Tuesday, January 31, 2017
LeBron er vanur því að safna liði
Það er ekkert nýtt að LeBron sé upptekinn við að reyna að skaffa sér nothæfa liðsfélaga. Grínið hérna fyrir neðan bar fyrir þegar hann var að safna liði hjá Miami fyrir sjö árum síðan. Á margan hátt upplifum við þetta eins og þetta hafi gerst fyrir 20 árum síðan, en suman hátt eins og þetta hafi gerst í fyrra. Ja, hérna.
Efnisflokkar:
Félagaskiptaglugginn
,
LeBron James
Monday, January 30, 2017
Austurdeildarvörutalning í janúar 2017
Um daginn skrifuðum við harðorðan rauntalspistil þar sem við viðruðum sterkar skoðanir okkar á stöðu mála í NBA deildinni. Til að gera langa sögu stutta, sögðum við að deildin væri pínu drasl akkúrat í dag, en það sem bjargaði henni væri að það væri óvenju mikið af alveg einstökum hæfileikamönnum að láta ljós sitt skína um þessar mundir. Liðin þeirra væru kannski léleg, en framboðið á hæfileikamönnum og piltum væri mjög gott.
Spekingar vestra hafa ekki tekið jafn sterklega til orða og við og hafa frekar fókusað á að valdajafnvægið í deildinni væri að breytast. Það er að hluta til rétt, því mörg af liðunum sem við kölluðum drasl í hroka okkar, eru lið sem eru jafnvel ung eða nýsamsett og því enn að finna sig. Það er löngu sannað að það tekur tíma að byggja upp góð lið í NBA deildinni, þó sum félög séu reyndar svo krónískt drasl að þau eru jafnvel búin að vera að byggja upp í áratugi án nokkurs árangurs *hóst* Knicks *hóst*
Hvað sem þessu líður, förum við aldrei af þeirri fasísku skoðun okkar að Austurdeildin sé ennþá drasl. Það má sjá ljósbirtu hér og þar í drullunni, en í það heila er þessi hluti deildarinnar ekkert annað en örlagarusl. Sjáðu bara þessa svokölluðu toppbaráttu í austrinu! Þetta er bara rugl!
Cleveland er gjörsamlega búið að drulla á sig undanfarið, en Toronto getur ekki kapítalíserað á það, af því það er að drulla á sig líka. Boston getur ekki kapítalíserað á það að Toronto sé að drulla á sig heldur og Atlanta getur ekki kapítalíserað á það að Boston sé að drulla á sig, af því þó það vinni reglulega fullt af leikjum í röð (nokkuð sem er óhjákvæmilegt þegar þú ert að spila megnið af leikjunum þínum í austrinu), þá tapa þeir alltaf jafnmörgum leikjum í röð beint í kjölfarið.
Austurdeildin er orðinn eins og mýrarboltaleikur milli tveggja drukkinna liða skipuðum kerlingum sem eru 60+ og 160+. Það er bara ekkert að frétta þarna núna.
Jú, jú, Washington er loksins f***íng farið að spila eins og það á að gera, en trúið okkur, það verður ekki lengi. Eins er Philadelphia líka farið að vinna nokkra körfuboltaleiki líka, sem er nokkuð sem ekkert okkar á eftir að venjast alveg strax.
En restin af austrinu er, lets feis it, drasl. Ekki kannski Brooklyn-drasl, ekki misskilja okkur, meira svona: "þið getið gleymt því að gera eitthvað í úrslitakeppninni næstu tvö til þrjú árin" -léleg.
Og þetta er ein af ástæðunum fyrir því að framkvæmdastjórar liðanna sem eru að þykjast vera að elta Cleveland í austrinu eru ekki að ýta spilapeningum sínum fram á borðið eins og stuðningsmennirnir vilja. Þess vegna reynir Toronto ekki að fá Paul Millsap, þess vegna er Danny Ainge of nískur til að eyða Brooklyn-valréttinum sem hann á.
Þessir menn vita sem er að í fyrra, í ár og kannski á næsta og þarnæsta ári, skiptir engu fjandans máli hvað þeir ná að kokka upp nógu góðum leikmannaskiptum eða yfir höfuð fá til sín leikmenn (fæst liðanna hafa burði eða kapítal til þess), þeir eiga enga möguleika á að slá Cleveland út úr úrslitakeppninni. Núll.
Cleveland hefur reyndar gert sitt besta til að halda í við stóru markaðina í New York og Chicago hvað varðar dramatík og þó að það sé ekkert nýtt að LeBron James taki smá sápudrama í fjölmiðlum, er ekki algengt að sjá hann vera eins harðorðan og bókstaflega ljótorðan eins og hann var um daginn þegar hann frussaði því út úr sér að liðið þyrfti hjálp - þyrfti annan playmaker.
Hmmm, ekki ætlum við að draga körfuboltaþekkingu LeBron James í efa, en við tippum á að það myndi kannski hjálpa Cleveland að rétta úr kútnum ef þeir myndu spila EINHVERJA vörn. En það gera þeir ekki og þeir eru ekki nógu góðir til að skjóta lið í kaf um þessar mundir - Korver eða enginn Korver.
Við erum búin að segja það 300 sinnum og eigum eftir að segja það 300 sinnum í viðbót: Cleveland MUN fá það - ekki í grillið - heldur á kaf í rassgatið, ef það hættir ekki að spila LeBron James svona óguðlegar mínútur í hverjum einasta leik. Það er ekki óráðlegt, það er bara pjúra heimska. Algjörlega fo***íng glórulaust. Afsakið orðbragðið, en það er ekki hægt að orða þetta öðruvísi! LeBron James er þremur 40 mínútna vikum frá því að fokka upp á sér hnénu. Við erum ekkert að grínast með þetta!
Það getur vel verið að við höfum ekki nennt að skrifa það, en við erum nokkuð viss um að við gættum þess vel að taka það fram í einhverju hlaðvarpanna í haust að New York og Chicago væru á leið með hnífa í byssubardaga. Þau náðu bæði að blekkja okkur áleiðis fram að jólum, en nú eru herbúðir beggja klúbba eins og geðveikrahæli. Og í tilviki New York er það einmitt eins og menn vilja hafa það.
Það er ekki hægt að skipta um eiganda, því miður, þannig að öxin verður að falla á næsta mann í röðinni, Phil Jackson. Við berum gríðarlega virðingu fyrir Phil Jackson sem þjálfara, en maðurinn veit ekkert hvað hann er að gera sem framkvæmdastjóri. Eins ótrúlega og það hljómar, er NBA deildin búin að breytast gríðarlega síðan hann vann síðasta titilinn sinn með Lakers og það er margt sem bendir til þess að Jackson hafi orðið eftir í vegkantinum einhvers staðar á leiðinni í gegn um þessar breytingar.
