Friday, June 19, 2015
Vel gert Warriors
Ritstjórnin velur sér tímann til að fara í árshátíðarferðina í ár...
Komið hefur í ljós að sum Evrópulönd eru ekki með internet og því varð umfjöllun okkar um síðasta körfuboltaleik ársins í NBA deildinni frekar endasleppt. Skítur skeður, það er ekki eins og hafi eitthvað óvænt gerst. Golden State vann meistaratitilinn og þó það hljómi fáránlega, er það rökrétt í alla staði.
Þið munið kannski eftir því sem við skrifuðum tvisvar eða þrisvar í vetur að svo gæti farið að við áttuðum okkur öll skyndilega á því að við hefðum orðið vitni að sögulegri leiktíð hjá mögnuðu körfuboltaliði. Við erum ekki að þenja út kassann og monta okkur yfir spádómsgáfu okkar, heldur aðeins að minna á að við veltum þessari pælingu upp þegar við sáum að Golden State ætlaði að verða eitthvað meira en Öskubuskuævintýri.
Við erum nokkurn vegin búin að dekka þetta Warriors-lið í öllum pistlunum í úrslitakeppninni og nú síðast í lokaúrslitunum. Það eina sem þetta lið átti eftir að sanna var að það gæti lokað á stóra sviðinu og það gerði það, þó andstæðingurinn hafi vissulega verið vængbrotinn.
Það er ekki Stephen Curry að kenna að hann hafi varla spilað á móti byrjunarliðsleikstjórnanda í úrslitakeppninni og það er ekki Golden State að kenna þó Cleveland hafi varla náð í lið vegna meiðsla. Við höfum sagt ykkur það hundrað sinnum að það verður ekkert lið NBA meistari án þess að hafa heppnina með sér - helst hvað varðar heilsu leikmanna.
Eins og þið sáuð, slapp Golden State mjög vel við allt svona vesen og það hafði sitt að segja í baráttunni. Þið þurfið ekki að leita lengra en til andstæðinga Warriors í úrslitunum til að sjá hvað heilsa og hressleiki skipta miklu máli.
Við getum alveg sætt okkur á að Golden State sé nú allt í einu orðið gott körfuboltalið sem er meira að segja búið að vinna meistaratitil. Það rúllaði deildarkeppninni upp og þó það hafi hikstað tvisvar í úrslitakeppninni, er ekki hægt að segja að því hafi verið ýtt út í horn á neinum tímapunkti. Ekki þannig.
Við höfum ekkert á móti Cleveland, en það hefði verið gjörsamlega glóraulaust ef liðið hefði náð að vinna titilinn. Það var bara of undirmannað. Þó er magnað að hugsa til þess að ef Cleveland hefði bara verið með tvo leikmenn í sinum röðum sem hefðu getað hitt úr þriggja stiga skotum (og við erum ekkert endilega að tala um Kyrie Irving og Kevin Love, heldur menn sem skjóta betur en JR Smith, sem hitti -18% fyrir utan í úrslitunum, þó það sé ekki hægt).
Þá hefði LeBron James kannski átt séns í að draga Cavs yfir endalínuna. Hann var svo fáránlega góður. Mörg ykkar eruð orðin leið á því að verið sé að mæra LeBron en það er ekkert annað í boði, því maðurinn sýndi hluti í lokaúrslitunum sem enginn körfuboltamaður í sögunni gæti leikið eftir.
Þið getið rétt ímyndað ykkur hvað við hefðum skrifað um James ef Cleveland hefði unnið, en það gat auðvitað ekki verið. Hann fór hinsvegar fyrir liði sem komst yfir 2-1 í lokaúrslitum þrátt fyrir að vera... lélegt.
Margir segja að 2007 lið Cleveland hafi verið djók og veikasta lið síðari ára í lokaúrslitum, en það lið er eins og ´87 Lakers við hliðina á 2015 útgáfunni af Cleveland. Því er ykkur alveg óhætt að missa ykkur yfir James, það er bara í fínu lagi, hann á það inni. Í sumar skrifum við svo ítarlega rannsóknarskýrslu um það hvernig hann kemur út í samanburði við hinar goðsagnirnar.
Einu sinni voru það alltaf bestu leikmenn liðanna sem unnu titilinn sem kjörnir voru leikmenn lokaúrslitanna, en þannig var það ekki að þessu sinni. Við höfum ekkert á móti Andre Iguodala og hann átti sannarlega skilið að vera kjörinn leikmaður úrslitanna, en það að hann skuli verða fyrir valinu segir okkur margt um lið Warriors.
Iguodala er ekki fyrsta nafnið á blað hjá fólki þegar kemur að því að velja bestu leikmenn Golden State, en hann var einfaldlega réttur maður á réttum stað í þessum mánuði. Hann er einn af örfáum íþróttamönnum í þessum heimi sem getur hangið eitthvað í LeBron James og náði svo meira að segja að setja skotin sin ofan í með reglulegu millibili - sem var fundið fé fyrir Warriors.
Eitt skulum við lofa ykkur og það er að ef Golden State vinnur titilinn aftur, verður Iguodala ekki kjörinn maður úrslitanna. Þá segði Stephen Curry hingað og ekki lengra.
Þeir splass-bræður Curry og Thompson fóru í gegn um gríðarlega erfiðan skóla í úrslitunum og verða tilbúnir í allt framvegis. Fólk gerir sér ekki grein fyrir hvað það er erfitt fyrir skyttur að fóta sig í úrslitakeppni, þar sem varnamenn spila miklu fastar og komast upp með miklu meira áreiti og ofbeldi.
Það er ekki auðvelt að mæta svona hörðu en þurfa svo að finna algjöra mýkt í skotunum, gjarnan með hönd í andlitinu eða jafnvel hnefa á pung. Nú eru þeir Curry og Thompson reynslunni ríkari og verða ekki árennilegir í framtíðinni.
Ef við rýnum inn í framtíðina, er ekki annað að sjá en að Golden State verði á sínum stað við toppinn á næstu misserum. Við lofum ykkur að þetta lið verður aldrei aftur svona heppið með meiðsli, en það ætti samt að hafa nóg til að keppa um titilinn.
Það er ákaflega jákvætt að lið eins og Golden State sé að koma eins og skrattinn úr sauðaleggnum og vinna titil í ár, því við getum alltaf bókað að einhver lið í NBA reyna að herma eftir meisturunum. Það er reyndar ekki hægt af því það er bara til einn Steph Curry, en leikstíll Warriors er einstaklega sjónvarpsvænn og skemmtilegur. Og hversu mikið rugl er þessi leiktíð búin að vera hjá Steve Kerr! Hann er svar körfuboltans við Burn my eyes, fyrstu plötu Machine Head, sem var svo hörð að hún kom sveitinni rakleitt á toppinn og á gigg með Slayer og Sepultura.
