Friday, October 26, 2012

Stjarnan spilar góðan körfubolta



Fyrsta valkvíðakvöldinu í Dominosdeild karla í vetur er lokið. Valkvíðinn kom til af því að það voru stórleikir í Ásgarði og DHL höllinni - og svo var reyndar leikurinn í Dalhúsunum ekkert slor heldur eins og kom á daginn/kvöldið. Dónalegt af vinum okkar í KKÍ að gera okkur þetta.

Við kýldum á Ásgarðinn af því okkur langaði svo að sjá silfurdrengina hans Benna og af því okkur leiðist aldrei á leikjum með Stjörnunni. Okkur átti heldur ekki eftir að leiðast neitt á þessum leik. Átökin voru mjög hörð og engu líkara en liðin væru að berjast um síðasta sætið í úrslitakeppninni.

Stjörnumenn eru komnir lengra áleiðis en Þórsarar þennan veturinn og það var m.a. það sem skildi liðin að í kvöld. Eins og við höfum áður tíundað hér, eru Garðbæingar farnir að þekkjast ansi vel og það vinnur með þeim. Þeir eru reyndar að prófa nokkra nýja hluti í sókninni og það er vel.

Gaman að sjá Dag K. Jónsson taka meira þátt í þessu hjá þeim. Hrein unun að sjá hann koma hlaupandi af hindrunum, vaða upp í skot og setja þau niður. Sjálfstraustið að vaxa og þrotlausar æfingar að skila árangri.

Breiddin hjá Stjörnunni er ógnvekjandi og það eru ekki mörg lið í deildinni sem geta gert þér lífið leitt á sama hátt og Stjarnan.

Á tíma var Justin Shouse með fjóra tveggja metra menn inná með sér í einu, sem allir geta vippað sér út fyrir og skotið ef sá gállinn er á þeim. Mjög sterkt og ekki að sjá að Garðbæingar muni tapa mörgum leikjum á næstunni.

Leikmannsaugað okkar sagði okkur að Þórsarar þurfi bara meiri tíma til að spila sig saman og þá á varnarleikur þeirra einnig nokkuð í land. Engin ástæða til að fara á taugum yfir því á þessum tímapunkti en okkur sýnist sem þetta lið ætli að halda áfram uppteknum hætti og blanda sér í toppbaráttuna.

Þeir sem gerðu sér ferð í Garðabæinn héldu flestir að tækin væru eitthvað að stríða þeim þegar þeir voru að fylgjast með stöðunni í vesturbænum. Gat það verið að KR væri að tapa með 50 stigum á heimavelli?

Jú, það var ekki um að villast. Hluti af okkur bölvaði í hljóði yfir því að hafa ekki farið í vesturbæinn, en það er alveg ljóst að Snæfell er næsta lið sem við verðum að skoða. Við vorum komin í hálfgerða fýlu út í Snæfell eftir að liðið var búið að valda okkur dálitlum vonbrigðum síðustu tvö ár.

Það er bara haust, en það sem Hólmarar hafa verið að gera undanfarið er nóg til að fanga athygli allra sem fylgjast með körfubolta. Það er ekki á hverjum degi sem lið fara vestur í bæ og drulla hreinlega yfir stórveldið.

Nonni Mæju, sem vart þarf að taka fram að er einn af uppáhaldssonum ritstjórnarinnar, bauð upp á 100% leik í sókninni og var það í takt við annað mótlæti KR-inga þetta kvöldið. Ekkert annað um þennan leik að segja en; "ja, hérna."

Þessi stutta hugleiðing væri ekki rökrétt ef við minntumst ekki aðeins á flautukörfuna hans Tómasar Tómassonar í Grafarvogi. Súrt fyrir Stólana að tapa svona, en öskubuskuævintýri Fjölnis hefur náð fótanna á ný eftir að það hrasaði illa í leiknum gegn Sköllunum á dögunum.