Ekki misskilja, Phil Jackson hefur meira vit á körfubolta í hárunum í eyrunum á sér en við eigum eftir að sanka að okkur alla okkar ævi, en hvað mannaráðningar, stefnuskrá og lögfræði/samningahnoð varðar, er hann búinn að missa af lestinni. Ekki bara það. Hann veit ekki einu sinni hvar þá lest er að finna. Sérstaklega ekki þegar hann er ekki einu sinni í New York þegar liðið hans er að drulla upp á bak, leik eftir leik eftir leik. Við vottum aðdáendum Kristaps Porzingis innilega samúð okkar og skorum á stuðningsmenn Knicks að reyna hið ómögulega - að skipta um félag. Fara að halda með einhverju öðru félagi.
Það eru nákvæmlega þrjú lið í allri Austurdeildinni sem geta horft í spegil og sagt að þau eigi eitthvað í líkingu við bjarta framtíð. Philadelphia, Milwaukee og kannski Boston. Búið. Restin af liðunum eru annað hvort búin að toppa eða eiga litla sem enga möguleika á að verða góð. Almennilega góð, fattiði, ekki bara bleh-góð. Ekki horfa á okkur. Þetta er ekki okkur að kenna.
Framtíð Boston hefur verið talin björt allar götur síðan félagið rændi vitleysingana í Brooklyn öllum valréttum sínum í nýliðavalinu á einhverju sautján ára tímabili, en Danny Ainge og félagar eru alltaf að bíða eftir rétta tækifærinu, réttu skiptunum, rétta leikmanninum til að hrinda byltingunni almennilega í gang. Það er pótensjall þarna, en fyrir utan ofurmannskennda spilamennsku Isaiah Thomas í sóknarleiknum, hefur Celtics-liðið valdið vonbrigðum í vetur.
Já, já, sumt af því skrifast á meiðsli, en það eru öll liðin í NBA deildinni meidd. Öll, með tölu. Svo það þýðir ekkert að væla yfir því. Lið eins og Boston á að heita með breidd til að díla við meiðsli, nema kannski þegar kemur að algjörum lykilmönnum. Flestir tippuðu á að Boston ætti eftir að vinna 50 leiki í vetur, eftir að það bætti við sig einu ári í viðbót af reynslu og plögguðu Al Horford í miðjuna.
En eins og stundum vill verða þegar lið eiga að taka skrefið frá því að verða krúttleg og yfir í að fólk fari að gera kröfur á þau, eiga þau til að drulla á sig. Við erum ekki að segja að Boston sé búið að drulla á sig, en þessi frábæri varnarleikur sem liðið hefur verið að spila undanfarin ár er hvergi sjáanlegur í ár og liðið getur ekki frákastað til að bjarga lífi sínu, frekar en áður.
Við skulum spara hraunið á Boston um sinn í ljósi þess að liðið er búið að moka sig í annað sætið í austrinu í gegn um drulluhauginn eftir Toronto, en við eigum alveg eftir að sjá Boston vera með læti í vor.
Svipaða sögu er að segja af Milwaukee. Þar voru mjög spennandi hlutir að gerast fram að jólum, en nú er skyndilega svo komið að þetta lið getur ekki keypt sigur. Það er samt óþarfi að vera að fá heilablóðföll yfir því, lykilmenn Bucks eru ungir og vitlausir og eiga margt eftir ólært. Þeir verða að fá tíma.
Viðsnúningur Sixers hefur verið með ólíkindum undanfarnar vikur og hélst nokkurn veginn í hendur við ógurlega spilamennsku Joel Embiid, sem hefur ekki aðeins skilað fallegum tölum, heldur hefur hann sprengt alla skala í tölfræði fyrir lengra komna líka. Philadelphia er að tapa leikjum með 700 stigum þegar hann er útaf, en vinna leiki með 1700 stigum þegar hann er útaf - eitthvað þannig.
En fyrir skömmu fóru svo að gerast þeir stórmerkilegu hlutir að liðið fór að vinna leik og leik án Embiid líka. Þessir leikir sem hann er að hvíla þessa dagana hræða úr okkur líftóruna og við vonum að þessi hnémeiðsli hans séu ekki alvarleg, en við skulum fúslega viðurkenna að eins mikið og við hötuðum aðferðafræði félagsins á liðnum árum, eigum við eftir að stilla á leiki Sixers þegar það fer að tefla þeim Embiid og Ben Simmons fram saman. Það. Verður. Eitthvað.
Árangur í NBA deildinni er Maraþonhlaup og það eina sem Philadelphia er búið að gera í þessu hlaupi er að undirbúa sig vel og klæða sig vel. Nú fer sjálft hlaupið að hefjast og í því getur allur fjandinn gerst. En það eru ekki mörg félög í NBA sem eru jafn vel undirbúin og jafn vel klædd og Philadelphia, svo það ætti eitthvað gott að geta gerst þarna á næstu árum. Ef skrifstofan klúðrar því ekki gjörsamlega.
Munið að það er ekki eins og Sixers-menn séu búnir að vera að færa körfuboltaguðunum gjafir á undanförnum árum. Meira svona farið út á svalir drukknir og öskrað á þá á hverju kvöldi og sagt þeim að fara til helvítis. Því verður áhugavert að sjá hverju Prósessinn skilar þegar upp verður staðið, en við fáum ekki að vita það fyrir alvöru fyrr en eftir allnokkur ár.
Efnisflokkar:
Ferlið
,
Vörutalning
Saturday, January 28, 2017
Hlaðvarp NBA Ísland: 75. þáttur
Gestur í nýjasta hlaðvarpinu okkar er Stjörnu- og Chicago Bulls-maðurinn Snorri Örn Arnaldsson. Snorri og Baldur kafa ofan í saumana á sápuóperunni sem er í gangi í Chicago, New York og Cleveland, ræða Mike D´Antoni og Spútnikliðið hans í Houston, endalausan styrk San Antonio, horfur í úrslitakeppninni og rífast um hver er besti alhliða leikmaðurinn í NBA deildinni svo fátt eitt sé nefnt.
Þið getið hlustað á nýjasta þáttinn í spilaranum hér fyrir neðan eða farið inn á hlaðvarpssíðuna og sótt hann þar á mp3 formi til að setja hann inn á t.d. símann ykkar eða mp3 spilarann. Þessi nýjasti þáttur hlaðvarpsins var í boði ekki nokkurs skapaðar hlutar og er ókeypis. Njótið vel, kæru lesendur/hlustendur.
Ánægja, áheit og blíðuhót vegna hlaðvarpsins sendast á netfangið okkar nbaisland@gmail.com, en það má einnig nota til að koma á framfæri spurningum eða hugmyndum varðandi hlaðvarpið eða síðuna í heild. Við tökum vel í allar bréfaskriftir og reynum að svara öllum bréfum sem berast, enda eru það hlustendur og lesendur síðunnar sem halda geiminu gangandi.
Efnisflokkar:
Hlaðvarpið
Tuesday, January 24, 2017
Nýtt hlaðvarp
Í 74. þætti Hlaðvarps NBA Ísland ræða þeir Baldur og Gunnar skyndilega endurreisn stóra mannsins í NBA deildinni. Staða stóru mannanna í NBA deildinni var orðin svo slæm fyrir nokkrum árum að ritsjórn NBA Ísland bjó til sérstakan flokk um hana (Dauði Miðherjans), en nú er sannarlega bjartara framundan. Þeir félagar ræða svo að sjálfssögðu vandræðaganginn á New York, Stjörnuleikinn og heilmargt fleira. Þátturinn að þessu sinni er ekki í boði neins.