Það verður mjög áhugavert að sjá hvernig þessi titill fer í leikmenn Warriors, hvort þeir verða saddir eða peningagráðugir eða of miklar stjörnur til að halda þessu frábæra liði gangandi áfram. Golden State komst eins og áður sagði nokkuð huggulega í gegn um þessa úrslitakeppni. Það þurfti ekki að mæta San Antonio, Oklahoma og ekki Clipppers. Það mætti Houston liði án tveggja lykilmanna, Memphis með lykilmann á felgunni og svo fulltrúa austursins, sem án tveggja Stjörnuleikmanna var skipað besta körfuboltamanni aldarinnar, rulluspilurum, líkum og gamalmennum.
Leikmenn Golden State vita alveg hvernig þeir geta bundið enda á þetta hvísl.
Þeir vinna bara aftur að ári.
Efnisflokkar:
Andre Iguodala
,
Cavaliers
,
Klay Thompson
,
LeBron James
,
Lokaúrslit
,
Metabækurnar
,
Sigurvegarar
,
Stephen Curry
,
Steve Kerr
,
Titlar
,
Úrslitakeppni 2015
,
Warriors
Monday, June 15, 2015
Golden State er í dauðafæri
Eitt af því sem rimmur í úrslitakeppni verða að hafa ef þær eiga að vera skemmtilegar, er að þær séu dálítið óútreiknanlegar og komi okkur á óvart. Á yfirborðinu gæti fólk sagt að einvígi Golden State og Cleveland sé fyrirsjáanlegt, en þið sem kafið dýpra vitið að svo er ekki. Þið vitið að óvæntu hlutirnir eru búnir að krydda þessa rimmu frá byrjun, eins og t.d. sú staðreynd að Cleveland skuli enn vera að spila körfubolta þegar júnímánuður er hálfnaður.
Nú kann það að vera að 104-91 sigur Golden State á Cleveland í fimmta leiknum í nótt hafi ekkert komið ykkur á óvart, en hann kom okkur talsvert á óvart.
Við áttum nefnilega von á því að sjá Golden State vinna stóran sigur í þessum leik, jafnvel slátra Cleveland. Það var bara eitthvað svo í kortunum eftir flenginguna sem Warriors færði Cavs í fjórða leiknum. Við sáum fyrir okkur að blaðran væri loksins sprungin hjá Cavs, þó það sé mjög ósanngjarnt að líkja því við uppblásna blöðru.
En rétt eins og áður var Cleveland ekki á því að gefa eitt eða neitt. Leikmenn voru búnir að fá þrjá sólarhringa til að jafna sig eftir erfiðan leik fjögur og voru því tilbúnir í slaginn þrátt fyrir tímabeltaflakk, flugþreytu og þotuþynnku. Og aftur náðu þeir að halda ótrúlega lengi í við heimamenn - eða þangað til Stephen Curry nennti þessu ekki lengur og ákvað að fara að spila eins og leikmaður ársins.
Hrókeringar þjálfaranna héldu líka áfram að koma á óvart og á tímabili var eins og þeir væru að keppast um hvor þeirra gæti teflt fram lágvaxnara liði. Minniboltinn var allsráðandi og menn eins og Timofey Mozgov og Andrew Bogut voru bara geymdir á bekknum.
Það var Steve Kerr sem átti frumkvæðið að því að lækka meðalhæðina í liðinu sínu, en það kom ekki til af góðu. Hann gerði breytingar á liðinu í fjórða leiknum og hélt áfram að þróa þær í nótt af því Golden State var í bullandi vandræðum í sóknarleiknum og vantaði meiri neista þar. Svo hjálpaði Andrew Bogut honum reyndar að taka ákvörðunina með því að spila þannig að enginn tók eftir honum.
Þessar breytingar hjá Kerr hafa svo sem ekki skilað neinum flugeldasýningum, en það er ljóst að möguleikar Warriors í sóknarleiknum aukast við þessa ráðstöfun og Kerr var nokkuð sáttur við það hvernig hans menn brugðust við breytingunum.
En þegar á hólminn er komið, eru það venjulega stórstjörnurnar sem stíga á stokk og eiga síðasta orðið og þannig var það í nótt. Undanfarna daga hefur verið rætt mikið um það hvort LeBron James gæti orðið fyrsti maðurinn í hátt í hálfa öld til að verða kjörinn leikmaður úrslitanna þrátt fyrir að verða jafnvel í tapliði. Bókstafstrúarmenn sem vilja að maður úrslitanna komi úr sigurliðinu og margir þeirra stungu upp á Andre Iguodala, sem Steve Kerr útnefndi réttilega besta leikmann Warriors í einvíginu eftir fjórða leikinn.
Þetta hefur ekkert farið framhjá Stephen Curry.
Rétt eins og það fer í taugarnar á LeBron James að Curry skuli hafa verið kjörinn leikmaður ársins í deildarkeppninni (en ekki hann sjálfur), er Curry ekki sáttur við að sjá nafn sitt hvergi í fyrirsögnum um einvígið fram að þessu. Og eins og allir alvörumenn gera, ákvað hann að gera eitthvað í því í stað þess að fara út í horn og grenja.
Fram að fimmta leiknum höfðum við ekki fengið að sjá nema glefsur af því sem Curry getur, en í nótt fíraði hann upp í Fjölskyldupakkanum og tók það að sér að loka leiknum. Curry skoraði 37 stig í leiknum, þar af 17 á meðan hann varð að skjóta Cleveland í kaf í fjórða leikhlutanum. Guð blessi drenginn.
LeBron James hélt áfram að spila eins og Robocop á bandímóti og henti í kolgeðveika 40/14/11 þrennu eins og það væri bara alveg eðlilegt. Rétt eins og áður er það auðvitað ekki nóg fyrir internetið og þá sérstaklega félagsmiðlana, sem eru fullir af ati og óbeit.
Hvort sem þeir hafa rétt fyrir sér eða ekki, reyndist enn ein sæborgarframmistaðan frá James ekki nóg fyrir Cleveland heldur.
Hinn maðurinn sem getur ekki gert neitt rétt að mati internetsins er David Blatt, en hann er sífellt að troða óhreinni tuskum upp í efasemdamenn sína.
Við höfum ekki hundsvit á þjálfun, en við erum nokkuð viss um að Blatt er að kreista nálægt því hámarksframmistöðu út úr skörðóttu liðinu sínu.
