn ertu að horfa á Tyson halda mönnum á lofti með hnefunum, Shaq rífa niður körfur með spjöldum og tjökkum, Hakeem dansa tangó í teignum. En allt í einu hurfu þeir jafn snögglega og risaeðlurnar.
Þú situr eftir með Darko Milicic, Eddy Curry og DeAndre Jordan. Vaknar upp við vondan draum eins og maður á alsæluniðurtúr eftir þriggja daga helgi á Thomsen.
Þetta er ekki sanngjarnt.
Haltu þér saman, Roy. Taktu þér tak og farðu að vinna fyrir kaupinu þínu. Reyndu að sýna okkur að staðan sé ekki dauð. Við höldum með þér, Hibbert. Þú ert gunga og lydda, en við höldum með þér.
* - Ristill er gremjublandinn pistill sem höfundur skrifar án raka og ábyrgðar, þ.e. með ra**gatinu.
Efnisflokkar:
Dauði miðherjans
,
Hatorade
,
Hnignun vestrænnar menningar
,
Miðherjar
,
Of vanur fyrir skólann
,
Reglubreytingar
,
Ristill
,
Roy Hibbert
Friday, October 26, 2012
Sígild veggspjöld
Allir alvöru NBA-áhugamenn voru með veggspjöld hangandi uppi í herbergjunum sínum hér áður. Slíkt heyrir kannski sögunni til, þar eð tímaritaútgáfa er allt nema dauð.
Hér fyrir neðan gefur að líta nokkur skemmtileg veggspjöld sem deildin gaf út á níunda áratugnum, þar sem gert er út á ímynd og gælunöfn leikmanna. Einhverjir fá eflaust snert af fortíðarþrá þegar þeir sjá þetta.
Efnisflokkar:
Auglýsingar
,
Fret úr fortíðinni
,
Goðsagnir
,
Klassík
,
Veggspjald
Þetta eru Lakers
Öll vorum við einu sinni ung. Það voru þeir líka, piltarnir sem draga munu vagninn hjá Lakers í vetur. Sjáðu þessa snáða. Ekki grunaði þá þarna að árið 2012 ættu þeir eftir að mynda ofurlið hjá Los Angeles Lakers. Reyndar gæti Kobe Bryant hafa grunað það þó hann hafi verið með þessa húfu á höfðinu.
Hvað ætli Magic Johnson hefði sagt ef þú hefðir farið til hans árið 1988 og sagt honum að meistaravonir liðsins sem hann var að stjórna, ættu eftir 25 ár eftir að liggja á herðum lítils, horaðs Kanadamanns sem kynni ekki að greiða sér og héldi með Tottenham.
"Totten-hvað? Blámaður, vinsamlegast!"
Efnisflokkar:
Elli Kelling
,
Faðir Tími
,
Lakers
,
Magic Johnson
,
Nostradamus
Stjarnan spilar góðan körfubolta
Fyrsta valkvíðakvöldinu í Dominosdeild karla í vetur er lokið. Valkvíðinn kom til af því að það voru stórleikir í Ásgarði og DHL höllinni - og svo var reyndar leikurinn í Dalhúsunum ekkert slor heldur eins og kom á daginn/kvöldið. Dónalegt af vinum okkar í KKÍ að gera okkur þetta.
Við kýldum á Ásgarðinn af því okkur langaði svo að sjá silfurdrengina hans Benna og af því okkur leiðist aldrei á leikjum með Stjörnunni. Okkur átti heldur ekki eftir að leiðast neitt á þessum leik. Átökin voru mjög hörð og engu líkara en liðin væru að berjast um síðasta sætið í úrslitakeppninni.
Stjörnumenn eru komnir lengra áleiðis en Þórsarar þennan veturinn og það var m.a. það sem skildi liðin að í kvöld. Eins og við höfum áður tíundað hér, eru Garðbæingar farnir að þekkjast ansi vel og það vinnur með þeim. Þeir eru reyndar að prófa nokkra nýja hluti í sókninni og það er vel.