Okkur bárust athugasemdir vegna lélegs hljóðs á tveimur síðustu þáttum og þökkum kærlega fyrir þá réttmætu gagnrýni, en nú er búið að kippa þessu í liðinn og hljómgæðin í Hlaðvarpi NBA Ísland verða því áfram í heimsklassa.
Þið getið hlustað á nýjasta þáttinn í spilaranum hér fyrir neðan eða farið inn á hlaðvarpssíðuna og sótt hann þar á mp3 formi til að setja hann inn á t.d. símann ykkar eða mp3 spilarann. Hlaðvarp NBA Ísland inniheldur engar auglýsingar og er enn sem komið er ókeypis, sem gerir það að einu verðmætasta afþreyingarefni sem völ er á. Njótið vel, kæru lesendur/hlustendur.
Athugasemdir, ánægja og/eða aðfinnslur sendist til: nbaisland@gmail.com
Efnisflokkar:
Hlaðvarpið
Saturday, January 21, 2017
Baby fór stundum í hornið
Margir sakna Glen "Big Baby" Davis úr NBA deildinni. Við sáum hann síðast spila fyrir Doc Rivers hjá Clippers fyrir um það bil tveimur árum síðan. Hann var litríkur karakter að innan sem utan. Hérna eru nokkrar myndir af honum. Ekki að við höfum ákveðið neitt sérstakt þema í kring um þetta, eða þannig...
Efnisflokkar:
Andlitsmeðferð
,
Glen Davis
Brook Lopez á svarta listann
Körfuboltamenn hafa margt þarfara við tíma sinn að gera en að reyna að koma sér í svörtu bækurnar hjá ritstjórn NBA Ísland. Ef svo undarlega vildi til að þá langaði allt í einu að gera það - ef að við gæfum okkur að miðherji hjá ónefndu körfuboltaliði myndi bara vakna einn daginn, harðákveðinn í að komast í ónáð hjá NBA Ísland, þyrfti hann aðeins að gera einn lítinn hlut.
Hætta að frákasta.
Þið vitið að margt fer í taugarnar á ritstjórn NBA Ísland, það er eins og það sé eitthvað nýtt á hverjum degi sem vekur hjá okkur gremju, enda er þessi ritstjórn komin til ára sinna. En líklega fer þó ekkert eins mikið í taugarnar á okkur og stórir menn sem frákasta ekki.
Við gerum öll mismiklar kröfur til körfuboltamanna um framlag í frákastadeildinni og oft er það þannig að því fleiri sentimetra sem höfuðið á leikmanninum er frá gólfinu, því fleiri fráköst viljum við að hann taki. Og þar eð miðherjar eru oftast hávöxnustu leikmennirnir í körfuboltaliðum, gerum við gjarnan mestu kröfurnar á þá um framlag í fráköstunum, enda er það eitt aðalhlutverk þeirra á vellinum.
Það er út af þessu sem við erum núna að lesa okkur til í svartagaldri.
Við ætlum nefnilega að búa til litla brúðu, kukla á hana einhvers konar álög, skíra hana Brook Lopez, og fara svo að stinga sjóðandi heitum prjónum í hana og loks berja hana með gegnheilum Estwing-klaufhamri.
Lopez hefur alltaf farið í taugarnar á okkur af því hann frákastar eins og langamma, en hann er að setja heimsmet í frákastavanhæfni í ár (smelltu svona þúsund sinnum á efri myndina í færslunni til að sjá betur tölurnar).
Við fengum algjört áfall þegar við skoðuðum tölfræðina hans í nótt og komumst að raun um að hann er að hirða FIMM KOMMA TVÖ fráköst í leik sem byrjunarliðsmiðherji í NBA deildinni - miðherji sem á að heita góður miðherji í NBA deildinni.
Við vitum alveg að Lopez er ekki að spila neinar 40 mínútur í leik - hann spilar ekki nema um 30 mínútur í leik - en okkur er fjandans sama.
Þessar tölur ofbjóða okkur endanlega, því það er líka ekki eins og Lopez sé að spila við hliðina á Dennis Rodman og Wilt Chamberlain í þessu rusli sem þetta Nets-lið hans er. Þeir hitta náttúrulega ekki lifandi skít í þessu liði, þannig að nóg er líka af tækifærunum til að hirða sóknarfráköst. En, nei. Ekki Brook Lopez.
Af þessu tilefni höfum við sumsé ákveðið að tilnefna Brook Lopez versta frákastara allra tíma. Hér er ekki á ferðinni vísindaleg rannsókn eða niðurstaða. Við tókum íslensku leiðina á þetta. Við tókum ákvörðun, brugðumst hin verstu við, létum tilfinningarnar og reiðina hlaupa með okkur í gönur, ákváðum að fullyrða eitthvað og stöndum nú eftirleiðis og öskrum þessar niðurstöður á hvaða torgum sem kunna að verða á vegi okkar.
Þú ert algjör andskotans vesalingur, Brook Lopez!
Reyndu að taka þér tak, drengur!!!
Efnisflokkar:
Brook Lopez
,
Drullan upp á herðar
,
Fráköst
,
Frussandi gremja
,
Ristill
,
Vanhæfni
Thursday, January 19, 2017
Nýtt hlaðvarp
Gestur 73. þáttar Hlaðvarps NBA Ísland er íþróttafréttamaðurinn Tómas Þór Þórðarson á Fréttablaðinu og Vísi.is. Tómas er einn af mönnunum á bak við þáttinn vinsæla Körfuboltakvöld á Stöð 2 Sport og er ekki þekktur fyrir að liggja á skoðunum sínum þegar kemur að íþróttum.
Í þættinum segir Tómas okkur frá vinnunni á bak við Körfuboltakvöld, viðtökum á þættinum nú þegar hann er á sínu öðru ári og jákvæðri og neikvæðri gagnrýni áhorfenda og fólks úr körfuboltahreyfingunni. Næst víkur sögunni að Domino´s deild karla; baráttunni um titilinn, liðum og leikmönnum sem hafa gert gott mót í vetur, liðunum sem þeir spá því að muni falla í vor, uppáhalds leikmönnum og leikmönnum sem hafa valdið vonbrigðum og margt, margt fleira.
Þið getið hlustað á nýjasta þáttinn í spilaranum hér fyrir neðan eða farið inn á hlaðvarpssíðuna og sótt hann þar á mp3 formi til að setja hann inn á t.d. símann ykkar eða mp3 spilarann. Hlaðvarp NBA Ísland inniheldur engar auglýsingar og er enn sem komið er ókeypis, sem gerir það að einu verðmætasta afþreyingarefni sem völ er á. Njótið vel, kæru lesendur/hlustendur.
Athugasemdir, ánægja og/
Efnisflokkar:
Hlaðvarpið
Saturday, January 14, 2017
Korver til Cleveland | Hvað með það?