Liðið hans er inni í öllum leikjum í 40+ mínútur og hann nær að fá eitthvað út úr flestum leikmönnum sínum nema auðvitað JR Smith, sem er ekki viðbjargandi.
Við sögðum ykkur að það hefði komið okkur á óvart hvað Cleveland hékk lengi inni í þessum leik og ef einhver hefði sagt okkur fyrir leik að hann yrði svona jafn, hefðum við alveg eins tippað á Cleveland-sigur í ljósi þess að það hentar Cavs betur að drepa tempóið.
Það voru hinsvegar Warriors-menn sem áttu fleiri og betri svör en Cavaliers á síðustu mínútunum og nú eru þeir komnir í ansi álitlega stöðu í einvíginu. Nú nægir þeim einn sigur í tveimur leikjum til að vinna meistaratitilinn og annar þessara leikja - oddaleikurinn - verður heima í Oracle ef þeim tekst ekki að loka þessu í Cleveland á þriðjudagskvöldið.
Við ætlum ekkert að eyða tíma í það núna að spá í sjötta leikinn, sem við lofum ykkur að verður sögulegur frá fyrstu mínútu eins og allt þetta einvígi. Við kjósum heldur að skoða heildarmyndina aftur, því heildarmyndin af þessu einvígi er listaverk sem verður fallegra með hverjum deginum.
Það er nefnilega þannig að þó allir spádómar okkar fyrir þetta einvígi hafi bókstaflega fokið til andskotans frá fyrstu mínútu, þýðir það ekki að séu ekki merkilegir hlutir að gerast í því.
Það sem ber hæst hjá okkur er ofurmannleg spilamennska LeBron James og það hvað Blatt og félagar eru að fá út úr takmörkuðum mannskap sem þeir hafa úr að moða. Og þar komum við að merkilegasta hlutnum í einvíginu að okkar mati:
- Golden State er búið að vera besta liðið í NBA í allan vetur, óslitið síðan í haust.
- Golden State hefur nánast sloppið við öll meiðsli, sem í ár er kraftaverk.
- Golden State er með leikmann ársins í sínum röðum.
- Golden State er með þjálfara ársins í sínum röðum.*
- Golden State vann 67 leiki í deildarkeppninni, sem er eitt besta tímabil í sögu NBA.
- Golden State var með bestu vörnina og næstbestu sóknina í NBA í vetur.
- Golden State sópaði Brúnari í fyrstu umferð úrslitakeppninnar.
- Golden State henti Memphis og Houston líka úr leik - gjörólíkum en fyrnasterkum liðum.
- Golden State á þess vegna að vinna öruggan sigur á fulltrúa austursins og hirða titilinn.
Gallinn er bara að besti körfuboltamaður veraldar er ekki alveg tilbúinn að kvitta undir þetta handrit og er með sínar eigin hugmyndir um hvernig þetta á að fara. Liðið sem hann fer fyrir er ágætlega þjálfað en mannskapurinn sem það hefur úr að moða er ansi fátæklegur. Eins og einhver orðaði það svo skemmtilega:
"Vandræði LeBron James (og þar með Cleveland) í úrslitaeinvíginu snúast að mestu um að hann fær ekki nógu mikla hjálp, en það er ekki af því að aukaleikararnir hans séu að bregðast. Það er vegna þess að aukaleikarar aukaleikaranna hans eru ekki nógu góðir."
Það sem við erum sem sagt að reyna að segja er að þó Golden State sé aðeins að hiksta í úrslitaeinvíginu, breytir það engu um að þetta tímabil hjá því er ekki aðeins búið að vera frábært, heldur líka sögulegt. Þetta lið er að strauja sig í gegn um deildarkeppnina og hrikalegt vestrið og er komið með aðra hönd á bikarinn.
Og LeBron James var næstum rétt búinn að eyðileggja þetta allt fyrir þeim. Nánast einn síns liðs.
Fullkomlega eðlilegt að eina alvöru hindrunin á leið Warriors að titlinum sé einn maður.
Hann er bara það góður.
-----------------------------------------------------------------------------------------------------
* - Mike Budenholzer var kjörinn þjálfari ársins, við vitum það alveg.
Finnst þér það gáfulegt? Einmitt.
Efnisflokkar:
Cavaliers
,
LeBron James
,
Lokaúrslit
,
MVP
,
Ógnarstyrkur
,
Stephen Curry
,
Úrslitakeppni 2015
,
Úrvalsleikmenn
,
Warriors
Tölur og töflur úr leik fimm
Hver hefur ekki gaman af töflum, gröfum og tölum til að krydda þetta frábæra úrslitaeinvígi? Internetið lætur ekki sitt eftir liggja í þeim efnum, sérstaklega Twitter. Hér er sýnishorn:
Efnisflokkar:
Cavaliers
,
LeBron James
,
Lokaúrslit
,
Stephen Curry
,
Töflur og gröf
,
Tölfræði
,
Úrslitakeppni 2015
,
Warriors
Einhver varð að leysa Jordan af hólmi
Flest ykkar hafið fylgst nógu lengi með NBA til að vita að áður en Steve Kerr fór í jakkaföt og byrjaði að jafna allt við jörðu sem þjálfari, var hann varabakvörður í sögufrægu liði Chicago Bulls.
Kerr var engin stjarna, en hann átti stóran þátt í meistaratitlum liðsins frá 1996-98 og skoraði frægustu körfuna sína á ögurstundu eftir sendingu frá Michael Jordan. Þú sérð hana frá nokkrum sjónarhornum á samsettu myndinni hér fyrir ofan.
Þessi karfa hans var kannski merkileg, en lýsingar hans á tilurð hennar eftir að titillinn var í höfn voru miklu betri. Það verður ekki sagt að Warriors-þjálfarinn knái sé húmorslaus, enda höfum við fengið að njóta þess á fjölmiðlafundum í úrslitaeinvíginu sem nú stendur yfir.
Efnisflokkar:
Á ögurstundu
,
Bulls
,
Fret úr fortíðinni
,
Lokaúrslit
,
Michael Jordan
,
Sögubækur
,
Steve Kerr
Sunday, June 14, 2015
Möguleikar Cleveland í úrslitaeinvíginu
Af því það eru þrjár vikur á milli leikja í lokaúrslitaeinvíginu í NBA, gefst alltaf tími til að skoða hlutina í víðara samhengi meðan beðið er eftir næsta leik. Og það er dálítið skondið að stíga út fyrir þessa rimmu og skoða hvað er í gangi.
Við náum ekki alveg að henda reiður á það hvers vegna, en einvígi Golden State og Cleveland er búið að vera alveg sérstaklega skemmtilegt - og það þrátt fyrir að annað liðið sé búið að reyna að drulla það út með því að hægja á leikjunum og breyta þeim í leðjuglímu.