Gaman að sjá Dag K. Jónsson taka meira þátt í þessu hjá þeim. Hrein unun að sjá hann koma hlaupandi af hindrunum, vaða upp í skot og setja þau niður. Sjálfstraustið að vaxa og þrotlausar æfingar að skila árangri.
Breiddin hjá Stjörnunni er ógnvekjandi og það eru ekki mörg lið í deildinni sem geta gert þér lífið leitt á sama hátt og Stjarnan.
Á tíma var Justin Shouse með fjóra tveggja metra menn inná með sér í einu, sem allir geta vippað sér út fyrir og skotið ef sá gállinn er á þeim. Mjög sterkt og ekki að sjá að Garðbæingar muni tapa mörgum leikjum á næstunni.
Leikmannsaugað okkar sagði okkur að Þórsarar þurfi bara meiri tíma til að spila sig saman og þá á varnarleikur þeirra einnig nokkuð í land. Engin ástæða til að fara á taugum yfir því á þessum tímapunkti en okkur sýnist sem þetta lið ætli að halda áfram uppteknum hætti og blanda sér í toppbaráttuna.
Þeir sem gerðu sér ferð í Garðabæinn héldu flestir að tækin væru eitthvað að stríða þeim þegar þeir voru að fylgjast með stöðunni í vesturbænum. Gat það verið að KR væri að tapa með 50 stigum á heimavelli?
Jú, það var ekki um að villast. Hluti af okkur bölvaði í hljóði yfir því að hafa ekki farið í vesturbæinn, en það er alveg ljóst að Snæfell er næsta lið sem við verðum að skoða. Við vorum komin í hálfgerða fýlu út í Snæfell eftir að liðið var búið að valda okkur dálitlum vonbrigðum síðustu tvö ár.
Það er bara haust, en það sem Hólmarar hafa verið að gera undanfarið er nóg til að fanga athygli allra sem fylgjast með körfubolta. Það er ekki á hverjum degi sem lið fara vestur í bæ og drulla hreinlega yfir stórveldið.
Nonni Mæju, sem vart þarf að taka fram að er einn af uppáhaldssonum ritstjórnarinnar, bauð upp á 100% leik í sókninni og var það í takt við annað mótlæti KR-inga þetta kvöldið. Ekkert annað um þennan leik að segja en; "ja, hérna."
Þessi stutta hugleiðing væri ekki rökrétt ef við minntumst ekki aðeins á flautukörfuna hans Tómasar Tómassonar í Grafarvogi. Súrt fyrir Stólana að tapa svona, en öskubuskuævintýri Fjölnis hefur náð fótanna á ný eftir að það hrasaði illa í leiknum gegn Sköllunum á dögunum.
Efnisflokkar:
Heimabrugg
,
Stjarnan
,
Þór Þorlákshöfn
Tuesday, October 23, 2012
Jazzað aðeins til
Utah Jazz átti mjög dæmigert sumar. Bætti við sig nokkrum leikmönnum og losaði sig við nokkra. Engin af þessum leikmannaskiptum vöktu athygli frekar en venjulega þegar þetta félag er annars vegar, en þau gætu átt eftir að skila sér. Það eru góðar líkur á því að þú nennir ekki að lesa lengra og það er allt í lagi.
Mo Williams er tekinn aftur við leikstjórnandastöðunni hjá félaginu sem tók hann í nýliðavalinu árið 2003. Williams var tekinn í annari umferð og kom lítið við sögu á nýliðaárinu þó John Stockton hafi lagt skó sína á hilluna vorið áður.
Framkvæmdastjóri Utah hefur æ síðan séð eftir því að leyfa honum að fara til Milwaukee þar sem hann sprakk út og var orðinn 17 stiga maður á sínu þriðja ári með Bucks. Flestir muna síðar eftir honum sem meðreiðarsveini LeBron James hjá Cleveland.
