Saturday, October 27, 2012
Ristill: Roy Hibbert er gunga og lydda
Ákveðið hefur verið að breyta kjörseðlum fyrir Stjörnuleikinn í NBA. Framvegis getur fólk kosið sér tvo bakverði og þrjá, tjah, framverði, í stað tveggja framherja og eins miðherja áður.
Þetta er gert til að bregðast við þessari leiðindaþróun sem við erum alltaf að segja ykkur frá, nefnilega Dauða Miðherjans. Þetta þótti okkur efni í stuttan ristil.*
Þeim fer fækkandi með hverju árinu, stóru mönnunum. Sérstaklega þeim sem kunna körfubolta. Roy Hibbert hjá Indiana er leikmaður sem kallar sig miðherja og bara þess vegna komst hann í Stjörnuleikinn í fyrra - ekki af því hann gæti eitthvað.
Hann fór að grenja þegar hann heyrði af nýju reglunum, allir 218 sentimetrarnir af honum titruðu í ekkasogum. Vildu bara snuddu og mömmu.
Fyrirgefið okkur þó við tölum svona með analnum, en Roy Hibbert getur bara ekki blautan s**t í körfubolta, sama hvað hver segir.
Hann á að vera maður sem fer með Indiana á næsta stig, en ræður ekki við það og mun líklega aldrei gera. Hann er drasl sem hefði aldrei átt að koma nálægt Stjörnuleik og vinnur engan veginn fyrir laununum sínum.
Hibbert er ekki eina draslið í miðherjastöðunni. NBA deildin er full af svona rusli. Þar er aftur á móti hægt að finna fullt af góðum framherjum og það er miklu nær að leyfa þeim að spila Stjörnuleiki.
Aldrei þessu vant tekur deildin gáfulega ákvörðun. Þú átt að vinna þér sæti í Stjörnuleik af því þú ert góður í körfubolta, ekki af því þú ert eini miðherjinn í deildinni sem skorar tíu stig að meðaltali í leik.
Við erum niðurbrotin yfir dauða miðherjans eftir að hafa hlotið síðari partinn af NBA uppeldinu á gullaldarárum stöðunnar. Þetta er eins og með þungavigtina í boxinu. Bara dáið og horfið og enginn veit hvað gerðist.
Einn daginn ertu að horfa á Tyson halda mönnum á lofti með hnefunum, Shaq rífa niður körfur með spjöldum og tjökkum, Hakeem dansa tangó í teignum. En allt í einu hurfu þeir jafn snögglega og risaeðlurnar.
Þú situr eftir með Darko Milicic, Eddy Curry og DeAndre Jordan. Vaknar upp við vondan draum eins og maður á alsæluniðurtúr eftir þriggja daga helgi á Thomsen.
Þetta er ekki sanngjarnt.
Haltu þér saman, Roy. Taktu þér tak og farðu að vinna fyrir kaupinu þínu. Reyndu að sýna okkur að staðan sé ekki dauð. Við höldum með þér, Hibbert. Þú ert gunga og lydda, en við höldum með þér.
* - Ristill er gremjublandinn pistill sem höfundur skrifar án raka og ábyrgðar, þ.e. með ra**gatinu.
Efnisflokkar:
Dauði miðherjans
,
Hatorade
,
Hnignun vestrænnar menningar
,
Miðherjar
,
Of vanur fyrir skólann
,
Reglubreytingar
,
Ristill
,
Roy Hibbert