Þetta er búið að vera drullugaman, þó Cleveland spili eins og þungavigtarboxari og Golden State hafi alls ekki tekist að spila þann leiftrandi sóknarleik sem gerði það svo fallegt á að horfa í vetur. Meira að segja meiðsladraugurinn hefur ekki náð að koma í veg fyrir að þetta sé búið að vera frábært einvígi, en það þýðir ekki að þau séu ekki búin að hafa áhrif.
Meiðsli eru nefnilega faktórinn á bak við áhugaverðasta narratífið í úrslitaeinvíginu 2015, en það snýst um það hvort besta lið vetrarins ætli virkilega að láta miðlungslið hirða af sér titilinn.
Þið munið kannski hvað við skrifuðum þegar Anderson Varejao datt úr leik hjá Cleveland í vetur. Eins og það kom ekkert á óvart að hann félli úr leik, áttum við von á að það yrði erfitt eða næstum ómögulegt fyrir Cavs að fylla skarð hans. En annað kom sannarlega á daginn og þess vegna er framkvæmdastjóri Cleveland búinn að standa sig betur en allir kollegar hans í deildinni í vetur.
Ef það hefðu nú bara verið meiðsli Varejao sem Cleveland þurfti að hafa áhyggjur af. Nei, þeir Kevin Love og Kyrie Irving þurftu að fara líka. Ástþór í fyrstu umferðinni, Irving í fyrsta leik í lokaúrslitunum eftir að hafa verið lengi á annari löppinni. Það sem eftir stendur er það sem við erum að horfa á í dag: Golden State á móti LeBron James og blöndu af ellilífeyrisþegum og aukaleikurum.
Þetta ætti ekki að vera flókin viðureign. Við getum alveg sagt ykkur það eins og er að við höfðum ekki trú á því að Cleveland ætti eftir að fara í úrslitin og enn síður að það væri nú að gera eitthvað þar. Við hefðum tippað á að Cleveland næði í allra mesta lagi að vinna tvo leiki gegn Golden State í úrslitunum - en aðeins ef bæði Kevin Love og Kyrie Irving hefðu verið við fulla heilsu.
Það er því eðlilega búið að vera stórfurðulegt fyrir okkur og alla aðra að horfa upp á Cleveland eiga i fullu tré við Golden State þrátt fyrir þennan augljósa liðsmun. Enginn hefði spáð því að Cavs ætti eftir að komast yfir 2-1 í rimmunni og sennilega hefðu fáir spáð því að liðið næði að vinna tvo leiki í henni yfir höfuð.
Efnisflokkar:
Cavaliers
,
LeBron James
,
Lokaúrslit
,
Meiðsli
,
Úrslitakeppni 2015
,
Warriors
Friday, June 12, 2015
Loksins kom svar frá Golden State
Cleveland hafði ekki orku til að vinna þennan. Þú getur analíserað þennan leik í drasl eins og þú vilt, en í okkar huga byrjar þetta allt og endar á þreytu Cleveland-manna. Sérstaklega LeBron James og Matthew Dellavedova - þeir höfðu bara ekki gas í þetta og það hlýtur að vera hrikalega svekkjandi fyrir þá að tapa svona stórt á heimavelli 103-82.
Cleveland skaut 21% úr opnum skotum í leiknum í nótt og ef það er ekki merki um þreytu, vitum við ekki hvað þreyta er. Þar voru þeir James og Dellavedova áberandi verstir, skutu báðir 2 af 9 úr opnum skotum. Golden State skaut 53% úr samskonar skotum.
Við ætlum ekki að ganga svo langt að segja að Golden State hafi náð að taka yfir tempóið í leiknum í nótt, en spilamennskan að þessu sinni var mun nær því að henta Warriors í þessum leik en í fyrstu þremur. Við sögðum ykkur að Cleveland hefði gjörsamlega stjórnað tempóinu í fyrstu þremur, en það missti aðeins af lestinni í þessum.
Steve Kerr er sannarlega hugaður. Rétt eins og þegar liðið hans lenti 2-1 undir gegn Memphis í annari umferðinni, gerði hann drastískar breytingar á því fyrir leik fjögur og aftur skiluðu þessar breytingar góðum árangri.
Breytingarnar núna voru róttækari og það kostar kjark að taka Bogut út úr byrjunarliðinu og setja tveggja metra mann í staðinn. Þetta hefði getað sprungið í andlitið hjá þeim, en Cleveland hafði ekki það sem til þurfti til að refsa þeim. Risarnir í framlínu Cleveland hirtu fullt af fráköstum og Mozgov skoraði eins og brjálæðingur gegn dvergunum hjá Dubs, en það voru litlu mennirnir sem brugðust.
LeBron James var augljóslega ekki með nægan kraft í þennan leik og Cleveland átti ekki möguleika með hann, Shumpert, Smith og Della skjótandi eins og Stevie Wonder. Við verðum að nota þetta tækifæri til að minna á það hvað okkur er illa við J.R. Smith og hvað við sögðum ykkur þetta.
Cleveland er í þeirri skelfilegu stöðu að þurfa nauðsynlega á stigum frá honum að halda, alveg eins og Clippers þarf á stigum að halda frá Jamal Crawford, en þessir gaurar hafa bara ekki það sem til þarf til að loka í stóru leikjunum. Sérstaklega J.R. Smith, sem er að skjóta innan við 30% í úrslitunum og hittir úr einu af hverjum fjórum 3ja stiga skotum. Hann fékk tilætlaða athygli þegar hann mætti í leikinn á segway-apparati. Hann er að biðja um að vera hakkaður.
Iman Shumpert er ekki að hitta mikið betur en hann er amk að gera gagn í vörninni. Tristan Thompson var aftur öflugur í teignum en Mozgov spilaði eins og stórstjarna gegn framlínu Warriors sem var höfðinu lægri en hann. Hvernig Cleveland fór ekki inn á hann í hverri einustu sókn, er ofar okkar skilningi. Golden State hafði nákvæmlega engin svör við Moz í teignum.
Það er augljóst að leikmönnum Warriors líður betur eftir þennan sigur og sérstaklega var það mikilvægt fyrir þá að þeir Draymond Green og Harrison Barnes náðu að snúa við blaðinu eftir lélegan leik þrjú.
Svo var það náttúrulega maður leiksins, hann Andre Igoudala. Cleveland sættir sig við það að hann taki þessi skot, enda hittir hann oftast illa úr þeim. Þau duttu hinsvegar í nótt og Steve Kerr kallaði Igoudala besta mann Warriors í einvíginu. Það er ekki svo galin skoðun, hann hefur verið frábær á báðum endum vallarins.