Marvin Williams er líka kominn til Utah frá Atlanta. Hann er blautur draumur þjálfarateymisins, gerir allt sem honum er sagt og gerir það vel. Hann á vafalítið eftir að skila bestu tölum á ferlinum í vetur og þvi er skothelt að ná í hann í fantasy. Án gríns.
Randy Foye kom líka frá Clippers. Sæmileg skytta og harður af sér. Varð líka að vera harður til að komast til manns eftir að hafa misst föður sinn og móður með skömmu millibili í barnæsku.
Þetta eru ekki mannabreytingar sem kalla á aukavakt á ESPN og ÍNN en við tippum á að þær muni skila liðinu talsverðum framförum. Jazz náði nokkuð óvænt inn í úrslitakeppnina í vor, en ætti að fara örugglega inn í hana næsta vor.
Af hverju, spyrðu? Af því Randy Foye, Marvin og Mo Williams, skoruðu fleiri þriggja stiga körfur en allt Utah-liðið á síðustu leiktíð. Langstærsti veikleiki Utah í sóknarleiknum var langskotin og það mál hefur nú verið lagað. Nú verður ekki lengur hægt að pakka teiginn á móti Jazz.
Framtíð þeirra Derrick Favors og Enes Kanter er nokkuð björt. Fá lið sem eiga annan eins efnivið í stórum mönnum.
Og við vorum næstum því búin að gleyma Gordon Hayward - Gísla Marteini - sem er að verða flottur körfuboltamaður. Manu diet-light, má nota það.
Við ætlum því að tippa á að Utah eigi fínan vetur og jinxa þar með liðið okkar í tætlur. Það er svo bara spurning hvort það verður Mo Williams eða Al Jefferson sem meiðist út leiktíðina eftir þennan pistil #jinx
Bónus:
Troðkóngurinn Jeremy Evans gæti mögulega lækkað í mínútum annað árið í röð. Hann hefur ekki bætt sig mikið og var aðeins með 63% skotnýtingu á síðustu leiktíð. Af hverju er 63% nýting léleg, spyrðu?
Af því 25 af 27 körfum sem drengurinn skoraði á síðustu leiktíð voru troðslur.
Hann setti því niður tveimur fleiri stökkskot en Halldór Ásgrímsson í NBA deildinni.
Efnisflokkar:
Derrick Favors
,
Enes Kanter
,
Jazz
,
Jinx
,
Mo Williams
,
Nostradamus
,
Randy Foye
Monday, October 22, 2012
Tvífarar vikunnar
Glen Davis er Kevin James NBA deildarinnar og Kevin James er svar Hollywood við Glen Davis.
Báðir eru þeir vel í holdum en ná einhvern veginn að spassast áfram þrátt fyrir litla hæfileika.
Báðir léku minna hlutverk þegar þeir stigu fram á sjónarsviðið fyrst en eru nú komnir í stór hlutverk sem þeir ráða engan vegin við. Davis er ekki byrjunarliðsmaður í NBA og James er sannarlega ekki maður sem ræður við að bera uppi gamanmynd, þó standardinn í Hollywood sé nákvæmlega enginn (sjá: Adam Sandler).
Allt hægt í Bandaríkjunum, líka ef þú ert feitur. Bara að vera nógu hress.
Efnisflokkar:
Doppelgangers
,
Glen Davis
,
Hnignun vestrænnar menningar
,
Holdafar
,
Kvikmyndahornið
Fyrsta karfa Hávards reyndist ekki þristur
Vel við hæfi að fyrsta karfan hans Dwight Howard hafi verið ein viðstöðulaus eftir sendingu frá Pau Gasol. Þær verða ansi margar svona hjá Lakers í vetur, væntanlega enn fleiri en í fyrra þegar liðið leiddi deildina í þeim flokki.
Það ríkti mikil eftirvænting í Staples Center í nótt og enginn að hugsa um að hér væri á ferðinni leikur á undirbúningstímabilinu. Þetta var fyrsti leikurinn hans Dwight Howard. Við fengum að sjá forsmekkinn af því hvað þetta þýðir fyrir Lakers.