Kannski ofmetum við hvað Kyle Korver á eftir að gagnast Cleveland með nærveru sinni einni saman, hvað þá ótrúlegri hittni sinni, en eins og fram kom í 72. hlaðvarpsins okkar, urðu vistaskipti Korver þúfan sem velti hlassinu í okkar augum; Cleveland er nú sigurstranglegasta liðið í úrslitakeppninni 2017 að okkar mati.
Golden State er búið að vera sterkasta liðið í NBA í að verða þrjú ár samkvæmt okkar bókum, en endasprettur Cleveland í lokaúrslitunum síðasta sumar varð að sjálfssögðu til þess að veikja þá skoðun okkar. Það sem hefur svo velt Warriors úr toppsæti styrkleikalistans okkar og niður í annað sæti, er sú staðreynd að Golden State er ekki búið að stoppa upp í gatið sem Cleveland notaði til að vinna síðustu þrjá leikina í lokaúrslitunum í júní.
Þið munið hvernig fór fyrir Warriors þegar Andrew Bogut meiddist (og ofan á það, hvernig liðinu gekk þegar Draymond Green tók út leikbann) og gat ekki lengur mannað miðjuna. LeBron James og Kyrie Irving nýttu sér fjarveru hans fullkomlega og James fékk sérstaklega að gera það sem hann gerir manna best - að ógna á blokkinni og ráðast á körfuna.
Zaza Pachulia er enginn Andrew Bogut og höfum hugfast að Festus Ezeli er líka farinn úr miðjunni hjá Warriors. JaVale McGee hefur ekki vitsmuni til að brúa þetta bil, þó hann hafi líkamlega burði til þess. Kevin Durant og Draymond Green loka miðjunni og verja körfuna svo vel að það er eiginlega aðdáunarvert. Fáir framherjar gera það betur. En líkamlega er hvorugur þeirra miðherji og verður aldrei.
Getur Golden State fundið lausn á þessum veikleika sínum? Okkur þykir það líklegt, já. Steve Kerr og félagar eru mjög klárir og þeir eiga mjög líklega eftir að herða varnarleik Warriors nógu vel til að fleyta liðinu í lokaúrslit þriðja árið í röð. En við setjum stórt spurningamerki við það hvort það er nóg til að vinna Cleveland.
Sem sagt: Það er skarð í vörn Warriors eftir mannskapinn sem fór frá félaginu. Skarð sem fínn varnarleikur og enn betri sóknarleikur sem Kevin Durant hefur verið að skila Golden State-liðinu í vetur, nær ekki að fylla.
Cleveland er búið að vinna Golden State fjórum sinnum í röð og Cleveland var að bæta við sig manni sem á eftir að létta lykilmönnum meistaranna lífið til mikilla muna.
Þar komum við að Korver sjálfum. Allir sem fylgjast með NBA á annað borð vita að Korver er löngu búinn að sanna sig sem ein besta skytta í sögu deildarinnar.
Þó bestu og frískustu dagar Korver sem leikmanns séu að baki og meiðsli hafi gert honum lífið leitt að undanförnu, skulum við ekki gerast svo vitlaus að vanmeta þessa viðbót við lið meistaranna. Það hjálpar Cavs ekkert í dag, en það eru samt innan við tvö ár síðan Korver spilaði í Stjörnuleik. Það bæði segir mikið og ekki neitt, þið ráðið hvernig þið lesið í það.
Myndin hér fyrir ofan sýnir skotkortið hans með Haukum í vetur, á nokkru sem kallast fremur lélegt ár ef miðað er við standardinn sem Korver er búinn að setja sér. Mjög gott ár ef við miðum við venjulega NBA-leikmenn.
Kyle Korver er fyrst og fremst stórskytta, já, en umræðuefni númer tvö þegar menn eru búnir að tala um hvað hann er hittinn, er alltaf annað hvort hvað hann er trúaður og góður strákur sem er duglegur að leggja góðum málefnum lið - eða varnarleikur hans.
Korver hefur verið partur af nokkrum ljómandi fínum liðum í gegn um tíðina, liðum sem óhætt er að setja undir sama hatt og kalla annarar umferðar lið. Lið sem eru mjög góð, en ekki meistarakandídatar. Allt tal um varnarleikinn hans Korver fram að þessu hefur verið prump, en nú er hinsvegar kominn tími til að tala um hann fyrir alvöru, af því nú er Korver kominn í lið sem ætlar sér titil eða dauða, ekkert annað.
Og ef menn ætla að fá mínútur með slíku liði, verða þeir að vera þolanlegir varnarmenn, undir öllum kringumstæðum. Annað er bara ekki í boði og þess vegna verður óhemju forvitnilegt að sjá hvað Korver getur lagt til málanna á varnarendanum hjá Cavs.
Við vitum að hann er klár strákur og duglegur, sem þýðir að hann er ljómandi vel læs og fínn í liðsvörninni. Það sem menn og konur hafa hinsvegar áhyggjur af, er að hann lendi á eyðieyju í vörninni úti á velli með Stephen Curry eða Kevin Durant á móti sér. Það er vísindalega sannað að það er bókstaflega versta martröð hvers þjálfara.
Í rauninni skiptir ekki máli hvort það er Korver eða Kevin Love sem þú setur í þessar aðstæður, þær reyna svo á heilsu þjálfarateymisins að þær stytta aldur þeirra um meira en tvö ár að jafnaði. Það er vísindalega sannað líka. Og það verður mjög svo áhugavert að sjá hvort Cleveland treystir sér áfram til að gefa mönnum eins og Love og Korver mínútur í maí og júní í ljósi umræddra varnarvandamála.
Burtséð frá því hvort Korver spilar vel eða illa, er það fyrsta sem hann gerir fyrir Cleveland einfaldlega að gefa því skotbakvörð sem getur spilað mínúturnar hans JR Smith. Vitleysingurinn Smith er ekki væntanlegur til baka úr meiðslum fyrr en langt verður liðið á apríl og Cleveland var bara ekki með mann í bókhaldinu sem það treysti til að fylla upp í mínúturnar sem losnuðu þegar JR meiddist.
Þetta tímabundna vandamál hefur nú verið leyst og vonandi fyrir stuðningsmenn Cavs, verður Korver-viðbótin til þess að létta þó ekki væri nema örlítið undir með lykilmönnum liðsins hvað mínútur varðar. LeBron James er sérstaklega að spila allt, allt of margar mínútur og við höfum vælt yfir því í meira en ár. Við skulum lofa að gera ekki meira af því hér.
Við höfum ekki hugmynd um hvernig Kyle Korver á eftir að falla inn í kúltúrinn hjá Cleveland Cavaliers, margt bendir til þess að hann verði pínulítið eins og prestur í rauða hverfinu á því sviði, hentar hann 100% fyrir Cavs þegar kemur að leikstíl liðsins.
Síðast þegar við gáðum, var Cleveland að skjóta og skora meira af þristum en öll lið í deildinni nema Houston og langskotin eru auðvitað aðalsmerki Korver, svo það segir sig sjálft að það er draumur í dós fyrir Cavs.