David Lee kom með huggulega hluti inn í þetta alveg eins og í síðasta leik og Stephen Curry náði að henda nægilega miklu í púkkið til að loka þessu. Cleveland byrjaði vel en átti svo í raun ekki séns eftir það. Það kom að því að Golden State spilaði eitthvað í líkingu við það sem fólk spáði, sem sagt miklu betur en Cleveland.
Curry er svo sem ekki vanur að spila svoleiðis, en þetta er alveg rétt hjá Isiah, hann á að gjörsamlega ganga frá Della og neyða Cleveland í einhverjar varnaraðgerðir í stað þess að láta þennan ástralska titt vera að ýta sér fram og til baka eins og dúkkulísa. Þetta er bara lítið dæmi um hluti sem meika engan sens í þessu einvígi.
Mjög stór hluti spámanna fullyrti að Golden State ætti eftir að vinna þennan leik. Þetta er fólk eins og við, sem taldi gjörsamlega útilokað að Cleveland gæti unnið þetta einvígi. Þegar upp var staðið, hafði Cleveland ekki orku í að vinna þennan leik eins og áður sagði, en við höfum það sterkt á tilfinningunni að það hefði þurft að taka þennan.
Golden State varð að vinna í nótt, því engu liði hefur tekist að koma til baka í lokaúrslitum eftir að hafa lent 3-1 undir. Liðið gerði vel að klára þennan leik og stendur nú frammi fyrir þriggja leikja seríu með tvo heimaleiki.
Verkefnið hefði fjarri því verið búið hjá Cleveland þó það hefði náð að vinna þennan leik, en þessi úrslit í nótt þýða að einvígið er aftur komið niður á jörðina og hætt að vera steypa. Sem sagt, að betra liðið sé að ná tökum á því.
Það er afar jákvætt fyrir LeBron James og félaga að fá nú þrjá daga til að hvíla sig, þó þeir þurfi að fljúga þvert yfir Bandaríkin í millitíðinni.
Þessi aukadagur kemur eins og kallaður fyrir Cavs (þó liðið hefði getað notað aukadag fyrir leik fjögur líka) og eykur líkurnar á að liðið nái að stela öðrum í Oakland.
Við sjáum það samt ekki gerast og ætlum að vera svo djörf að spá því að þetta einvígi sé búið. Golden State vinnur stórsigur í næsta leik og keyrir tempóið enn meira upp og klárar þetta svo í Cleveland í leik sex. Blaðran er sprungin hjá Cavs núna - við erum búin að ákveða það - þó við viljum að sjálfssögðu fá þetta í sjö leiki.
Efnisflokkar:
Andre Iguodala
,
JR Smith
,
LeBron James
,
Lokaúrslit
,
Matthew Dellevadova
,
Stephen Curry
,
Steve Kerr
,
Timofey Mozgov
,
Úrslitakeppni 2015
Wednesday, June 10, 2015
Cleveland hótar að gera eitthvað sögulegt
Stundum skiljum við hvorki upp né niður í körfubolta. Eins og núna. Golden State, sem er miklu betra lið en Cleveland með alla sína leikmenn heila, er komið 2-1 undir í úrslitaeinvígi NBA deildarinnar. Það er ekkert eðlilegt við þetta. Þetta gæti verið óvæntasta staða sem við höfum orðið vitni að í úrslitaeinvígi.
Þessi pistill verður mjög stuttur, af því hann segir það nákvæmlega sama og sá síðasti. Cleveland er bara að taka Golden State og berja það í andlitið með kjöthamri og það er ekkert sem leikmenn Warriors geta gert í málinu.
LeBron James er að spila þannig að ef hann vinnur tvo leiki í viðbót á þessari leiktíð, verður pistillinn sem við skrifum um hann í kjölfarið annað hvort ein setning eða efni í heila bók.
Matthew Dellavedova er gjörsamlega ekki hægt. Hann er Öskubuskuævintýri, ef ævintýrið um Öskubusku fjallar um maurætu með hundaæði sem slær í gegn með reggíhljómsveit og flýgur til mars úr geimflaug sem það smíðaði sjálft úr fótanuddtæki og sviðasultu.
Steph Curry sýndi smá rokk í lok leiks í kvöld, en það var ekki nóg. Við vonum hans vegna og Warriors vegna að hann sé búinn að finna svægið sitt, því annars er Golden State bara fögt!
Þetta meikar bara engan sens!
Cleveland ræður tempóinu í þessu einvígi 100% og ef Golden State breytir því ekki í næsta leik, er það fögt. Þá er þetta bara búið og allar hugmyndir okkar um körfubolta foknar til andskotans.
En mikið ógeðslega, óhuggulega er þetta nú skemmtilegt allt saman. Vá!
Efnisflokkar:
Cavaliers
,
Eðlilegt
,
Endurkomur
,
LeBron James
,
Leikurinn
,
Lokaúrslit
,
Ógnarstyrkur
,
Öskubuskuævintýri
,
Stephen Curry
,
Úrslitakeppni 2015
,
Warriors
Monday, June 8, 2015
Cleveland er betra en Golden State - eftir tvo leiki
Hann var ekki hár, stuðullinn á þennan á Lengjunni...
Ef þú segist hafa spáð því að Cleveland ætti eftir að jafna metin gegn Golden State í 1-1 með ótrúlegum útisigri í nótt, ertu að ljúga af öllum þínum mætti og ættir að venja þig af slíku. Það er ekki fallegt að ljúga.
Og talandi um hluti sem eru ekki fallegir, 95-93 sigur Cleveland á Golden State í nótt - aftur eftir framlengingu - fær sannarlega engin fegurðarverðlaun. Ekki þessi hefðbundnu fegurðarverðlaun, sem við hefðum ef til vill reiknað með að Golden State ætti eftir að fá í þessu einvígi.
Nei, Cleveland kom inn í lokaúrslitin með plan, sem verður skýrara með hverri stjörnunni sem fellur úr leik hjá liðinu vegna meiðsla - að drulla þetta dálítið út. Og það er að virka.
Það er frekar ótrúlegt að staðan í þessu einvígi sé 1-1, en það sem kemur okkur miklu meira á óvart, er það hvað Cleveland hefur stjórnað tempóinu í því nánast hverja einustu mínútu. Fyrir utan rispuna sem Golden State tók í framlengingunni í fyrsta leiknum, er ekki hægt að segja að það sé búið að ná að spila sinn leik í þessu einvígi. Það er stórmerkilegt.