Meira að segja viðvaningar eins og við sjá hvað nærvera Howard í sókninni opnar allt upp á gátt fyrir Lakers, ekki síst þegar liðið keyrir á fyrsta tempói og með stóra manninn jafnvel á kantinum. Skelfileg tilhugsun fyrir lið að þurfa að hafa áhyggjur af honum og Gasol inní og Kobe og Nash fyrir utan í transisjónum. Úff.
Þeir sem lesa NBA Ísland að staðaldri vita að við erum ansi gagnrýnin á Dwight Howard. Við leyfðum okkur þó að taka frumraun hans inn alveg fordómalaust og það er ljóst að veturinn verður ekkert rosalega leiðinlegur hjá Lakers. Gaman fyrir þá að vera komnir með fullt lið af fræknum köppum.
Ónotatilfinning fer um mann.
Er það ekki hroki og kjánaskapur að veðja á móti svona ofurmönnuðu liði?
Jú, það er það.
Efnisflokkar:
Dwight Howard
,
Frumraunir/frumsýningar
,
Lakers
,
Nostradamus
,
Ógnarstyrkur
Sunday, October 21, 2012
Austur eða vestur?
Hvort ertu meira fyrir austur- eða vesturstrandarbolta?
Það þarf ekki endilega að vera flókið að velja, *hóst*
Efnisflokkar:
Fræga fólkið
Nokkrar Kobe-skrítlur
Við rekumst gjarnan á svona skrítlur þegar við þvælumst um netheima. Það má sannarlega glotta af þessu. Kobe Bryant er umdeildur og heimsþekktur karakter og líklega hafa allir sem fylgjast með NBA nokkuð ákveðnar skoðanir á honum.
Bryant hefur oftar en einu sinni reynst okkur uppspretta andagiftar og við erum greinilega ekki ein um það eins og þið sjáið hérna fyrir neðan.
Við biðjum áhangendur Kobe Bryant og Lakers að reyna að hafa húmor fyrir þessu. Þetta er ekki herferð gegn Bryant, ekkert Lakers-hatur í gangi. Það vill bara svo skemmtilega til að hann er áberandi leikmaður með sterkan karakter og því er auðvelt að gera grín að honum.
Það væri til dæmis öllu erfiðara að semja svona skrítlur um Kevin Durant.
Efnisflokkar:
Kobe Bryant
,
Lakers
,
Skrítlur
Saturday, October 20, 2012
Fylgjumst vel með Clippers og verum góð við Griffin
Okkur kom það ekki í hug að gera miklar væntingar til LA Clippers í vetur, en það er ljóst að við verðum að endurskoða það metnaðarlausa viðhorf.
Þegar grannt er skoðað, er Clippers nefnilega eitt dýpsta liðið í deildinni. Enda veitir ekki af þegar maður heitir LA Clippers og meiðsladraugurinn er aldrei í fríi.
Lykilmenn Clippers misstu úr helling af leikjum í fyrra þó þú munir kannski ekki eftir því. Það hefur sitt að segja í riðlakeppni ef mikilvægir spilarar missa úr 20 leiki. Í sumar ákvað liðið að reyna að sporna við þessu með því að ná sér í helling af fínum leikmönnum.
Nú er svo komið að það eru þrettán leikmann í liðinu sem kunna ýmsar kúnstir í körfubolta, þó þeir geri það reyndar misvel. Chris Paul spilar sína stöðu betur en nokkur annar í heiminum í dag og það er ekkert að því að fá til sín rulluspilara á borð við Grant Hill, Jamal Crawford, Matt Barnes og Lamar Odom svo einhverjir séu nefndir.
Bættu því svo við að Blake Griffin og Eric Bledsoe eru kornungir piltar sem eru að bæta sig á hverjum degi og við erum komin með ansi hreint spennandi pakka. Bara ef Vinnie del Negro væri að vinna í miðasölunni en ekki að þjálfa þetta lið. Clippers vegna væri óskandi að liðið spilaði 50% bolta fram yfir áramót svo Vinnie yrði rekinn. En það þýðir víst ekki að velta sér upp úr því.
