Tuesday, October 23, 2012

Jazzað aðeins til


Utah Jazz átti mjög dæmigert sumar. Bætti við sig nokkrum leikmönnum og losaði sig við nokkra. Engin af þessum leikmannaskiptum vöktu athygli frekar en venjulega þegar þetta félag er annars vegar, en þau gætu átt eftir að skila sér. Það eru góðar líkur á því að þú nennir ekki að lesa lengra og það er allt í lagi.

Mo Williams er tekinn aftur við leikstjórnandastöðunni hjá félaginu sem tók hann í nýliðavalinu árið 2003. Williams var tekinn í annari umferð og kom lítið við sögu á nýliðaárinu þó John Stockton hafi lagt skó sína á hilluna vorið áður.

Framkvæmdastjóri Utah hefur æ síðan séð eftir því að leyfa honum að fara til Milwaukee þar sem hann sprakk út og var orðinn 17 stiga maður á sínu þriðja ári með Bucks. Flestir muna síðar eftir honum sem meðreiðarsveini LeBron James hjá Cleveland.

Marvin Williams er líka kominn til Utah frá Atlanta. Hann er blautur draumur þjálfarateymisins, gerir allt sem honum er sagt og gerir það vel. Hann á vafalítið eftir að skila bestu tölum á ferlinum í vetur og þvi er skothelt að ná í  hann í fantasy. Án gríns.

Randy Foye kom líka frá Clippers. Sæmileg skytta og harður af sér. Varð líka að vera harður til að komast til manns eftir að hafa misst föður sinn og móður með skömmu millibili í barnæsku.

Þetta eru ekki mannabreytingar sem kalla á aukavakt á ESPN og ÍNN en við tippum á að þær muni skila liðinu talsverðum framförum. Jazz náði nokkuð óvænt inn í úrslitakeppnina í vor, en ætti að fara örugglega inn í hana næsta vor.

Af hverju, spyrðu? Af því Randy Foye, Marvin og Mo Williams, skoruðu fleiri þriggja stiga körfur en allt Utah-liðið á síðustu leiktíð. Langstærsti veikleiki Utah í sóknarleiknum var langskotin og það mál hefur nú verið lagað. Nú verður ekki lengur hægt að pakka teiginn á móti Jazz.

Framtíð þeirra Derrick Favors og Enes Kanter er nokkuð björt. Fá lið sem eiga annan eins efnivið í stórum mönnum.

Og við vorum næstum því búin að gleyma Gordon Hayward - Gísla Marteini - sem er að verða flottur körfuboltamaður. Manu diet-light, má nota það.

Við ætlum því að tippa á að Utah eigi fínan vetur og jinxa þar með liðið okkar í tætlur. Það er svo bara spurning hvort það verður Mo Williams eða Al Jefferson sem meiðist út leiktíðina eftir þennan pistil #jinx

Bónus:

Troðkóngurinn Jeremy Evans gæti mögulega lækkað í mínútum annað árið í röð. Hann hefur ekki bætt sig mikið og var aðeins með 63% skotnýtingu á síðustu leiktíð. Af hverju er 63% nýting léleg, spyrðu?

Af því 25 af 27 körfum sem drengurinn skoraði á síðustu leiktíð voru troðslur.

Hann setti því niður tveimur fleiri stökkskot en Halldór Ásgrímsson í NBA deildinni.