Meiðsli þeirra Kevin Love og Kyrie Irving þýða að möguleikar Cleveland eru afar takmarkaðir í sóknarleiknum.
Það er bara slátur í matinn alla daga - ekkert annað í boði. En þó Stjörnuleikmennirnir tveir séu að skilja eftir sig risavaxið skarð í sóknarleiknum, saknar þeirra enginn í varnarleiknum. Við skulum bara segja það alveg eins og er.
Þeir Tristan Thompson og Matthew Dellavedova eru engin varnartröll í sjálfu sér, en þeir eru miklu betri en stjörnurnar tvær sem þeir eru að leysa af í byrjunarliði Cleveland. Þetta er Golden State ekki alveg að ráða við, enn sem komið er.
Sóknarleikur Cleveland er einfaldur: Látum LeBron James hafa boltann, setjum kannski fyrir hann eina eða tvær hindranir til að brjóta þetta upp og látum hann svo um að búa eitthvað til.
Svona er þetta í grófum dráttum, engin eldflaugavísindi, bara þessi einfalda staðreynd að það er helvíti erfitt að stöðva LeBron James í að spila körfubolta.
Hetjur verða til í lokaúrslitunum í NBA og í nótt varð til ný hetja, rytjulegur pjakkur frá Ástralíu sem kallaður er Matthew Dellavedova. Hann fyllti ekki út tölfræðiskýrslur en hann sýndi okkur hvað er hægt að gera á körfuboltavelli með klókindum og stóru hjarta.
Það er með hreinum ólíkindum að þessi strákur, sem er heppinn að vera með vinnu í NBA deildinni, skuli vera klár í að hoppa fyrirvaralaust inn í byrjunarlið Cleveland í lokaúrslitum - og ekki nóg með það - heldur eiga stóran þátt í að færa Golden State aðeins fjórða tapið á heimavelli í allan vetur.
Delly hefur áður komið inn í byrjunarlið Cleveland í fjarveru Kyrie Irving, en ekki á svona stóru sviði, í svona björtum ljósum. Og hann hikaði hvergi. Var ekkert hræddur við pressuna. Þvert á móti gaf hann lykilsendingar, skoraði lykilkörfur og náði stórum fráköstum og lausum boltum. Svo kórónaði hann góðan leik sinn með því að ná að hanga í Stephen Curry með þeim afleiðingum að hann átti versta skotleik sinn á ferlinum.
Fyrirfram hefðum við ekki reiknað með því að Stephen Curry myndi byrja 4 af 21 (19%) í þristum í fyrstu tveimur heimaleikjunum sínum í einvíginu, en við erum reyndar vonsviknari með frammistöðu allra hinna.
Fyrir utan smá sprengju frá Klay Thompson í nótt, er nánast sama hvert var litið í liði Warriors, það var óskaplega lítið að gerast í sóknarleiknum.
Golden State þarf engan veginn að missa sig í eitthvað óðagot þó það hafi tapað einum leik í þessu einvígi og hlýtur m.a. að geta huggað sig við að ef Stepen Curry hefði bara hitt ömurlega í leiknum en ekki grátlega (5 af 23), væri Golden State á leið austur til Cleveland með 2-0 forystu í bakpokanum.
Curry á eftir að skjóta betur í framhaldinu, en það sem skiptir langmestu máli fyrir Golden State í þessari rimmu er að það verður að fara að troða sínum leikstíl upp á Cleveland. Það verður erfiðara í Cleveland en það var á heimavellinum - og ekki gekk það fjandi vel þar - svo það er ljóst að verkefnið er stórt og krefjandi fyrir Warriors.
Það meikar bara engan fjandans sens að Cleveland sé að spila svona vel...
Allur leikur Cleveland byrjar og endar hjá sæborginni LeBron James, sem er bara að gera grín að okkur öllum með sínum 42 stigum, tólf fráköstum og níu stoðsendingum sem hann er að bjóða upp á í lokaúrslitunum.
Við getum ekki hugsað til þess hvað gerist ef svo ólíklega vildi til að James næði að vinna meistaratitil með þessu liði. Það á ekki að vera hægt - ekki með nokkru móti. En hann er að hóta því að gera það.
Þegar tveir fyrstu leikirnir í einvígi fara í framlengingu er auðvelt að segja að lið A eða lið B "sé bara hársbreidd frá því að vera 2-0 yfir eða 0-2 undir" og það er alveg rétt. Við bara áttum ekki nokkra einustu von á að þetta yrði svona rosalega jafnt.
Við vorum ekkert að grínast þegar við sögðum að Golden State væri sex sinnum betra lið en Cleveland, en þær spár reiknuðu ekki með þessari útgáfu af Cleveland.
Þessi útgáfa af Cleveland er farin að minna óþægilega mikið á 2007 útgáfuna af Cleveland, sem var ekkert annað en gott varnarlið með einn frábæran sóknarmann. Þá náðu Tim Duncan og Gregg Popovich að spila taktík sem virkaði og slátra Cleveland.
Kannski að Kerr ætti að hringja í gamla þjálfarann sinn og fá ráð hjá honum. Þetta Cleveland-lið sem vann sigur á Golden State í kvöld, er miklu, miklu lakara lið en það sem LeBron drattaði í úrslit fyrir átta árum síðan.
Það getur verið að 2007-LeBron hafi verið örlítið sprækari í löppunum en 2015-LeBron, en það sem er farið að hræða líftóruna úr leikmönnum Golden State er að þeir sjá það langar leiðir á þessum LeBron að hann hefur verið þarna áður og veit nákvæmlega hvað til þarf.
Leikmenn Warriors vita ekki hvað til þarf - hafa ekki verið þarna áður. Við höfum öll séð LeBron James spila vel í úrslitakeppni í mörg ár, en við höfum aldrei séð í þeim ham sem hann er í núna.
Þetta er hans bolti, hans leikur og hans titill og Golden State verður að gjöra svo vel að fara að spila sinn leik ef það ætlar ekki að láta Cleveland tuska sig til og tapa þessu einvígi.
Við ítrekum: Það er gjörsamlega ómögulegt að Cleveland vinni þessa seríu, en ef það gerir það og LeBron James verður í þessum ham allan tímann, þurfum við að rífa upp sögu- og metabækur og rita nýja kafla. James er svo sannarlega ekki búinn að segja sitt síðasta og ef hann næði einhvern veginn að vinna þetta einvígi, yrði það langmesta afrek hans á annars lygilegum ferli.
Magic hafði Jabbar og Worthy, Larry hafði McHale og Parish, MJ hafði Pippen og Rodman. LeBron hafði Wade þegar hann var hjá Miami, en núna hjá Cleveland? Nákvæmlega. Þetta er fáránlegt.