Korver kemur samt með meira djús inn í sóknarleik Cavs en bara það að skora 3ja stiga körfur, því hann er með meira körfuboltalegt aðdráttarafl en nokkur annar leikmaður liðsins. Channing Frye kemst einna næst því, enda er hann búinn að skjóta frábærlega á síðustu árum.
En þó fjöldi leikmanna Cavs geti sett niður þrista, sem þýðir að andstæðingar liðsins verða að taka þá alvarlega, útheimtir maður eins og Korver alveg sérstaka athygli, enda er enginn annar leikmaður í NBA búinn að skjóta betur úr 3ja stiga skotum en hann síðan árið 2010. Enginn. Ekki Steph Curry, ekki Klay Thompson, ekki amma þín. Kyle Korver.
Korver er maður sem þú (sem varnarmaður) mátt alls ekki yfirgefa undir neinum kringumstæðum og það gefur LeBron James í versta falli stöðu á vellinum sem hann nýtir betur en flestir. Það er nefnilega þannig að ef einn varnarmaður þarf að vera límdur á Korver öllum stundum, þýðir það að James og t.d. Kyrie Irving, þurfa í versta falli að spila fjórir á fjóra og þurfa því að hafa áhyggjur af einum leikmanni færra í vörnum og hjálparvörnum andstæðinga sinna.
Það á eftir að koma í hljós hvort Korver nær að halda sínu nógu vel í vörninni til að fá einhverjar mínútur að ráði ef Cleveland kemst nú aftur í úrslitin, en ef við miðum bara við deildarkeppnina, er koma hans til Cavs að tryggja að sóknarleikur liðsins er orðinn martraðarkenndari fyrir andstæðinga liðsins en nokkru sinni fyrr.
Nú þarft þú, þjálfari andstæðinga Cleveland Cavaliers, að plana hvernig í ósköpunum þú ætlar að bregðast við því ef Cavs stilla upp sókndjörfu liði á móti þér.
Hvernig ætlar þú að stoppa lið sem er að rótera Kyrie Irving, J.R. Smith, Kyle Korver, Kevin Love, LeBron James og Channing Frye í sóknarleiknum?
Lið sem getur stillt upp fjórum eða fimm allt frá því mjög frambærilegum til heimsklassa skyttum hvenær sem því sýnist og getur valið um hvort það lætur Kyrie Irving eða LeBron James stýra leiknum?
Það er rétt hjá þér.
Þú ert ekkert að fara að stoppa þetta.
Það eina sem stöðvar þessa aftökusveit eru þessi fáu kvöld þar sem hún er ekki í stuði. Það kemur fyrir öll lið að skotin detta ekki. Það verða amk ekki varnir andstæðinganna sem stöðva Cavs.
Mörg ykkar eru vafalítið ósammála þessu mati okkar á stöðu mála, jafnvel svo ósammála að þið haldið því þvert á móti fram að Golden State muni rusla Cleveland upp í júní í sumar, ef liðin hittast þar þriðja árið í röð. Sérstaklega hefur fólk sagt okkur að við séum að ofmeta væntanlegt framlag Kyle Korver gróflega. Svo það sé á hreinu, erum við ekki að segja að Korver eigi eftir að tryggja Cleveland meistaratitilinn. Hann var aðeins dropinn sem fyllti mælinn fyrir okkur, ef svo má segja.
Tölfræðin hans Korver sem við sýnum ykkur á myndunum hér í þessari færslu eru Atlanta tölurnar hans í vetur fram að skiptunum til Cleveland. Korver er búinn að spila þrjá leiki fyrir Cavs. Það var skjálfti í honum í fyrstu tveimur leikjunum þar sem hann skaut 1 af 5 í þeim báðum og hitti ekki úr einu 3ja stiga skoti, en svo hrökk hann í gang í Sacramento í fyrrinótt og henti í 18 stig og var 4 af 6 í þristum. Ætli síðasti leikurinn gefi ekki betri mynd af því hvað Korver á eftir að gefa Cavs í vetur en fyrstu tveir. Eitthvað segir okkur það.
Við erum búin að segja ykkur þá skoðun okkar oftar en einu sinni að við förum aldrei ofan af því að betra liðið tapaði í lokaúrslitunum síðasta sumar, en þær breytingar sem við greindum frá hér að ofan eru orðnar það afgerandi að nú erum við á því að Cleveland sé hreinlega orðið betra lið en Golden State.
Og nota bene, þá erum við að miða við að Cleveland myndi að okkar mati vera sigurstranglegra ef þessi lið mættust í einvígi í júní næstkomandi. Við erum ekki að meina að Cleveland sé betra lið en Golden State í deildarkeppninni. Þar er stór munur á.
Cleveland er að spila pressulaust í gegn um deildarkeppnina og hugsar um það eitt að halda mannskapnum heilum fram á vorið.
Einhver hefði sagt að það væri sniðugt fyrir þá að gæta þess að spara lykilmennina aðeins, en það virðist ekki einu sinni vera inni á dagskrá, hvað þá stundað, og við fullyrðum að það á eftir að koma nður á liðinu á einhverjum tímapunkti. Vonandi ekki í ár.
Á sama tíma þarf Golden State að hafa sig allt við til að hanga fyrir framan San Antonio í sterkari Vesturdeildinni.
Það verður eintómt nammi að sjá hvernig Kyle Korver á eftir að smella inn í leik Cleveland í vetur og vor.
LeBron James gæti átt eftir að bömpast upp um 1-2 stoðsendingar að meðaltali í leik þegar frábærar sendingar hans lenda í öruggum og skotglöðum höndum Korver í staðinn fyrir að lenda í krumlunum á grófhentum múrurum eins og Iman Shumpert. LeBron var spurður að því daginn fyrir fyrsta leikinn hans Korver hvernig nýjasti liðsmaður Cavs gæti best orðið að gagni.
"Með því að skjóta. Alltaf. Um leið og hann snertir boltann," sagði LeBron James og glotti.
Þetta er ekkert flókið.
Efnisflokkar:
Cavaliers
,
Félagaskiptaglugginn
,
Kyle Korver
,
LeBron James
,
Ríku ríkari
,
Skyttur
,
Þristar
Friday, January 13, 2017
Nýtt hlaðvarp
Í 72. þætti Hlaðvarps NBA Ísland, vaða þeir Baldur og Gunnar úr einu umræðuefninu í annað sem aldrei fyrr og það þýðir að þátturinn er alls ekki fyrir viðkvæma, enda yfir tveir tímar á lengd.
Til að nefna lítið brot af því sem tekið er til umfjöllunar í þættinum, má meðal annars nefna afleitt gengi New York Knicks og hvernig samningur Joakim Noah við félagið er einn sá versti í sögu NBA, bestu alhliða leikmenn deildarinnar (t.d. Kawhi Leonars vs Kevin Durant), framtíð Paul Millsap hjá Atlanta eða annars staðar, DeMar DeRozan, Kyle Lowry og Toronto-liðið, leikmenn sem hafa verið í ruglinu í vetur, Hakeem Olajuwon, Kareem og Showtime-lið Lakers, Giannis Antetokounmpo , raða Austur- og Vesturdeildinni niður í þrep eftir styrkleika og pæla í því hvaða lið eiga eftir að komast í úrslitakeppnina.
