Saturday, January 21, 2017

Brook Lopez á svarta listann


Körfuboltamenn hafa margt þarfara við tíma sinn að gera en að reyna að koma sér í svörtu bækurnar hjá ritstjórn NBA Ísland. Ef svo undarlega vildi til að þá langaði allt í einu að gera það - ef að við gæfum okkur að miðherji hjá ónefndu körfuboltaliði myndi bara vakna einn daginn, harðákveðinn í að komast í ónáð hjá NBA Ísland, þyrfti hann aðeins að gera einn lítinn hlut.

Hætta að frákasta.

Þið vitið að margt fer í taugarnar á ritstjórn NBA Ísland, það er eins og það sé eitthvað nýtt á hverjum degi sem vekur hjá okkur gremju, enda er þessi ritstjórn komin til ára sinna. En líklega fer þó ekkert eins mikið í taugarnar á okkur og stórir menn sem frákasta ekki.

Við gerum öll mismiklar kröfur til körfuboltamanna um framlag í frákastadeildinni og oft er það þannig að því fleiri sentimetra sem höfuðið á leikmanninum er frá gólfinu, því fleiri fráköst viljum við að hann taki. Og þar eð miðherjar eru oftast hávöxnustu leikmennirnir í körfuboltaliðum, gerum við gjarnan mestu kröfurnar á þá um framlag í fráköstunum, enda er það eitt aðalhlutverk þeirra á vellinum.
Það er út af þessu sem við erum núna að lesa okkur til í svartagaldri.

Við ætlum nefnilega að búa til litla brúðu, kukla á hana einhvers konar álög, skíra hana Brook Lopez, og fara svo að stinga sjóðandi heitum prjónum í hana og loks berja hana með gegnheilum Estwing-klaufhamri.

Lopez hefur alltaf farið í taugarnar á okkur af því hann frákastar eins og langamma, en hann er að setja heimsmet í frákastavanhæfni í ár (smelltu svona þúsund sinnum á efri myndina í færslunni til að sjá betur tölurnar). 

Við fengum algjört áfall þegar við skoðuðum tölfræðina hans í nótt og komumst að raun um að hann er að hirða FIMM KOMMA TVÖ fráköst í leik sem byrjunarliðsmiðherji í NBA deildinni - miðherji sem á að heita góður miðherji í NBA deildinni.

Við vitum alveg að Lopez er ekki að spila neinar 40 mínútur í leik - hann spilar ekki nema um 30 mínútur í leik - en okkur er fjandans sama. 

Þessar tölur ofbjóða okkur endanlega, því það er líka ekki eins og Lopez sé að spila við hliðina á Dennis Rodman og Wilt Chamberlain í þessu rusli sem þetta Nets-lið hans er. Þeir hitta náttúrulega ekki lifandi skít í þessu liði, þannig að nóg er líka af tækifærunum til að hirða sóknarfráköst. En, nei. Ekki Brook Lopez.

Af þessu tilefni höfum við sumsé ákveðið að tilnefna Brook Lopez versta frákastara allra tíma. Hér er ekki á ferðinni vísindaleg rannsókn eða niðurstaða. Við tókum íslensku leiðina á þetta. Við tókum ákvörðun, brugðumst hin verstu við, létum tilfinningarnar og reiðina hlaupa með okkur í gönur, ákváðum að fullyrða eitthvað og stöndum nú eftirleiðis og öskrum þessar niðurstöður á hvaða torgum sem kunna að verða á vegi okkar.

Þú ert algjör andskotans vesalingur, Brook Lopez! 

Reyndu að taka þér tak, drengur!!!