LeBron er búinn að bæta við stórum broskalli í bókina sína með frammistöðu sinni í úrslitakeppninni í ár og okkur er eiginlega alveg sama þó Cleveland tapi þremur leikjum í röð og fari í sumarfrí.
LeBron James er að gera hluti sem enginn hefur gert áður og enginn er að fara að leika eftir næstu ár nema kannski hann sjálfur. Frammistaða hans í vor er farin að kalla á sérstakan pistil og tröllaleikirnir hans tveir í lokaúrslitunum tryggja að þessi pistill verður skrifaður mjög fljótlega. Þessi pistill gæti orðið umdeildur, en okkur er alveg sama.
LeBron James er að spila þannig að hann neyðir okkur til að skilgreina sig í sögulegu samhengi nú strax, þó hann eigi mörg ár eftir í deildinni.
Það er ekki til siðs að skoða arfleifð manna í NBA fyrr en nokkru eftir að þeir hætta, en James er undantekning á þessu. Hann er kominn það hátt á lista bestu körfuboltamanna allra tíma að það er nauðsynlegt að fara að rita nafn hans á nokkrar vörður á leiðinni.
Svo þið og þeir sem á eftir koma, sjáið hvar hann hefur verið og hvert hann stefnir.
Þetta úrslitaeinvígi er að byrja eins vel og hægt er. Við erum búin að fá framlengingu í fyrstu tveimur leikjunum sem hefur aldrei gerst áður og við erum að verða vitni að stórmerkilegum hlutum, sérstaklega frá Cleveland þessa stundina. Þetta verður ekki mikið fallegra krakkar.
Efnisflokkar:
Cavaliers
,
Klay Thompson
,
LeBron James
,
Lokaúrslit
,
Matthew Dellevadova
,
Öskubuskuævintýri
,
Stephen Curry
,
Úrslitakeppni 2015
,
Warriors
Friday, June 5, 2015
Stórleikur LeBron James dugði ekki til
Ef og hefði... það er svo mjótt á munum í leiknum okkar fallega. Ef leikmenn Cleveland voru ekki búnir að fatta það, eru þeir búnir að því núna. LeBron James er reyndar löngu búinn að fatta það, en hann á við ofurefli að etja.
Hann er sterkari leikmaður í dag en hann var þegar hann fór síðast í úrslit með Cleveland (´07) en það má færa rök fyrir því að liðið hans í dag sé veikara en liðið sem lét San Antonio sópa sér í úrslitum árið 2007. Það veikir öll lið að missa einn og tvo stjörnuleikmenn í meiðsli.
Heilladísirnar gættu Warriors-manna í nótt þegar þeir höfðu 108-100 sigur í framlengingu í fyrsta leiknum við Cleveland og náðu 1-0 forystu í einvíginu. Þetta var gjörsamlega magnaður leikur og nákvæmlega það sem við vonuðumst eftir að sjá frá þessum frábæru liðum. Hér fyrir neðan er stutt umfjöllum um ástandið og tæplega tuttuguþúsund myndir og tölfræði. Bara fyrir ykkur.
Það fyrsta sem kemur upp í hugann þegar við horfum til baka yfir þennan leik, er lokasóknin hjá Cleveland. Hún var handónýt með öllu og endaði á vonlitlu skoti frá LeBron James af allt of löngu færi. Auðvitað fór það ekki ofan í, en mikið fjandi munaði litlu að Iman Shumpert næði að kyss´ann ofan í um leið og flautan gall. Sá hefði farið í sögubækurnar.
Hugsið ykkur hvað það hefði gert fyrir Cleveland ef boltinn hefði dottið ofan í hjá Shumpert - eða meira svona ef LeBron James hefði haft kraft og úthald til að keyra einu sinni enn á körfuna. Hefði hann ekki átt sæmilegan séns á að framleiða stig út úr þeirri aðgerð, þó ekki væri nema á vítalínunni?
Auðvitað.
En svona er þetta stundum. Við sem höfum ekki hundsvit á körfubolta stöndum stundum á gati þegar við sjáum svona aðgerðafræði. Cleveland hafði ekkert í framlenginguna að gera. Þeir voru dauðþreyttir og búnir á því - hefðu ekki skorað eitt einasta stig ef Golden State hefði ekki leyft James að lauma einu sniðskoti í til að bjarga andlitinu þarna í lokin.
Þetta er hrikalega þungt tap fyrir Cleveland, sem mætti með aðgerðaáætlun og fór eftir henni. Megnið af sóknaraðgerðunum voru máske full frumstæðar, en þær skiluðu árangri og uppskeru fram á lokamínútuna þó ekki væru þær fallegar. Þjálfari Stjörnunnar orðaði það líklega best þegar hann tísti:
Súrt að einn allra skemmtilegasti sóknarþjálfari Evrópuboltans um árabil sé nú mögulega að spila leiðinlegasta sóknarleik veraldar #NBA365
— Hrafn Kristjánsson (@ravenk72) June 5, 2015
Já, það er eðlilegt að fólk bendi á lokasóknina hjá Cavs þegar það ætlar að finna hvað fór úrskeiðis, en það var ekki það eina. Það voru fleiri þættir sem þýddu þungbært tapið í nótt og þar munaði mest um getuleysi aukaleikara liðsins. J.R. Smith var eini varamaðurinn í Cleveland sem skoraði körfu í leiknum og það sem verra er, tók restin af bekknum hjá liðinu samtals eitt skot, sem er glæpsamlegt.
Efnisflokkar:
Andre Iguodala
,
Cavaliers
,
JR Smith
,
Kyrie Irving
,
LeBron James
,
Lokaúrslit
,
Úrslitakeppni 2015
,
Warriors
Thursday, June 4, 2015
Hátíðin hefst í kvöld
Jæja, þá er loksins komið að því. Það hefur tekið sinn toll fyrir okkur öll að vera NBA-laus í heila viku, en í kvöld, fimmtudagskvöldið 4. júní, hefst lokaúrslitaeinvígi Golden State og Cleveland með látum í Oakland. Leikurinn er klukkan eitt eftir miðnætti að íslenskum tíma og er sýndur beint á Stöð 2 Sport, eins og restin af leikjunum sem eftir eru.
Við höfum sannarlega haft góðan tíma til að hugsa um þetta einvígi og erum satt best að segja búin að taka inn of stóran skammt af Warriors-Cavs upphitunum. Svo stóran að við vildum óska þess að einvígið færi bara að byrja svo við fáum loksins að sjá hvernig þessi skák spilast í alvörunni.