Þið getið hlustað á nýjasta þáttinn í spilaranum hér fyrir neðan eða farið inn á hlaðvarpssíðuna og sótt hann þar á mp3 formi til að setja hann inn á t.d. símann ykkar eða mp3 spilarann. Nei, við erum ekki búinn að setja þetta inn á itunes, þetta er fjandans nóg og þetta er frítt. Njótið vel, kæru lesendur/hlustendur. Þið rúlið all hrikalega.
Athugasemdir, ánægja og/
Efnisflokkar:
Hlaðvarpið
Tuesday, January 10, 2017
Af Chauncey og Carlisle
Karl-Anthony Towns, eða Borgþór eins og við hérna á ritstjórninni köllum hann stundum, skoraði 20 stig (8 af 9 í skotum) fyrir Úlfana sína í fyrsta leikhluta í botnslag Minnesota og Dallas í nótt.
Hann ku þegar hafa afrekað að skora 22 stig í einum leikhluta fyrr í vetur og því er ljóst að pilturinn gerir harða atlögu að félagsmeti Úlfanna yfir stig í einum leikhluta.
Það vill svo skemmtilega og ólíklega til að það er enginn annar en Chauncey Billups sem á þetta met hjá Úlfunum. Það vildi til með þeim hætti að Billups tók sig til og sallaði 24 stigum, einmitt á Dallas, í þriðja leikhluta í stórsigri Úlfanna þann 19. febrúar árið 2002.
Myndin hér til hliðar er tekin þar sem Chauncey er að skora tvö af stigum sínum í þessum þriðja leikhluta, merkilegt nokk.
Billups skoraði reyndar ekki nema 36 stig í leiknum, sem var það langmesta sem hann skoraði í leik þetta árið. Hann skoraði raunar ekki nema þrisvar sinnum meira en 24 stig í heilum leik nema þrisvar fyrir utan umræddan leik leiktíðina 2001-02.
Þetta var annað og jafnframt síðasta tímabilið sem Billups spilaði með Úlfunum og þó Flip heitinn Saunders hafi haft miklar mætur á Billups sem leikmanni þá, eftir því sem sagan segir, heillaði hann þjálfarann sinn þó ekki nógu mikið til að fá að vera um kyrrt í Minnesota.
Rétt eins og í Boston, Toronto og Denver þar á undan, þurfti nú 25 ára gamall Billups að pakka saman og skipta um lið enn einn ganginn, en að þessu sinni lá leið hans til Detroit.
Í Bílaborginni, kom Billups inn í lið sem Rick Carlisle hafði tekið við árið áður og komið frá 32 sigrum upp í 50 sigra eins og honum einum var og er lagið.
Carlisle rétti Billups feginshendi leikstjórnartaumana að liði sínu fyrir leiktíðina 2003, því sveppir eins og Chucky Atkins, Dana Barros og Jon Barry höfðu ekki beinlínis farið á kostum í því hlutverki árið áður þó ágætis árangur næðist.
Það segir sína sögu að skotbakvörðurinn og stigahæsti maður liðsins, Jerry Stackhouse, skuli hafa verið stoðsendingahæsti maður liðsins leiktíðina 2002 með 5,3 stykki í leik.
Chucky Atkins og Jon Barry komu næstir, með 3,3 stoðsendingar að meðaltali í leik, sem er ekki beint glansinn. Hugsið ykkur bara; miðherjinn Ben Wallace var með fleiri varin skot að meðaltali í leik (3,5) en þeir höfðu stoðsendingar!
Metnaðurinn var svo rosalegur hjá Detroit-mönnum á þessum tíma, að eftir að Rick Carlisle hafði rifið liðið upp úr drullunni og þjálfað það til fimmtíu sigra, var hann rekinn eftir aðra leiktíð sína með liðið af því það náði ekki að gera betur en að jafna þann árangur árið eftir.
Þessi brottrekstur situr alltaf í okkur, því Carlisle var kjörinn þjálfari ársins á fyrra árinu sínu hjá Pistons af því hann þótti hafa búið til þetta ljómandi fína kjúklingasalat úr litlu öðru en kjúklingaskít sem fyrir var hjá félaginu.
Það eina sem getur afsakað að reka mann eins og Carlisle undir þessum kringumstæðum, var að eftirmaður hans næði að gera betur - og þá helst enn betur. Og þó maðurinn sem tæki við væri afskaplega leiðinlegur karakter, náði helvítið á honum að gera einmitt það.
Eins og mörg ykkar muna, náði jú Larry Brown að gera Detroit-liðið 2004 að meisturum á sínu fyrsta ári með liðið og fór með það í lokaúrslit aftur árið eftir þar sem það tapaði fyrir San Antonio í ótrúlegri seríu.
Þetta var einvígi þar sem boltaskopp til eða frá (eða heilaprump eins og að dekka ekki eina frægustu ögurstundarlangskyttu í sögu NBA deildarinnar eftir að hún er búin að taka innkast*) réði því að Detroit þurfti að sætta sig við tap í það skiptið.
Það breytti því ekki að Pistons-liðið fagnaði mjög svo óvæntum meistaratitli árið 2004 með því að leggja ofurlið Los Angeles Lakers mjög örugglega í lokaúrslitum, 4-1.
Aðeins tveimur árum eftir að enginn virtist finna not fyrir hann, var Chauncey Billups kjörinn verðmætasti leikmaður lokaúrslitanna árið 2004 þar sem hann skilaði 21 stigi, 5 stoðsendingum og 3 fráköstum að meðaltali í leikjunum fimm. Hann skaut líka 51% utan af velli, 47% í þristum og 93% af línunni, auk þess sem hann tapaði aðeins 13 boltum í úrslitaeinvíginu og batt saman leik þessa agaða sóknar- og frábæra varnarliðs sem Detroit var á þessum tíma.
Rick Carlisle lét ekki brottreksturinn frá Detroit hafa áhrif á sig og tók við Indiana Pacers strax leiktíðina 2003-04 og rétt eins og Detroit gerði undir hans stjórn áður, tók Indiana stórt stökk undir hans stjórn og vann hvorki meira né minna en 61 leik á fyrsta árinu hans.
Því miður fyrir Carlisle varð hann að bíta í það súra epli að tapa fyrir Detroit-liðinu hans Larry Brown í úrslitaeinvígi Austurdeildarinnar, en það reyndist svo aðeins byrjunin á ógæfu hans hjá félaginu.
Detroit reyndist Carlisle hinn versti albatrosi, því eins og kunnugir vita var það þar sem slagsmálin frægu milli Pacers og Pistons lögðu grunninn að því að eyðileggja allt fyrir þessu efnilega Indiana-liði, sem af ýmsum ástæðum náði aldrei að sýna almennilega hvað í því bjó.
Það var ekki vegna þess að hæfileikana vantaði - af þeim var nóg - það var bara stór skortur á einhverju sem við skulum kalla skapgerðartrefjum.
