Saturday, October 20, 2012

Fylgjumst vel með Clippers og verum góð við Griffin


Okkur kom það ekki í hug að gera miklar væntingar til LA Clippers í vetur, en það er ljóst að við verðum að endurskoða það metnaðarlausa viðhorf.

Þegar grannt er skoðað, er Clippers nefnilega eitt dýpsta liðið í deildinni. Enda veitir ekki af þegar maður heitir LA Clippers og meiðsladraugurinn er aldrei í fríi.

Lykilmenn Clippers misstu úr helling af leikjum í fyrra þó þú munir kannski ekki eftir því. Það hefur sitt að segja í riðlakeppni ef mikilvægir spilarar missa úr 20 leiki. Í sumar ákvað liðið að reyna að sporna við þessu með því að ná sér í helling af fínum leikmönnum.

Nú er svo komið að það eru þrettán leikmann í liðinu sem kunna ýmsar kúnstir í körfubolta, þó þeir geri það reyndar misvel. Chris Paul spilar sína stöðu betur en nokkur annar í heiminum í dag og það er ekkert að því að fá til sín rulluspilara á borð við Grant Hill, Jamal Crawford, Matt Barnes og Lamar Odom svo einhverjir séu nefndir.

Bættu því svo við að Blake Griffin og Eric Bledsoe eru kornungir piltar sem eru að bæta sig á hverjum degi og við erum komin með ansi hreint spennandi pakka. Bara ef Vinnie del Negro væri að vinna í miðasölunni en ekki að þjálfa þetta lið. Clippers vegna væri óskandi að liðið spilaði 50% bolta fram yfir áramót svo Vinnie yrði rekinn. En það þýðir víst ekki að velta sér upp úr því.

Það er sjaldnast að marka sögur sem skrifaðar eru á undirbúningstímabilinu í NBA, en það var hægt að koma auga á nokkra sniðuga hluti þegar Clippers tók á móti Jazz á dögunum. Það sem stóð upp úr hjá okkur var hrikaleg breidd Clippers og spilamennska þeirra Bledsoe og Griffin.

Það kæmi okkur ekkert á óvart ef Bledsoe tæki risa, risa stökk í vetur. Vonandi gerir hann það. Mjög áhugaverður og skemmtilegur leikmaður þar á ferðinni.

Sagan segir að Blake Griffin sé líka að bæta sig mikið. Við sáum ekki betur en að stökkskotið hans væri að lagast og þá hefur hann unnið mikið í fótavinnunni og póstleiknum, sem er hans helsta kryptónít ásamt vítunum.

Leikur Clippers og Jazz var vissulega æfingaleikur en menn tókust samt vel á og lögðu sig fram. Það er þess vegna sem okkur langar að sýna þér þetta stutta myndband af frammistöðu Blake Griffin í leiknum.



Hann var ekkert minna en frábær og sýndi okkur enn og aftur að hann býr yfir hæfileikum sem aðrir kraftframherjar geta ekki látið sig dreyma um - hvað þá framkvæmt.

Við höfum skrifað um Blake Griffin af og til hér á NBA Ísland. Flestir muna eftir því að hann þurfti að sitja meiddur á bekknum allt nýliðaárið sitt en sló svo í gegn þegar hann loksins gat byrjað að spila. Troðslur hans og tilþrif gerðu hann að einum vinsælasta leikmanni deildarinnar.

Á síðustu leiktíð hefðum við ætlað að Griffin yrði enn vinsælli og sú varð reyndar raunin, en um leið og Griffin bætti við sig fylgi, byrjaði fólk líka að drekka honum Hatorade. Það komst í tísku að drulla yfir Griffin.

Hluta af þessari neikvæðni í hans garð má rekja til hans sjálfs, því Griffin hefur því miður tekið upp á þeim ósið að væla dálítið og floppa.

Það er að sjálfssögðu skelfilegur ósiður hjá svona stórum manni og vonandi snarhættir hann þessu í vetur og lætur það aldrei sjást aftur.

Restin af dissinu í garð Griffin skrifast líklega á öfund. Framherjinn ungi fékk daglega að heyra það að hann væri gróflega ofmetinn og sumir gengu svo langt að segja að hann gæti ekkert nema troðið og væri ekkert ef hann hefði ekki Chris Paul með sér.

Helsta ástæðan fyrir því að við fórum á stað með þennan pistil var sú að við viljum reyna að drepa niður þessi leiðindi í garð Griffin. Hann á ekki skilið neitt Hatorade þó hann eigi það til að væla aðeins og setja upp Tim Duncan-svipi þegar dómararnir eru honum ekki sammála.

Fyrir utan þessi leiðindi, er það einfaldlega hátíð og forréttindi að fá að fylgjast með þessum dreng spila körfubolta.

Sástu boltameðferðina, klókindin, bætt skotið og gömlu góðu loftfimleikana í myndbandinu hérna fyrir ofan? Ekki hægt annað en að elska þetta.

Við þurfum að hætta að drulla yfir Blake Griffin alveg eins og skot. Auðvitað á drengurinn eftir að læra margt, en þeir sem finna honum allt til foráttu verða að hafa í huga að drengurinn er aðeins á sínu þriðja ári.

Það er alþekkt staðreynd að það tekur stóra menn stundum lengri tíma en aðra að bæta sig, en Griffin hefur reyndar bætt sig alveg helling milli ára.

Blake Griffin er metnaðarfullur og harður keppnismaður og það er eins gott, því hann er að spila með einum af fimm bestu körfuboltamönnum í heiminum.

Þegar maður er svona heppinn með leikstjórnanda, má alls ekki taka því sem sjálfssögðum hlut og vera latur. Vonandi spila þeir Griffin og Paul saman sem lengst og ná að búa til eitthvað skemmtilegt þarna hjá Clippers. Ralph Lawler gamli á það skilið að þetta lið fari að vinna eitthvað.

Hvað Clippers-liðið varðar, er nú ekkert því til fyrirstöðu að það fari að verða almennilega gott ef þjálfarinn er undanskilinn. Það kemur til með að skipta miklu máli hvernig byrjunarliðsmaðurinn Chauney Billups kemur til baka eftir mjög erfið meiðsli.

Það er ekkert fordæmi fyrir því á síðustu árum í NBA að jafn fullorðinn maður og Billups hafi komið til baka eftir að hafa slitið hásin og því verður að teljast nokkuð hæpið að hann nái fyrri styrk þó hann sé algjör fagmaður.

 Margir telja að Clippers verði enn sterkara í ár en í fyrra eftir að það bætti við sig skotsjúklingnum Jamal Crawford, en við erum reyndar ekki sammála því. Það má þess vegna kalla komu hans skref niður á við frá Randy Foye.

Crawford hefur aldrei unnið neitt og tekur meira af borðinu en hann setur á það. Tölfræðigúrúar úr öllum áttum eru sammála um þetta og ekki verður varnarleikurinn hans til útflutnings.

Stærsta spurningamerkið hjá Clippers verður sælgætisgrísinn og raunveruleikastjarnan Lamar Odom. Eins og við tókum fram í pistli hér fyrir stuttu höfum við enga trú á að hann finni sitt fyrra form og nýtist Clippers. Ef svo ólíklega vildi til að hann kæmist í fínt form, er hinsvegar ekki hægt að segja annað en að Clippersliðið sé ógnvekjandi.

Þegar upp er staðið fer þetta lið eins langt og Chris Paul ber það, en hann hefur nú fengið mikinn og góðan liðsauka og ekkert annað fyrir Clippers að gera en að blanda sér í baráttu þeirra bestu í Vesturdeildinni.