Ef þú vilt sökkva þér á kaf í pælingar um einvígið er rétt að benda þér á hlaðvarpið okkar síðan í gær, þar sem farið er nokkuð ítarlega yfir helstu styrkleika og veikleika liðanna og hvernig þau koma til með að passa saman. Kjósir þú heldur að fara einföldu leiðina að þessu, erum við boðin og búin til að segja þér allt um þetta. Þetta er nefnilega alls ekki flókið dæmi. Málið er bara hvort hlutirnir eiga eftir að meika sens í úrslitunum eða ekki.
Ef hlutirnir meika sens, ef allt er eðlilegt og eftir bókinni, á Golden State ekki að vera í teljandi vandræðum með að vinna Cleveland í sjö leikja seríu. Enda hefur fjöldi spekinga spáð því að Warriors klári þetta í fimm leikjum. Það er vegna þess að Golden State er miklu, miklu betra lið en Cleveland. Og þess vegna verður Golden State meistari í ár, nema eitthvað stórfurðulegt gerist.
Golden State er körfuboltalið með þrjá veikleika, það er nú allt og sumt. Einn veikleikinn er reynsluleysi, en hann verður horfinn úr liðinu í næsta mánuði og þá standa aðeins eftir varnarfráköst og tapaðir boltar.
Golden State er á eða við toppinn í flestum tölfræðiþáttum bæði varnar- og sóknarlega en á það stundum til að hreinsa illa til í teignum, sem kemur sér illa á móti góðu frákastaliði eins og Cleveland með sóknarfrákastavélina kanadísku Tristan Thompson á kantinum.
Það eina sem Golden State þarf að gera í þessu einvígi er að reyna að passa upp á boltann, hreinsa upp fráköstin sín og spila sinn leik, þá er þetta í húsi. Hugsið ykkur hvað þetta er einfalt! Þetta á heldur ekki að vera fjandi flókið þegar þú ert með lið eins og Golden State.
Þetta lið er með gott þjálfarateymi, ofurstjörnu, bilaðar skyttur, spilað á stórum mönnum eða minnibolta, frábæra sendingamenn sem kaupa sýstemið og leita alltaf að opna manninum og síðast en alls ekki síst - og þetta er það sem ræður úrslitum - fjölhæfan og bókstaflega kæfandi varnarleik.
Það þyrfti sannarlega ekki að koma neinum á óvart ef þeir busl-bræður ættu eftir að skjóta Cleveland í kaf í einhverjum af þessum leikjum, en við veðjum frekar á að það verði stoppin þeirra á hinum endanum sem ráða úrslitunum.
Cleveland hefur aðeins tvo hluti fram yfir Golden State í þessu einvígi og þeir hvíla báðir á LeBron James. Annars vegar er hann besti körfuboltamaður í heimi og hinsvegar er hann með sjöhundruðogfjörutíu sinnum meiri reynslu af að fara djúpt í úrslitakeppninni en allt Golden State liðið til samans.
Við höfum ekki pláss á harða disknum til að fara yfir alla veikleika Cleveland-liðsins og það er svo sem alveg nóg að nefna þá helstu. Fyrsta mál á dagskrá þar er auðvitað bölvuð meiðslin og sú staðreynd að Cleveland mætir í úrslitin með haltrandi Kyrie Irving og engan Ástþór. Munað hefur um minna.
Lið Cavs var fjarri því gott varnarlið í deildinni í vetur en hefur farið fram úr væntingum á því sviði í úrslitakeppninni. Gallinn er bara sá að Golden State er ekki Boston eða Atlanta. Við rákum augun í einhverja grein eftir einvern ofur-njörðinn um daginn (líklega Kevin Pelton) sem fullyrti að samkvæmt tölfræðinni væri Cleveland alveg jafn gott varnarlið í úrslitakeppninni og Golden State, jafnvel þegar væri búið að reikna með því hvað Austurdeildin er léleg.
Þetta er algjört bull og það á eftir að koma í ljós, nema þetta einvígi leysist upp í algjöra vitleysu.
Það er búið að vera reglulega gaman að fylgjast með Golden State drulla yfir alla deildina í allan vetur án þess að taka sér svo mikið sem smókpásu og því yrði það algjör sómi ef þetta lið tæki dolluna.
Það yrði verðskuldað í einu og öllu, því þetta lið er búið að spila á pari við mörg af bestu liðum sögunnar í vetur, bæði í deild og úrslitakeppni.
Það yrði hinsvegar miklu stærri frétt og með öllu merkilegra ef Cleveland næði að vinna titilinn. Það yrði ekki aðeins fyrsti titill Cleveland-borgar í boltagreinum í hálfa öld, heldur næði dramatíkin í kring um LeBron James alveg nýjum hæðum.
Allir blaðamenn í heimi stökkva til og segja söguna af Davíð og Golíat og hvernig James færði fólkinu sínu loksins titil heima í Cleveland.
Annað er samt merkilegra, ef Cleveland tekst nú einhvern veginn í fjandanum að vinna þetta. Ef LeBron James nær að draga þetta lið yfir endalínuna við þessar aðstæður, þurfum við að taka mál hans fyrir aftur í héraðsdómi og endurraða lista bestu körfuboltamanna sögunnar. Þeir eru ekkert rosalega mörg nöfn fyrir ofan hann á þessum lista - og hann er bara um þrítugt.
Efnisflokkar:
Cavaliers
,
LeBron James
,
Ógnarstyrkur
,
Stephen Curry
,
Úrslitakeppni 2015
,
Úrvalsleikmenn
,
Warriors
Nýtt hlaðvarp
42. þáttur hlaðvarpsins góða er kominn inn á samnefnda síðu hjá okkur. Gesturinn að þessu sinni er Kjartan Atli Kjartansson og helstu viðfangsefni þáttarins eru meðal annars staða LeBron James á lista bestu körfuboltamanna allra tíma og skoðanir fólks á því hvar hann stendur andspænis Michael Jordan á því sviði, bylting Stephen Curry í NBA deildinni og auðvitað lokaúrslitaeinvígi Golden State og Cleveland sem hefst 4. júní. Í lok þáttarins er svo greint frá litlu samstarfsverkefni sem er á döfinni hér heima.
Smelltu hér til að fara á hlaðvarpssíðuna og næla þér í þessi andlegu og sálrænu bætiefni sem hlaðvarp NBA Ísland hefur upp á að bjóða.
Efnisflokkar:
Cavaliers
,
Hlaðvarpið
,
Kjartan Atli
,
Kjartansson
,
LeBron James
,
Stephen Curry
,
Úrvalsleikmenn
,
Warriors
Subscribe to:
Posts (Atom)