Rick Carlisle þótti alltaf einn besti þjálfari NBA deildarinnar og þykir enn, en það var ekki fyrr en árið 2011 sem hann náði endanlega að sanna sig fyrir neikvæðustu mönnum þegar hann gerði Dallas-liðið sitt að NBA meistara með því að vinna sigur á Sólstrandargæjunum frá Miami í lokaúrslitum.
Það var öðrum fremur Dirk Nowitzki sem dró vagninn fyrir Dallas á leið þess að titlinum árið 2011, en til gamans má geta þess að í þessu Dallas-liði var einn leikmaður sem Carlisle hafði í sínum röðum á fyrra árinu sínu með Detroit 2002.
Ef þú manst ekki hver það var, geturðu fundið svarið neðst í þessari færslu. Eigum við ekki að kalla þetta trivíu vikunnar eða eitthvað....
Þó meistaratitlarnir séu enn aðeins í eintölu hjá Rick Carlisle líkt og hjá Chauncey Billups, hefur hann jafnan náð ljómandi fínum árangri með liðum sínum, ekki síst í deildarkeppninni. Carlisle hefur reyndar ekki unnið einvígi í úrslitakeppninni síðan Dallas lagði Miami í lokaúrslitaeinvíginu 2011, en hann hefur heldur ekki haft úr miklu að moða hjá Mavericks síðan.
Það hefur gengið afleitlega að safna liði í kring um Dirk til að gefa honum sénsinn á einu titilkapphlaupi í viðbót og nú er útséð með það að hvort sem Þjóðverjinn hættir á þessu ári eða næsta, verður hann að láta sér þennan eina titil nægja á glæstum ferlinum.
Vandræðagangurinn á Dallas í vetur þýðir að útlit er fyrir að Carlisle muni þurfa að bíta í það súra epli aðeins í annað skiptið á ferlinum sem aðalþjálfari að ná ekki að vinna helming leikja sinna eða fleiri.
Það er búið að vera dálítið sorglegt að horfa upp á þá félaga Dirk og Carlisle það sem af er í vetur, því eins og sé ekki nóg að liðið sem þeir eru með í höndunum sé bara ekki nógu gott, hefur það líka verið hundóheppið með meiðsli líka. Svona rekur oft eitt annað í þessari blessuðu deild okkar.
Þeir Dirk og Carlisle vita báðir að þessum áfanga ferðalagsins er lokið og tími til kominn að róa á ný mið. Dirk mun væntanlega reyna fyrir sér sem uppistandari eða jafnvel freista þess að feta í fótspor Hoff-vélarinnar á leiklistarbrautinni, en Carlisle fer vonandi að fá samkeppnishæft lið upp í hendurnar á ný eftir fremur mögur ár að undanförnu.
Carlisle er allt of góður þjálfari til að vera að hjakka í einhverri meðalmennsku eða þaðan af verra. Hann var ungur maður þegar hann byrjaði að þjálfa, var orðinn tvífari Jim Carrey þegar hann vann titilinn, en í dag lítur hann bara út eins og þreytt og lúin amma hans Jim Carrey, ef við gefum okkur að hún hafi dabblað aðeins í krakkinu, svona á virkum dögum og um helgar.
Þetta er búinn að vera alveg dásamlegur sveimhuga pistill, varla um nokkurn skapaðan hlut, en það er hressandi að spóla annað slagið til baka og rifja upp gamla tíma. Við vonum að þið hafið jafn gaman af því og við.
--------------------------------------------------------------------------------------------------------
Leikmaðurinn sem við vorum að tala um að hefði spilað fyrir Rick Carlisle hjá Detroit árið 2002 og aftur hjá Dallas árið 2011 var miðherjinn lipri Brian Cardinal, sem á myndinni hér til hægri hótar að henda meistarabikarnum í gólfið í ofbeldisfullum fagnaðarlátunum 2011.
Sá stóri var vitanlega ekki að spila stóra rullu hjá honum, hvorki árið 2002 né 2011, en þó er gaman að segja frá því að hann skoraði 7 af 10 stigum sínum í úrslitakeppninni árið 2011 í lokaúrslitaeinvíginu gegn Miami.
Cardinal tók ekki eitt tveggja stiga skot alla úrslitakeppnina, en setti 3 af 4 3ja stiga skotum sínum í úrslitakeppninni ofan í - tvo þrista og eitt víti skoraði hann í lokaúrslitunum og fékk þennan fína meistarahring að launum.
* - Hér erum við að vísa í heilaprumpið hjá Rasheed Wallace hjá Detroit þegar hann ákvað að skilja Robert Horry eftir gaaalopinn (með því að hlaupa í óþarflega dramatíska tvöföldun á Ginobili niður í horninu) eftir að hann tók innkast á ögurstundu fyrir San Antonio í fimmta leik Spurs og Pistons í lokaúrslitunum árið 2005.
Horry kastaði boltanum inn á síðhærðan Manu Ginobili, sem kastaði boltanum aftur út á Stórskota-Stebba, sem jarðaði þrist og tryggði Spurs 3-2 forystu fyrir tvo síðustu leikina í San Antonio. Okkur eru enn minnistæð viðbrögð Benedikts Guðmundssonar þjálfara sem lýsti leiknum á Sýn sálugu, en hann fékk hálfgert flogakast í beinni yfir ákvörðun Rasheew Wallace að falla af manni sem þá þegar var búinn að tryggja sér orðspor sem ein magnaðasta ögurstundarstórskytta í sögu úrslitakeppni NBA deildarinnar.
Spurs tapaði sjötta leiknum en náði að klára þann sjöunda og tryggja sér titilinn. Þarna var Horry að vinna sjötta meistaratitilinn sinn á ferlinum og átti eftir að bæta einum í viðbót í safnið með Spurs tveimur árum síðar. Hér fyrir neðan geturðu rifjað upp hetjudáð Horry í umræddum leik.
Efnisflokkar:
Á ögurstundu
,
Chauncey Billups
,
Fret úr fortíðinni
,
Metabækurnar
,
NBA 101
,
Pacers
,
Pistons
,
Rick Carlisle
,
Robert Horry
,
Stórskota Stebbi
,
Timberwolves
Friday, January 6, 2017
NBA Ísland ræðst á fílinn í herberginu
NBA Ísland hefur alltaf lagt mikið upp úr því að vera vefur sem segir sannleikann og þess vegna ætlum við nú að taka okkur til og ráðast á fílinn sem er búinn að vera í herberginu okkar í nokkurn tíma. Það stríðir beint gegn hagsmunum okkar að tala illa um NBA deildina okkar, en nú neyðumst við til að gera það, úr því við vorum svo vitlaus að gefa okkur út fyrir að skrifa heiðarlega.
Það sem við þurfum að segja ykkur er svo sem ekki ný tíðindi, en við höfum aldrei komið fram og sagt þetta berum orðum - og áttum satt best að segja alls ekki von á því að upplifa þessa stöðu mála. En við komumst ekki hjá því að þegja yfir þessu lengur:
NBA deildin er eiginlega dálítið mikið drasl núna.
