Tuesday, October 30, 2012

Nokkur orð um goðsögn


























 Gaman að geta þess að nú í kvöld eru nákvæmlega níu ár síðan LeBron James spilaði sinn fyrsta leik í NBA deildinni, útileik með Cleveland í Sacramento. Myndin hér fyrir ofan er af fyrstu troðslunni hans á atvinnumannsferlinum.

Ferill James hefur verið ævintýralegur síðan. Hann kom inn í lélegt Cleveland-lið sem fljótlega komst þó í úrslitakeppni. Þar var hann með þrennu í fyrsta leik og skömmu síðar fór hann alla leið í úrslitin.

Cleveland var rassskellt illa í lokaúrslitunum 2007 og eftir það var í raun allt niður á við hjá LeBron í Cleveland, þó liðinu gengi alltaf vel í deildakeppninni. Svo flutti hann niður til Miami og allir vita hvað þeir flutningar höfðu í för með sér.

Besti leikmaður deildarinnar var allt í einu orðinn einn sá hataðasti. Einna helst af því amatörarnir sem sáu um almannatengslin fyrir hann skitu á sig. LeBron James hefur aldrei viljað styggja nokkurn mann.

Magnað að séu aðeins nokkrar vikur síðan þessi besti körfuboltamaður heims náði að hrista af sér álögin og brennimarkið. Hann er líklega ekki elskaðasti maðurinn í NBA deildinni, en hann er mjög sennilega ekki sá hataðasti heldur. Ekki lengur.

Og nú hefur lækkað í gagnrýnendunum, sem skiptust í tvo hópa. Annar hópurinn var neikvæðir leiðindapésar sem eru neikvæðir yfir öllu hvort sem er og voru öfundsjúkir út í James.

Hinn hópur leiðindapésanna - og við tilheyrðum honum - var alltaf með gagnrýni og leiðindi út í James vegna þess að við gerðum svo rosalegar kröfur til hans. Okkur stóð ekki á sama. Við sáum fljótlega að James var ekki eins og hver önnur súperstjarna. Hann var einstakur.

Við gerum enn kröfur til hans, en okkur létti öllum þegar hann hristi af sér álögin og vann fyrsta titilinn sinn. Nú þarf hann að vinna fleiri titla og margir hallast að því að þeir gætu orðið nokkrir í viðbót. James er eftir allt búinn að sanna að hann er langbesti leikmaður í heimi og veit nú hvað þarf að gera til að vinna meistaratitil.

Það hljómar ótrúlega, en mesta pressan er farin af LeBron James. Górillan farin af bakinu á honum. Það eina sem LeBron þarf að gera til að standa undir þessum Magic-Bird-Jordan væntingum sem til hans eru gerðar, er að hafa heppnina með sér og halda áfram að vera LeBron James.

Það er ekki víst að þú hafir fengið að fylgjast með Bird og Magic þegar þeir voru upp á sitt besta. Flestir sem þetta lesa voru svo heppnir að fá að fylgjast með Michael Jordan, en vonandi fylgist þið öll með LeBron James.

Það er ekkert víst að þið sjáið annan slíkan næsta aldarfjórðunginn, eða meðan þið lifið.

P.s.- LeBron James var með 28,6 stig, 10,4 fráköst og 7,6 stoðsendingar að meðaltali í lokaúrslitunum í sumar. 
           Svona lína hefur ekki sést áður í sögu NBA.