Það er sjaldnast að marka sögur sem skrifaðar eru á undirbúningstímabilinu í NBA, en það var hægt að koma auga á nokkra sniðuga hluti þegar Clippers tók á móti Jazz á dögunum. Það sem stóð upp úr hjá okkur var hrikaleg breidd Clippers og spilamennska þeirra Bledsoe og Griffin.
Það kæmi okkur ekkert á óvart ef Bledsoe tæki risa, risa stökk í vetur. Vonandi gerir hann það. Mjög áhugaverður og skemmtilegur leikmaður þar á ferðinni.
Sagan segir að Blake Griffin sé líka að bæta sig mikið. Við sáum ekki betur en að stökkskotið hans væri að lagast og þá hefur hann unnið mikið í fótavinnunni og póstleiknum, sem er hans helsta kryptónít ásamt vítunum.
Leikur Clippers og Jazz var vissulega æfingaleikur en menn tókust samt vel á og lögðu sig fram. Það er þess vegna sem okkur langar að sýna þér þetta stutta myndband af frammistöðu Blake Griffin í leiknum.
Hann var ekkert minna en frábær og sýndi okkur enn og aftur að hann býr yfir hæfileikum sem aðrir kraftframherjar geta ekki látið sig dreyma um - hvað þá framkvæmt.
Við höfum skrifað um Blake Griffin af og til hér á NBA Ísland. Flestir muna eftir því að hann þurfti að sitja meiddur á bekknum allt nýliðaárið sitt en sló svo í gegn þegar hann loksins gat byrjað að spila. Troðslur hans og tilþrif gerðu hann að einum vinsælasta leikmanni deildarinnar.
Á síðustu leiktíð hefðum við ætlað að Griffin yrði enn vinsælli og sú varð reyndar raunin, en um leið og Griffin bætti við sig fylgi, byrjaði fólk líka að drekka honum Hatorade. Það komst í tísku að drulla yfir Griffin.
Hluta af þessari neikvæðni í hans garð má rekja til hans sjálfs, því Griffin hefur því miður tekið upp á þeim ósið að væla dálítið og floppa.
Það er að sjálfssögðu skelfilegur ósiður hjá svona stórum manni og vonandi snarhættir hann þessu í vetur og lætur það aldrei sjást aftur.
Restin af dissinu í garð Griffin skrifast líklega á öfund. Framherjinn ungi fékk daglega að heyra það að hann væri gróflega ofmetinn og sumir gengu svo langt að segja að hann gæti ekkert nema troðið og væri ekkert ef hann hefði ekki Chris Paul með sér.
Helsta ástæðan fyrir því að við fórum á stað með þennan pistil var sú að við viljum reyna að drepa niður þessi leiðindi í garð Griffin. Hann á ekki skilið neitt Hatorade þó hann eigi það til að væla aðeins og setja upp Tim Duncan-svipi þegar dómararnir eru honum ekki sammála.
Fyrir utan þessi leiðindi, er það einfaldlega hátíð og forréttindi að fá að fylgjast með þessum dreng spila körfubolta.
Sástu boltameðferðina, klókindin, bætt skotið og gömlu góðu loftfimleikana í myndbandinu hérna fyrir ofan? Ekki hægt annað en að elska þetta.
Við þurfum að hætta að drulla yfir Blake Griffin alveg eins og skot. Auðvitað á drengurinn eftir að læra margt, en þeir sem finna honum allt til foráttu verða að hafa í huga að drengurinn er aðeins á sínu þriðja ári.
Það er alþekkt staðreynd að það tekur stóra menn stundum lengri tíma en aðra að bæta sig, en Griffin hefur reyndar bætt sig alveg helling milli ára.
Blake Griffin er metnaðarfullur og harður keppnismaður og það er eins gott, því hann er að spila með einum af fimm bestu körfuboltamönnum í heiminum.