Það er bein móðgun við körfuboltaguðina að láta svona út úr sér, en þetta er staðreynd, gott fólk, því miður. Þessi staða hefur komið dálítið eins of skrattinn úr sauðaleggnum, því það er stutt síðan að deildin var mjög heilbrigð. Erum við að nota stór orð þegar við köllum deildina drasl? Já, ef til vill, en það eru bara svo mikil viðbrigði að vakna allt í einu upp við það að það er eins og góðu liðin hafi horfið úr deildinni. Ef þið trúið þessu neikvæðnitali okkar ekki, getum við vitnað í Charles Barkley, sem hafði þetta að segja um stöðu mála um daginn:
Skip Bayless, annar dásamlega jákvæður og vel liðinn sjónvarpsmaður, tók í sama streng fyrir nokkrum dögum þó hann hafi reyndar meira verið að gagnrýna Austurdeildina (sem er að sjálfssögðu mjög jákvætt) en NBA deildina í heild. Hann sagði:
"Ég er búinn að fjalla um NBA deildina síðan ég var á L.A. Times á áttunda áratugnum og ég man aldrei eftir að hafa séð Austurdeildina svona lélega. Austrið er hreint út sagt átakanlega lélegt núna."
Austurdeildin er reyndar búin að vera rusl í mörg ár eins og við höfum sagt ykkur reglulega, en nú hefur það gerst sem við sáum ekki fyrir að myndi gerast - amk ekki svona snögglega - Vesturdeildin er orðin rusl líka. Bara sí svona! Það sem er hinsvegar ótrúlegra en hrun Vesturdeildarinnar, er að þó megnið af liðunum í NBA séu orðin rusl, hefur skemmtanagildi deildarinnar hreint ekki dalað. Þið trúið því kannski ekki, en það er samt staðreynd og hún kemur til af því að þó liðin í deildinni séu á þessum tímamótum eða í þessu millibilsástandi, er hún pakkfull af stórkostlegum körfuboltamönnum.
Þetta hljómar mótsagnarkennt en þetta er alveg satt. Við erum ekki viss um að við munum eftir öðru eins framboði af frábærum leikmönnum í deildinni, sérstaklega mönnum sem eru jafnvel að gera hluti sem við höfum aldrei séð áður (t.d. geimverur eins og Russell Westbrook).
Með örfáum undantekningum er þessum stórkostlegu leikmönnum dreift það vel um deildina að þeir einir og sér eru ekki nóg til að búa til sterk körfuboltalið. Það er ekki fyrr en þeir fara að safnast óeðlilega mikið saman sem við förum að sjá almennileg körfuboltalið - og þau eru sko alvöru. Þar erum við að tala um lið eins og Golden State og Cleveland - lið sem væru samkeppnishæf á móti hvaða meistaraliðum sögunnar í sjö leikja seríu.
Við erum að hugsa um að gera öllum þessum frábæru leikmönnum betur skil í sérstakri færslu síðar, en ef við skoðum vandamálið með lélegu liðin nánar, má sjá að það er hægt að skipta liðunum í NBA deildinni niður í fjóra flokka: Meistara og meistaraefni, lið sem eru bleh og lið sem eru drasl. Smelltu á myndina til að stækka og gera.
Þegar rýnt er í þetta hávísindalega flokkunarkerfi okkar kemur í ljós að ástæðan fyrir veikingu deildarinnar í heild er katastrófískt brottfall úr flokki tvö niður í flokk þrjú. Það má vel vera að einhver ykkar séu ósammála því hvernig við drögum liðin í dilka en þessari skoðun er ekki ætlað að vera nákvæm upp á millimetra. Hún er svo við getum áttað okkur á stöðu mála. Því skuluð þið ekki fara að grenja þó liðið ykkar lendi í flokki þrjú en ekki tvö, eins og mörg ykkar eiga þó klárlega eftir að gera.
Myndin sýnir svo hvergi verður um villst að það er allt of mikið af liðum í NBA deildinni sem geta ekki crap og það er mjög miður. Það er líka hluti af útskýringunni á bak við hluti eins og enn eitt metið sem Golden State var að setja á dögunum, þegar það varð fyrsta liðið í sögunni til að vinna 30 af fyrstu 35 leikjum sínum í deildarkeppninni þrjú ár í röð. Þú ert ekkert að spila við San Antonio á hverjum degi í NBA í dag, sérstaklega ef þú ert að spila í austrinu. Sjáið til dæmis endasprettinn hjá Toronto Raptors í deildarkeppninni í vor? Þetta er bara grín.
Við höfum alltaf sagt það þegar við tölum um Austurdeildina sérstaklega að við verðum að hafa hugfast að einhver af þessum liðum verða að vinna þessa leiki og því ber að fara varlega í að ætla að t.d. þessi miðlungslið í austrinu séu eitthvað góð. Staðreyndin er nefnilega sú að þau geta ekki rassgat og hafa ekki getað í mörg ár. Sjáið bara hvað LeBron James með sín ljómandi góðu Cleveland og Miami-lið hefur átt í gríðarlegum erfiðleikum með að komast í lokaúrslit, eða hitt þó heldur.
Eins og áður sagði, er ástandið heldur farið að grána núna af því að Vesturdeildin er orðin litlu skárri en systir hennar í austri, sem er staðreynd sem fer alveg óstjórnlega í egóið á okkur, yfirlýstum einræðisherrum Vesturdeildarinnar til margra ára.
Þetta er skítaástand akkúrat núna, en þó við séum ekki þekkt fyrir bjartsýni, sjáum við bjartari tíma framundan. Það er nefnilega þannig að mjög mörg af þessum drasl- og bleh-liðum sem við töldum upp hér að ofan eru með ung og efnileg lið sem eiga eftir að láta finna fyrir sér áður en langt um líður.
Þessi vitneskja, ofan á þá staðreynd að það er enn ógeðslega gaman að horfa á fjölda einstaklinga spila í NBA deildinni þó liðin þeirra séu í flestum tilvikum bleh eða verri, gerir það að verkum að við erum langt frá því að ætla að missa vonina eða fara í eitthvað þunglyndi.
NBA deildin mun skoppa til baka, eins og sagt er, og þangað til hún gerir það með stæl, getum við öll skemmt okkur konunglega við að horfa þennan aragrúa af framúrskarandi leikmönnum sem eru að leika listir sínar í deildinni þessa dagana.
Þessum mönnum verða gerð skil í öðrum og öllu jákvæðari pistli sem dettur inn fljótlega. Við verðum að lofa því svo við skiljum ykkur ekki eftir í einhverjum drullupolli örvæntingar og þunglyndis. Það er fullt af liðum í NBA deildinni sem eru á þröskuldi þess að verða góð. Einhver þeirra eiga eftir að gera í buxurnar, sum hver einfaldlega af því það er það sem þau gera, en nokkur þeirra eiga eftir að verða hrikaleg og sjá til þess að við eigum eftir að hlæja að þessari niðursveiflu í upphafi næsta áratugar.
Efnisflokkar:
Austurdeildin
,
Dauðinn á skriðbeltunum
,
Drullan upp á herðar
,
Rauntal
Subscribe to:
Posts (Atom)