Wednesday, October 31, 2012
Miklar breytingar hjá Dallas
Það er erfiður vetur fram undan hjá Dallas þó liðið hafi unnið góðan útisigur á Lakers í fyrsta leik án lykilmanna. Jason Terry er farinn og Dirk Nowitzki missir af fyrstu leikjum tímabilsins. Það gæti orðið til þess að liðið missti keppinauta sína fram úr sér í harðri Vesturdeildinni.
Það er ekkert grín að taka Dirk og Terry út úr samhenginu hjá Dallas. Terry, sem nú er leikmaður Boston Celtics eins og flestir vita, skoraði 267 stig Dallas í fjórða leikhluta á síðustu leiktíð.
Dirk Nowitzki kom fast á hæla honum með 235 stig og það segir þér kannski ekki mikið, en þriðji stigahæsti leikmaður Dallas Mavericks í fjórða leikhluta á síðustu leiktíð var Rodrigue Beaubois með 118. Ansi mikill munur þarna.
Terry og Dirk skoruðu 54 stig á síðustu tveimur mínútum leikja fyrir Dallas á síðustu leiktíð. Næst þar á eftir? Shawn Marion, með 11 stig. Ellefu.
Á síðustu tveimur árum, hafa 67% skota Dallas í krönsinu (innan við tvær mín. eftir og 4 stiga munur í leiknum eða minna) verið tekin af Dirk Nowitzki eða Jason Terry. Og þeir eru báðir mjög hagkvæmir sóknarmenn á tölfræðimáli.
Auðvitað fylla OJ Mayo, Darren Collison og fleiri leikmenn upp í eitthvað af þessu, Dallas er nú einu sinni með einn allra besta þjálfarann í deildinni. Þessi tölfræði sýnir hinsvegar svart á hvítu að breytinga er að vænta hjá Dallas, sérstaklega meðan Nowitzki er frá keppni.
Ef þessar breytingar skila sér ekki, gæti Dallas átt á hættu að missa af úrslitakeppninni í fyrsta sinn í tólf ár. Fátt sem Vince Carter getur gert til að sporna við því.
Efnisflokkar:
Dirk Nowitzki
,
Jason Terry
,
Mavericks