Þegar maður er svona heppinn með leikstjórnanda, má alls ekki taka því sem sjálfssögðum hlut og vera latur. Vonandi spila þeir Griffin og Paul saman sem lengst og ná að búa til eitthvað skemmtilegt þarna hjá Clippers. Ralph Lawler gamli á það skilið að þetta lið fari að vinna eitthvað.
Hvað Clippers-liðið varðar, er nú ekkert því til fyrirstöðu að það fari að verða almennilega gott ef þjálfarinn er undanskilinn. Það kemur til með að skipta miklu máli hvernig byrjunarliðsmaðurinn Chauney Billups kemur til baka eftir mjög erfið meiðsli.
Það er ekkert fordæmi fyrir því á síðustu árum í NBA að jafn fullorðinn maður og Billups hafi komið til baka eftir að hafa slitið hásin og því verður að teljast nokkuð hæpið að hann nái fyrri styrk þó hann sé algjör fagmaður.
Margir telja að Clippers verði enn sterkara í ár en í fyrra eftir að það bætti við sig skotsjúklingnum Jamal Crawford, en við erum reyndar ekki sammála því. Það má þess vegna kalla komu hans skref niður á við frá Randy Foye.
Crawford hefur aldrei unnið neitt og tekur meira af borðinu en hann setur á það. Tölfræðigúrúar úr öllum áttum eru sammála um þetta og ekki verður varnarleikurinn hans til útflutnings.
Stærsta spurningamerkið hjá Clippers verður sælgætisgrísinn og raunveruleikastjarnan Lamar Odom. Eins og við tókum fram í pistli hér fyrir stuttu höfum við enga trú á að hann finni sitt fyrra form og nýtist Clippers. Ef svo ólíklega vildi til að hann kæmist í fínt form, er hinsvegar ekki hægt að segja annað en að Clippersliðið sé ógnvekjandi.
Þegar upp er staðið fer þetta lið eins langt og Chris Paul ber það, en hann hefur nú fengið mikinn og góðan liðsauka og ekkert annað fyrir Clippers að gera en að blanda sér í baráttu þeirra bestu í Vesturdeildinni.
Efnisflokkar:
Blake Griffin
,
Chris Paul
,
Clippers
,
Framfarir
,
Hatorade
,
Skoðanir
Thursday, October 18, 2012
Borgnesingar spila körfubolta
Við héldum að Skallagrímur gæti ekkert. Kannski bara af því þetta eru nýliðar.
En Skallarnir eru með reyndan Íslandsmeistara í sínum röðum, tvo hrikalega kana og fullt af drengjum sem eru klárir í slaginn.
Leikur Fjölnis og Skallagríms var kannski dæmigerður haustleikur, en miðað við frammistöðu gestanna í Grafarvogi í kvöld væri mun nær að spá þeim í úrslitakeppni en fall.
Borgnesingar virðast hafa fengið að minnsta kosti fjóra rétta í kanalottóinu og eru með fína stuðningsmannasveit.
Áhangendur Skallagríms yfirgnæfðu Grafarvogsbúa líkt og liðið þeirra á vellinum. Ómetanlegt fyrir nýliða að vera með svona fína stuðningsmenn og skiptir sköpum.
Bandaríkjamennirnir í liði Skallagríms voru með jafnhátt framlag sín á milli (62) og allt Fjölnisliðið samanlagt. Flott hjá þeim, alls ekki nógu gott hjá Fjölni.
Fjölnismenn hefðu með öllu átt að komast í 3-0 í kvöld en það var bara aldrei í spilunum. KR-sigurinn þeirra um daginn er farinn fyrir lítið, en munum að það er enn haust.
Talandi um KR. Rosalegur endasprettur þeirra og sigur í Keflavík verður kannski leikurinn sem snýr við blaðinu hjá þeim. Nauðsynlegur sigur fyrir vesturbæinga.
Hérna fyrir neðan eru nokkrar myndir úr Grafarvoginum í kvöld.
Efnisflokkar:
Fjölnir
,
Heimabrugg
,
Skallagrímur
Subscribe to:
Posts (Atom)